Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva — frelsari á biblíutímanum

Jehóva — frelsari á biblíutímanum

Jehóva — frelsari á biblíutímanum

„Hraða þér til mín, ó Guð. Þú ert fulltingi mitt og frelsari.“ — SÁLM. 70:6.

1, 2. (a) Hvenær leita þjónar Guðs hjálpar hans? (b) Hvaða spurning vaknar og hvar er svarið að finna?

HJÓNIN eru í fríi þegar þau frétta að dóttir þeirra, sem er 23 ára og gift, hafi horfið á dularfullan hátt. Þau óttast hið versta. Þau pakka saman í skyndingu og halda heim á leið. Allan tíman biðja þau ákaft um hjálp Jehóva. Tuttugu ára vottur greinist með sjúkdóm sem leiðir að lokum til algerrar lömunar. Hann snýr sér strax til Jehóva í bæn. Einstæð móðir leitar ákaft að vinnu en á ekki fyrir mat handa sér og 12 ára dóttur sinni. Hún úthellir hjarta sínu í bæn til Jehóva. Já, þegar þjónar Guðs standa frammi fyrir erfiðum prófraunum er þeim eðlislægt að leita hjálpar hans. Hefur þú einhvern tíma ákallað Jehóva á neyðarstund?

2 Mikilvæg spurning vaknar: Getum við ætlast til þess að Jehóva bænheyri okkur þegar við leitum hjálpar hans? Svarið er að finna í 70. sálminum. Þessi trústyrkjandi sálmur var ortur af Davíð, dyggum þjóni Jehóva sem lenti í mörgum erfiðum prófraunum á lífsleiðinni. Hann fann sig knúinn til að segja um Jehóva: „Ó Guð. Þú ert fulltingi mitt og frelsari.“ (Sálm. 70:6) Í þessum innblásna sálmi kemur fram hvers vegna við getum líka leitað til Jehóva á neyðarstund og treyst því algerlega að hann reynist „frelsari“ okkar.

„Þú ert . . . frelsari“

3. (a) Hvernig biður Davíð ákaft um hjálp Jehóva í 70. sálminum? (b) Hvernig lýsir Davíð trausti sínu til Jehóva í 70. sálminum?

3Sálmur 70 byrjar og endar á því að Davíð biður Guð ákaft um hjálp. (Lestu Sálm 70:2-6.) Hann sárbænir Jehóva um að „hraða“ sér og „skunda“ sér til hjálpar. Í versunum á milli ber hann upp fimm bónir. Fyrstu þrjár fjalla um þá sem eru að reyna að drepa hann. Davíð biður Jehóva um að sigra þessa óvini og láta þá verða sér til skammar sökum illsku sinnar. Síðustu tvær bónirnar í 5. versi tengjast þjónum Guðs. Davíð biður þess að þeir sem leita Jehóva gleðjist og vegsami hann. Í lok sálmsins segir Davíð við Jehóva: „Þú ert fulltingi mitt og frelsari.“ Taktu eftir að Davíð segir ekki „megir þú vera“ eins og hann sé að bera upp enn eina bónina. Hann segir „þú ert“ og lýsir þannig trausti sínu til Jehóva. Davíð trúir því að hann fái hjálp frá Guði.

4, 5. Hvað má læra um Davíð af 70. sálminum og hverju getum við treyst?

4 Hvað má læra um Davíð af 70. sálminum? Hann tók málin ekki í sínar eigin hendur þegar hann átti í höggi við óvini sem voru staðráðnir í því að ráða honum bana. Hann treysti að Jehóva myndi með einhverjum hætti láta óvini hans gjalda verka sinna þegar að því kæmi. (1. Sam. 26:10) Davíð var alla tíð sannfærður um að Jehóva hjálpi þeim sem leita hans og frelsi þá. (Hebr. 11:6) Hann trúði því að sannir tilbiðjendur Jehóva hefðu fulla ástæðu til að gleðjast og vegsama Jehóva með því að segja öðrum frá mikilleik hans. — Sálm. 5:12; 35:27.

