Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er ríki Guðs í hjörtum okkar?

Er ríki Guðs í hjörtum okkar?

Lesendur spyrja

Er ríki Guðs í hjörtum okkar?

Margir trúa því að svo sé og svara spurningunni hér að ofan játandi. Til dæmis er fullyrt í alfræðiorðabókinni The Catholic Encyclopedia: „Guðsríki merkir . . . að Guð stjórni í hjörtum okkar.“ Prestar kenna yfirleitt þessa hugmynd. Kennir Biblían í raun og veru að ríki Guðs sé í hjörtum manna?

Sumir halda að Jesús hafi fyrstur komið fram með hugmyndina um að Guðsríki væri í hjörtum manna. Í sumum biblíuþýðingum er haft eftir Jesú: „Guðs ríki er innra með yður.“ (Lúkas 17:21) Er þetta nákvæm þýðing á orðum hans? Átti hann raunverulega við að ríki Guðs væri að finna innra með mönnum — í hjörtum þeirra?

Fyrst skulum við athuga hvað hjarta mannsins er. Þegar talað er um það í Biblíunni er yfirleitt átt við hið táknræna hjarta, hinn innri mann, uppsprettu hugsana, viðhorfa og tilfinninga. Sú hugmynd að eitthvað eins háleitt og ríki Guðs búi í hjörtum manna — og geti breytt fólki og göfgað það, svo dæmi sé tekið — hljómar kannski heillandi en er hún rökrétt?

Í Biblíunni stendur: „Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það.“ (Jeremía 17:9) Og Jesús sagði: „Innan frá, úr hjarta mannsins, koma hinar illu hugsanir, saurlifnaður, þjófnaður, manndráp, hórdómur, ágirnd, illmennska.“ (Markús 7:20-22) Má ekki rekja flestar orsakir óhamingju í heiminum til syndugra hjartna manna? Hvernig getur þá fullkomið ríki Guðs átt upptök sín þar? Hjarta mannsins getur ekki gefið af sér Guðsríki frekar en þistlar geta gefið af sér fíkjur. — Matteus 7:16.

Í öðru lagi skulum við hafa í huga hverja Jesús var að tala við þegar hann sagði orðin í Lúkasi 17:21. Í versinu á undan stendur: „Farísear spurðu hann, hvenær Guðs ríki kæmi. Hann svaraði þeim.“ (Lúkas 17:20) Farísearnir voru óvinir Jesú. Jesús sagði að þessir hræsnarar kæmust ekki inn í Guðsríki. (Matteus 23:13) Fyrst faríseunum var ekki ætlað að komast inn í Guðsríki gat þetta ríki auðvitað ekki búið í hjörtum þeirra. Hvað átti Jesús þá við?

Í fjölda vandaðra þýðinga hafa orð Jesú verið þýdd á svipaðan hátt og gert er neðanmáls í íslensku biblíunni frá 1981. Þar segir: „Guðs ríki er meðal yðar.“ Hvernig var Guðsríki meðal þessa fólks á þeim tíma og þá einnig meðal faríseanna? Jehóva Guð hafði valið Jesú til að vera konung Guðsríkis og Jesús var mitt á meðal þessa fólks. Hann fræddi fólk um Guðsríki og vann jafnvel kraftaverk til að sýna fram á hverju þetta ríki myndi koma til leiðar. Í þeim skilningi var Guðsríki meðal þeirra.

Það er greinilegt að ekkert í Biblíunni styður þá hugmynd að ríki Guðs sé í hjörtum manna. Aftur á móti er það raunveruleg stjórn sem mun koma á stórkostlegum breytingum á jörðinni alveg eins og spámennirnir sögðu fyrir. — Jesaja 9:6, 7; Daníel 2:44.