Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir Malakíbókar

Höfuðþættir Malakíbókar

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir Malakíbókar

HIÐ endurbyggða musteri í Jerúsalem hefur staðið fullbúið í meira en 70 ár. Trúaráhugi Gyðinga hefur hins vegar dvínað mjög með tímanum. Prestarnir eru meira að segja orðnir spilltir. Hver ætlar að vekja þá til vitundar um hvernig þeir séu á vegi staddir og reyna að endurvekja áhuga þeirra á tilbeiðslunni? Jehóva felur Malakí spámanni þetta verkefni.

Bók Malakís er síðasta bók Hebresku ritninganna. Hún hefur að geyma innblásna spádóma sem spámaðurinn kemur til skila með kraftmiklum hætti. Með því að gefa gaum að efni hennar getum við búið okkur undir ‚hinn mikla og ógurlega dag Drottins‘ þegar núverandi heimskerfi líður undir lok. — Malakí 4:5.

PRESTAR HAFA „LEITT MARGA Í HRÖSUN“

(Malakí 1:1–2:17)

Jehóva lýsir tilfinningum sínum til Ísraelsmanna og segir: „Ég elska yður.“ En prestarnir hafa fyrirlitið nafn Guðs. Þeir hafa borið fram „óhreina fæðu“ á altari hans og „halta eða sjúka skepnu“ til fórnar. — Malakí 1:2, 6-8.

Prestarnir hafa „leitt marga í hrösun“ með fræðslu sinni. Menn breyta „sviksamlega hver við annan“. Sumir hafa tekið sér erlendar konur en aðrir brugðið trúnaði við „konu æsku [sinnar]“. — Malakí 2:8, 10, 11, 14-16.

Biblíuspurningar og svör:

2:2 — Hvernig sneri Jehóva „blessunum . . . í bölvun“ hjá prestunum sem fylgdu ekki lögmáli hans? Hann gerði það í þeim skilningi að blessunin, sem prestarnir óskuðu sér, snerist upp í bölvun.

2:3 — Hvað merkti það að ‚strá saur‘ framan í prestana? Samkvæmt lögmálinu átti að fara með saur fórnardýranna út fyrir herbúðirnar og brenna hann. (3. Mósebók 16:27) Að strá saur framan í prestana þýddi að Jehóva hafnaði fórnunum og þeir sem báru þær fram voru fyrirlitlegir í augum hans.

2:13 — Hverjir huldu altari Jehóva með tárum? Það voru eiginkonurnar sem komu í helgidóminn og úthelltu hjörtum sínum frammi fyrir Jehóva. Harmur þeirra var sprottinn af því að eiginmenn þeirra, sem voru Gyðingar, höfðu skilið við þær af fölsku tilefni og yfirgefið þær, sennilega til að giftast yngri, erlendum konum.

Lærdómur:

1:10. Jehóva hafði enga þóknun á fórnum ágjarnra presta sem tóku jafnvel gjald fyrir smávægilega þjónustu á borð við að loka dyrum og kveikja eld á altarinu. Það er mikilvægt að allar tilbeiðsluathafnir okkar, þar á meðal það sem við gerum í boðunarstarfinu, séu sprottnar af óeigingjörnum kærleika til Guðs og náungans en ekki af löngun í fjárhagslegan ávinning. — Matteus 22:37-39; 2. Korintubréf 11:7.

1:14; 2:17. Jehóva líður ekki hræsni.

2:7-9. Þeir sem fá það verkefni að kenna í söfnuðinum ættu að fullvissa sig um að það sem þeir kenna sé í samræmi við orð Guðs og biblíutengd rit hins ‚trúa ráðsmanns‘. — Lúkas 12:42; Jakobsbréfið 3:11.

2:10, 11. Jehóva ætlast til þess að tilbiðjendur sínir taki alvarlega þá ráðleggingu að giftast „aðeins . . . í Drottni“. — 1. Korintubréf 7:39.

2:15, 16. Sannir guðsdýrkendur eiga að halda í heiðri hjúskaparsáttmálann við eiginkonu æsku sinnar.

‚DROTTINN MUN KOMA TIL MUSTERIS SÍNS‘

(Malakí 3:1–4:6)

„Bráðlega mun hann koma til musteris síns, sá Drottinn er þér leitið“, það er að segja Jehóva Guð, og „engill sáttmálans“, Jesús Kristur. Guð mun nálægja sig þjóð sinni „til að halda dóm“ og ganga skyndilega fram sem vitni gegn öllum sem brjóta lög hans. Rituð er „minnisbók“ fyrir þá sem óttast hann. — Malakí 3:1, 3, 5, 16.

Sá dagur verður „brennandi sem ofn“ og allir óguðlegir farast. En áður en dagurinn rennur upp verður sendur spámaður til að „sætta feður við sonu og sonu við feður“. — Malakí 4:1, 5, 6.

Biblíuspurningar og svör:

3:1-3 — Hvenær komu „Drottinn“ og „engill sáttmálans“ til musterisins og hver var sendur á undan þeim? Jehóva sendi Jesú sem fulltrúa sinn til að hreinsa musterið hinn 10. nísan árið 33 og Jesús rak út þá sem seldu þar og keyptu. (Markús 11:15) Þetta var þrem og hálfu ári eftir að Jesús hafði verið skipaður til að taka við konungdómi. Jesús virðist sömuleiðis hafa komið ásamt Jehóva í andlega musterið þrem og hálfu ári eftir að hann settist í hásæti sem konungur á himnum. Þá kom í ljós að þjónar Guðs þurftu að hreinsast. Á fyrstu öld var Jóhannes skírari sendur til að búa Gyðinga undir komu Jesú Krists. Á okkar dögum var líka sendur sendiboði til að undirbúa komu Jehóva til andlega musterisins. Þetta var hópur biblíunemenda sem var, strax á níunda áratug 19. aldar, farinn að stunda biblíufræðslu til að kenna einlægu fólki mörg grundvallarsannindi Biblíunnar.

