Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Stöndum gegn „anda heimsins“

Stöndum gegn „anda heimsins“

Stöndum gegn „anda heimsins“

„Vér höfum ekki hlotið anda heimsins, heldur andann, sem er frá Guði.“ — 1. KOR. 2:12.

1, 2. (a) Af hverju áttu að vera kanarífuglar í breskum námum hér áður fyrr? (b) Hvaða hættu standa kristnir menn frammi fyrir?

ÁRIÐ 1911 voru sett lög í Bretlandi til að vernda kolanámumenn við störf. Í hverri námu áttu að vera tveir kanarífuglar. Til hvers? Ef eldur braust út í námu tóku björgunarmenn fuglana með sér niður í námuna. Þessir litlu fuglar eru mjög viðkvæmir fyrir eiturgasi, eins og til dæmis kolsýringi. Ef loftið varð mengað urðu fuglarnir óværir og duttu jafnvel af prikinu sínu. Þessi fyrsta viðvörun var ómetanleg. Kolsýringur er litlaus og lyktarlaus lofttegund sem kemur í veg fyrir að rauðkornin í blóðinu geti skilað súrefni út í líkamann og getur því valdið dauða. Ef loftið var eitrað og grunlausir björgunarmenn fengu ekki viðvörun gátu þeir misst meðvitund og dáið.

2 Í andlegum skilningi eru kristnir menn í svipuðum sporum og námuverkamennirnir. Hvernig þá? Þegar Jesús sagði lærisveinunum að prédika fagnaðarerindið út um allan heim vissi hann að hann væri að senda þá í hættulegt umhverfi sem væri undir stjórn Satans og anda heimsins. (Matt. 10:16; 1. Jóh. 5:19) Jesú var svo umhugað um lærisveina sína að nóttina áður en hann dó bað hann til föður síns: „Ég bið ekki að þú takir þá úr heiminum heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa.“ — Jóh. 17:15.

3, 4. Við hverju varaði Jesús fylgjendur sína og af hverju ættum við að hafa áhuga á því?

3 Jesús varaði fylgjendur sína við því að sofna á verðinum því að það gæti orðið þeim að falli. Orð hans hafa sérstaka þýðingu fyrir okkur sem lifum á endalokatímum þessa heimskerfis. Hann hvatti lærisveinana og sagði: „Vakið því . . . svo að þér megið umflýja allt þetta sem koma á og standast frammi fyrir Mannssyninum.“ (Lúk. 21:34-36) En Jesús lofaði líka að faðir hans myndi veita þeim heilagan anda til að minna þá á það sem þeir höfðu lært og hjálpa þeim að halda sér vakandi og sterkum. — Jóh. 14:26.

4 Hvað um okkur nú á dögum? Getum við líka nýtt okkur hjálp heilags anda? Og ef svo er, hvað verðum við að gera til að hljóta anda Guðs? Hvað er andi heimsins og hvernig starfar hann? Og hvernig getum við staðið gegn anda heimsins? — Lestu 1. Korintubréf 2:12.

Heilagur andi eða andi heimsins?

5, 6. Hvað getur heilagur andi gert fyrir okkur, en hvað verðum við að gera til að hljóta hann?

5 Heilögum anda Guðs var ekki aðeins úthlutað á fyrstu öldinni. Hann stendur okkur líka til boða og hann getur veitt okkur styrk til að gera það sem er rétt og kraft til að halda áfram í þjónustunni. (Rómv. 12:11; Fil. 4:13) Hann getur líka hjálpað okkur að þroska með okkur góða eiginleika eins og kærleika, gæsku og góðvild sem mynda, ásamt öðrum eiginleikum, ‚ávöxt andans‘. (Gal. 5:22, 23) En Jehóva Guð þröngvar heilögum anda sínum ekki upp á neinn.

