Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spádómar Jehóva rætast alltaf

Spádómar Jehóva rætast alltaf

Spádómar Jehóva rætast alltaf

„ÉG ER Guð og enginn annar, hinn sanni Guð og enginn minn líki. Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið.“ (Jesaja 46:9, 10) Þetta segir Jehóva Guð sem getur sagt framtíðina fyrir án þess að skeika.

Alkunna er að maðurinn er ófær um að segja nákvæmlega fyrir um ókomna atburði. Biblían er spádómsbók og það ætti að vera öllum sannleiksleitandi mönnum hvöt til að rannsaka hvort Guð sé í raun höfundur hennar. Skoðum nokkra spádóma Biblíunnar sem hafa þegar ræst.

Fornar þjóðir

Guð sagði fyrir að Babýlon yrði afmáð fyrir fullt og allt og sömuleiðis Edóm, Móab og Ammon. (Jeremía 48:42; 49:17, 18; 51:24-26; Óbadía 8, 18; Sefanía 2:8, 9) Sú staðreynd að þessi ríki hurfu af sjónarsviðinu sannar að spádómlegt orð Guðs er áreiðanlegt.

En sumir segja kannski að hver sem er geti spáð því að þjóð hverfi af sjónarsviðinu með tímanum, hversu voldug sem hún er. En þeir gleyma þeirri mikilvægu staðreynd að Biblían gekk lengra. Hún sagði til dæmis nákvæmlega fyrir hvernig Babýlon myndi falla. Medar áttu að sigra hana, innrásarliðið átti að vera undir forystu Kýrusar og fljótið, sem varði borgina, átti að þorna upp. — Jesaja 13:17-19; 44:27–45:1.

Biblían spáði hins vegar ekki alltaf að sigraðar þjóðir yrðu afmáðar. Þegar hún spáði því að Babýloníumenn myndu sigra Jerúsalem sagði Guð að borgin yrði endurreist þótt það hafi verið stefna Babýloníumanna að sleppa aldrei föngum. (Jeremía 24:4-7; 29:10; 30:18, 19) Þetta rættist og afkomendur Gyðinga eru til sem þjóð enn þann dag í dag.

Jehóva spáði líka að Egyptaland myndi líða undir lok sem heimsveldi en að „eftir það [skyldi] það byggt vera, eins og fyrri á dögum“. Með tímanum yrði þetta forna veldi aðeins „lítilfjörlegt ríki“. (Jeremía 46:25, 26; Esekíel 29:14, 15) Þessi orð rættust líka. Auk þess spáði Jehóva að Grikkland myndi falla sem heimsveldi en hann sagði aldrei að þjóðin sem slík myndi líða undir lok. Já, menningarsamfélög, sem Jehóva spáði að myndu gereyðast, hafa horfið en önnur, sem hann spáði engu slíku um, eru enn á sjónarsviðinu. Hvað lærum við af því? Við lærum að í orði Guðs er að finna sanna, áreiðanlega spádóma.

Ótrúleg nákvæmni

Eins og fram kom hér á undan lýsti Jehóva ýmsum smáatriðum varðandi fall Babýlonar. Hið sama er að segja um fall Týrusar. Í spádómsbók Esekíels kom fram að „húsagrjótinu, viðunum og rofinu“ yrði varpað „á sjó út“. (Esekíel 26:4, 5, 12) Þessi spádómur rættist árið 332 f.Kr. þegar Alexander mikli lét her sinn nota rústir þess hluta Týrusar sem var á meginlandinu til að gera veg út í eyna þar sem hinn hluti borgarinnar stóð. Síðan unnu þeir eyborgina.

Í spádóminum í Daníel 8:5-8, 21, 22 og 11:3, 4 er líka að finna mjög ítarlegar upplýsingar um óvenjulega voldugan „Grikklands konung“. Þessi konungur yrði drepinn á hátindi ferils síns og ríki hans skipt milli fjögurra manna en ekki afkomenda hans. Meira en 200 árum eftir að þessi spádómur var skrásettur kom Alexander mikli fram á sjónarsviðið og reyndist vera þessi voldugi konungur. Sagan segir okkur að hann hafi dáið fyrir aldur fram og að ríki hans hafi að lokum skipst milli fjögurra hershöfðingja hans. Og þeir voru ekki afkomendur hans.