3:10 — Þegar talað er um „alla tíundina“, er þá átt við það að við eigum að gefa Jehóva allt? Móselögin voru afnumin með dauða Jesú. Þess vegna er þess ekki krafist að þjónar hans gjaldi tíund. En tíundin hefur táknræna merkingu. (Efesusbréfið 2:15) Hún táknar ekki að við gefum Jehóva allt sem við eigum. Tíund var goldin ár eftir ár en við gefum Jehóva allt í eitt skipti fyrir öll þegar við vígjumst honum og sýnum það með því að skírast. Allt sem við eigum tilheyrir Jehóva þaðan í frá. Hann leyfir okkur hins vegar að nota hluta af því — táknræna tíund — í þjónustu sinni eins og hjartað býður og í samræmi við aðstæður okkar. Þær fórnir, sem við færum Jehóva, eru meðal annars tími okkar, kraftar og fjármunir sem við notum þegar við boðum fagnaðarerindið og gerum fólk að lærisveinum. Sömuleiðis fela þær í sér að sækja safnaðarsamkomur, heimsækja sjúk og öldruð trúsystkini og styðja sanna tilbeiðslu fjárhagslega.

4:3 — Í hvaða skilningi eiga tilbiðjendur Jehóva að „sundur troða hina óguðlegu“? Þjónar Guðs á jörðinni gera það ekki í bókstaflegri merkingu því að þeir taka ekki þátt í að fullnægja dómi hans yfir þeim. Þeir gera þetta táknrænt með því að taka heilshugar þátt í fagnaðarhátíðinni sem haldin verður þegar heimur Satans er liðinn undir lok. — Sálmur 145:20; Opinberunarbókin 20:1-3.

4:4 — Af hverju ættum við að ‚muna eftir lögmáli Móse‘? Kristnir menn þurfa ekki að halda Móselögin en þau voru þó ‚skuggi hins góða sem var í vændum‘. (Hebreabréfið 10:1) Með því að gefa gaum að Móselögunum sjáum við hvernig þau uppfyllast. (Lúkas 24:44, 45) Og lögmálið hefur að geyma „eftirmyndir þeirra hluta, sem á himnum eru“. Það er nauðsynlegt að kynna sér þau til að skilja kenningar og hegðunarreglur kristninnar. — Hebreabréfið 9:23.

4:5, 6 — Hvern táknar Elía spámaður? „Elía“ átti að vinna endurreisnarstarf með því að undirbúa hjörtu fólks. Jesús Kristur benti á að Jóhannes skírari væri „Elía“ fyrstu aldar. (Matteus 11:12-14; Markús 9:11-13) Elía nútímans er sendur „áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur“ og er enginn annar en hinn „trúi og hyggni þjónn“. (Matteus 24:45) Þessi andasmurði hópur kristinna manna hefur unnið dyggilega að því að hjálpa fólki að eignast samband við Guð.

Lærdómur:

3:10. Við spillum fyrir okkur ef við gefum ekki Jehóva okkar besta því að þá hljótum við ekki blessun hans.

3:14, 15. Slæm fyrirmynd prestanna varð þess valdandi að Gyðingum fór að þykja lítils virði að þjóna Guði. Þeir sem gegna ábyrgðarstörfum í kristna söfnuðinum eiga að vera til fyrirmyndar. — 1. Pétursbréf 5:1-3.

3:16. Jehóva heldur skrá um þá sem óttast hann og eru honum trúir. Hann minnist þeirra og varðveitir þá þegar hann bindur enda á illan heim Satans. Verum alltaf staðráðin í að vera Guði trú. — Jobsbók 27:5.

4:1. Þegar Jehóva fullnægir dómi sínum hljóta bæði „rót“ og „kvistur“ sömu örlög, það er að segja að ung börn hljóta sama dóm og foreldrarnir. Það er alvarleg ábyrgð sem hvílir á foreldrum ungra barna. Kristnir foreldrar verða að leggja sig vel fram um að varðveita velþóknun Guðs og stöðu sína frammi fyrir honum. — 1. Korintubréf 7:14.

„Óttastu Guð“

Hverjir bjargast á ‚hinum mikla og ógurlega degi Drottins‘? (Malakí 4:5) Jehóva segir: „Yfir yður, sem óttist nafn mitt, mun réttlætissólin upp renna með græðslu undir vængjum sínum, og þér munuð út koma og leika yður eins og kálfar, sem út er hleypt úr stíu.“ — Malakí 4:2.

„Réttlætissólin“, Jesús Kristur, skín á þá sem virða og óttast nafn Guðs og þeir njóta velþóknunar hans. (Jóhannes 8:12) Þeir hljóta einnig ‚græðslu undir vængjum hans‘. Þeir eignast samband við Guð núna og læknast að fullu á líkama og sál í nýjum heimi. (Opinberunarbókin 22:1, 2) Þeir fagna og gleðjast „eins og kálfar, sem út er hleypt úr stíu“. Þar sem þessi blessun er í vændum skulum við fara eftir hvatningu Salómons konungs sem sagði: „Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ — Prédikarinn 12:13.

[Mynd á blaðsíðu 30]

Malakí spámaður var dyggur og kostgæfinn þjónn Guðs.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Við ættum að kenna í samræmi við Biblíuna.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Þjónar Jehóva virða hjúskaparsáttmálann.