Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lausn undan örvæntingu unglingsáranna

Lausn undan örvæntingu unglingsáranna

Lausn undan örvæntingu unglingsáranna

Eftir Eusebio Morcillo

Í september 1993 heimsótti ég öryggisfangelsi. Tilefnið var að einn fanginn, Mariví, yngri systir mín, ætlaði að láta skírast. Nokkrir vistmenn og starfsmenn fangelsisins fylgdust með þegar ég framkvæmdi skírnarathöfnina. Áður en ég útskýri hvernig stóð á því að við systkinin vorum stödd þarna ætla ég að segja ykkur frá unglingsárum okkar.

ÉG FÆDDIST á Spáni 5. maí 1954, elstur átta systkina. Mariví var þriðja í röðinni. Amma ól okkur upp í kaþólskri trú og ég á ánægjulegar minningar um að hafa trúað á Guð á þeim tíma. En andrúmsloftið á heimili foreldra minna var langt frá því að vera heilnæmt. Pabbi var vanur að berja móður mína og okkur börnin. Ótti var hluti lífsins og það tók mig sárt að horfa upp á mömmu þjást.

Í skólanum mætti ég annars konar aðstæðum sem ollu mér vonbrigðum. Einn af kennurunum, sem var prestur, sló höfði okkar í vegginn ef við svöruðum spurningu rangt. Annar prestur misnotaði nemendur kynferðislega þegar hann fór yfir heimaverkefnin með þeim. Og kenningar kaþólsku kirkjunnar eins og um vítiskvalir gerðu mig ringlaðan og hræddan. Ég missti fljótlega trúna á Guð.

Innihaldslaust líf

Þar sem enginn leiðbeindi mér um vegi Guðs fór ég að umgangast siðlaust og ofbeldisfullt fólk á diskótekum. Oft brutust út slagsmál og var þá barist með hnífum, keðjum, glösum og stólum. Þótt ég tæki ekki beinan þátt í ofbeldisverkunum var ég einu sinni barinn svo að ég missti meðvitund.

Um síðir varð ég þreyttur á þessu umhverfi og leitaði mér að rólegri diskótekum. Jafnvel á þeim stöðum var algengt að fólk neytti fíkniefna. En fíkniefnin veittu mér ekki ánægju og hugarró heldur fékk ég ofskynjanir og kvíðaköst.

Þótt ég væri óánægður dró ég einn af yngri bræðrum mínum, José Luis, og Miguel, náinn vin hans, með mér út í sama lífernið. Við vorum sokknir í spillingardíki heimsins líkt og fjöldi spænskra ungmenna á þeim tíma. Ég gerði næstum allt til að fá peninga fyrir fíkniefnum. Ég hafði enga sjálfsvirðingu.

Jehóva kemur til bjargar

Um þetta leyti talaði ég nokkrum sinnum við vini mína um tilvist Guðs og tilgang lífsins. Ég fór að leita að Guði með því að líta í kringum mig eftir einhverjum sem ég gæti trúað fyrir hugleiðingum mínum. Ég hafði tekið eftir því að Francisco, einn af vinnufélögum mínum, skar sig úr. Hann virtist ánægður, heiðarlegur og vingjarnlegur svo að ég ákvað að trúa honum fyrir því sem mér lá á hjarta. Francisco var vottur Jehóva og hann lét mig fá eintak af Varðturninum þar sem fjallað var um fíkniefni.

Þegar ég hafði lesið greinina bað ég til Guðs um hjálp: „Guð, ég veit að þú ert til og mig langar að kynnast þér og gera vilja þinn. Ég bið þig um að hjálpa mér.“ Francisco og aðrir vottar notuðu Biblíuna til að hvetja mig áfram og gáfu mér biblíutengd rit til að lesa. Mér varð ljóst að þeir voru að veita mér þá hjálp sem ég hafði beðið Jehóva um. Ég fór fljótlega að tala við félaga mína og José Luis um það sem ég var að kynna mér.

Dag einn þegar ég var að fara út af rokktónleikum ásamt nokkrum vinum, tók ég mig út úr hópnum. Ég horfði á þá eins og hver annar sjónarvottur og það rann upp fyrir mér hvað hegðun okkar var orðin andstyggileg vegna fíkniefnaneyslunnar. Á því augnabliki ákvað ég að segja skilið við þetta líferni og verða vottur Jehóva.

Ég bað Francisco um biblíu og hann gaf mér hana ásamt bókinni Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs. * Þegar ég las loforð Guðs um að hann muni þerra hvert tár og jafnvel að dauðinn muni ekki vera framar til efaðist ég ekki um að ég hefði fundið sannleikann sem gerir mennina frjálsa. (Jóhannes 8:32; Opinberunarbókin 21:4) Seinna kom ég á samkomu í ríkissal Votta Jehóva. Vinsemdin og hlýjan sem mætti mér þar hafði mikil áhrif á mig.

