Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir bóka Nahúms, Habakkuks og Sefanía

Höfuðþættir bóka Nahúms, Habakkuks og Sefanía

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir bóka Nahúms, Habakkuks og Sefanía

ASSÝRSKA heimsveldið er búið að eyða Samaríu, höfuðborg tíuættkvíslaríkisins Ísraels. Og Júda hefur lengi vel stafað ógn af Assýríu. Spámaðurinn Nahúm í Júda hefur boðskap að færa varðandi Níníve, höfuðborg Assýríu. Þennan boðskap er að finna í bókinni sem kennd er við hann en hún er skrifuð einhvern tíma fyrir 632 f.Kr.

Babýlon er næsta heimsveldi í röðinni og hún er stundum undir stjórn konunga frá Kaldeu. Í bók Habakkuks er því spáð hvernig Jehóva ætlar að nota Babýlon til að fullnægja dómi, og örlögum þessa heimsveldis er lýst. Ritun bókarinnar kann að hafa verið lokið árið 628 f.Kr.

Sefanía, spámaður í Júda, skrifar bók sína á undan þeim Nahúm og Habakkuk. Hann flytur spádóma sína meira en 40 árum áður en Jerúsalem er eytt árið 607 f.Kr. Hann boðar Júdamönnum bæði dóm og von. Í Sefaníabók er einnig að finna boðskap um aðrar þjóðir.

„VEI HINNI BLÓÐSEKU BORG“

(Nahúm 1:1–3:19)

„Spádómur um Níníve“ kemur frá Jehóva Guði sem er „seinn til reiði og mikill að krafti“. Níníve verður eytt en Jehóva er hins vegar „athvarf á degi neyðarinnar“ fyrir þá sem leita hælis hjá honum. — Nahúm 1:1, 3, 7.

„Drottinn reisir aftur við tign Jakobs.“ Assýría hefur hins vegar ógnað þjóð Guðs líkt og ‚ljón sem rífur sundur‘. Jehóva ætlar að láta stríðsvagna Níníve „bálast upp í reyk, og sverðið skal eta ungljón [hennar]“. (Nahúm 2:3, 13, 14) „Vei hinni blóðseku borg“, Níníve. „Allir þeir sem heyra fregnina um [hana], klappa lof í lófa“ og fagna. — Nahúm 3:1, 19.

Biblíuspurningar og svör:

1:9 — Hvað þýðir það fyrir Júdamenn þegar Jehóva „eyðir [Níníve] svo, að af tekur“? Þeir losna þá alveg undan oki Assýringa því að „þrengingin mun ekki koma tvisvar“. Nahúm talar eins og Níníve sé ekki lengur til og segir: „Sjá á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, þess er friðinn kunngjörir. Hald hátíðir þínar, Júda.“ — Nahúm 2:1.

2:6 — Hver eru ‚hliðin við fljótið‘ sem lokið er upp? Hér er átt við þann atburð þegar Tígrisfljót braut skörð í múra Níníve. Íbúum hennar fannst sér ekki ógnað sérstaklega árið 632 f.Kr. þegar sameinaðir herir Babýloníumanna og Meda bjuggust til árásar. Þeir töldu sig óhulta innan sterkbyggðra borgarmúranna. En sökum mikilla rigninga flæddi Tígris yfir bakka sína. Sagnaritarinn Díódóros segir að við þetta hafi „bæði flætt yfir stóran hluta borgarinnar og múrarnir hrunið á kafla“. Þannig opnuðust hliðin við fljótið og árásarmenn tóku borgina jafn snögglega og skraufþurrir hálmleggir fuðra upp í eldi, rétt eins og sagði í spádóminum. — Nahúm 1:8-10.

3:4 — Á hvaða hátt var Níníve eins og skækja? Níníve blekkti þjóðirnar með því að lofa þeim vináttu og stuðningi en kúga þær síðan. Til dæmis veittu Assýringar Akasi Júdakonungi nokkurt lið gegn samsæri Sýrlendinga og Ísraelsmanna. En síðar fór „Assýríukonungur í móti [Akasi] og kreppti að honum“. — 2. Kroníkubók 28:20.

Lærdómur:

1:2-6. Jehóva refsar óvinum sínum sem veita honum ekki þá óskiptu hollustu sem honum ber. Ljóst er því að Jehóva ætlast ekki til minna en óskiptrar hollustu af dýrkendum sínum. — 2. Mósebók 20:5.

1:10. Sterkir og miklir borgarmúrar með hundruðum varðturna gátu ekki hindrað að orð Jehóva gegn Níníve rættust. Óvinir þjóna Jehóva nú á dögum geta ekki umflúið dóm hans. — Orðskviðirnir 2:22; Daníel 2:44.

