Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Foreldrar — alið börnin ykkar upp með ástúð

Foreldrar — alið börnin ykkar upp með ástúð

Foreldrar — alið börnin ykkar upp með ástúð

„Allt sé hjá yður í kærleika gjört.“ — 1. KORINTUBRÉF 16:14.

1. Hvaða tilfinningar búa í brjósti foreldra þegar barn fæðist?

FLESTIR eru sammála um að barnsfæðing sé einn af gleðilegustu viðburðum lífsins. „Það var yndisleg tilfinning að sjá nýfædda dóttur okkar í fyrsta sinn,“ segir móðir að nafni Aleah. „Mér fannst hún vera fallegasta barnið sem ég hafði nokkurn tíma séð.“ Þó að þetta sé gleðistund geta foreldrar líka fyllst áhyggjum. „Ég hafði áhyggjur af því hvort ég gæti búið dóttur mína nægilega vel undir erfiðleika lífsins,“ segir eiginmaður Aleahu. Margir foreldrar hafa svipaðar áhyggjur og gera sér grein fyrir því að þeir þurfa að ala börnin sín upp með ástúð. En kristnir foreldrar, sem vilja veita börnunum kærleiksríkt uppeldi, geta átt von á ýmsum erfiðleikum. Hvaða erfiðleikum?

2. Hvað gerir foreldrum oft erfitt fyrir?

2 Það er langt liðið á síðustu daga þessa heimskerfis. Heimurinn, sem við lifum í, er fullur af kærleikslausu fólki eins og spáð hafði verið. Jafnvel innan fjölskyldunnar eru menn hættir að sýna eðlilega ástúð og orðnir „vanþakklátir, vanheilagir . . . taumlausir [og] grimmir“. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Dagleg samskipti við fólk, sem sýnir slíka eiginleika, geta haft áhrif á hvernig kristnir menn koma fram við hver annan innan fjölskyldunnar. Auk þess glíma foreldrar við eigin ófullkomleika og tilhneigingu til að missa stjórn á sér, segja eitthvað sem þeir meina ekki og sýna slæma dómgreind á öðrum sviðum. — Rómverjabréfið 3:23; Jakobsbréfið 3:2, 8, 9.

3. Hvernig geta foreldrar alið upp hamingjusöm börn?

3 En þrátt fyrir þessa erfiðleika geta foreldrar alið upp hamingjusöm börn sem elska Guð. Hvernig þá? Með því að fylgja ráði Biblíunnar: „Allt sé hjá yður í kærleika gjört.“ (1. Korintubréf 16:14) Já, kærleikurinn er „band algjörleikans.“ (Kólossubréfið 3:14) Lítum nánar á þrjár hliðar á kærleikanum sem Páll postuli lýsti í fyrra bréfi sínu til Korintumanna og skoðum hvernig foreldrar geta beitt þessum eiginleika við uppeldi barna sinna. — 1. Korintubréf 13:4-8.

Foreldrar verða að sýna langlyndi

4. Af hverju verða foreldrar að sýna langlyndi?

4 Páll skrifaði: „Kærleikurinn er langlyndur.“ (1. Korintubréf 13:4) Gríska orðið, sem þýtt er „langlyndur“, felur í sér að vera þolinmóður og seinn til reiði. Af hverju verða foreldrar að sýna langlyndi? Flestir foreldrar geta vafalaust nefnt nokkrar ástæður. Tökum dæmi. Börn biðja sjaldnast aðeins einu sinni um eitthvað sem þau langar í. Þó að foreldri neiti beiðninni ákveðið er ekki ólíklegt að barnið spyrji aftur og aftur í von um annað svar. Unglingar koma kannski með margar ástæður fyrir því hvers vegna ætti að leyfa þeim að gera eitthvað sem foreldrið veit að er óviturlegt. (Orðskviðirnir 22:15) Og börn eiga það til að endurtaka mistök sín eins og við reyndar öll. — Sálmur 130:3.

