Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva hefur mætur á réttlæti

Jehóva hefur mætur á réttlæti

Jehóva hefur mætur á réttlæti

„Ég, Drottinn, elska réttlæti.“ — JESAJA 61:8.

1, 2. Hvað merkja orðin „réttlæti“ og „ranglæti“? (b) Hvað segir Biblían um Jehóva og réttlæti hans?

RÉTTLÆTI er skilgreint sem „réttsýni, réttvísi, það sem er rétt, réttlátt, verðskuldað“. Ranglæti er hins vegar það að vera ósanngjarn, fordómafullur, illur og valda öðrum tjóni án saka.

2 Móse skrifaði um alheimsdrottin, Jehóva, fyrir næstum 3500 árum: „Allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.“ (5. Mósebók 32:4) Meira en sjö öldum síðar innblés Jehóva Jesaja spámanni að skrifa eftirfarandi: „Ég, Drottinn, elska réttlæti.“ (Jesaja 61:8) Og á fyrstu öldinni spurði Páll postuli: „Er Guð óréttvís?“ og sagði síðan: „Fjarri fer því.“ (Rómverjabréfið 9:14) Pétur sagði einnig á fyrstu öldinni: „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Postulasagan 10:34, 35) Já, Jehóva „hefir mætur á réttlæti“. — Sálmur 37:28; Malakí 3:6.

Óréttlætið er allsráðandi

3. Hvernig átti ranglætið hér á jörð upptök sín?

3 Það fer ekki mikið fyrir réttlæti nú á tímum. Við getum orðið fyrir ranglæti alls staðar í þjóðfélaginu — á vinnustað, í skóla, í samskiptum við yfirvöld og á aðra vegu — jafnvel innan fjölskyldunnar. Slíkt ranglæti er auðvitað ekki nýtt af nálinni. Það hófst þegar foreldrar mannkyns gerðu uppreisn og gerðust lögbrjótar að áeggjan uppreisnargjarns anda sem varð Satan djöfullinn. Auðvitað var rangt af Adam, Evu og Satan að misnota frjálsa viljann sem Jehóva hafði gefið þeim. Röng breytni þeirra átti eftir að kalla gríðarlegar þjáningar og dauða yfir allt mannkynið. — 1. Mósebók 3:1-6; Rómverjabréfið 5:12; Hebreabréfið 2:14.

4. Hve lengi hefur ranglætið fylgt manninum?

4 Ranglæti hefur tilheyrt mannlegu samfélagi þau 6000 ár sem liðin eru frá uppreisninni í Eden. Það kemur ekki á óvart vegna þess að Satan er guð þessa heims. (2. Korintubréf 4:4) Hann er lygari og frumkvöðull lyginnar. Hann er rógberi og andstæðingur Jehóva. (Jóhannes 8:44) Hann hefur alltaf framið ranglæti í sinni grófustu mynd. Til dæmis segir að fyrir Nóaflóðið hafi Guð séð „að illska mannsins var mikil á jörðinni og að allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga“. (1. Mósebók 6:5) Þetta stafaði að hluta til af illum áhrifum Satans. Þannig var ástandið einnig á dögum Jesú. „Hverjum degi nægir sín þjáning,“ sagði hann og átti þá við erfiðleika eins og óréttlæti. (Matteus 6:34) Biblían fer með rétt mál þegar hún segir: „Öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.“ — Rómverjabréfið 8:22.

5. Af hverju er óréttlætið meira en nokkru sinni fyrr?

5 Mannkynssagan hefur því einkennst af alls konar illsku sem hefur valdið megnu óréttlæti. Og nú er ástandið verra en nokkru sinni fyrr. Af hverju? Af því að ‚síðustu dagar‘ hins óguðlega heimskerfis, sem líður bráðum undir lok, hafa staðið yfir í marga áratugi. Þeim hafa fylgt „örðugar tíðir“. Í Biblíunni var spáð að á þessu tímaskeiði sögunnar myndu mennirnir verða „sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, . . . vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir“. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Lestir af þessu tagi eru kveikjan að alls konar óréttlæti.

