Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjáningar geta leitt gott af sér

Þjáningar geta leitt gott af sér

Þjáningar geta leitt gott af sér

„Vér teljum þá sæla, sem þolgóðir hafa verið.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 5:11.

1, 2. Hvað sýnir að það var ekki ætlun Jehóva að maðurinn þjáðist?

ENGAN venjulegan mann langar til að þjást. Skapari mannsins, Jehóva Guð, vill ekki heldur að mennirnir þjáist. Þetta er augljóst af innblásnu orði hans og þeim atburðum sem áttu sér stað eftir að hann skapaði manninn og konuna. Fyrst var maðurinn skapaður. „Þá myndaði Drottinn Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál.“ (1. Mósebók 2:7) Adam var fullkominn á huga og líkama og hann þurfti ekki að veikjast eða deyja.

2 Við hvaða aðstæður bjó Adam? „Drottinn Guð plantaði aldingarð í Eden langt austur frá og setti þar manninn, sem hann hafði myndað. Og Drottinn Guð lét upp vaxa af jörðinni alls konar tré, sem voru girnileg á að líta og góð að eta af.“ (1. Mósebók 2:8, 9) Já, Adam átti sér yndislegt heimili. Í Eden voru engar þjáningar.

3. Hvað blasti við fyrstu hjónunum?

3 Við lesum í 1. Mósebók 2:18: „Drottinn Guð sagði: ‚Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall. Ég vil gjöra honum meðhjálp við hans hæfi.‘“ Jehóva skapaði fullkomna konu handa Adam þannig að þau áttu í vændum hamingjusamt fjölskyldulíf. (1. Mósebók 2:21-23) Og áfram segir í frásögn Biblíunnar: „Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: ‚Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna.‘“ (1. Mósebók 1:28) Fyrstu hjónin fengu það einstæða tækifæri að stækka paradísina Eden uns hún næði um allan hnöttinn og öll jörðin yrði samfelld paradís. Og þau gátu eignast hamingjusama afkomendur sem yrðu lausir við þjáningar. Hvílík byrjun! — 1. Mósebók 1:31.

Þjáningarnar hefjast

4. Hvað er augljóst af mannkynssögunni?

4 En þegar við hugsum til þess hvernig mannkyninu hefur vegnað í tímans rás er augljóst að eitthvað fór verulega úrskeiðis. Mannkynið hefur mátt þola alls konar illsku og gríðarlegar þjáningar. Fram til þessa hafa allir afkomendur Adams og Evu veikst, hrörnað og dáið. Því fer fjarri að jörðin sé paradís byggð hamingjusömu fólki. Ástandinu er vel lýst í Rómverjabréfinu 8:22: „Öll sköpunin stynur . . . og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.“

5. Hvernig kölluðu foreldrar mannkyns þjáningar yfir afkomendur sína?

5 Hinar gríðarlegu þjáningar, sem mannkynið hefur mátt þola öldum saman, eru ekki Jehóva að kenna. (2. Samúelsbók 22:31) Mennirnir bera sökina að hluta til. „Ill og andstyggileg er breytni þeirra.“ (Sálmur 14:1) Allt sem foreldrum mannkyns var gefið í byrjun var gott. Til að viðhalda því þurftu þau aðeins að hlýða Guði. Adam og Eva kusu hins vegar að verða óháð honum. Þar sem þau höfnuðu Jehóva hætti hann að viðhalda fullkomleika þeirra. Þau byrjuðu að hrörna og dóu að lokum. Og við höfum fengið ófullkomleikann í arf. — 1. Mósebók 3:17-19; Rómverjabréfið 5:12.

6. Hvaða þátt átti Satan í því að þjáningarnar hófust?

6 Andavera, sem kölluð er Satan djöfullinn, ber einnig sök á því að þjáningar mannanna hófust. Hann hafði frjálsan vilja en misnotaði hann í von um að vera tilbeðinn. En það á aðeins að tilbiðja Jehóva, ekki sköpunarverur hans. Það var Satan sem hvatti Adam og Evu til að verða óháð Guði rétt eins og þau gætu þá ‚orðið eins og Guð og vitað skyn góðs og ills‘. — 1. Mósebók 3:5.