Þar sem mig langaði ákaflega mikið til að segja öðrum frá því sem ég hafði upplifað í ríkissalnum náði ég strax í José Luis og félaga mína og sagði þeim alla söguna. Nokkrum dögum síðar mættum við allir á samkomu. Stúlka, sem sat fyrir framan okkur, skotraði augunum snöggvast til okkar. Henni varð greinilega um og ó að sjá þennan hóp síðhærðra hippa og hún passaði sig að líta ekki aftur við. Hún hlýtur að hafa orðið undrandi þegar við komum aftur í ríkissalinn vikuna eftir því að þá klæddumst við jakkafötum og vorum með hálsbindi.

Stuttu síðar sóttum við Miguel einnig svæðismót hjá Vottum Jehóva. Við höfðum aldrei áður upplifað nokkuð í líkingu við það — sannkallað bræðrafélag fólks á öllum aldri. Og það skrítna var að mótið var haldið á sama stað og við vorum nýbúnir að vera á rokktónleikum. En við þetta tækifæri var bæði andrúmsloftið og tónlistin upplífgandi.

Við félagarnir fórum nú allir að kynna okkur Biblíuna. Um það bil átta mánuðum síðar, 26. júlí 1974, létum við Miguel skírast. Við vorum báðir tvítugir. Fjórir aðrir úr hópnum létu skírast nokkrum mánuðum síðar. Það sem ég hafði lært í Biblíunni varð til þess að ég fór að hjálpa móður minni við heimilisstörfin og segja henni frá trú minni. Samband okkar varð náið. Ég notaði einnig mikinn tíma til að hjálpa systkinum mínum.

Með tímanum lærði móðir mín og öll systkinin nema eitt sannleika Biblíunnar og voru skírð sem vottar Jehóva. Árið 1977 kvæntist ég Soledad. Það var hún sem hafði orðið svo skelkuð þegar hún sá okkur á samkomu í ríkissalnum í fyrsta sinn. Innan nokkurra mánaða urðum við bæði brautryðjendur eins og vottar Jehóva kalla þá sem hafa það að aðalstarfi að boða fagnaðarerindið.

Ástvini borgið

Mariví, yngri systir mín, hafði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi á barnsaldri og sú hræðilega reynsla hafði haft djúp áhrif á hana. Þegar hún var táningur byrjaði hún að lifa siðlausu lífi sem leiddi til fíkniefnaneyslu, þjófnaða og vændis. Hún lenti í fangelsi 23 ára og þar hélt hún áfram þessu rangsnúna líferni.

Um þetta leyti þjónaði ég sem farandumsjónarmaður í söfnuði Votta Jehóva. Árið 1989 var okkur Soledad úthlutað svæðinu þar sem Mariví sat í fangelsi. Yfirvöld höfðu þá nýlega tekið son hennar frá henni. Hún var niðurbrotin og hana langaði ekki til að lifa lengur. Dag einn heimsótti ég hana og stakk upp á því að við læsum saman í Biblíunni og hún féllst á það. Þegar við höfðum lesið saman í einn mánuð hætti hún að neyta fíkniefna og tóbaks. Ég varð gagntekinn af að sjá að Jehóva skyldi gefa henni styrk til að gera þessar breytingar á lífi sínu. — Hebreabréfið 4:12.

Skömmu eftir að Mariví hóf biblíunámið fór hún að segja samföngum sínum og starfsmönnum fangelsisins frá sannleika Biblíunnar. Hún hélt áfram boðunarstarfinu þótt hún væri flutt úr einu fangelsinu í annað. Í einu þeirra vitnaði hún meira að segja klefa úr klefa. Á þessum árum hjálpaði Mariví mörgum vistmönnum í mismunandi hegningarhúsum að kynna sér Biblíuna.

Dag einn sagði Mariví mér að hana langaði til að vígja líf sitt Jehóva og láta skírast. En hún fékk ekki að yfirgefa fangelsið og engum var leyft að skíra hana í fangelsinu. Hún mátti þola þetta spillta fangelsisumhverfi í fjögur ár til viðbótar. Hvernig gat hún haldið trú sinni? Á nákvæmlega sama tíma og safnaðarsamkomur voru haldnar á svæðinu fór hún yfir dagskrárefnið í fangaklefanum. Hún fylgdi einnig fastri reglu í biblíunámi sínu og bænahaldi.