6, 7. Hvaða ranglæti hefur hrjáð mannkynið á okkar tímum?

6 Á síðastliðnum hundrað árum hefur óréttlætið orðið magnaðra en áður hefur þekkst í sögu mannkyns. Ein ástæðan er sú að á þessum árum hafa verið háð fleiri stríð en nokkru sinni fyrr. Sumir sagnfræðingar áætla til dæmis að á bilinu 50 til 60 milljónir manna hafi fallið í síðari heimsstyrjöldinni, aðallega óbreyttir borgarar — saklausir karlar, konur og börn. Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hafa fallið milljónir manna til viðbótar í stríðsátökum. Og enn sem fyrr hafa það aðallega verið óbreyttir borgarar. Satan kyndir undir þessu óréttlæti vegna þess að hann er óður af reiði, vitandi að Jehóva gersigrar hann innan skamms. Þetta er orðað þannig í spádómi Biblíunnar: „Djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ — Opinberunarbókin 12:12.

7 Þjóðir heims eyða um það bil 60.000 milljörðum króna á ári til hermála. Hundruð milljóna manna hafa hins vegar ekki brýnustu nauðsynjar. Hugsað þér hverju mætti áorka ef þessum fjármunum væri varið til friðsamlegra nota. Um einn milljarður manna hefur ekki nóg að borða en aðrir hafa allsnægtir. Að sögn Sameinuðu þjóðanna deyja um fimm milljónir barna á ári hverju af völdum hungurs. Hvílíkt ranglæti! Og hugsaðu þér hve mörg saklaus börn deyja vegna fóstureyðinga. Talið er að á bilinu 40 til 60 milljónir fóstureyðinga séu framkvæmdar í heiminum á ári hverju. Óréttlætið er hrikalegt!

8. Hver einn getur tryggt mönnunum raunverulegt réttlæti?

8 Mennskum stjórnendum tekst ekki að finna lausnir á þeim tröllauknu vandamálum sem þjá mannkynið, og ekki tekst mönnum að bæta ástandið. Í orði Guðs er því spáð að á okkar tímum muni „vondir menn og svikarar . . . magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir“. (2. Tímóteusarbréf 3:13) Óréttlæti er svo samofið daglegu lífi að það er ekki í mannlegu valdi að uppræta það. Það getur enginn nema Guð réttlætisins. Hann einn getur útrýmt Satan, illu öndunum og rangsnúnum mönnum. — Jeremía 10:23, 24.

Eðlilegar áhyggjur

9, 10. Hvers vegna varð Asaf niðurdreginn?

9 Sumir af biblíuriturunum forðum daga veltu fyrir sér hvers vegna Guð væri ekki búinn að skerast í leikinn og koma á sönnu réttlæti. Tökum sem dæmi mann á biblíutímanum. Í yfirskriftinni við Sálm 73 stendur nafnið Asaf. Þar er annaðhvort átt við levíta sem var þekktur tónlistarmaður á dögum Davíðs konungs eða tónlistarmenn af ætt hans. Asaf og afkomendur hans sömdu mikið af tónlist sem var notuð opinberlega við tilbeiðslu. En einhvern tíma á ævinni varð maðurinn, sem samdi þennan sálm, niðurdreginn. Hann horfði upp á velmegun óguðlegra manna og veitti því athygli að oft virtust þeir vera sælir og ánægðir og það leit ekki út fyrir að þeir þyrftu að gjalda afleiðinganna af illsku sinni.