6 Það væri því skynsamlegt að spyrja sig hvað við þurfum að gera til að hljóta heilagan anda. Í Biblíunni er okkur bent á ýmislegt sem við getum gert. Ein mikilvæg leið er að biðja Guð um anda hans. (Lestu Lúkas 11:13.) Önnur góð leið er að lesa innblásið orð Guðs og fylgja leiðbeiningunum sem þar er að finna. (2. Tím. 3:16) Það fá auðvitað ekki allir heilagan anda einfaldlega með því að lesa í Biblíunni. En þegar einlægir kristnir menn lesa og hugleiða orð Guðs geta þeir skilið og tekið til sín sjónarmiðin sem þar koma fram. Það er líka mikilvægt að viðurkenna að Jehóva hefur skipað Jesú fulltrúa sinn og miðlar anda sínum fyrir milligöngu hans. (Kól. 2:6) Við viljum þar af leiðandi fylgja fordæmi Jesú og kennslu hans. (1. Pét. 2:21) Því meir sem við leggjum okkur fram um að líkjast Kristi þeim mun meir fáum við af heilögum anda.

7. Hvaða áhrif hefur andi heimsins á fólk?

7 Andi heimsins fær fólk aftur á móti til að endurspegla persónuleika Satans. (Lestu Efesusbréfið 2:1-3.) Þessi andi starfar á ýmsa vegu. Hann hvetur til uppreisnar gegn meginreglum Guðs eins og sjá má allt í kringum okkur. Hann upphefur „allt sem maðurinn girnist, allt sem glepur augað, allt oflæti vegna eigna“. (1. Jóh. 2:16) Hann ýtir undir verk holdsins eins og saurlifnað, skurðgoðadýrkun, spíritisma, afbrýðisemi, reiðiköst og ofdrykkju. (Gal. 5:19-21) Og hann stuðlar að fráhvarfstali sem vanhelgar það sem er heilagt. (2. Tím. 2:14-18) Því meir sem fólk leyfir anda heimsins að hafa áhrif á sig þeim mun meir líkist það Satan.

8. Hvað verður hver og einn að ákveða?

8 Við getum ekki einangrað okkur frá öllum utanaðkomandi áhrifum. Hver og einn verður að ákveða hvort hann leyfir heilögum anda Guðs að stjórna lífi sínu eða anda heimsins. Þeir sem láta stjórnast af anda heimsins geta losnað undan áhrifum hans og látið anda Guðs leiða sig. En hið gagnstæða getur líka gerst. Þeir sem hafa látið anda Guðs leiða sig um tíma geta fallið í gildru Satans og farið að láta anda heimsins stjórna sér. (Fil. 3:18, 19) Skoðum nánar hvernig við getum staðið gegn anda heimsins.

Fyrstu hættumerkin

9-11. Hvað gæti gefið til kynna að við leyfum anda heimsins að hafa áhrif á okkur?

9 Bresku námuverkamennirnir, sem minnst var á áðan, notuðu kanarífugla til að sjá fyrstu hættumerkin um að loftið væri eitrað. Ef námuverkamaður sá fugl detta af prikinu sínu vissi hann að hann þyrfti að bregðast strax við til að lifa af. En hver eru fyrstu hættumerkin um að andi heimsins sé farinn að hafa áhrif á okkur?

10 Þegar við kynntumst fyrst sannleika Biblíunnar og vígðum Jehóva líf okkar vorum við örugglega iðin við að lesa í Biblíunni. Við báðum líklega oft og innilega til Guðs. Og við höfðum mikla ánægju af því að sækja safnaðarsamkomur og fannst þær allar endurnærandi, eins og vin í eyðimörkinni. Allt þetta hjálpaði okkur að losna undan og halda okkur frá áhrifum anda heimsins.

11 Reynum við enn þá að lesa í Biblíunni á hverjum degi? (Sálm. 1:2) Biðjum við oft og innilega til Guðs? Höfum við yndi af safnaðarsamkomum og sækjum þær allar í hverri viku? (Sálm. 84:11) Eða hafa einhverjar af þessum góðu venjum fallið niður? Við höfum ef til vill mörgum skyldum að gegna sem útheimta tíma og fyrirhöfn og það getur verið erfitt að halda uppi góðri andlegri dagskrá. En ef við höfum smám saman farið að vanrækja einhverjar af þessum venjum gæti þá verið að við höfum leyft anda heimsins að hafa áhrif á okkur? Ætlum við þá að leggja okkur fram um að taka þær upp aftur?

Látum ekkert íþyngja okkur

12. Hverju áttu lærisveinarnir að hafa gát á og af hverju?

12 Hvað annað getum við gert til að standa gegn anda heimsins? Þegar Jesús hvatti lærisveinana til að halda vöku sinni var hann nýbúinn að vara þá við ákveðnum hættum. Hann sagði: „Hafið gát á sjálfum yður, látið ekki svall og drykkju eða áhyggjur þessa lífs ná tökum á yður svo að sá dagur komi ekki skyndilega yfir yður eins og snara.“ — Lúk. 21:34, 35.