Það kom að því að Mariví var flutt í öryggisfangelsi þar sem var sundlaug. Hún sá fram á að við þessar nýju aðstæður gæti hún látið skírast. Og viti menn! Mariví fékk að lokum leyfi. Þannig bar það til að ég flutti skírnarræðuna. Ég var hjá henni á mikilvægasta augnabliki ævi hennar.

Fyrra líferni Mariví varð til þess að hún fékk alnæmi. Vegna góðrar hegðunar losnaði hún úr fangelsinu áður en hún hafði setið af sér allan dóminn. Það var í mars 1994. Hún bjó með móður okkar og stundaði trú sína af kappi þar til hún lést tveimur árum síðar.

Úr viðjum skaðlegra hugsana

Ég hef ekki heldur farið varhluta af afleiðingum fyrra lífernis. Ofbeldið sem ég mátti þola af hendi föður míns og lífernið á táningsárunum settu mark sitt á persónuleika minn. Oft hefur sektarkennd og lágt sjálfsmat þjakað mig á fullorðinsárunum. Stundum hef ég verið mjög niðurdreginn. En orð Guðs hefur verið mér ómetanleg hjálp í baráttunni við þessar truflandi tilfinningar. Með því að hugleiða aftur og aftur ritningarstaði eins og Jesaja 1:18 og Sálm 103:8-13 hefur mér tekist að deyfa sektarkenndina þegar hún hefur gert vart við sig.

Bænin er annað andlegt vopn sem ég nota til að berjaset gegn þeirri tilfinningu að ég sé einskis virði. Það hefur oft gerst að augun fyllast af tárum þegar ég bið til Jehóva. En orðin í 1. Jóhannesarbréfi 3:19, 20 styrkja mig: „Af þessu munum vér þekkja, að vér erum sannleikans megin og munum geta friðað hjörtu vor frammi fyrir honum, hvað sem hjarta vort kann að dæma oss fyrir. Því að Guð er meiri en hjarta vort og þekkir alla hluti.“

Fyrst ég nálgast Guð af einlægni með „sundurmarið og sundurkramið hjarta“ er ég víst ekki eins slæmur og ég hélt einu sinni. Biblían fullvissar alla, sem leita Jehóva, um að hann fyrirlítur ekki þá sem iðrast af einlægni fyrri breytni sinnar og hafa farið að breyta samkvæmt vilja hans. — Sálmur 51:19.

Hvenær sem vanmáttartilfinning lætur á sér kræla reyni ég að fylla hugann af jákvæðum hugsunum, sams konar andlegu efni og minnst er á í Filippíbréfinu 4:8. Ég hef lagt á minnið Sálm 23 og fjallræðuna. Þegar skaðlegar hugsanir sækja á mig fer ég með þessa ritningarstaði með sjálfum mér. Þessi hugarhreinsun kemur sér sérstaklega vel þegar ég er andvaka.

Önnur hjálp, sem ég hef fengið, er hrósið frá eiginkonu minni og öðrum þroskuðum trúsystkinum. Þótt mér hafi í fyrstu fundist erfitt að taka til greina hvatningarorð þeirra hefur Biblían hjálpað mér að skilja að kærleikurinn „trúir öllu“. (1. Korintubréf 13:7) Og auðvitað hef ég lært smám saman að vera auðmjúkur og viðurkenna veikleika mína og takmörk.

Baráttan við neikvæðar tilfinningar hefur haft þann kost að mér hefur reynst auðveldara að sýna öðrum samúð í starfi mínu sem farandhirðir. Í næstum 30 ár höfum við hjónin haft að aðalstarfi að vera boðberar fagnaðarerindisins. Ánægjan sem fylgir því að veita öðrum þjónustu verður til þess að ég á sífellt auðveldara með að ýta frá mér neikvæðum tilfinningum og minningum um ömurlega lífsreynslu.

Þegar ég lít yfir farinn veg og hugsa um alla þá blessun sem Jehóva hefur veitt mér langar mig til að taka undir með sálmaritaranum: „Lofa þú Drottin . . . hann [sem] fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein, leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.“ — Sálmur 103:1-4.

[Neðanmáls]

^ gr. 14 Gefin út af Vottum Jehóva en ekki fáanleg lengur.

[Innskot á blaðsíðu 30]

Oft hefur sektarkennd og lágt sjálfsmat þjakað mig en orð Guðs hefur verið mér ómetanleg hjálp í baráttunni við þessar neikvæðu tilfinningar.

[Myndir á blaðsíðu 27]

José Luis, bróðir minn, og Miguel, vinur hans, fylgdu bæði slæmu og góðu fordæmi mínu.

[Mynd á blaðsíðu 28, 29]

Morcillo-fjölskyldan árið 1973.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Mariví í fangelsinu.

[Mynd á blaðsíðu 30]

Með Soledad, eiginkonu minni.