Gagnrýnendur hafa haldið því fram að spádómurinn hljóti að hafa verið ritaður eftir að þessir atburðir áttu sér stað. En líttu aftur á versin í Daníelsbók sem vitnað var í hér á undan. Ef litið er á þessi orð sem spádóm er nákvæmnin ótrúleg. En hvað ef litið er á þetta sem mannkynssögu í spádómsgervi? Eru þá ekki augljósar gloppur í frásögunni? Segjum sem svo að svikari, sem var uppi eftir daga Alexanders, hafi viljað vekja hrifningu lesenda með fölsuðum spádómi. Hvers vegna tók hann þá ekki fram að strax eftir dauða Alexanders myndu tveir af sonum hans reyna að taka völdin en báðir vera ráðnir af dögum? Af hverju nefndi hann ekki að margir áratugir myndu líða áður en allir fjórir hershöfðingjarnir næðu völdum hver í sínum hluta af heimsveldi Alexanders? Og af hverju nafngreindi hann ekki konunginn mikla og hershöfðingjana fjóra?

Það er ekkert nýtt að menn staðhæfi að spádómar Biblíunnar hafi verið ritaðir eftir á þó að aldrei hafi tekist að sanna það. Þeir sem halda þessu fram gefa sér að óathuguðu máli að það sé ekki hægt að segja fyrir um ókomna atburði. Þeir viðurkenna ekki að Biblían sé orð Guðs og því finna þeir sig knúna til að útskýra allt frá mannlegum sjónarhóli. En þrátt fyrir það innblés Guð í visku sinni nógu ítarlega spádóma til að sanna að hann sé höfundur Biblíunnar. *

Þú getur styrkt trúna með því að gefa þér tíma til að hugleiða biblíuspádóma og uppfyllingu þeirra. Væri ekki tilvalið að hafa það sem námsverkefni að rannsaka spádóma Biblíunnar? Taflan á bls. 200 í bókinni Hvað kennir Biblían? getur komið að góðu gagni. * Ef þú fylgir þessari tillögu skaltu nálgast verkefnið með það að markmiði að byggja upp trú þína. En reyndu ekki aðeins að komast yfir sem mest efni. Hugleiddu frekar það sem þú lest með það í huga að spádómar Jehóva rætast alltaf.

[Neðanmáls]

^ gr. 13 Finna má frekari rök gegn því að spádómar Biblíunnar hafi verið ritaðir eftir að atburðirnir áttu sér stað á bls. 106-11 í bókinni Er til skapari sem er annt um okkur?, gefin út af Vottum Jehóva.

^ gr. 14 Gefin út af Vottum Jehóva.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 24]

GÓÐAR LÍFSREGLUR

Það er athyglisvert að Guð, sem spáði svo nákvæmlega um uppgang og fall heimsveldanna, skuli líka vera höfundur þeirra góðu lífsreglna sem er að finna í Biblíunni. Hér eru nokkrar þeirra:

Maður uppsker eins og maður sáir. — Galatabréfið 6:7.

Sælla er að gefa en þiggja. — Postulasagan 20:35.

Hamingjan er háð því að maður svali andlegri þörf sinni. — Lúkas 11:28.

Ef þú fylgir þessum lífsreglum geturðu verið viss um að þær færi þér hamingju og farsæld.

[Myndir á blaðsíðu 22, 23]

Í Biblíunni var því spáð að þessi ríki myndu hverfa af sjónarsviðinu . . .

EDÓM

BABÝLON

. . . en ekki þessi.

GRIKKLAND

EGYPTALAND

[Credit lines]

Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.

WHO photo by Edouard Boubat

[Mynd á blaðsíðu 23]

Alexander mikli