Jehóva einn hefur réttinn til að stjórna

7. Hvað sýna afleiðingarnar af uppreisninni gegn Jehóva?

7 Slæmar afleiðingar uppreisnarinnar sýna fram á að enginn nema alheimsdrottinn Jehóva hefur réttinn til að stjórna og að engin stjórn er réttlát nema stjórn hans. Á liðnum árþúsundum hefur Satan, sem varð ‚höfðingi þessa heims‘, stjórnað með grimmd, óréttlæti og ofbeldi, og stjórn hans er algerlega óviðunandi. (Jóhannes 12:31) Löng og ömurleg stjórn manna undir yfirráðum Satans hefur sömuleiðis sýnt að þeir eru allsendis ófærir um að stjórna með réttlæti. (Jeremía 10:23) Ekkert stjórnarfar, sem menn geta fundið upp á, dugir. Sagan hefur sýnt fram á það svo ekki verður um villst. Eina stjórnin sem virkar er stjórn Jehóva.

8. Hvað ætlar Jehóva að gera við allar stjórnir manna og hvernig gerir hann það?

8 Um þúsundir ára hefur Jehóva leyft mönnunum að prófa alls konar stjórnarfar sem er óháð honum. Hann hefur því fullan rétt til að ryðja öllum stjórnum manna úr vegi og setja upp sína eigin. Í spádómi um þetta segir: „Á dögum þessara konunga [mannlegra stjórna] mun Guð himnanna hefja ríki [himneska stjórn sína í höndum Krists], sem aldrei skal á grunn ganga . . . Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ (Daníel 2:44) Stjórn illra anda og manna líður undir lok og aðeins himneskt ríki Guðs fer með völdin yfir jörðinni. Kristur verður konungurinn og með honum 144.000 trúir meðstjórnendur sem kallaðir eru frá jörðinni. — Opinberunarbókin 14:1.

Það er til góðs að vera þolgóð í þjáningum

9, 10. Hvernig var það gagnlegt fyrir Jesú að þjást?

9 Það er athyglisvert að kynna sér hæfni þeirra sem fara með völd í ríkinu á himnum. Jesús Kristur sýndi fram á hve hæfur hann var til að gegna hlutverki sínu sem konungur. Hann hafði verið óralengi með föður sínum sem „verkstýra“ og gert vilja hans. (Orðskviðirnir 8:22-31) Þegar Jehóva gerði ráðstafanir til að Jesús kæmi til jarðar fór hann fúslega að vilja föður síns. Hér á jörð einbeitti hann sér að því að segja öðrum frá drottinvaldi Jehóva og ríki hans. Hann er okkur öllum til fyrirmyndar með því að vera fullkomlega undirgefinn drottinvaldi Guðs. — Matteus 4:17; 6:9.

10 Jesús var ofsóttur og að lokum tekinn af lífi. Meðan hann þjónaði hér á jörð sá hann allt í kringum sig hve mennirnir áttu bágt. Hafði hann eitthvert gagn af því að sjá þetta með eigin augum og þjást? Já, í Hebreabréfinu 5:8 segir: „Þótt hann sonur væri [sonur Guðs], lærði hann hlýðni af því, sem hann leið.“ Það sem bar fyrir augu Jesú hér á jörð gerði hann skilningsríkari og miskunnsamari. Hann kynntist ástandi mannkyns af eigin raun. Hann gat haft samúð með þjáðum og skilið betur það hlutverk sitt að koma þeim til bjargar. Páll postuli bendir á þetta í Hebreabréfinu og segir: „Í öllum greinum átti [hann] að verða líkur bræðrum sínum, svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði, til þess að friðþægja fyrir syndir lýðsins. Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim, er verða fyrir freistingu.“ „Ekki höfum vér þann æðsta prest, er eigi geti séð aumur á veikleika vorum, heldur þann, sem freistað var á allan hátt eins og vor, en án syndar. Göngum því með djörfung að hásæti náðarinnar, til þess að vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.“ — Hebreabréfið 2:17, 18; 4:14-16; Matteus 9:36; 11:28-30.

