Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Náttúruhamfarir á Salómonseyjum

Náttúruhamfarir á Salómonseyjum

Náttúruhamfarir á Salómonseyjum

Mánudaginn 2. apríl 2007 reið jarðskjálfti af stærðinni 8,1 á Richterkvarða yfir hluta Salómonseyja. Eyjarnar tilheyra eyjaklasa í hitabeltinu norðaustur af Ástralíu. Örfáum mínútum eftir skjálftann skullu himinháar öldur, sumar allt að 10 metra háar, á eyjum í vesturklasanum. Þessar hamfarir urðu 52 manns að bana og 6000 misstu heimili sín.

Strandbærinn Gizo á samnefndri eyju var einna verst úti. Þar búa um 7000 manns og bærinn er einungis í 45 km fjarlægð frá upptökum skjálftans. Lítill söfnuður Votta Jehóva þar í bæ bjó sig undir að halda minningarhátíðina um dauða Jesú þá um kvöldið. (1. Korintubréf 11:23-26) Dagurinn hófst eins og venjulega með fallegri sólarupprás og lygnum sjó. En kl. 7:39 að staðartíma reið jarðskjálftinn yfir.

Jarðskjálfti

Ron Parkinson er öldungur í söfnuðinum á staðnum. Hann og kona hans Dorothy voru að taka til morgunmatinn þegar jarðskjálftinn dundi yfir. „Gamla húsið okkar sveiflaðist til og frá eins og pálmatré en stóð samt,“ segir Ron. „Hávaðinn var ótrúlegur. Skápar, húsgögn, leirtau, píanó og annað lauslegt skall í gólfið. Við komumst með naumindum út úr húsinu. Dorothy var berfætt og skar sig á glerbrotum.“

Trúboðarnir Tony og Christine Shaw búa skammt frá og þau hlupu einnig út. „Jörðin hristist svo svakalega að ég datt og gat ekki staðið upp aftur,“ segir Christine. „Við sáum hús fljóta úti á sjónum. Stór alda hafði rifið þau upp frá grunni. Fólk reri í örvæntingu út á kanóum til að reyna að finna einhverja á lífi innan um brakið. Þá kom annar öflugur jarðskjálfti — og síðan sá þriðji. Eftirskjálftarnir héldu áfram í fimm daga. Þetta var hræðilegt.“

Síðan kom flóðbylgjan

Patson Baea var staddur á heimili sínu á eynni Sepo Hite, sem er 6 km frá Gizo, þegar jarðskjálftinn dundi yfir. Hvernig reiddi honum og fjölskyldunni af?

Patson lýsir þessari erfiðu reynslu: „Ég hljóp eftir ströndinni til Naomi, konu minnar, og fjögurra barna okkar. Þau höfðu kastast til jarðar en voru ómeidd. Börnin voru skjálfandi og sum þeirra grétu. Við Naomi náðum þó fljótlega að róa þau.“

„Ég tók eftir að sjórinn var eitthvað óvenjulegur. Flóðbylgja var greinilega á leiðinni. Litla eyjan okkar myndi líklega fara í kaf. Evalyn, móðir mín, bjó á smáeyju rétt hjá og hún var líka í hættu. Ég sagði fjölskyldunni að drífa sig upp í vélknúna kanóinn okkar og við lögðum af stað til að bjarga henni.“

„Eftir stutta stund fundum við gríðarstóra öldu fara undir kanóinn okkar. Ólgandi öldurnar risu og hnigu. Þegar við komum til móður minnar var hún ringluð og ráðvillt og þorði ekki að koma út í sjóinn. Naomi og Jeremy, 15 ára sonur okkar, stungu sér út í þungan strauminn og hjálpuðu henni að synda að kanóinum. Síðan settum við allt í botn og sigldum lengra út á sjó.“

„Þegar hér var komið sögu hafði sjávarborðið lækkað svo mikið að kóralrifin í kringum eyjarnar komu í ljós. En skyndilega reið stór alda yfir og báðar eyjarnar fóru í kaf. Gestahúsið okkar, sem stóð við ströndina, rifnaði upp og brotnaði í spón. Sjórinn flæddi inn um húsið okkar og eyðilagði margt innandyra. Þegar sjórinn sjatnaði náðum við að bjarga biblíum og söngbókum úr húsinu og fórum síðan til Gizo.“

Dauði og eyðilegging blasti við á leiðinni meðfram ströndinni. Skaðinn var mestur á vesturhluta Gizo-eyjunnar. Að minnsta kosti 13 þorp sópuðust burt þegar alda, sem náði allt að fimm metra hæð, skall á þeim.

Þetta kvöld komu 22 í ríkissal Votta Jehóva í Gizo til að halda minningarhátíðina um dauða Jesú. Sem betur fer var enginn þeirra alvarlega slasaður eftir hamfarirnar. „Það var rafmagnslaust og olíulamparnir okkar voru skemmdir,“ segir Ron, sem vitnað var í áður. „Bróðir Shaw flutti því ræðuna með vasaljósi. Við sungum Jehóva þakkarsöngva í myrkrinu háum rómi og fjölraddað.“

Hjálparstarf

Þegar fréttir af náttúruhamförunum bárust til höfuðborgarinnar Honiara, gerði deildarskrifstofa Votta Jehóva ráðstafanir þegar í stað til að veita neyðaraðstoð. Hægt var að staðfesta í gegnum síma að flestir vottanna á hamfarasvæðinu voru óhultir. Traustir einstaklingar voru gerðir út til að athuga aðstæður trúsystur sem bjó á afskekktum stað á Choiseul-eyju. Hún fannst heil á húfi. Fjármunir voru einnig sendir til Gizo til að kaupa hjálpargögn.