5. Hvað getur hjálpað foreldrum að sýna langlyndi?

5 Hvað getur hjálpað foreldrum að sýna börnum sínum langlyndi? Salómon konungur skrifaði: „Hyggni mannsins gjörir hann seinan til reiði.“ (Orðskviðirnir 19:11) Foreldrar eiga auðveldara með að skilja hegðun barna sinna ef þeir rifja upp að einu sinni ‚töluðu þeir eins og börn, hugsuðu eins og börn og ályktuðu eins og börn‘. (1. Korintubréf 13:11) Foreldrar, munið þið eftir að hafa suðað í mömmu ykkar eða pabba um að láta eitthvað eftir ykkur? Fannst ykkur einhvern tíma þegar þið voruð unglingar að foreldrar ykkar hefðu engan skilning á tilfinningum ykkar eða vandamálum? Ef sú er raunin skiljið þið líklega hvers vegna börnin hegða sér eins og þau gera og hvers vegna það þarf að minna þau þolinmóðlega á ákvarðanir ykkar. (Kólossubréfið 4:6) Það er vert að nefna að Jehóva sagði ísraelskum foreldrum að „brýna“ lögmálið fyrir börnum sínum. (5. Mósebók 6:6, 7) Hebreska orðið, sem þýtt er „brýna“, þýðir „að endurtaka“, „segja aftur og aftur“ og „að innprenta“. Þetta gefur til kynna að foreldrar gætu þurft að segja sama hlutinn mörgum sinnum áður en barnið lærir að fara eftir lögum Guðs. Slík endurtekning er oft nauðsynleg til að kenna ýmislegt annað í lífinu.

6. Af hverju eru langlyndir foreldrar ekki eftirlátssamir?

6 Langlyndir foreldrar eru samt ekki eftirlátssamir. Orð Guðs segir: „Agalaus sveinn gjörir móður sinni skömm.“ Hvernig er hægt að koma í veg fyrir slíkt? Í sama versi segir: „Vöndur og umvöndun veita speki.“ (Orðskviðirnir 29:15) Stundum draga börn í efa rétt foreldranna til að leiðrétta þau. En kristnu heimili ætti ekki að vera stjórnað eins og það væri lýðræðisríki, rétt eins og foreldrarnir væru háðir samþykki barnanna til að setja ákveðnar reglur. Jehóva er æðsta höfuð fjölskyldunnar og hann hefur veitt foreldrum réttinn til að kenna börnunum og aga þau af kærleika. (1. Korintubréf 11:3; Efesusbréfið 3:15; 6:1-4) Agi er auk þess nátengdur annarri hlið á kærleikanum sem Páll talar um.

Kærleiksríkur agi

7. Af hverju aga kærleiksríkir foreldrar börnin sín og hvað felst í slíkum aga?

7 Páll skrifaði að kærleikurinn væri „góðviljaður“. (1. Korintubréf 13:4) Foreldrar, sem vilja börnum sínum vel, eru samkvæmir sjálfum sér þegar þeir aga þau. Þannig líkja þeir eftir Jehóva. Páll skrifaði: „Drottinn agar þann, sem hann elskar.“ Rétt er að nefna að þegar talað er um aga í Biblíunni er ekki einungis átt við refsingu heldur líka kennslu og þjálfun. Hvert er markmiðið með slíkum aga? „Hann [gefur] þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis,“ segir Páll. (Hebreabréfið 12:6, 11) Þegar foreldrar fræða börnin sín með ástúð samkvæmt vilja Guðs veita þeir þeim tækifæri til að verða friðsamir og heiðvirðir einstaklingar. Ef börnin taka við „ögun Drottins“ öðlast þau speki, þekkingu og hyggindi. Það eru eiginleikar sem eru langtum verðmætari en gull og silfur. — Orðskviðirnir 3:11-18.

8. Hver verður oft afleiðingin þegar foreldrar aga börnin sín ekki?

8 Á hinn bóginn er það ekki merki um góðvild þegar foreldrar sleppa því að aga börnin. Jehóva blés Salómon í brjóst að skrifa: „Sá sem sparar vöndinn, hatar son sinn, en sá sem elskar hann, agar hann snemma.“ (Orðskviðirnir 13:24) Börn, sem fá ekki stefnufastan aga, eru líkleg til að verða sjálfselsk og óhamingjusöm. Hins vegar hefur komið í ljós að börn foreldra, sem sýna hlýju en setja skýr mörk, standa sig betur í skóla, eiga auðveldara með samskipti og eru almennt hamingjusöm. Við sjáum því að foreldrar eru að sýna börnunum góðvild með því að aga þau.