11. Hvaða gagn hafa væntanlegir konungar og prestar af reynslu sinni hér á jörð?

11 Að miklu leyti má segja hið sama um þá 144.000 sem eru „leystir út“ frá jörðinni til að stjórna með Jesú Kristi í ríkinu á himnum. (Opinberunarbókin 14:4) Þeir fæddust allir sem menn hér á jörð, ólust upp umkringdir þjáningum og þjáðust sjálfir. Margir voru ofsóttir og sumir jafnvel teknir af lífi af því að þeir voru ráðvandir gagnvart Jehóva og fúsir til að fylgja Jesú. En þeir blygðuðust sín ekki ‚fyrir vitnisburðinn um Drottin sinn heldur þoldu illt vegna fagnaðarerindisins‘. (2. Tímóteusarbréf 1:8) Vegna reynslu sinnar á jörðinni eru þeir einstaklega hæfir til að dæma mannkynið af himnum ofan. Þeir hafa lært að vera miskunnsamir, góðviljaðir og auðfúsir að hjálpa fólki. — Opinberunarbókin 5:10; 14:2-5; 20:6.

Hamingja þeirra sem hafa jarðneska von

12, 13. Hvernig geta þjáningar leitt gott af sér hjá þeim sem hafa jarðneska von?

12 Geta yfirstandandi þjáningar leitt eitthvað gott af sér hjá þeim sem vonast eftir að lifa að eilífu í paradís á jörð þar sem hvorki verða sjúkdómar, sorg né dauði? Það er auðvitað ekki eftirsóknarvert að kveljast eða þjást. En þegar við erum þolgóð í þjáningum getur það styrkt góða eiginleika og stuðlað að hamingju.

13 Lítum á það sem sagt er um þetta í innblásnu orði Guðs: „Þótt þér skylduð líða illt fyrir réttlætis sakir, þá eruð þér sælir.“ „Sælir eruð þér, er þér eruð smánaðir vegna nafns Krists.“ (1. Pétursbréf 3:14; 4:14) „Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum.“ (Matteus 5:11, 12) „Sæll er sá maður, sem stenst freistingu, því að þegar hann hefur reynst hæfur mun hann öðlast kórónu lífsins.“ — Jakobsbréfið 1:12.

14. Hvers vegna gleðjast þjónar Jehóva þegar þeir þurfa að þjást?

14 Það eru auðvitað ekki þjáningarnar sjálfar sem eru uppspretta hamingju og gleði. Hún stafar öllu heldur af þeirri vitneskju að við þjáumst vegna þess að við gerum vilja Jehóva og fylgjum fyrirmynd Jesú. Til dæmis var sumum af postulunum á fyrstu öld varpað í fangelsi og síðan voru þeir leiddir fyrir hæstarétt Gyðinga og ákærðir fyrir að vitna um Jesú Krist. Þeir voru húðstrýktir og þeim var síðan sleppt. Hvernig var þeim innanbrjósts? Í frásögn Biblíunnar segir að þeir hafi farið burt frá ráðinu, „glaðir yfir því, að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú“. (Postulasagan 5:17-41) Þeir glöddust ekki yfir húðstrýkingunni og sársaukanum sem fylgdi henni heldur því að þeir vissu að þetta hafði gerst vegna þess að þeir varðveittu ráðvendni sína gagnvart Jehóva og fetuðu í fótspor Jesú. — Postulasagan 16:25; 2. Korintubréf 12:10; 1. Pétursbréf 4:13.

