Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Heiðraðu Jehóva með því að sýna virðingu

Heiðraðu Jehóva með því að sýna virðingu

Heiðraðu Jehóva með því að sýna virðingu

„Tign og vegsemd eru verk [Jehóva].“ — SÁLM. 111:3.

1, 2. (a) Hvaða hugsun er fólgin í biblíuorðinu sem oft er þýtt tign? (b) Um hvaða spurningar verður rætt í þessari grein?

Í BIBLÍUNNI er talað um að Guð sé „skrýddur dýrð og hátign“. (Sálm. 104:1) Hér er tign hans líkt við klæðnað. Við mennirnir getum sýnt Jehóva heiður og virðingu með því að vera vel til fara. Páll postuli hvatti kristnar konur til dæmis til að vera „látlausar í klæðaburði, ekki með fléttur og gull eða perlur og skartklæði“. (1. Tím. 2:9) En við heiðrum „tign og vegsemd“ Jehóva ekki aðeins með því að vera vel og virðulega til fara. — Sálm. 111:3.

2 Hebreska biblíuorðið, sem er oft þýtt „tign“, getur einnig þýtt ljómi, hátign, dýrð og heiður. Þessum orðum er það sameiginlegt að lýsa reisn, virðuleika, virðingu og vegsemd. Enginn verðskuldar auðvitað meiri virðingu, heiður og vegsemd en Jehóva. Við sem erum vígðir þjónar hans ættum því að sýna virðingu í tali okkar og hegðun. Af hverju erum við mennirnir færir um að sýna slíka eiginleika? Hvernig birtist tign Jehóva og vegsemd? Hvaða áhrif ætti tign hans að hafa á okkur? Hvernig lærum við af Jesú Kristi að sýna virðingu? Og hvernig getum við sýnt þá virðingu sem Guð vill að við sýnum?

Af hverju erum við fær um að sýna virðingu?

3, 4. (a) Hvernig ættum við að breyta í ljósi þeirrar virðingar sem okkur hefur verið sýnd? (b) Um hvern er spáð í Sálmi 8:6-10? (Sjá neðanmálsgrein.) (c) Hverjum hefur Jehóva veitt virðingu og heiður?

3 Allir menn eru færir um að sýna virðingu því að þeir eru skapaðir í Guðs mynd. Jehóva sýndi fyrsta manninum virðingu og heiður með því að fela honum það verkefni að annast jörðina. (1. Mós. 1:26, 27) Og eftir að maðurinn glataði fullkomleikanum ítrekaði Jehóva þá ábyrgð hans að gæta jarðarinnar. Þannig ‚krýnir‘ Jehóva mennina enn þá „hátign og heiðri“. (Lestu Sálm 8:6-10.) * Sú virðing, sem okkur er sýnd, kallar á að við sýnum virðingu á móti með því að lofa dýrlegt nafn Jehóva með lotningu.

4 Jehóva hefur sýnt sérstakan heiður og virðingu þeim sem veita honum heilaga þjónustu. Hann heiðraði Abel með því að þiggja fórn hans en hafnaði fórn Kains, bróður hans. (1. Mós. 4:4, 5) Móse var sagt að ‚leggja yfir Jósúa af tign sinni‘, en Jósúa átti að taka við af honum sem leiðtogi Ísraelsmanna. (4. Mós. 27:20) Í Biblíunni segir um Salómon, son Davíðs: „Drottinn gerði Salómon mjög voldugan í augum alls Ísraels. Hann veitti konungdómi hans slíka hátign sem enginn konungur yfir Ísrael hafði notið á undan honum.“ (1. Kron. 29:25) Andasmurðir kristnir menn hafa trúfastlega ‚sagt frá dýrð ríkis Guðs‘ og hljóta sérstakan heiður þegar þeir eru upprisnir. (Sálm. 145:11-13) Ört vaxandi hópur ‚annarra sauða‘ hefur lofað Jehóva með sama hætti, og hefur einnig göfugu og virðulegu hlutverki að gegna. — Jóh. 10:16.

Hvernig birtist tign og vegsemd Jehóva?