9. Hvað kenna kristnir foreldrar börnum sínum og hvernig ber að líta á þessar kröfur?

9 Hvað er fólgið í því að aga börnin með ástúð og góðvild? Foreldrar verða að segja börnunum skýrt hvers sé krafist af þeim. Til dæmis eru börnum á kristnum heimilum kenndar helstu meginreglur Biblíunnar frá unga aldri. Þeim er líka kennt að taka þátt í öllu því sem tengist sannri tilbeiðslu. (2. Mósebók 20:12-17; Matteus 22:37-40; 28:19; Hebreabréfið 10:24, 25) Börn verða að skilja að ekki er hægt að kvika frá þessum kröfum.

10, 11. Af hverju gætu foreldrar ákveðið að taka tillit til óska barna sinna þegar þeir setja heimilisreglur?

10 Stundum vilja foreldrar samt hafa börnin með í ráðum þegar setja á heimilisreglur. Ef þau fá að taka þátt í því að setja slíkar reglur eru þau ef til vill fúsari til að fylgja þeim. Foreldrar gætu til dæmis sett reglur um útivistartíma og ákveðið að börnin verði að vera komin heim fyrir ákveðinn tíma. Annar möguleiki væri að leyfa börnunum að koma sjálf með tillögu um útivistartíma og færa rök fyrir máli sínu. Foreldrarnir geta þá sagt hvenær þeir vilji að börnin séu komin heim og útskýrt hvers vegna þeim finnist sá tími viðeigandi. En hvað á að gera ef skoðanir fara ekki saman eins og búast má við? Í sumum tilfellum gætu foreldrar ákveðið að best væri að koma til móts við óskir barnanna ef þær stangast ekki á við meginreglur Biblíunnar. Þýðir þetta að foreldrarnir séu búnir að afsala sér völdum eða hafa gefist upp?

11 Til að svara þessari spurningu skulum við líta á samskipti Jehóva við Lot og fjölskyldu hans og hvernig hann beitti valdi sínu á kærleiksríkan hátt. Eftir að englarnir höfðu leitt Lot, konu hans og dætur út úr Sódómu sögðu þeir: „Forða þér á fjöll upp, að þú farist eigi.“ En Lot sagði við Jehóva: „Æ nei, herra!“ Síðan kom hann með aðra tillögu. „Sjá, þarna er borg í nánd, þangað gæti ég flúið, og hún er lítil. Ég vil forða mér þangað.“ Hvernig brást Jehóva við? Hann sagði: „Sjá, ég hefi einnig veitt þér þessa bæn.“ (1. Mósebók 19:17-22) Var Jehóva að afsala sér völdum með þessu? Alls ekki. Hann tók hins vegar tillit til beiðni Lots og ákvað að sýna honum sérstaka góðvild í þessu máli. Foreldrar, gætuð þið stundum tekið tillit til óska barna ykkar þegar þið setjið heimilisreglur?

12. Hvað stuðlar að því að barn finni til öryggiskenndar?

12 Börn verða að þekkja reglurnar á heimilinu en líka að vita hvernig þeim verður refsað ef þau brjóta þær. Þegar búið er að ræða um refsinguna og hvað í henni felst þarf að fylgja reglunum eftir. Foreldrar eru ekki að sýna góðvild ef þeir eru stöðugt að segja börnunum að þau verði öguð en láta aldrei verða af því. „Af því að dómi yfir verkum illskunnar er ekki fullnægt þegar í stað, þá svellur mönnum móður til þess að gjöra það sem illt er,“ segir í Biblíunni. (Prédikarinn 8:11) Foreldrar sleppa því kannski að refsa barni á almannafæri eða innan um jafnaldra þess til að gera ekki lítið úr því. En börn finna til meira öryggis og virða og elska foreldra sína meira ef þau vita að „já“ þeirra þýðir já og „nei“ þýðir nei — jafnvel þótt það hafi refsingu í för með sér. — Matteus 5:37.

13, 14. Hvernig geta foreldrar líkt eftir Jehóva í uppeldi barnanna?

13 Ef refsingin á að vera kærleiksrík er nauðsynlegt að sníða hana að hverju barni fyrir sig. „Dætur okkar tvær þurftu ólíkan aga,“ segir Pam. „Það sem virkaði vel á aðra þeirra virkaði ekki á hina.“ Larry, eiginmaður hennar, segir: „Eldri dóttirin var ákveðin og þrjósk og hlýddi bara ef henni var veittur strangur agi. En það var nóg að vera ákveðinn í orðum við yngri dótturina eða jafnvel bara hvessa brýrnar.“ Já, góðir foreldrar leggja sig fram um að finna út hvers konar agi hentar hverju barni best.