5 Líkt og Davíð getum við treyst fullkomlega að Jehóva hjálpi okkur og frelsi. Þess vegna er viðeigandi að biðja Jehóva að hjálpa okkur tafarlaust þegar við stöndum frammi fyrir erfiðum prófraunum eða finnst okkur sárvanta hjálp. (Sálm. 71:12) En hvernig getum við búist við að Jehóva svari bænum okkar? Áður en við fjöllum um það hvernig Jehóva getur hjálpað okkur skulum við skoða hvernig hann bjargaði Davíð á þrjá vegu á neyðarstund.

Frelsaði hann undan andstæðingum

6. Hvernig vissi Davíð að Jehóva frelsar hina réttlátu?

6 Hinar innblásnu biblíubækur, sem þá voru til, sannfærðu Davíð um að hinir réttlátu geti treyst því að Jehóva hjálpi þeim. Jehóva verndaði Nóa og guðhrædda fjölskyldu hans þegar hann lét flóðið koma yfir óguðlegan heim. (1. Mós. 7:23) Hann hjálpaði hinum réttláta Lot og dætrum hans tveimur að komast undan þegar hann lét rigna eldi og brennisteini yfir illa íbúa Sódómu og Gómorru. (1. Mós. 19:12-26) Og hann verndaði þjóð sína og kom í veg fyrir að hún hlyti skelfileg endalok þegar hann eyddi hinum stolta faraó og her hans í Rauðahafinu. (2. Mós. 14:19-28) Er nokkur furða að Davíð skuli í öðrum sálmi hafa lofað Jehóva sem „hjálpræðisguð“? — Sálm. 68:21.

7-9. (a) Hvaða ástæður hafði Davíð fyrir því að treysta á frelsunarmátt Guðs? (b) Hverjum þakkaði Davíð það að hann skyldi komast undan?

7 Davíð hafði líka mjög persónulega ástæðu fyrir því að leggja algert traust á frelsunarmátt Jehóva. Hann hafði kynnst því af eigin raun að „eilífir armar“ Jehóva geta frelsað þá sem þjóna honum. (5. Mós. 33:27) Jehóva hafði oftar en einu sinni bjargað Davíð úr klóm grimmra óvina. (Sálm. 18:18-20, 49) Lítum á dæmi.

8 Þegar konur úr borgum Ísraels lofuðu Davíð fyrir hernaðarafrek hans varð Sál konungur svo öfundsjúkur að hann reyndi tvisvar að drepa hann með því að kasta spjóti að honum. (1. Sam. 18:6-9) Í bæði skiptin komst Davíð undan hvössum spjótsoddinum. Var þetta einungis að þakka færni og snerpu hins reynda hermans? Nei, „Drottinn var með [Davíð]“ eins og útskýrt er í Biblíunni. (Lestu 1. Samúelsbók 18:11-14.) Síðar þegar Sál mistókst að láta Filista drepa Davíð varð honum „það æ ljósara að Drottinn var með Davíð“. — 1. Sam. 18:17-28.

9 Hverjum þakkaði Davíð það að hann skyldi komast undan? Í yfirskrift 18. sálmsins segir að Davíð hafi flutt „Drottni þetta ljóð þegar Drottinn hafði bjargað honum . . . úr greipum Sáls“. Davíð tjáði tilfinningar sínar í söng og sagði: „Drottinn, bjarg mitt og vígi, frelsari minn, Guð minn, hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis.“ (Sálm. 18:3) Er ekki trústyrkjandi að vita að Jehóva skuli vera fær um að frelsa þjóna sína? — Sálm. 35:10.

Styrkti hann á sjúkrabeði

10, 11. Hvað getur gefið okkur vísbendingu um það hvenær Davíð lá á sjúkrabeði eins og nefnt er í 41. sálminum?

10 Davíð konungur var einu sinni alvarlega veikur eins og fram kemur í 41. sálminum. Um tíma var hann rúmliggjandi og svo máttfarinn að sumir óvinir hans töldu að hann myndi ‚ekki rísa aftur‘. (Vers 8, 9) Hvenær var Davíð svona veikur? Aðstæðurnar, sem nefndar eru í þessum sálmi, gætu átt við þann erfiða tíma á ævi Davíðs þegar Absalon sonur hans reyndi að steypa honum af stóli. — 2. Sam. 15:6, 13, 14.

