Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kærleikur Guðs birtist í móðurástinni

Kærleikur Guðs birtist í móðurástinni

Kærleikur Guðs birtist í móðurástinni

„Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt þá gleymi ég þér samt ekki.“ — JESAJA 49:15.

NÝFÆTT barn hvílir í örmum móður sinnar þegar hún gefur því brjóst. Er þetta ekki lýsandi dæmi um óviðjafnanlega ást og blíðu? „Í fyrsta skiptið sem ég hélt á barninu mínu fann ég til óendanlegrar ástar og ábyrgðar gagnvart þessu nýja lífi,“ segir móðir að nafni Pam.

Flestum finnst það augljós staðreynd að móðurástin hefur geysimikil áhrif á þroska barns og rannsóknir hafa staðfest það. Samkvæmt skýrslu, sem gefin var út af Áætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um geðvernd, segir: „Rannsóknir hafa sýnt að ungbörn, sem eru yfirgefin og aðskilin frá móður sinni, verða óhamingjusöm og niðurdregin, stundum jafnvel örvæntingarfull.“ Í þessari sömu skýrslu var vitnað í rannsókn sem gaf til kynna að börn, sem fá ást og athygli frá unga aldri, séu líklegri til að hafa hærri greindarvísitölu en börn sem eru vanrækt.

Alan Schore er prófessor í geðlækningum við læknisfræðideild Kaliforníuháskóla í Los Angeles. Hann segir um mikilvægi móðurástarinnar: „Fyrsta samband barnsins, samband þess við móðurina, er fyrirmyndin og mótar hæfni einstaklingsins til að stofna til tilfinningatengsla við aðra síðar á ævinni.“

Því miður getur þunglyndi, veikindi eða annað álag orðið til þess að móðir vanræki barnið sitt eða gleymi jafnvel „brjóstbarni sínu“. (Jesaja 49:15) Það er hins vegar undantekning frekar en regla. Mæður virðast meira að segja forritaðar til að elska börnin sín. Vísindamenn hafa uppgötvað að við fæðingu eykst magn hormónsins oxýtósín í líkama móðurinnar en það veldur fæðingarhríðum og stuðlar síðan að mjólkurmyndun. Þetta sama hormón, sem myndast bæði hjá körlum og konum, er líka talið stuðla að þeirri hvöt að sýna ást og fórnfýsi.

Hver er uppruni kærleikans?

Þeir sem halda þróunarkenningunni á lofti segja að óeigingjarn kærleikur, eins og milli móður og barns, hafi orðið til af tilviljun og hafi varðveist sökum náttúruvals af því að hann komi tegundinni að gagni. Nettímaritið Mothering Magazine fullyrðir til dæmis: „Randkerfið, aðsetur tilfinninga, er fyrsti hluti heilans sem þróaðist til viðbótar við heilann sem við erfðum frá skriðdýrunum. Þessi hluti heilans gerir mæðrum og börnum kleift að tengjast tilfinningaböndum.“

Vísindin hafa að vísu staðfest að randkerfið á sinn þátt í tilfinningalífi okkar. En finnst þér rökrétt að móðurástin sé til komin vegna óvænts útvaxtar á skriðdýrsheila?

Lítum á hinn möguleikann. Biblían segir að mennirnir hafi verið skapaði eftir mynd Guðs, það er að segja með þann hæfileika að endurspegla eiginleika hans. (1. Mósebók 1:27) Höfuðeiginleiki Guðs er kærleikur. „Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð,“ skrifaði Jóhannes postuli. Af hverju tók hann svo til orða? „Því að Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Taktu eftir að í þessu biblíuversi segir ekki að Guð hafi til að bera kærleika heldur að hann kærleikur. Hann er uppspretta kærleikans.

Biblían lýsir kærleikanum þannig: „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Finnst þér rökrétt að kærleikurinn, göfugasti eiginleiki sem til er, hafi orðið til af tilviljun?

Hvaða áhrif hefur þetta á þig?

Langar þig ekki til að njóta kærleika eins og lýst er hér fyrir ofan? Það er ofureðlilegt. Af hverju? Af því að „við erum . . . Guðs ættar“. (Postulasagan 17:29) Við erum hönnuð til að þiggja slíkan kærleika og sýna hann öðrum. Og við getum verið viss um að Guð elskar okkur innilega. (Jóhannes 3:16; 1. Pétursbréf 5:6, 7) Í ritningarstaðnum í byrjun þessarar greinar segir að kærleikur Guðs til okkar sé öflugri og varanlegri en móðurástin.

En kannski hugsarðu með þér: Af hverju bindur Guð ekki enda á allar þjáningar fyrst hann er vitur, máttugur og kærleiksríkur? Af hverju leyfir hann að börn deyi, kúgun viðgangist og jörðin skemmist vegna óstjórnar og græðgi? Þetta eru góðar spurningar sem verðskulda skynsamleg svör.

Það er hægt að fá fullnægjandi svör við þessum spurningum hvað sem efahyggjumenn segja. Milljónir manna út um allan heim hafa fengið slík svör með því að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva. Útgefendur þessa tímarits hvetja þig til að gera hið sama. Þegar þú rannskar orð Guðs og sköpunarverkið mun þekking þín á honum vaxa og þú kemst að raun um að hann er ekki fjarlægur og óþekkjanlegur. Þú munt öllu heldur sannfærast um að „eigi er hann langt frá neinum af okkur“. — Postulasagan 17:27.

[Innskot á blaðsíðu 8]

Kærleikur Guðs til okkar er varanlegri en móðurástin.