10 Við lesum: „Ég fylltist gremju út af hinum hrokafullu, þegar ég sá gengi hinna guðlausu. Þeir hafa engar hörmungar að bera, líkami þeirra er heill og hraustur. Þeim mætir engin mæða sem öðrum mönnum, og þeir verða eigi fyrir neinum áföllum eins og aðrir menn.“ (Sálmur 73:2-8) En þegar fram liðu stundir gerði biblíuritarinn sér grein fyrir því að það væri rangt að vera svona neikvæður. (Sálmur 73:15, 16) Hann reyndi að breyta hugarfari sínu þó að hann skildi ekki fyllilega af hverju hinir óguðlegu virtust komast upp með illskuna en hinir réttlátu þurftu oft að þjást.

11. Hvað skildi Asaf að lokum?

11 Þessi dyggi þjónn Guðs áttaði sig á því að lokum hvað hinir óguðlegu ættu í vændum — að Jehóva myndi taka á málinu þegar þar að kæmi. (Sálmur 73:17-19) Davíð skrifaði: „Vona á Drottin og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið, og þú skalt horfa á, þegar illvirkjum verður útrýmt.“ — Sálmur 37:9, 11, 34.

12. (a) Hvað ætlar Jehóva að gera varðandi illskuna og ranglætið? (b) Hvað finnst þér um þessa leið til að útrýma ranglætinu í heiminum?

12 Það er öruggt að í fyllingu tímans útrýmir Jehóva illskunni og ranglætinu sem fylgir henni. Dyggir þjónar hans þurfa jafnvel að minna sig á það af og til. Jehóva ætlar að afmá þá sem brjóta gegn vilja hans og umbuna þeim sem lifa í samræmi við vilja hans. „Augu hans sjá, sjónir hans rannsaka mennina. Drottinn rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega, og þann er elskar ofríki, hatar hann. Á óguðlega lætur hann rigna glóandi kolum, eldur og brennisteinn og brennheitur vindur er þeirra mældi bikar. Því að Drottinn er réttlátur og hefir mætur á réttlætisverkum.“ — Sálmur 11:4-7.

Nýr réttlátur heimur

13, 14. Af hverju mun réttlætið ríkja í nýja heiminum?

13 Þegar Jehóva eyðir þessu rangláta heimskerfi sem Satan stjórnar, gengur í garð unaðslegur nýr heimur. Hann verður undir stjórn ríkis Guðs á himnum sem Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja um. Illska og ranglæti víkja fyrir réttlæti. Þá rætist að fullu það sem beðið er um í bæninni: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ — Matteus 6:10.

14 Biblían upplýsir hvers konar stjórnar við megum vænta, stjórnar sem allir réttlátir menn þrá. Þá rætist fullkomlega það sem segir í Sálmi 145:16: „Þú [Jehóva Guð] lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.“ Og í Jesaja 32:1 segir: „Konungurinn [Jesús Kristur á himnum] ríkir með réttlæti og höfðingjarnir [fulltrúar hans á jörðinni] stjórna með réttvísi.“ Spáð er um konunginn Jesú Krist í Jesaja 9:7: „Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka á hásæti Davíðs og í ríki hans. Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti héðan í frá og að eilífu. Vandlæting Drottins allsherjar mun þessu til vegar koma.“ Sérðu sjálfan þig sem þegn þessarar réttlátu stjórnar?

15. Hvað gerir Jehóva fyrir mannkynið í nýja heiminum?

15 Í nýjum heimi Guðs verður engin ástæða til að láta í ljós hugsunina í Prédikaranum 4:1: „Enn sá ég alla þá kúgun, sem viðgengst undir sólinni: Þarna streyma tár hinna undirokuðu, en enginn huggar þá. Af hendi kúgara sinna sæta þeir ofbeldi, en enginn huggar þá.“ Þar sem við erum ófullkomin eigum við auðvitað erfitt með að ímynda okkur hve unaðslegur hinn réttláti nýi heimur verður. Engin illska verður til heldur mun hver dagur bera gott eitt í skauti sínu. Já, Jehóva bætir úr öllu sem miður hefur farið, og hann gerir það þannig að það fer langt fram úr björtustu vonum okkar. Það var vel við hæfi að hann skyldi innblása Pétri postula að skrifa: „Eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ — 2. Pétursbréf 3:13.

