Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Trúboðum líkt við engisprettur

Trúboðum líkt við engisprettur

124. Útskrift Gíleaðskólans

Trúboðum líkt við engisprettur

Á HÁLFS árs fresti heldur Biblíuskólinn Gíleað útskriftardagskrá og býður til hennar allri Betelfjölskyldunni í Bandaríkjunum. Hinn 8. mars 2008 slógust gestir frá rúmlega 30 löndum í hópinn og voru viðstaddir 124. útskrift Gíleaðskólans. Alls voru 6.411 viðstaddir til að samgleðjast nemendunum á þessum sérstaka degi.

Fundarstjórinn var Stephen Lett en hann á sæti í hinu stjórnandi ráði. Hann hóf dagskrána með ræðu sem nefndist: „Sækið fram ásamt táknrænum engisprettum Jehóva.“ Í Opinberunarbókinni 9:1-4 er sagt frá engisprettusveim sem fer skyndilega á kreik. Með þessu líkingamáli er átt við fámennan hóp andasmurðra kristinna manna sem tók aftur til óspilltra málanna í þjónustu Jehóva árið 1919. Nemendurnir voru minntir á að þeir hefðu sem ‚aðrir sauðir‘ Jesú gengið í lið með þessum táknræna engisprettusveim. — Jóh. 10:16.

Lon Schilling, sem situr í bandarísku deildarnefndinni, flutti þessu næst erindi sem nefndist: „Vinnið saman sem félagar.“ Tekið var dæmi af þeim Akvílasi og Priskillu (Prisku), kristnum hjónum sem voru uppi á fyrstu öld. (Rómv. 16:3, 4) Í nemendahópnum í Gíleað voru 28 hjón. Þau voru minnt á að þau þyrftu að halda hjónabandinu sterku til að vera dugandi trúboðar. Akvílas er aldrei nefndur í Biblíunni án Priskillu. Páll postuli og söfnuðurinn litu greinilega á þau sem eina heild. Trúboðahjón nú á dögum ættu sömuleiðis að vinna saman, tilbiðja saman og takast í sameiningu á við þær áskoranir sem fylgja því að vera trúboðar á erlendri grund. — 1. Mós. 2:18.

Næstur steig í ræðustól Guy Pierce sem situr í hinu stjórnandi ráði. Ræðan nefndist: „Breytið í samræmi við gæsku Jehóva.“ Bróðir Pierce benti á að gæska væri meira en það að gera ekkert illt. Góður maður gerir öðrum gott. Jehóva Guð er góður í æðsta skilningi orðsins. Gæska Guðs og kærleikur getur verið okkur hvati til að gera öðrum gott. Bróðir Pierce hrósaði nemendunum og sagði að lokum: „Þið hafið gert öðrum gott. Við treystum að þið haldið áfram að breyta í samræmi við gæsku Jehóva Guðs með því að gera gott alls staðar þar sem hann felur ykkur að starfa í framtíðinni.“

Michael Burnett er fyrrverandi trúboði og nýlega tekinn til starfa sem kennari við Gíleaðskólann. Hann flutti ræðu sem nefndist: „Hafðu það sem merki á milli augna þinna.“ Ísraelsmenn áttu að muna hvernig Jehóva vann það kraftaverk að frelsa þá frá Egyptalandi. Það átti að vera eins og „merki“ milli augna þeirra. (2. Mós. 13:16) Nemendurnir voru hvattir til að muna eftir þeirri miklu fræðslu sem þeir hefðu fengið í Gíleaðskólanum, og þeim var bent á að hún ætti að vera eins og merki milli augna þeirra. Bróðir Burnett lagði áherslu á að trúboðarnir þyrftu að vera auðmjúkir og hógværir og nýta sér meginreglur Biblíunnar til að eyða misklíð sem komið gæti upp milli þeirra og annarra trúboða eða safnaðarmanna. — Matt. 5:23, 24.