14 Jehóva er frábært fordæmi fyrir foreldra því að hann þekkir styrk og veikleika allra þjóna sinna. (Hebreabréfið 4:13) Auk þess er hann hvorki óþarflega strangur né alltof eftirlátur þegar hann refsar. Hann agar fólk sitt alltaf „í hófi“. (Jeremía 30:11) Foreldrar, þekkið þið styrk og veikleika barna ykkar? Notið þið þessa vitneskju á jákvæðan og ástúðlegan hátt í uppeldinu? Þannig sýnið þið að þið elskið börnin ykkar.

Stuðlið að opnum tjáskiptum

15, 16. Hvernig geta foreldrar hvatt börnin til að tjá sig opinskátt og hvaða aðferð hefur reynst kristnum foreldrum vel?

15 Önnur hlið kærleikans er sú að „hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum“. (1. Korintubréf 13:6) Hvernig geta foreldrar kennt börnunum að elska það sem er satt og rétt? Það er mjög mikilvægt að hvetja börnin til að tjá sig opinskátt jafnvel þótt það geti verið erfitt fyrir foreldrana að samþykkja sumt sem börnin segja. Að sjálfsögðu gleður það foreldrana þegar börnin láta í ljós hugsanir og tilfinningar sem eru í samræmi við réttar meginreglur. En stundum getur einlæg athugasemd barns borið vitni um rangar tilhneigingar. (1. Mósebók 8:21) Hvernig ættu foreldrar að bregðast við? Fyrstu viðbrögð gætu verið að ávíta barnið strax fyrir að láta slíkar hugsanir í ljós. En ef foreldrar bregðast þannig við gætu börnin fljótlega lært að segja aðeins það sem þau telja að foreldrarnir vilji heyra. Það ætti auðvitað að leiðrétta óvirðulegt tal samstundis en það er munur á því annars vegar að kenna börnunum að vera kurteis í tali og hins vegar að stjórna því hvað þau segi.

16 Hvernig geta foreldrar stuðlað að heiðarlegum og opnum tjáskiptum? Aleah, sem minnst var á fyrr í greininni, segir: „Við höfum reynt að stuðla að opnum tjáskiptum á heimilinu með því að bregðast ekki of harkalega við þegar börnin segja okkur eitthvað sem kemur okkur í uppnám.“ Faðir að nafni Tom segir: „Við hvöttum dóttur okkar til að tala við okkur, líka þegar hún var okkur ósammála. Okkur fannst að ef við gripum alltaf fram í fyrir henni og neyddum okkar skoðunum upp á hana myndi hún verða pirruð og hætta að segja okkur hvernig sér liði. En með því að hlusta á hana höfum við stuðlað að því að hún hlusti á okkur.“ Börn eiga auðvitað að hlýða foreldrum sínum. (Orðskviðirnir 6:20) En opin tjáskipti veita foreldrum tækifæri til að hjálpa börnunum að þroska með sér rökhugsun. Vincent, fjögurra barna faðir, segir: „Við töluðum oft um kosti og galla ákveðinna mála þannig að börnin gætu sjálf komið auga á bestu lausnina. Þetta hjálpaði þeim að læra að rökhugsa.“ — Orðskviðirnir 1:1-4.

17. Um hvað geta foreldrar verið vissir?

17 Að sjálfsögðu getur enginn beitt ráðum Biblíunnar fullkomlega í barnauppeldinu. En þið foreldrar getið verið vissir um að börnin kunna að meta viðleitni ykkar til að ala þau upp með langlyndi, góðvild og kærleika. Jehóva mun vissulega blessa viðleitni ykkar. (Orðskviðirnir 3:33) Allir kristnir foreldrar vilja að börnin sín læri að elska Jehóva jafn mikið og þeir sjálfir gera. Hvernig geta foreldrar náð þessu háleita marki? Í næstu grein verður bent á nokkrar leiðir til þess.

Manstu?

• Hvernig getur gott innsæi hjálpað foreldrum að vera langlyndir?

• Hvernig tengjast góðvild og agi?

• Hvers vegna er mikilvægt að tjáskipti milli foreldra og barna séu opinská?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 23]

Foreldrar, munið þið hvernig það var að vera barn?

[Mynd á blaðsíðu 24]

Stuðlar þú að heiðarlegum og opnum tjáskiptum innan fjölskyldunnar?