5. Hve mikil er tign og vegsemd Jehóva?

5 Í einum af sálmum Davíðs er bent á hve Jehóva sé mikill og maðurinn smár. Sálmurinn hefst með orðunum: „Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina. Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.“ (Sálm. 8:2) Frá eilífð til eilífðar er Jehóva Guð tignarlegasta og háleitasta persóna í alheiminum. Hann var það fyrir sköpun himins og jarðar og verður það áfram eftir að jörðin er orðin að paradís og mannkynið fullkomið eins og hann ætlaði sér í upphafi. — 1. Mós. 1:1; 1. Kor. 15:24-28; Opinb. 21:1-5.

6. Af hverju sagði sálmaritarinn að Jehóva væri skrýddur dýrð og hátign?

6 Hinn guðhræddi sálmaritari hlýtur að hafa fyllst lotningu þegar hann virti fyrir sér hljóða fegurð himinsins þar sem stjörnurnar tindruðu eins og gimsteinar. Hann talaði um að skaparinn væri skrýddur dýrð og hátign og dáðist að því hvernig hann notaði stórkostlega sköpunargáfu sína til að ‚þenja út himininn eins og tjalddúk‘. (Lestu Sálm 104:1, 2.) Dýrð og hátign hins ósýnilega almáttuga skapara er greinileg af verkum hans.

7, 8. Hvernig ber himininn vitni um dýrð og hátign Jehóva?

7 Tökum vetrarbrautina sem dæmi. Í þessum hafsjó stjarna, pláneta og sólkerfa virðist jörðin jafn smávægileg og eitt sandkorn á sjávarströnd. Meira en 100 milljarðar stjarna eru í þessari einu vetrarbraut. Ef þú gætir talið eina stjörnu á sekúndu allan sólarhringinn tæki það þig meira en 3000 ár að telja upp í 100 milljarða.

8 Fyrst það eru 100 milljarðar stjarna í vetrarbrautinni hvað þá um alheiminn allan? Stjarnfræðingar telja að vetrarbrautirnar geti verið á bilinu 50 til 125 milljarðar. Hve margar stjörnur eru þá í öllum alheiminum? Þær eru svo margar að varla er hægt að meðtaka töluna. En Jehóva „ákveður tölu stjarnanna, nefnir þær allar með nafni“. (Sálm. 147:4) Finnurðu ekki sterka löngun hjá þér til að lofa hið mikla nafn Jehóva þegar þú sérð hvílíkri dýrð og hátign hann er skrýddur?

9, 10. Hvernig er brauð merki um visku skaparans?

9 Segjum nú skilið við himingeiminn og beinum athyglinni að ósköp hversdagslegu brauði. Jehóva er ekki aðeins sá „sem skapaði himin og jörð“ heldur líka sá sem „gefur hungruðum brauð“. (Sálm. 146:6, 7) „Tign og vegsemd“ Guðs birtist í sköpunarverki hans, þar á meðal í jurtunum sem brauð er búið til úr. (Lestu Sálm 111:1-5.) Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja: „Gef oss í dag vort daglegt brauð.“ (Matt. 6:11) Brauð var undirstaðan í mataræði margra fornþjóða, þar á meðal Ísraelsmanna. Þótt brauð sé álitið einfaldur matur eru efnahvörfin, sem breyta fáeinum hráefnum í gómsætt brauð, allt annað en einföld.

10 Þegar Biblían var skrifuð notuðu Ísraelsmenn hveiti- eða byggmjöl og vatn til að búa til brauð. Súrdeig, eða ger, var stundum notað við baksturinn. Þessi einföldu hráefni mynda í sameiningu mikinn fjölda efnasambanda. Menn skilja ekki að fullu hvernig þessi efnasambönd vinna saman. Melting brauðs í mannslíkamanum er sömuleiðis ótrúlega flókið ferli. Það er ekki að furða að sálmaritarinn skyldi skrifa: „Hversu mörg eru verk þín, Drottinn? Þú vannst þau öll af speki.“ (Sálm. 104:24) Finnur þú hjá þér svipaða löngun til að lofa Jehóva?

Hvaða áhrif hefur tign og vegsemd Guðs á þig?

11, 12. Hvaða áhrif getur það haft á okkur að hugleiða sköpunarverk Guðs?

11 Við þurfum ekki að vera stjörnufræðingar til að njóta þess að horfa á næturhimininn eða efnafræðingar til að kunna að meta brauð. Við þurfum hins vegar að gefa okkur tíma til að hugleiða sköpunarverkið til að skilja mikilleik skaparans. Hvað gerir slík hugleiðing fyrir okkur? Við verðum fyrir sömu áhrifum og þegar við hugleiðum önnur verk hans.