Mark Noumair hefur verið kennari við Gíleaðskólann árum saman. Hann fjallaði um efnið: „Hvað verður sungið um þig?“ Það var siður til forna að fagna sigri í stríði með söng. Í einum slíkum söng kemur fram að ættkvíslir Rúbens, Dans og Assers hafi verið sérhlífnar en ættkvísl Sebúlons er hrósað fyrir fórnfýsi. (Dóm. 5:16-18, Biblían 1981) Verk hvers einasta kristins manns eru að því leyti eins og söngtexti að þau verða kunn með tíð og tíma. Kristinn maður gleður Jehóva með því að vera kostgæfinn í þjónustu hans og fylgja dyggilega þeim leiðbeiningum sem hann fær frá söfnuðinum. Hann er trúsystkinum sínum til fyrirmyndar. Þegar aðrir í söfnuðinum hlusta á hinn táknræna söng, sem við syngjum með verkum okkar, er það þeim hvatning til að líkja eftir góðu fordæmi okkar.

Nemendahópurinn varði samanlagt um 3.000 klukkustundum til boðunarstarfsins meðan á náminu stóð. Í dagskrárliðnum „Fylgjum leiðsögn heilags anda“ sögðu nemendur frá ýmsu sem dreif á daga þeirra í boðunarstarfinu og sviðsettu sumt af því. Sam Robertson við Skólaskrifstofuna hafði umsjón með þessum dagskrárlið. Þessu næst tók Patrick LaFranca í bandarísku deildarnefndinni viðtöl við Gíleaðtrúboða sem starfa í ýmsum löndum. Nemendur kunnu vel að meta góð ráð þeirra.

Anthony Morris, sem situr í hinu stjórnandi ráði, flutti lokaræðuna sem nefndist: „Munið að hið sýnilega er stundlegt.“ Í Biblíunni erum við hvött til að einbeita okkur að þeirri blessun sem Jehóva veitir í framtíðinni í stað þess að einblína á stundlega erfiðleika sem kunna að verða á vegi okkar. (2. Kor. 4:16-18) Örbirgð, ranglæti, kúgun, sjúkdómar og dauði blasir við víða um heim. Trúboðar þurfa oft að horfast í augu við eitthvað af þessu. En ef við höfum hugfast að allt er þetta stundlegt hjálpar það okkur að vera vonglöð og láta Jehóva skipa fyrsta sætið í lífinu.

Dagskránni lauk með því að allir nemendurnir komu upp á sviðið til að heyra lokaorð bróður Letts. Hann hvatti þá til að gefast ekki upp og sagði: „Við látum aldrei af ráðvendni okkar ef við njótum stuðnings Jehóva.“ Hann hvatti nýju trúboðana til að vera eins og engisprettur, sækja fram í þjónustu Jehóva og vera kostgæfir, trúfastir og hlýðnir að eilífu.

[Rammi á blaðsíðu 30]

TÖLULEGT YFIRLIT

Nemendur komu frá 7 löndum

Sendir til 16 landa

Fjöldi nemenda: 56

Meðalaldur: 33,8 ár

Meðalaldur í trúnni: 18,2 ár

Meðalaldur í fullu starfi: 13,8 ár.

[Mynd á blaðsíðu 30]

124. útskriftarhópur Biblíuskólans Gíleað

Nöfn nemenda eru talin frá vinstri til hægri í hverri röð og fyrsta röð er fremst á myndinni.

(1) Tanya Nicholson, Heather Main, Yoko Senge, Linda Snape, Claudia Vanegas, Letitia Pou. (2) Sandra Santana, Kristin Oh, Christine Lemaitre, Nuria Williams, Lisa Alexander. (3) Brenda Woods, Leah Stainton, Emily Huntley, Gloria Alvarez, Jillian Cruz, Joanna Bennett. (4) Azure Williamson, Noemí González, Jennifer Zuroski, Isabel Degandt, Jessica May, Cinzia Diemmi, Lauren Tavener. (5) William Lemaitre, Alicia Harris, Cynthia Wells, Sarah Rodgers, Mandy Durrant, Jun Senge. (6) Trevor Huntley, Alain Vanegas, Antonio Pou, Moises Santana, Vaughn Bennett, David Tavener, Michael Oh. (7) Mick Zuroski, Gordon Rodgers, Daniel Diemmi, Lee Nicholson, Carlos Alvarez, Joshua Snape. (8) Matt Harris, Pedro González, Shawn Main, Stefon Woods, Brent Stainton, Duane Williamson, John Durrant. (9) Paul Cruz, Brecht Degandt, Donald Williams, Simon Wells, Dan Alexander, Micah May.

[Mynd á blaðsíðu 32]

Gíleaðskólinn er starfræktur við fræðslumiðstöð Varðturnsfélagsins.