16. Hvernig er búið að setja á stofn ‚nýjan himin‘ og í hvaða skilningi er verið að undirbúa ‚nýju jörðina‘?

16 Það er nú þegar búið að stofnsetja ‚nýja himininn‘ sem er himnesk stjórn Guðs í höndum Krists. Núna á síðustu dögum er verið að safna saman þeim sem eiga að verða kjarni ‚nýju jarðarinnar‘ sem er nýtt samfélag réttlátra manna hér á jörð. Þeir eru nú orðnir næstum sjö milljónir talsins í að minnsta kosti 235 löndum og þeir skiptast í um það bil 100.000 söfnuði. Þessar milljónir manna hafa kynnt sér réttláta vegi Jehóva og eru því sameinaðir um heim allan. Eining þeirra byggist á kristnum kærleika og hún er sterkari og varanlegri en nokkuð sem þekkst hefur í sögu mannkyns. Þegnar Satans hafa aldrei kynnst neinu í líkingu við hana. Kærleikurinn og einingin er forsmekkur þess hvernig lífið verður í nýjum heimi Guðs sem verður stjórnað með réttlæti og réttvísi. — Jesaja 2:2-4; Jóhannes 13:34, 35; Kólossubréfið 3:14.

Árás Satans misheppnast

17. Af hverju misheppnast lokaárás Satans á þjóna Jehóva?

17 Satan og fylgjendur hans ráðast bráðlega á tilbiðjendur Jehóva í þeim tilgangi að útrýma þeim. (Esekíel 38:14-23) Það verður hluti af ‚mikilli þrengingu sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða‘, eins og Jesús komst að orði. (Matteus 24:21) Tekst Satan það sem hann ætlar sér? Nei, orð Guðs fullvissar okkur um að svo verði ekki. Í Sálmi 37:28, 29 segir: „Drottinn hefir mætur á réttlæti og yfirgefur ekki sína trúuðu. Þeir verða eilíflega varðveittir, en niðjar óguðlegra upprætast. Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“

18. (a) Hvernig bregst Guð við þegar Satan ræðst á þjóna hans? (b) Hvaða gagn hefurðu haft af því að fara yfir þetta efni um sigur réttlætisins?

18 Árás Satans og sveita hans á þjóna Jehóva verður sú síðasta. Jehóva sagði fyrir munn Sakaría: „Hver sá er snertir yður, snertir augastein minn.“ (Sakaría 2:12) Það er rétt eins og einhver stingi fingrinum í auga Jehóva. Hann bregst við þegar í stað og útrýmir illvirkjunum. Þjónar Jehóva skara fram úr varðandi kærleika, einingu, friðsemd og löghlýðni þannig að árásin á þá er algerlega tilhæfulaus og óréttlát. Jehóva, sem „hefir mætur á réttlæti“, mun ekki líða þessa árás. Hann snýst þjónum sínum til varnar með þeim afleiðingum að óvinir þeirra líða undir lok fyrir fullt og allt, réttlætið sigrar og þeir sem tilbiðja hinn eina sanna Guð bjargast. Já, stórkostlegir og spennandi atburðir eru rétt fram undan! — Orðskviðirnir 2:21, 22.

Hvert er svarið?

• Af hverju er óréttlætið jafn útbreitt og raun ber vitni?

• Hvernig útrýmir Jehóva óréttlætinu á jörðinni?

• Hvaða áhrif hefur þessi umfjöllun um sigur réttlætisins haft á þig?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Illskan var allsráðandi fyrir flóðið og hún er síst minni núna á „síðustu dögum“.

[Mynd á blaðsíðu 9, 10]

Í nýjum heimi Guðs mun illska og ranglæti víkja fyrir réttlæti.