11 Davíð segir til dæmis að vinur hans, sem áður neytti matar með honum, hafi svikið hann. (Vers 10) Þetta minnir okkur kannski á það þegar Akítófel, ráðgjafinn sem Davíð bar mikið traust til, sveik hann og gekk í lið með Absalon í uppreisn hans. (2. Sam. 15:31; 16:15) Hugsaðu þér veikburða konunginn á sjúkrabeðinu. Hann hafði ekki styrk til að fara á fætur en vissi að hann var umkringdur svikurum sem vildu hann feigan svo að þeir gætu náð illum áformum sínum. — Vers 6.

12, 13. (a)Hvernig lýsti Davíð sannfæringu sinni? (b) Hvernig kann Guð að hafa styrkt Davíð?

12 Davíð hætti ekki að treysta á frelsara sinn. Hann lýsti hvernig Jehóva hugsar um ráðvandan þjón sinn sem er veikur: „Á mæðudeginum bjargar Drottinn honum. Drottinn styður hann á sóttarsæng, þú læknar hann þegar hann liggur sjúkur.“ (Sálm. 41:2, 4) Hér tökum við aftur eftir sannfæringu Davíðs þegar hann segir „Drottinn styður hann“. Davíð var viss um að Jehóva myndi frelsa sig. Hvernig?

13 Davíð ætlaðist ekki til þess að Jehóva ynni kraftaverk og læknaði hann. Hann var hins vegar viss um að Jehóva myndi ‚styðja hann‘ — veita honum stuðning og styrk á meðan hann lægi á sjúkrabeði. Davíð þurfti nauðsynlega á slíkri hjálpa að halda. Auk þess að vera veikburða af völdum sjúkdómsins var hann umkringdur óvinum sem töluðu illa um hann. (Vers 6, 7) Vel má vera að Jehóva hafi styrkt Davíð með því að minna hann á hughreystandi orð. Athygli vekur að Davíð sagði: „Þú studdir mig af því að ég er saklaus.“ (Vers 13) Kannski styrkti það Davíð að hugleiða að Jehóva áleit hann saklausan þrátt fyrir veikindin og það slæma sem óvinir hans sögðu. Davíð náði sér að lokum. Finnst þér ekki hughreystandi að vita að Jehóva getur styrkt þá sem eru veikir? — 2. Kor. 1:3.

Sá honum fyrir nauðsynjum

14, 15. Hvenær bráðvantaði Davíð og menn hans nauðsynjar og hvaða hjálp fengu þeir?

14 Þegar Davíð varð konungur Ísraels gat hann notið hins besta í mat og drykk og jafnvel boðið mörgum að matast með sér. (2. Sam. 9:10) En hann vissi líka hvernig það var að líða skort. Þegar Absalon, sonur hans, stóð fyrir uppreisn og reyndi að sölsa undir sig konungdóminn yfirgaf Davíð Jerúsalem ásamt nokkrum dyggum stuðningsmönnum. Þeir flúðu til Gíleaðlands austan við Jórdanána. (2. Sam. 17:22, 24) Davíð og menn hans neyddust til að lifa eins og flóttamenn. Áður en langt um leið skorti þá bæði mat og drykk og þeir voru hvíldarþurfi. En hvar gátu þeir fundið vistir á þessu strjálbýla svæði?

15 Að lokum komu Davíð og menn hans til borgarinnar Mahanaím. Þar hittu þeir þrjá hugrakka menn, Sóbí, Makír og Barsillaí, sem voru fúsir til að hjálpa konunginum sem Guð hafði útvalið. Þeir settu sig í lífshættu því að þeir vissu að ef Absalon næði völdum myndi hann örugglega refsa harðlega hverjum sem hafði stutt Davíð. Þegar þessir dyggu þegnar sáu hvernig ástatt var fyrir Davíð og mönnum hans færðu þeir þeim ýmsar nauðsynjar eins og dýnur og ábreiður, hveiti, bygg, ristað korn, ertur, linsubaunir, hunang, súrmjólk og fénað. (Lestu 2. Samúelsbók 17:27-29.) Davíð hlýtur að hafa verið snortinn af einstakri hollustu og gestrisni þessara þriggja manna. Hann hefur ábyggilega aldrei gleymt því sem þeir gerðu fyrir hann.