13, 14. Hvaða spurninga getur verið gott að spyrja sig í sambandi við mat og drykk?

13 Veltum þessari viðvörun fyrir okkur. Hafði Jesús andstyggð á því að njóta matar og drykkjar? Nei, alls ekki. Hann þekkti þessi orð Salómons: „Ég sá að ekkert hugnast [mönnunum] betur en að vera glaðir og njóta lífsins meðan það endist. En að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu, einnig það er Guðs gjöf.“ (Préd. 3:12, 13) Jesús vissi samt að andi heimsins ýtir undir óhóf á þessum sviðum.

14 Hvernig getum við verið viss um að andi heimsins hafi ekki brenglað viðhorf okkar gagnvart ofáti eða ofdrykkju? Við getum spurt okkur: Hvernig bregst ég við þegar ég les leiðbeiningar um ofát í Biblíunni eða í ritunum okkar? Reyni ég að leiða þessar áminningar hjá mér og finnst þær ekki koma mér við eða vera öfgakenndar? Reyni ég að afsaka mig eða réttlæta hegðun mína? * Hvernig lít ég á ráðleggingar um notkun áfengis? Forðast ég ofdrykkju afdráttarlaust ef ég ætla yfirhöfuð að neyta áfengis? Geri ég lítið úr þessum ráðum og finnst einhverra hluta vegna að þau eigi ekki við mig? Fer ég í vörn eða verð reiður ef aðrir segjast hafa áhyggjur af því hvernig ég nota áfengi? Hvet ég aðra til að hafa ráð Biblíunnar að engu í þessum málum? Viðhorf okkar og afstaða eru góður mælikvarði á það hvort við séum að láta undan anda heimsins. — Samanber Rómverjabréfið 13:11-14.

Látum áhyggjurnar ekki kæfa okkur

15. Hvaða tilhneigingu manna varaði Jesús við?

15 Annar mikilvægur þáttur í því að standa gegn anda heimsins tengist því að hafa stjórn á áhyggjum okkar. Jesús vissi að ófullkomnum mönnum hættir til að hafa óþarfa áhyggjur af hversdagslegum hlutum. Hann sagði: „Verið ekki áhyggjufull.“ (Matt. 6:25) Það er skiljanlegt að hafa áhyggjur af mikilvægum málum eins og að þóknast Guði, sinna kristnum skyldum og sjá fjölskyldunni farborða. (1. Kor. 7:32-34) Hvað getum við þá lært af viðvörun Jesú?

16. Hvaða áhrif hefur andi heimsins á marga?

16 Andi heimsins leggur mikla áherslu á „oflæti vegna eigna“ og það veldur mörgum kvíða sem er skaðlegur heilsunni. Heimurinn reynir að telja okkur trú um að peningar jafngildi öryggi og að manngildi okkar ráðist ekki af kristnum eiginleikum heldur magni og gæðum eigna okkar. Þeir sem láta blekkjast af þessum áróðri þræla sér út til að verða ríkir og eru með stöðugar áhyggjur yfir því að eignast nýjustu, stærstu og tæknilegustu vörurnar. (Orðskv. 18:11) Þetta brenglaða viðhorf til efnislegra hluta elur af sér áhyggjur og kvíða sem kæfa allar framfarir í trúnni. — Lestu Matteus 13:18, 22.

17. Hvernig getum við forðast að láta áhyggjurnar kæfa okkur?

17 Við getum komist hjá því að láta áhyggjurnar kæfa okkur ef við fylgjum orðum Jesú: „Leitið fyrst ríkis [Guðs] og réttlætis.“ Jesús fullvissar okkur um að ef við gerum þetta þá fáum við allt sem við raunverulega þörfnumst. (Matt. 6:33) Hvernig getum við sýnt að við trúum þessu loforði? Meðal annars með því að leita fyrst réttlætis Guðs — fylgja meginreglum hans í tengslum við fjármál. Við neitum til dæmis að falsa skattaskýrslur eða að ljúga „örlítið“ í viðskiptum. Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að efna viðskiptasamninga og greiða skuldir þannig að ‚já okkar sé já‘. (Matt. 5:37; Sálm. 37:21) Við verðum kannski ekki rík af slíkum heiðarleika en hann færir okkur velþóknun Guðs, gefur okkur hreina samvisku og dregur úr áhyggjum.

