Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig er hægt að velja góða biblíuþýðingu?

Hvernig er hægt að velja góða biblíuþýðingu?

Hvernig er hægt að velja góða biblíuþýðingu?

BIBLÍAN var upphaflega skrifuð á hebresku, arameísku og grísku. Flestir sem vilja lesa hana þurfa því að notast við þýðingu.

Engin bók hefur verið þýdd á jafn mörg tungumál og Biblían. Hún er til í heild eða að hluta á meira en 2400 tungumálum. Á sumum tungumálum eru jafnvel til tugir þýðinga. Þeir sem geta valið milli þýðinga á móðurmáli sínu vilja auðvitað nota bestu þýðinguna sem völ er á.

Til að velja viturlega þarf að leita svara við eftirfarandi spurningum: Hvaða stefnum hefur verið fylgt við þýðingar á Biblíunni? Hvaða styrkleika og veikleika hefur hver stefna? Og af hverju er nauðsynlegt að hafa varann á þegar maður les sumar biblíuþýðingar?

Ólíkar stefnur

Stefnur í biblíuþýðingum spanna breitt svið en í meginatriðum má skipta þeim í þrennt. Á öðrum enda skalans er þýðing frá orði til orðs milli lína í frumtexta.

Á hinum enda skalans er endursögn. Boðskapur Biblíunnar er þá þýddur mjög frjálslega og umorðaður eins og þýðendur skilja hann og telja hann höfða best til lesenda.

Í þriðja lagi er um að ræða þýðingar þar sem reynt er að fara einhvern milliveg. Í þessum biblíuþýðingum er reynt að koma merkingu og blæ frummálstextans sem best til skila en gera það jafnframt þannig að þýðingin sé auðlesin.

Er best að þýða orð fyrir orð?

Þó að þýtt sé orð fyrir orð er ekki sjálfgefið að það sé besta leiðin til að koma merkingu biblíutextans til skila. Ástæðurnar eru margar en við skulum líta á tvær:

1. Engin tvö tungumál eru með nákvæmlega eins málfræði, orðaforða og setningagerð. Samuel R. Driver, prófessor í hebresku, bendir á að „tungumál séu ekki aðeins ólík hvað varðar málfræði og orðsifjar heldur einnig . . . hvernig hugmyndir eru mótaðar í setningu“. Þeir sem tala ólík tungumál hugsa ekki eins. „Þar af leiðandi er setningagerð tungumála ólík,“ eins og prófessor Driver bendir á.

Þar sem ekkert tungumál samsvarar nákvæmlega orðaforða og málfræði þeirrar hebresku og grísku, sem Biblían var skrifuð á, verður merkingin óskýr eða jafnvel röng ef þýtt er orð fyrir orð. Lítum á eftirfarandi dæmi.

Í Efesusbréfinu notar Páll orðasamband sem merkir bókstaflega „í teningi mannanna“. (Efesusbréfið 4:14, The Kingdom Interlinear Translation of the Greek Scriptures) * Orðasambandið er notað um það að hafa rangt við í hlutkesti eða teningaspili. Í flestum tungumálum myndi bókstafleg þýðing hins vegar hafa litla merkingu. Merkingin skilar sér betur með því að tala um ‚slæga menn‘.

Í Rómverjabréfinu notar Páll grískt orðasamband sem merkir bókstaflega „til andans sjóðandi“. (Rómverjabréfið 12:11, Kingdom Interlinear) Er þetta skiljanlegt orðalag á íslensku? Orðasambandið merkir raunar að vera „brennandi í andanum“.

Í einhverri frægustu ræðu sinni sagði Jesús: „Sælir eru fátækir í anda,“ eða þannig eru orð hans gjarnan þýdd. (Matteus 5:3) En miðað við þessa bókstaflegu þýðingu er frekar óljóst hvað Jesús átti við. Í sumum tungumálum getur orðalagið „fátækir í anda“ merkt að vera í andlegu ójafnvægi eða skorta kraft og viljastyrk. Jesús var hins vegar að kenna fólki að hamingjan væri ekki fólgin í því að fullnægja efnislegum þörfum sínum heldur í því að viðurkenna að maður þarfnist leiðsagnar Guðs. (Lúkas 6:20) Þess vegna skilar merkingin sér nákvæmar ef orð Jesú eru þýdd „þeir sem skynja andlega þörf sína“ eða „þeir sem vita að þeir þarfnast Guðs“. — Matteus 5:3, New World Translation; The New Testament in Modern English.

2. Merking orðs eða orðasambands getur verið breytileg eftir samhengi. Hebreska orðið, sem er að jafnaði notað um mannshönd, getur haft margbreytilega merkingu. Eftir samhengi getur það til dæmis merkt „veldi“, „rausn“ eða „vald“. (2. Samúelsbók 8:3; 1. Konungabók 10:13, Biblían 1981; Orðskviðirnir 18:21) Í enskri útgáfu Nýheimsþýðingarinnar (New World Translation of the Holy Scriptures) er þetta hebreska orð þýtt á meira en 40 mismunandi vegu.

