Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kenndu börnunum

Markús gafst ekki upp

Markús gafst ekki upp

MARKÚS skrifaði eina af þeim fjórum biblíubókum sem segja frá ævi Jesú. Hún er styst þeirra og það er auðveldast að lesa hana. Hver var Markús? Heldurðu að hann hafi þekkt Jesú? — * Við skulum skoða hvaða prófraunum Markús lenti í og athuga hvers vegna hann gafst aldrei upp á því að vera kristinn maður.

Markús er fyrst nefndur á nafn í Biblíunni eftir að Heródes Agrippa hafði varpað Pétri postula í fangelsi. Nótt eina frelsaði engill Pétur og hann fór beint heim til Maríu, mömmu Markúsar, en hún bjó í Jerúsalem. Þetta gerðist um það bil 10 árum eftir að Jesús var tekinn af lífi á páskum árið 33. — Postulasagan 12:1-5, 11-17.

Veistu hvers vegna Pétur fór heim til Maríu? — Það var sennilega vegna þess að hann þekkti fjölskylduna og vissi að lærisveinar Jesú héldu samkomur þar. Barnabas, frændi Markúsar, hafði verið lærisveinn lengi eða að minnsta kosti frá því á hvítasunnuhátíðinni árið 33. Biblían segir að hann hafi verið örlátur við nýja lærisveina sem komu til hátíðarinnar. Það má því vel vera að Jesús hafi þekkt Barnabas og ættingja hans, Maríu og Markús. — Postulasagan 4:36, 37; Kólossubréfið 4:10.

Markús skrifar um það í guðspjalli sínu að nóttina sem Jesús var handtekinn hafi verið þar ungur maður, sem var í „línklæði“ og engu öðru. Þegar óvinirnir gripu Jesú segir Markús að ungi maðurinn hafi flúið. Hver heldurðu að þessi ungi maður hafi verið? — Já, það var líklega Markús. Þegar Jesús og postularnir fóru út um nóttina eftir að hafa haldið páska, hefur hann greinilega flýtt sér í línklæðið og elt þá. — Markús 14:51, 52.

Hver gæti þessi ungi maður verið? Hvað er að gerast og af hverju?

Markús hafði sterkar rætur í kristna söfnuðinum. Hann var líklega viðstaddur þegar heilögum anda var úthelt á hvítasunnunni árið 33 og hafði náinn félagsskap við trúfasta þjóna Guðs eins og til dæmis Pétur. En hann var líka mikið með Barnabasi frænda sínum. Barnabas hjálpaði Sál með því að kynna hann fyrir Pétri um það bil þremur árum eftir að Jesús birtist Sál í sýn. Þó nokkrum árum seinna var Barnabas sendur til Tarsus að leita að Sál. — Postulasagan 9:1-15, 27; 11:22-26; 12:25; Galatabréfið 1:18, 19.

Barnabas og Sál voru valdir til trúboðsstarfa árið 47. Þeir tóku Markús með sér en einhverra hluta vegna fór hann heim til Jerúsalem á undan þeim. Sál, sem síðar varð þekktur undir rómverska nafninu Páll, reiddist að Markús skyldi fara heim. Honum fannst hann hafa brugðist alvarlega og fór ekki dult með það. — Postulasagan 13:1-3, 9, 13.

Þegar Páll og Barnabas komu heim úr trúboðsferðinni sögðu þeir frá frábærum árangri ferðarinnar. (Postulasagan 14:24-28) Nokkrum mánuðum síðar ákváðu þeir að fara aftur og heimsækja nýja lærisveina sem þeir höfðu prédikað fyrir. Barnabas vildi taka Markús með í ferðina. En hvað heldurðu að Páli hafi fundist um það? — Honum „þótti eigi rétt“ að taka Markús með af því að hann hafði áður yfirgefið þá og farið heim. Markúsi hlýtur að hafa þótt mjög leiðinlegt það sem gerðist næst.

Það fauk í Pál og Barnabas og „varð þeim mjög sundurorða.“ Síðan fóru þeir hvor í sína áttina. Barnabas tók Markús með sér til að prédika á Kýpur en Páll valdi Sílas með sér til að heimsækja nýju lærisveinana. Hugsaðu þér hvað það hlýtur að hafa verið sárt fyrir Markús að hafa valdið svona ósætti milli Páls og Barnabasar. — Postulasagan 15:36-41.

Við vitum ekki hvers vegna Markús fór snemma heim úr fyrri ferðinni. Líklega fannst honum hann hafa góða ástæðu til þess. Að minnsta kosti var Barnabas viss um að það myndi ekki endurtaka sig. Og það var rétt hjá honum. Markús gafst ekki upp. Seinna starfaði hann sem trúboði með Pétri í Babýlon, sem var langt frá heimabyggð hans. Þaðan sendi Pétur kveðjur og sagði: „Yður heilsar söfnuðurinn í Babýlon, . . . og Markús sonur minn.“ — 1. Pétursbréf 5:13.

Pétur og Markús voru greinilega mjög nánir samstarfsfélagar. Við sjáum það líka á Markúsarguðspjalli. Þar segir Markús frá atburðum sem Pétur hafði upplifað og sagt honum frá. Berum til dæmis saman frásögurnar af storminum á Galíleuvatni. Markús bætir við smáatriðum eins og hvar í bátnum Jesús svaf og á hverju hann svaf. Þetta eru atriði sem fiskimaður eins og Pétur myndi taka eftir. Eigum við ekki að lesa saman þessar biblíufrásögur í Matteusi 8:24, Markúsi 4:37, 38 og Lúkasi 8:23, og bera þær saman?

Síðar, þegar Páll var í fangelsi í Róm, hrósaði hann Markúsi fyrir dygga aðstoð. (Kólossubréfið 4:10, 11) Og þegar hann var fangelsaður þar aftur skrifaði hann Tímóteusi og bað hann að koma með Markús með sér og sagði: „Hann er mér þarfur til þjónustu.“ (2. Tímóteusarbréf 4:11) Já, Markús fékk einstök tækifæri til að þjóna Jehóva vegna þess að hann gafst ekki upp.

Hvaða blessun hlaut Markús af því að hann gafst ekki upp?

^ gr. 3 Ef þú ert að lesa fyrir barn er þankastrikinu ætlað að minna þig á að gera hlé á lestrinum og hvetja barnið til að segja skoðun sína.