„HINN RÉTTLÁTI MUN LIFA“

(Habakkuk 1:1–3:19)

Fyrstu tveir kaflarnir í bók Habakkuks hafa að geyma samtal spámannsins og Jehóva Guðs. Habakkuk er miður sín yfir því sem á sér stað í Júda og spyr Guð: „Hví lætur þú mig sjá rangindi, hví horfir þú upp á rangsleitni?“ Jehóva svarar: „Ég reisi upp Kaldea, hina harðgjöru og ofsafullu þjóð.“ Spámaðurinn lýsir undrun sinni yfir því að Guð skuli nota „svikarana“ til að refsa Júdamönnum. (Habakkuk 1:3, 6, 13) Jehóva fullvissar hann um að hinn réttláti muni lifa en óvinurinn sleppi ekki við hegningu. Og Habakkuk lýsir fimm sinnum yfir ógæfu á hendur óvininum frá Kaldeu. — Habakkuk 2:4.

Í sálmi biðst Habakkuk miskunnar og rifjar upp hvernig Jehóva sýndi ógurlegan mátt sinn við Rauðahaf, í eyðimörkinni og við Jeríkó. Hann segir einnig fyrir hvernig Jehóva gengur fram í reiði sinni til að fullnægja dómi við Harmagedón. Bæninni lýkur svo: „Drottinn Guð er styrkur minn! Hann gjörir fætur mína sem hindanna og lætur mig ganga eftir hæðunum.“ — Habakkuk 3:1, 19.

Biblíuspurningar og svör:

1:5, 6 — Af hverju kann Gyðingum að hafa þótt ótrúlegt að Kaldear yrðu reistir upp gegn Jerúsalem? Hinir voldugu Egyptar höfðu tögl og hagldir í Júda um það leyti sem Habakkuk byrjaði að spá. (2. Konungabók 23:29, 30, 34) Babýloníumenn voru vissulega að eflast en höfðu þó ekki sigrað Nekó faraó. (Jeremía 46:2) Auk þess var musteri Jehóva í Jerúsalem og konungsætt Davíðs hafði setið þar óslitið. Gyðingum á þeim tíma þótti óhugsandi að Guð myndi leyfa Kaldeum að eyða Jerúsalem. En þó að þeim hafi þótt lýsing Habakkuks hljóma ótrúlega rættust sýnir spámannsins „vissulega“ árið 607 f.Kr. þegar Babýloníumenn eyddu Jerúsalem. — Habakkuk 2:3.

2:5 — Hver er ‚maðurinn sem girnist‘ og af hverju ‚verður hann eigi saddur‘? ‚Maðurinn‘ er Babýloníumenn sem beittu hernaðarmætti sínum til að leggja undir sig þjóðir. En þeim myndi ekki takast að safna til sín öllum þjóðum því að Jehóva ætlaði að nota Meda og Persa til að sigra þá. Á okkar dögum er ‚maðurinn sem girnist‘ samsettur úr stjórnmálaöflum. Þau eru líka haldin óseðjandi löngun í meiri völd og ‚verða ekki södd‘ af því að þau ná ekki því markmið sínu að ‚safna til sín öllum þjóðum‘. Aðeins Guðsríki getur sameinað mannkyn. — Matteus 6:9, 10.

Lærdómur:

1:1-4; 1:12–2:1. Habakkuk spurði einlægra spurninga og Jehóva svaraði honum. Hinn sanni Guð hlustar á bænir dyggra þjóna sinna.

2:1. Við ættum að vera andlega árvökur og athafnasöm líkt og Habakkuk. Við ættum einnig að vera tilbúin til að leiðrétta hugsunarhátt okkar í samræmi við ‚svör‘ Jehóva og leiðréttingar.

2:3; 3:16. Missum ekki niður árveknina og ákafann meðan við bíðum þess að dagur Jehóva renni upp.

2:4. Við verðum að vera þolgóð og trúföst til að lifa af dómsdag Jehóva. — Hebreabréfið 10:36-38.

2:6, 7, 9, 12, 15, 19. Ógæfa bíður þeirra sem sækjast eftir óheiðarlegum ávinningi, hafa ánægju af ofbeldi, stunda siðleysi eða dýrka skurðgoð. Við verðum að forðast allar slíkar langanir og öll slík verk.

2:11. Ef við afhjúpuðum ekki illsku þessa heims myndu „steinarnir . . . hrópa“. Það er mikilvægt að halda hugrökk áfram að boða fagnaðarerindið um ríkið.

3:6. Ekkert getur staðið í vegi fyrir Jehóva þegar hann fullnægir dómi, ekki einu sinni stofnanir eða samtök manna sem virðast eins varanleg og fjöllin og hæðirnar.

3:13. Við höfum loforð fyrir því að það verði ekki tilviljun háð hverjir farast í Harmagedón. Jehóva bjargar trúföstum þjónum sínum.

3:17-19. Við gætum þurft að búa við harðrétti fyrir Harmagedón og meðan á því stendur. Hins vegar getum við treyst að Jehóva gefi okkur styrk til að halda áfram að þjóna sér með gleði.