Að samhengið skuli oft ráða miklu um það hvernig orð er þýtt sést best af því að í ensku Nýheimsþýðingunni eru notuð næstum 16.000 orð til að þýða hér um bil 5.500 grísk biblíuorð, og meira en 27.000 orð til að þýða um það bil 8.500 hebresk orð. * Af hverju eru orðin þýdd svona breytilega? Þýðingarnefndin mat það svo að það væri mikilvægara að þýða orðin eftir samhengi en þýða þau alveg bókstaflega. Nýheimsþýðingin er engu að síður eins orðtrygg og hægt er.

Ljóst er að það er ekki hægt að þýða Biblíuna þannig að eitt orð í frummálinu sé alltaf þýtt með sama orði í viðtökumálinu. Þýðendur verða að velja orð af natni og góðri dómgreind til að skila hugmyndum frummálstextans nákvæmlega og skiljanlega. Enn fremur þurfa þeir að raða orðum og setningum í þýðingunni í samræmi við málfræðireglur viðtökumálsins.

Hvað um frjálslegar þýðingar?

Biblíuþýðingar, sem kalla má endursagnir, eru þess eðlis að frummálstextinn er þýddur frjálslega. Þýðendur skjóta oft inn eigin hugmyndum um merkingu frumtextans eða fella niður upplýsingar sem er að finna í frumtextanum. Endursagnir geta höfðað til fólks vegna þess að þær eru auðlesnar. Frjálsleg meðferð textans verður hins vegar stundum til þess að skyggja á merkingu frummálsins eða breyta henni.

Tökum sem dæmi hvernig upphafsorð faðirvorsins hljóða í einni endursögn Biblíunnar: „Faðir okkar á himnum, opinberaðu hver þú ert.“ (Matteus 6:9, The Message: The Bible in Contemporary Language) Það er öllu nákvæmari þýðing á orðum Jesú að segja: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn.“ Einnig er eftirtektarvert hvernig Jóhannes 17:26 er þýtt í sumum biblíum. Samkvæmt einni biblíuendursögn sagði Jesús í bæn til föður síns kvöldið sem hann var tekinn höndum: „Ég hef kunngert þeim þig.“ (Today’s English Version) Hins vegar er það í betra samræmi við frummálið að þýða bænarorð Jesú: „Ég hef kunngjört þeim nafn þitt.“ Sumir biblíuþýðendur virðast hreinlega vilja fela það að Guð skuli hafa nafn sem fólk ætti að nota og heiðra.

Af hverju er varúðar þörf?

Í sumum frjálslegum þýðingum verða þær siðferðisreglur, sem fram koma í frumtexta Biblíunnar, býsna óskýrar. Til dæmis er 1. Korintubréf 6:9, 10 orðað svo í þýðingu sem nefnist: The Message: The Bible in Contemporary Language: „Veistu ekki að þannig á ekki að lifa? Ranglátir, sem skeyta ekki um Guð, fá ekki að vera með í ríki hans. Þeir sem nota og misnota hver annan, nota og misnota kynlíf, nota og misnota jörðina og allt sem er á henni eru ekki hæfir til að vera þegnar Guðsríkis.“

Berðu þessa þýðingu saman við nákvæmara orðalag Nýheimsþýðingarinnar: „Hvað þá? Vitið þið ekki að ranglátir munu ekki erfa ríki Guðs? Villist ekki. Hvorki saurlífismenn, skurðgoðadýrkendur, hórdómsmenn, karlmenn sem láta nota sig til ólifnaðar, karlmenn sem leggjast með karlmönnum, þjófar, ágjarnir, drykkjumenn, lastmálir né fjárkúgarar munu erfa ríki Guðs.“ Athygli vekur að í frjálslegu þýðingunni hér á undan er ekki einu sinni nefnt á nafn hvers konar hegðun fólk á að forðast samkvæmt upptalningu Páls.

Trúarskilningur þýðanda getur einnig litað verk hans. Í Today’s English Version (að jafnaði kölluð Good News Bible) er Jesús látinn segja fylgjendum sínum: „Farið inn um þrönga hliðið því að vítt er hliðið til helvítis og vegurinn þangað auðfarinn og margir fara hann.“ (Matteus 7:13) Þýðendurnir notuðu hér orðið „helvíti“ þó að Matteus noti orð sem merkir „glötun, tortíming“. Af hverju skyldu þeir hafa gert það? Líklega hafa þeir viljað styðja þá hugmynd að vondir menn kveljist að eilífu í stað þess að farast. *

Að velja bestu þýðinguna

Biblían var skrifuð á almennu, daglegu alþýðumáli, máli sem bændur, fjárhirðar og fiskimenn töluðu. (Nehemíabók 8:8, 12; Postulasagan 4:13) Það er því einkenni góðrar biblíuþýðingar að gera boðskapinn aðgengilegan einlægu fólki, óháð menningu þess og uppruna. Æskilegt er að biblíuþýðing uppfylli eftirfarandi skilyrði:

Miðli af nákvæmni þeim boðum sem voru innblásin af Guði í upphafi. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.