Fulltrúar deildarskrifstofunnar komu til Gizo á fimmtudegi með fyrsta fluginu eftir hamfarirnar. „Við tókum nokkra kassa af hjálpargögnum með okkur,“ segir Craig Tucker sem er í deildarnefndinni. „Aðrir farþegar þurftu að skilja eftir farangur vegna þyngdartakmarkana en sem betur fór komust allir kassarnir okkar með. Þetta var meðal fyrstu hjálpargagnanna sem bárust á hamfarasvæðið. Tveim dögum seinna kom meira af hjálpargögnum sjóleiðis.“

Tony Shaw og Patson Baea ásamt fleiri vottum frá Gizo sigldu í tvo tíma á kanó til að hjálpa vottum sem bjuggu afskekkt á eynni Ranongga. Eyjan er 32 km löng og 8 km breið og jarðskjálftinn hafði lyft henni upp um 2 metra. Flóðbylgjan, sem skall á eyjunum í kring, stafaði sennilega af því að eyjan ruddi frá sér miklum sjó þegar hún lyftist snögglega.

„Trúsystkini okkar á eynni voru yfir sig ánægð að sjá okkur,“ segir Tony. „Þau voru heil á húfi og héldu sig utandyra af ótta við eftirskjálfta. Við vorum fyrsti báturinn sem kom með hjálpargögn á svæðið. Áður en við snerum aftur heim sameinuðumst við í innilegri þakkarbæn til Jehóva.“

Patson segir: „Nokkrum dögum seinna fórum við aftur til Ranongga til að koma með meiri hjálpargögn og til að leita að vottafjölskyldu sem bjó á einangruðum stað á eynni. Að lokum fundum við Matthew Itu og fjölskyldu hans þar sem þau höfðu tjaldað lengst inni í skóginum. Þau grétu af gleði þegar þau sáu að við höfðum ekki gleymt þeim. Jarðskjálftinn hafði eyðilagt heimili þeirra og það sama var að segja um flest húsin í þorpinu þeirra. En þau hugsuðu samt mest um það að fá nýjar biblíur í staðinn fyrir þær sem höfðu glatast í hamförunum.“

Vottarnir fengu hrós

Þessi bróðurkærleikur fór ekki fram hjá fólki. „Blaðamaður, sem hafði gagnrýnt neyðaraðstoð stjórnvalda, var hissa og hrifinn þegar hann heyrði að Vottar Jehóva hefðu séð safnaðarmönnum sínum fyrir mat, segldúkum og öðrum nauðsynjum nokkrum dögum eftir skjálftann,“ segir Craig Tucker. „Þorpsbúar á Ranongga hrósuðu okkur fyrir skjót viðbrögð og kvörtuðu yfir lélegri aðstoð frá kirkjunni sinni,“ segir Patson. Kona nokkur sagði: „Söfnuðurinn ykkar var svo fljótur að koma til hjálpar.“

Vottarnir leituðust einnig við að hjálpa nágrönnum sínum. „Þegar við heimsóttum bráðabirgðaspítalann í Gizo sáum við hjón sem við höfðum nýlega hitt í boðunarstarfinu,“ segir Christine Shaw. „Þau höfðu bæði slasast og orðið fyrir miklu áfalli. Flóðbylgjan hafði hrifið dótturson konunnar frá henni og hann drukknað. Við flýttum okkur heim til að ná í mat og föt handa þeim. Þau voru mjög þakklát.“

En fórnarlömb náttúruhamfara þarfnast meira en efnislegrar aðstoðar. Þau þurfa sér í lagi á þeirri huggun að halda sem einungis orð Guðs, Biblían, getur veitt þeim. „Sumir prestar sögðu að Guð væri að refsa fólkinu fyrir syndir þess,“ segir Ron. „En við sýndum fólki með hjálp Biblíunnar að það er aldrei Guð sem veldur hinu illa. Margir þökkuðu okkur fyrir að veita sér þessa huggun“. — 2. Korintubréf 1:3, 4; Jakobsbréfið 1:13. *

[Neðanmáls]

^ gr. 24 Sjá greinina „‚Why?‘ — Answering the Hardest of Questions“ í Vaknið! (enskri útgáfu) nóvember 2006, bls. 3-9. Hundruðum eintaka af þessu blaði var dreift á Gizo eftir hamfarirnar.

[Skýringarmynd/kort á blaðsíðu 13]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Choiseul

Gizo

Gizo

Ranongga

HONIARA

ÁSTRALÍA

[Mynd á blaðsíðu 15]

Baea-fjölskyldan á vélknúnum kanó.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Skemmdir eftir flóðbylgju í Gizo.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Þessi ríkissalur var eina byggingin sem stóð eftir í þorpinu Lale á Ranongga-eyju.