16. Hverjum var það að þakka að Davíð og menn hans fengu nauðsynjar?

16 En hverjum var það í rauninni að þakka að Davíð og menn hans fengu nauðsynjar? Davíð var sannfærður um að Jehóva annaðist fólk sitt. Jehóva getur án efa ýtt við öðrum þjónum sínum, ef svo mætti að orði komast, og hvatt þá til að hjálpa trúsystkini í neyð. Þegar Davíð hugleiddi það sem gerst hafði í Gíleaðlandi áleit hann án efa að góðvild þessara þriggja manna væri merki um ástríka umhyggju Jehóva. Á síðustu æviárunum skrifaði hann: „Ungur var ég og gamall er ég orðinn en aldrei sá ég réttlátan mann [að sér meðtöldum] yfirgefinn eða niðja hans biðja sér matar.“ (Sálm. 37:25) Finnst þér ekki hughreystandi að vita að hönd Jehóva er aldrei stutt? — Orðskv. 10:3.

Jehóva er fær um að frelsa þjóna sína

17. Hvað hefur Jehóva sýnt fram á æ ofan í æ?

17 Davíð var aðeins einn af mörgum sem Jehóva frelsaði á biblíutímanum. Eftir daga Davíðs hefur Guð æ ofan í æ sýnt fram á sannleiksgildi orða Péturs postula: „Drottinn [veit] hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu,“ eða prófraun. (2. Pét. 2:9) Skoðum tvö dæmi til viðbótar.

18. Hvernig frelsaði Jehóva þjóna sína á dögum Hiskía?

18 Þegar hinn voldugi her Assýringa réðst inn í Júda og settist um Jerúsalem á áttundu öld f.Kr. bað Hiskía konungur: „Drottinn, Guð vor, bjarga oss . . . svo að öll konungsríki veraldar komist að raun um að þú, Drottinn, einn ert Guð.“ (Jes. 37:20) Hiskía var mest umhugað um nafn og orðstír Guðs. Jehóva svaraði þessari einlægu bæn. Á aðeins einni nóttu felldi engill 185.000 Assýringa og frelsaði þannig trúfasta þjóna Jehóva. — Jes. 37:32, 36.

19. Hvaða viðvörun þurftu kristnir menn á fyrstu öld að hlýða til að komast undan ógæfu?

19 Aðeins nokkrum dögum fyrir dauða sinn gaf Jesús lærisveinum sínum í Júdeu spádómlega viðvörun. (Lestu Lúkas 21:20-22.) Áratugir liðu en árið 66 settust hersveitir Rómverja um Jerúsalem til að bæla niður uppreisn Gyðinga. Undir stjórn Cestíusar Gallusar tókst hersveitunum að grafa undan hluta af musterisveggnum en síðan hurfu þær skyndilega á braut. Trúfastir kristnir menn sáu þetta sem tækifæri til að komast undan eyðingunni sem Jesús hafði spáð og flúðu til fjalla. Rómversku hersveitirnar komu aftur árið 70 og nú sneru þær ekki til baka heldur gereyddu Jerúsalem. Hinir kristnu, sem höfðu hlýtt orðum Jesú, komust undan þessari miklu ógæfu. — Lúk. 19:41-44.

20. Af hverju getum við treyst því að Jehóva frelsi okkur?

20 Það er trústyrkjandi að hugleiða dæmi sem sýna að Jehóva hjálpar þjónum sínum. Það sem hann gerði áður fyrr gefur okkur tilefni til að treysta honum í hvívetna. Við getum treyst fullkomlega að Jehóva frelsi okkur hvaða erfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir núna eða eigum eftir að lenda í síðar. En með hvaða hætti ætli Jehóva frelsi okkur? Og hver var reynsla þeirra sem sagt var frá í byrjun greinarinnar? Um það verður rætt í næstu grein.

Manstu?

• Hverju getum við treyst miðað við 70. sálminn?

• Hvernig styrkti Jehóva Davíð þegar hann var veikur?

• Hvaða dæmi sýna að Jehóva getur frelsað þjóna sína undan andstæðingum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 6]

Jehóva bænheyrði Hiskía.