„NÁLÆGUR ER DAGUR DROTTINS“

(Sefanía 1:1–3:20)

Baalsdýrkun er útbreidd í Júda. Jehóva segir fyrir munn Sefanía spámanns: „Ég mun útrétta hönd mína gegn Júda og gegn öllum Jerúsalembúum.“ Síðan segir spámaðurinn: „Nálægur er dagur Drottins.“ (Sefanía 1:4, 7, 14) Þeir einir sem uppfylla kröfur Guðs verða „faldir“ á þeim degi. — Sefanía 2:3.

„Vei hinni . . . ofríkisfullu borg,“ Jerúsalem. „Bíðið mín þess vegna — segir Drottinn, — bíðið þess dags, er ég rís upp sem vottur. Því að það er mitt ásett ráð að safna saman þjóðum . . . til þess að úthella yfir þá heift minni.“ En síðan lofar Jehóva: „Ég skal gjöra yður nafnkunna og fræga meðal allra þjóða jarðarinnar, þá er ég sný við högum yðar í augsýn yðar.“ — Sefanía 3:1, 8, 20.

Biblíuspurningar og svör:

2:13, 14 — Hvaða ‚kliður í gluggatóttunum‘ átti að heyrast í Níníve eftir að hún væri eydd? Þar eð borgin átti að verða bústaður fugla og villidýra hlýtur að vera átt við fuglasöng og gnauð vindsins í gluggatóttum auðra húsanna.

3:9 — Hvað er átt við þegar talað er um „hreinar varir“? Hér er átt við hið hreina tungumál sem er að finna í orði Guðs. Það felur í sér allar kenningar Biblíunnar. Við tölum það með því að trúa sannleika Biblíunnar, kenna hann öðrum á réttan hátt og lifa í samræmi við vilja Guðs.

Lærdómur:

1:8. Greinilegt er að sumir á dögum Sefanía vildu njóta viðurkenningar þjóðanna í kring með því að „klæðast útlenskum klæðnaði“. Það væri heimskulegt af þjónum Guðs nú á tímum að reyna að laga sig að heiminum með þessum hætti.

1:12; 3:5, 16. Jehóva sendi spámenn sína hvern af öðrum til að vara við dómum sínum. Hann gerði þetta enda þótt margir Gyðingar væru orðnir eins og harðnaðar dreggjar í botni vínámu — vanafastir og sinnulausir gagnvart boðskapnum. En við megum ekki ‚láta hugfallast‘ þó að fólk sé áhugalítið heldur verðum við að halda áfram að boða fagnaðarerindið um ríkið meðan dagur Jehóva nálgast.

2:3. Enginn nema Jehóva getur bjargað okkur á reiðidegi hans. Til að varðveita velþóknun hans þurfum við að ‚leita‘ hans með rækilegu námi í Biblíunni, með því að biðja hann að leiðbeina okkur og með því að styrkja tengslin við hann. Við þurfum að ‚ástunda réttlæti‘ með því að lifa siðferðilega hreinu lífi. Og við þurfum að ‚ástunda auðmýkt‘ með því að temja okkur hógværð og undirgefni.

2:4-15; 3:1-5. Kristni heimurinn og allar þjóðirnar, sem hafa kúgað þjóna Guðs, hljóta sömu örlög og Jerúsalem og þjóðirnar umhverfis þegar Jehóva fullnægir dómi sínum. (Opinberunarbókin 16:14, 16; 18:4-8) Við ættum að halda áfram að boða dóma Guðs óttalaust.

3:8, 9. Við búum okkur undir að bjargast á degi Jehóva með því að fá „hreinar varir“ og læra að tala hið hreina tungumál, og líka með því að ‚ákalla nafn hans‘ þegar við vígjumst honum. Við þjónum honum „einhuga“ ásamt söfnuði hans og færum honum „lofgjörðarfórn“. — Hebreabréfið 13:15.

„Hann . . . hraðar sér mjög“

Sálmaskáldið söng: „Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir.“ (Sálmur 37:10) Þegar við íhugum það sem spáð var um Níníve í bók Nahúms og um Babýlon og Júda í bók Habakkuks efumst við ekki um að orð sálmaskáldsins rætist. En hve miklu lengur þurfum við að bíða?

„Hinn mikli dagur Drottins er nálægur,“ segir í Sefanía 1:14, „hann er nálægur og hraðar sér mjög.“ Í spádómsbók Sefanía kemur einnig fram hvernig við getum verið falin á þeim degi og hvað við þurfum að gera núna til að búa okkur undir björgun. Já, „orð Guðs er lifandi og kröftugt“. — Hebreabréfið 4:12.

[Myndir á blaðsíðu 22]

Voldugir múrar Níníve komu ekki í veg fyrir að spádómur Nahúms rættist.

[Rétthafi]

Randy Olson/National Geographic Image Collection