18. Hvernig er Jesús okkur gott fordæmi og hvaða gagn höfum við af því að líkja eftir honum?

18 Að leita fyrst ríkis Guðs felur í sér að hafa hlutina í réttri forgangsröð. Tökum Jesú sem dæmi. Stundum klæddist hann vönduðum flíkum. (Jóh. 19:23) Og hann naut matar og drykkjar í góðra vina hópi. (Matt. 11:18, 19) En eigur og afþreying voru eins og krydd í tilveruna hjá honum, ekki aðalmáltíðin. Matur hans var að gera vilja Jehóva. (Jóh. 4:34-36) Við auðgum líf okkar með því að fylgja fordæmi Jesú. Við fáum að hjálpa niðurdregnu fólki og uppörva það með boðskap Biblíunnar. Við njótum kærleika og stuðnings frá söfnuðinum. Og við gleðjum hjarta Jehóva. Þegar við höfum réttar áherslur í lífinu ráða eigur og afþreying ekki yfir okkur heldur hjálpa okkur að þjóna Jehóva. Og eftir því sem við eru uppteknari af starfi í þágu Guðsríkis þeim mun minni líkur eru á því að andi heimsins fari að stjórna okkur.

Hyggjum að andanum

19-21. Hvernig hyggjum við að andanum og af hverju ættum við að gera það?

19 Hugsanir eru undanfari verka. Þegar sagt er að einhver geri eitthvað í hugsunarleysi er það yfirleitt vegna þess að hann lætur stjórnast af holdlegum hugsunum. Páll postuli bendir okkur þess vegna á að við verðum að gæta að hugsunum okkar. Hann skrifaði: „Þau sem stjórnast af eigin hag hafa hugann við það sem hann krefst. En þau sem stjórnast af anda Guðs hafa hugann við það sem hann vill.“ — Rómv. 8:5.

20 Hvernig getum við forðast að láta anda heimsins stjórna hugsunum okkar — og þar með verkum? Við verðum að vernda hugann og sía í burtu áróður heimsins eins og við mögulega getum. Þegar við veljum okkur afþreyingu neitum við til dæmis að spilla huganum með sjónvarpsþáttum sem upphefja siðleysi og ofbeldi. Við gerum okkur grein fyrir að heilagur og hreinn andi Guðs dvelur ekki í óhreinum huga. (Sálm. 11:5; 2. Kor. 6:15-18) Auk þess fyllum við hugann af anda Guðs þegar við lesum reglulega í Biblíunni, hugleiðum efnið, biðjum til Guðs og sækjum samkomur. Og við vinnum með andanum þegar við tökum þátt í boðunarstarfinu að staðaldri.

21 Við verðum að standa gegn anda heimsins og holdlegum fýsnum hans. En það er vel þess virði að leggja það á sig því Páll sagði: „Sjálfshyggjan er dauði en hyggja andans líf og friður.“ — Rómv. 8:6.

[Neðanmáls]

^ gr. 14 Þegar talað er um ofát er átt við hugarfar sem einkennist af græðgi og óhóflegri eftirlátsemi. Það er því ekki líkamsstærð sem ákvarðar hvort einhver sé mathákur heldur viðhorf hans til matar. Einstaklingur getur verið í kjörþyngd eða jafnvel grannvaxinn en samt verið mathákur. Á hinn bóginn getur fólk stundum átt við offitu að stríða vegna sjúkdóms eða arfgengra þátta. Það sem ákvarðar hvort einhver sé mathákur er því ekki endilega þyngd hans heldur hvort hann sé óhóflega gráðugur í mat. — Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. nóvember 2004.

Manstu?

• Hvað verðum við að gera til að fá heilagan anda?

• Hvernig getur andi heimsins haft áhrif á okkur?

• Hvernig getum við staðið gegn anda heimsins?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 21]

Við ættum að biðja um heilagan anda Guðs áður en við förum í vinnu eða skóla.

[Myndir á blaðsíðu 23]

Við verðum að halda huganum hreinum, vera heiðarleg í viðskiptum og sýna hófsemi.