12 Davíð sagði að máttarverkin, sem Jehóva vann í þágu þjóðar sinnar, vitnuðu um ‚dýrlegan ljóma hátignar hans‘ og bætti við: „Ég vil syngja um dásemdir þínar.“ (Sálm. 145:5) Við kynnum okkur þessi verk með því að lesa í Biblíunni og gefa okkur tíma til að hugleiða það sem við lesum. Hvaða áhrif hefur þessi hugleiðing? Við fáum dýpri skilning á tign og vegsemd Guðs og finnum okkur knúin til að lofa hann líkt og Davíð sem söng: „Ég vil segja frá stórvirkjum þínum.“ (Sálm. 145:6) Þegar við hugleiðum máttarverk Guðs styrkir það samband okkar við hann og fær okkur til að segja öðrum frá honum af eldmóði og sannfæringu. Boðar þú fagnaðarerindið af kappi og hjálpar fólki að meta tign og vegsemd Jehóva Guðs?

Jesús endurspeglar fullkomlega tign Guðs

13. (a) Hvað hefur Jehóva veitt syni sínum samkvæmt Daníel 7:13, 14? (b) Hvernig kemur konungurinn Kristur fram við þegna sína?

13 Jesús Kristur, sonur Guðs, boðaði fagnaðarerindið ötullega og heiðraði mikilfenglegan föður sinn á himnum. Jehóva sýndi einkasyni sínum sérstakan heiður með því að veita honum ‚vald og konungdæmi‘. (Lestu Daníel 7:13, 14.) En Jesús er hvorki hrokafullur né fáskiptinn. Hann er umhyggjusamur stjórnandi sem skilur takmörk þegna sinna og sýnir þeim viðeigandi virðingu. Tökum eitt dæmi um það hvernig Jesús, sem var tilvonandi konungur Guðsríkis, kom fram við þá sem hann hitti, sérstaklega þá sem aðrir litu niður á eða höfnuðu.

14. Hvernig var litið á holdsveika í Ísrael til forna?

14 Hér áður fyrr var holdsveiki ávísun á hægfara og átakanlegan dauða. Smám saman sýktust allir líkamshlutar. Það var álitið jafn erfitt að lækna holdsveika og reisa menn upp frá dauðum. (4. Mós. 12:12; 2. Kon. 5:7, 14) Holdsveikir voru lýstir óhreinir, þeir voru fyrirlitnir og þeim var útskúfað úr samfélagi manna. Þegar þeir nálguðust aðra áttu þeir að kalla: „Óhreinn, óhreinn!“ (3. Mós. 13:43-46) Að vera holdsveikur var nánast eins og að vera dáinn. Samkvæmt rabbínaheimildum þurfti holdsveikur maður að halda sig í næstum tveggja metra fjarlægð frá öðrum. Sagt var að þegar trúarleiðtogi nokkur hafi séð holdsveika, jafnvel í fjarlægð, hafi hann kastað steinum í átt að þeim til að halda þeim sem lengst í burtu.

15. Hvernig kom Jesús fram við holdsveikan mann?

15 En það er athyglisvert að taka eftir viðbrögðum Jesú þegar holdsveikur maður kom til hans og bað hann að lækna sig. (Lestu Markús 1:40-42.) Í stað þess að senda manninn í burtu eins og aðrir hefðu gert sýndi Jesús honum umhyggju og virðingu. Jesús sá þarna bágstaddan mann sem þurfti á hjálp að halda. Hann kenndi í brjósti um hann og lét verkin tala — rétti út höndina, snerti hann og læknaði.

16. Hvað má læra af því hvernig Jesús kom fram við aðra?

16 Hvernig getum við líkt eftir Jesú sem endurspeglaði alltaf eiginleika föður síns? Ein leið til þess er að hafa hugfast að allir menn verðskulda heiður og virðingu — óháð stöðu þeirra, heilsu eða aldri. (1. Pét. 2:17) Þeir sem fara með einhvers konar forystu, svo sem eiginmenn, foreldrar og safnaðaröldungar, verða að sýna þeim virðingu sem eru í þeirra umsjá og gæta þess að grafa ekki undan sjálfsvirðingu þeirra. Í Biblíunni er bent á að þetta sé krafa til allra kristinna manna. Þar segir: „Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu.“ — Rómv. 12:10.