Orð séu þýdd bókstaflega svo framarlega sem orðalag og uppbygging frumtextans býður upp á bókstaflega þýðingu á viðtökumálið.

Miðli réttri merkingu orðs eða setningar ef bókstafleg þýðing yrði óskýr eða myndi brengla merkinguna.

Sé á eðlilegu, auðskildu máli sem hvetur til lestrar.

Er til biblíuþýðing sem uppfyllir þessi skilyrði? Milljónir lesenda þessa tímarits kjósa að nota Nýheimsþýðinguna vegna þess að þeir eru sama sinnis og þýðingarnefndin sem sagði eftirfarandi í formála fyrstu útgáfu hennar á ensku: „Þetta er ekki endursögn á Ritningunni. Við höfum alls staðar leitast við að þýða eins bókstaflega og kostur er, svo framarlega sem ensk málvenja býður upp á það og hugsunin týnist ekki í klaufalegu orðalagi.“

Nýheimsþýðingin hefur verið gefin út í heild eða að hluta á rúmlega 60 tungumálum og heildarupplagið nemur ríflega 145 milljónum eintaka. Ef hún er fáanleg á máli sem þú getur lesið þér að gagni gætirðu beðið votta Jehóva að útvega þér eintak. Þá geturðu kynnt þér sjálfur kosti þessarar nákvæmu þýðingar.

Einlægir biblíunemendur þrá að skilja þann boðskap sem Guð innblés og leitast við að fara eftir honum. Ef þú ert þannig þenkjandi þarftu að hafa aðgang að nákvæmri biblíuþýðingu. Þú ættir ekki að sætta þig við neitt lakara en það.

[Neðanmáls]

^ gr. 13 Í „millilínaþýðingu“ (interlinear) getur lesandinn séð bókstaflega þýðingu á hverju orði ásamt frummálstextanum.

^ gr. 17 Athygli vekur að sumar enskar biblíuþýðingar nota enn fleiri jafngildisorð en Nýheimsþýðingin og eru því ekki eins orðtryggar og hún.

^ gr. 25 Biblían kennir að mennirnir snúi aftur til moldarinnar við dauðann, að sálin deyi, og öll hugsun og tilfinning taki enda. (1. Mósebók 3:19; Prédikarinn 9:5, 6; Esekíel 18:4, Biblían 1981) Sú hugmynd kemur þar hvergi fram að sálir vondra manna þjáist eilíflega í vítislogum.

[Innskot á blaðsíðu 21]

Endursagnir geta höfðað til fólks vegna þess að þær eru auðlesnar. Frjálsleg meðferð textans verður hins vegar stundum til þess að skyggja á merkingu frummálsins eða breyta henni.

[Innskot á blaðsíðu 22]

Nýheimsþýðingin hefur verið gefin út í heild eða að hluta á rúmlega 60 tungumálum og heildarupplagið nemur ríflega 145 milljónum eintaka.

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 20]

ÆVAFORN ENDURSÖGN

Endursagnir eða frjálslegar þýðingar Biblíunnar eru engin nýlunda. Endur fyrir löngu tóku Gyðingar saman það sem nú er kallað arameískir Targúmar. Þótt þessi rit séu ekki nákvæmar þýðingar heldur frjálsleg endursögn má læra af þeim hvernig Gyðingar skildu suma texta og það hjálpar þýðendum að glöggva sig á merkingu sumra torskilinna texta. Í Jobsbók 38:7 kemur til dæmis fram sú skýring að „synir Guðs“ séu „hópar engla“. Í 1. Mósebók 10:9 er gefið til kynna í Targúmunum að hebresk forsetning, sem notuð er um Nimrod, feli í sér neikvæðu merkinguna „gegn“ eða „í andstöðu við“ frekar en hlutlausu merkinguna „fyrir“. Þessar endursagnir voru notaðar með biblíutextanum en þeim var aldrei ætlað að koma í stað Biblíunnar sjálfrar.

[Mynd]

ÚR „BIBLIA POLYGLOTTA“ SEM BRIAN WALTON LAUK VIÐ AÐ GEFA ÚT 1657. JOBSBÓK 38:1-15.

Hebreski biblíutextinn (með latneskri þýðingu milli línanna).

Samsvarandi texti úr arameískum Targúm.

[Mynd á blaðsíðu 19]

ÚR „THE KINGDOM INTERLINEAR TRANSLATION OF THE GREEK SCRIPTURES“, EFESUSBRÉFIÐ 4:14.

Í vinstri dálknum er frumtextinn þýddur orð fyrir orð en í hægri dálknum er hann þýddur eftir merkingu.

[Mynd credit line á blaðsíðu 18]

Bakgrunnur: Shrine of the Book, Israel Museum, Jerúsalem.