15. Hvernig getur þolgæði í þjáningum núna orðið okkur til góðs á ókomnum tíma?

15 Ef við sýnum rétt hugarfar þegar við verðum fyrir ofsóknum og mótlæti getur það þroskað með okkur þolgæði. Og þá erum við betur í stakk búin til að standa af okkur ókomnar þjáningar. Við lesum: „Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir. Þér vitið, að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði.“ (Jakobsbréfið 1:2, 3) Í Rómverjabréfinu 5:3-5 er tekið í sama streng: „Vér fögnum líka í þrengingunum, með því að vér vitum, að þrengingin veitir þolgæði, en þolgæðið fullreynd, en fullreyndin von. En vonin bregst oss ekki.“ Því meira þolgæði sem við sýnum núna í prófraunum sem við verðum fyrir vegna trúar okkar, þeim mun betur getum við staðist ókomnar prófraunir í þessu illa heimskerfi.

Jehóva umbunar

16. Hvernig ætlar Jehóva að bæta fyrir þjáningar þeirra sem verða konungar og prestar á himnum?

16 Við getum verið glöð jafnvel þó að við töpum efnislegum eigum vegna andstöðu eða ofsókna sem við verðum fyrir af því að við erum kristin. Við vitum að Jehóva umbunar okkur ríkulega. Páll postuli skrifaði kristnum mönnum sem áttu þá von að fara til himna: „Þér . . . tókuð því með gleði, er þér voruð rændir eignum yðar, því að þér vissuð, að þér áttuð sjálfir betri eign og varanlega“ sem stjórnendur í ríki Guðs. (Hebreabréfið 10:34) Og hugsaðu þér gleðina sem þeir hljóta þegar þeir miðla jarðarbúum unaðslegri blessun undir handleiðslu Jehóva og Jesú í nýjum heimi. Páll postuli fór með rétt mál þegar hann skrifaði trúföstum kristnum mönnum: „Ég lít svo á, að ekki séu þjáningar þessa tíma neitt í samanburði við þá dýrð, sem á oss mun opinberast.“ — Rómverjabréfið 8:18.

17. Hvað mun Jehóva gera fyrir þá sem eiga jarðneska von og þjóna honum dyggilega núna?

17 Þeir sem eiga jarðneska von geta sömuleiðis misst eða þurft að neita sér um eitthvað til að þjóna Jehóva, en það er öruggt að hann umbunar þeim ríkulega í framtíðinni. Hann gefur þeim fullkomleika og eilíft líf í paradís á jörð. Í nýjum heimi mun Jehóva „þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ (Opinberunarbókin 21:4) Þetta er fagurt fyrirheit. Ekkert sem við fórnum í þessum heimi vegna Jehóva kemst í hálfkvisti við hið unaðslega líf sem hann mun gefa trúum og þolgóðum þjónum sínum.

18. Hvaða hughreystandi fyrirheit gefur Jehóva í orði sínu?

18 Engar þjáningar, sem við eigum eftir að þola, geta komið í veg fyrir að við hljótum eilíft líf í nýjum heimi Guðs. Allt slíkt hverfur algerlega í skuggann af þeim frábæru aðstæðum sem verða í nýja heiminum. Í Jesaja 65:17, 18 segir: „Hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma. Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa.“ Það átti því vel við að Jakob, hálfbróðir Jesú, skyldi segja: „Vér teljum þá sæla, sem þolgóðir hafa verið.“ (Jakobsbréfið 5:11) Já, ef við erum trú og þolgóð í þeim þjáningum sem við verðum fyrir núna leiðir það gott af sér bæði nú og í framtíðinni.

Hvert er svarið?

• Hvernig urðu þjáningar hlutskipti manna?

• Hvernig geta þjáningar leitt gott af sér fyrir íbúa og tilvonandi stjórnendur jarðar?

• Hvers vegna getum við verið glöð þrátt fyrir þjáningar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 13]

Foreldrar mannkyns áttu unaðslega framtíð í vændum.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Þjáningarnar, sem Jesús horfði upp á, stuðluðu að því að hann yrði góður konungur og æðsti prestur.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Postularnir glöddust yfir því að vera „virtir þess að þola háðung“ vegna trúar sinnar.