Sýnum virðingu þegar við tilbiðjum Jehóva

17. Hvað lærum við af Biblíunni um það að sýna virðingu þegar við tilbiðjum Jehóva?

17 Við verðum sérstaklega að gæta þess að sýna virðingu þegar við tilbiðjum Jehóva. „Hafðu gát á þér þegar þú gengur í Guðs hús,“ segir í Prédikaranum 4:17. Móse og Jósúa var báðum sagt að fara úr skónum þegar þeir voru á heilögum stað. (2. Mós. 3:5; Jós. 5:15) Þeir áttu að gera þetta í virðingarskyni. Prestum í Ísrael var skylt að vera í línbuxum ‚til að hylja með blygðun sína‘. (2. Mós. 28:42, 43) Þetta tryggði að líkaminn beraðist ekki á óviðeigandi hátt þegar þeir þjónuðu við altarið. Allir í fjölskyldu prestsins áttu að sýna þann virðuleika sem Jehóva gerði kröfu til.

18. Hvernig sýnum við virðingu í tilbeiðslunni á Jehóva?

18 Við verðum sem sagt að sýna virðingu og lotningu þegar við tilbiðjum Jehóva. Og til að verðskulda sjálf virðingu og heiður verðum við að koma virðulega fram. En virðingin má ekki vera yfirborðsleg, eins og hún sé bara einhvers konar einkennisbúningur. Það er ekki nóg að hún sjáist hið ytra heldur þarf Guð að sjá hana í hjarta okkar. (1. Sam. 16:7; Orðskv. 21:2) Virðingin verður að vera hluti af okkur og hafa áhrif á hegðun okkar, viðhorf, samskipti við aðra og jafnvel á það hvernig við lítum á sjálf okkur. Við ættum alltaf að sýna virðingu í öllu sem við segjum og gerum. Við fylgjum orðum Páls postula í hegðun, framkomu, klæðaburði og útliti en hann sagði: „Í engu vil ég gefa neinum tilefni til ásteytingar, ég vil ekki að þjónusta mín sæti lasti. Í öllu læt ég sjást að ég er þjónn Guðs.“ (2. Kor. 6:3, 4) Við prýðum „kenningu Guðs frelsara vors í öllum greinum“. — Tít. 2:10.

Höldum áfram að sýna virðingu

19, 20. (a) Nefndu eina leið til að sýna öðrum virðingu. (b) Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?

19 Andasmurðir kristnir menn eru ‚erindrekar Krists‘ og sýna virðingu sem slíkir. (2. Kor. 5:20) ‚Aðrir sauðir‘ styðja þá dyggilega sem virðulegir fulltrúar Messíasarríkisins. Erindrekar og fulltrúar erlends ríkis tala með djörfung og virðingu fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar. Við ættum því að tala með djörfung og virðingu fyrir hönd Guðsríkis. (Ef. 6:19, 20) Og erum við ekki að sýna öðrum virðingu með því að flytja þeim „gleðitíðindin“? — Jes. 52:7.

20 Við skulum vera staðráðin í að vegsama Guð með því að hegða okkur í samræmi við hátign hans. (1. Pét. 2:12) Sýnum alltaf djúpa virðingu fyrir honum, tilbeiðslunni og trúsystkinum okkar. Þá verður Jehóva, sem er skrýddur dýrð og hátign, ánægður með tilbeiðslu okkar.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Orð Davíðs í 8. sálminum eru einnig spádómur um hinn fullkomna mann Jesú Krist. — Hebr. 2:5-9.

Hvert er svarið?

• Hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur að hugleiða mikilleik Jehóva?

• Hvað lærum við um virðingu af framkomu Jesú við holdsveikan mann?

• Hvernig getum við heiðrað Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 12]

Hvernig heiðraði Jehóva Abel?

[Mynd á blaðsíðu 14]

Hversdagslegt brauð ber vitni um mikilleik Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Hvað lærum við um virðingu af framkomu Jesú við holdsveikan mann?

[Mynd á blaðsíðu 16]

Við heiðrum Jehóva með því að sýna virðingu í tilbeiðslu okkar.