Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hjálpum þeim sem villast frá hjörðinni

Hjálpum þeim sem villast frá hjörðinni

Hjálpum þeim sem villast frá hjörðinni

„Samgleðjist mér því að ég hef fundið sauðinn minn sem týndur var.“ — LÚK. 15:6.

1. Hvernig reyndist Jesús vera kærleiksríkur hirðir?

JESÚS KRISTUR, einkasonur Jehóva, er kallaður ‚hinn mikli hirðir sauðanna‘. (Hebr. 13:20) Í Biblíunni var spáð fyrir um komu hans og bent á að hann yrði einstakur hirðir sem leitaði „týndra sauða“ af Ísraelsætt. (Matt. 2:1-6; 15:24) Að síðustu dó Jesús sem lausnarfórn fyrir þá sem vildu hagnýta sér fórn hans, ekki ósvipað og bókstaflegur fjárhirðir sem fórnar lífi sínu til að vernda sauðina. — Jóh. 10:11, 15; 1. Jóh. 2:1, 2.

2. Hvað kann að valda því að sumir vottar verða óvirkir?

2 Sumir sem virtust kunna að meta fórn Jesú og vígðust Guði eru því miður hættir að starfa með kristna söfnuðinum. Depurð, veikindi eða eitthvað annað kann að hafa dregið úr þeim með þeim afleiðingum að þeir urðu óvirkir. En til að njóta þess friðar og þeirrar hamingju, sem Davíð talar um í 23. sálminum, verða þeir að tilheyra hjörð Guðs. Davíð söng til dæmis: „Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.“ (Sálm. 23:1) Þeir sem tilheyra hjörð Guðs hafa allt sem þeir þurfa til að eiga sterkt samband við hann en þeir sem hafa villst frá hjörðinni eru verr settir. Hverjir geta komið þeim til hjálpar? Hvernig er hægt að aðstoða þá? Hvað er hægt að gera til að hjálpa þeim að snúa aftur til hjarðarinnar?

Hverjir geta aðstoðað?

3. Hvað er nauðsynlegt, að sögn Jesú, til að bjarga sauð sem hefur villst frá hjörðinni?

3 Það þarf að leggja eitthvað á sig til að bjarga sauð sem hefur villst frá gæsluhjörð Guðs. (Sálm. 100:3) Jesús lýsti því með eftirfarandi dæmisögu: „Ef einhver á hundrað sauði og einn þeirra villist frá, skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í fjallinu og fer að leita þess sem villtur er? Og auðnist honum að finna hann, þá segi ég yður með sanni að hann fagnar meir yfir honum en þeim níutíu og níu sem villtust ekki frá. Þannig er það eigi vilji yðar himneska föður að nokkur þessara smælingja glatist.“ (Matt. 18:12-14) Hverjir geta hjálpað þeim sem hafa villst frá hjörðinni?

4, 5. Hvernig eiga safnaðaröldungar að líta á hjörð Guðs?

4 Til að hjálpa sauð, sem hefur villst frá, þurfa safnaðaröldungar að hafa hugfast að söfnuðurinn samanstendur af fólki sem er vígt Jehóva — það er dýrmæt „gæsluhjörð“ Guðs. (Sálm. 79:13) Umsjónarmennirnir þurfa að sýna sauðunum umhyggju og persónulegan áhuga. Vinsamlegar hirðisheimsóknir geta haft mikið að segja. Umsjónarmenn geta veitt þeim sem hafa villst frá söfnuðinum hlýlega hvatningu til að byggja upp trú þeirra og samband við Jehóva þannig að þá langi enn meir til að sameinast hjörðinni á ný. — 1. Kor. 8:1.

5 Hirðar hjarðar Guðs hafa það hlutverk að leita að sauðum sem hafa villst frá og reyna að hjálpa þeim. Páll postuli minnti safnaðaröldunga í Efesus á þá ábyrgð þeirra að gæta sauðanna. Hann sagði: „Hafið gát á sjálfum ykkur og allri hjörðinni sem heilagur andi fól ykkur til umsjónar. Verið hirðar kirkju Guðs sem hann hefur aflað sér með sínu eigin blóði.“ (Post. 20:28) Pétur postuli tók í sama streng og hvatti andasmurða safnaðaröldunga: „Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur. Gætið hennar ekki nauðugir heldur af fúsu geði eins og Guð vill, ekki af gróðafíkn heldur fúslega. Þið skuluð ekki drottna yfir söfnuðunum heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar.“ — 1. Pét. 5:1-3.

6. Af hverju hefur aldrei verið mikilvægara en nú að gæta sauðanna?

6 Umsjónarmenn þurfa að líkja eftir ‚góða hirðinum‘ Jesú. (Jóh. 10:11) Honum var ákaflega annt um sauði Guðs og hann lagði mikla áherslu á að það þyrfti að gæta þeirra. Hann sagði Símoni Pétri: „Ver hirðir sauða minna.“ (Lestu Jóhannes 21:15-17.) Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að gæta sauðanna vel því að Satan reynir meira en nokkru sinni fyrr að fá þá sem eru vígðir Guði til að vera honum ótrúir. Hann notfærir sér heiminn og veikleika holdsins til að reyna að tæla sauði Jehóva til að syndga. (1. Jóh. 2:15-17; 5:19) Þeir sem eru óvirkir hafa minna mótstöðuafl en hinir þannig að þeir þurfa að fá stuðning til að ‚lifa í andanum‘ eins og hvatt er til í Biblíunni. (Gal. 5:16-21, 25) Til að liðsinna þessum sauðum þurfa umsjónarmennirnir að leita hjálpar Guðs í bæn, þiggja leiðsögn anda hans og nota Biblíuna fagmannlega. — Orðskv. 3:5, 6; Lúk. 11:13; Hebr. 4:12.

7. Hve mikilvægt er að öldungar gæti hjarðarinnar?

7 Fjárhirðir í Forn-Ísrael notaði langan krókstaf til að stýra hjörðinni. Sauðirnir ‚gengu undir hirðisstafinn‘ og hirðirinn taldi þá þegar þeir fóru inn í sauðabyrgið eða út úr því. (3. Mós. 27:32; Míka 2:12; 7:14) Kristinn umsjónarmaður þarf einnig að þekkja hjörðina, sem hann hefur umsjón með, og fylgjast með henni. (Samanber Orðskviðina 27:23.) Hjarðgæslan er því eitt þeirra mikilvægu mála sem öldungaráðið fjallar um á fundum sínum. Meðal annars gerir öldungaráðið ráðstafanir til að liðsinna sauðum sem hafa villst frá. Jehóva sagðist myndi leita sauða sinna og líta eftir þeim (Esek. 34:11) Það gleður hann þegar öldungar fara að dæmi hans og reyna að hjálpa sauð, sem hefur villst frá hjörðinni, að snúa aftur.

8. Hvernig geta öldungar veitt sauðunum persónulega aðstoð?

8 Þegar einhver í söfnuðinum á við veikindi að stríða getur verið uppörvandi fyrir hann að fá einn af umsjónarmönnunum í heimsókn. Það sama á við ef einhver veikist í trúnni. Öldungar geta lesið upp ritningarstaði, farið yfir grein, rætt um efni sem farið var yfir á samkomu, beðið með hinum óvirka og svo framvegis. Þeir geta nefnt að það myndi gleðja aðra í söfnuðinum að sjá hann aftur á samkomum. (2. Kor. 1:3-7; Jak. 5:13-15) Heimsókn, símtal eða bréf getur haft ótrúleg áhrif. Og það getur líka verið ánægjulegt fyrir umsjónarmanninn að veita einstaklingi, sem hefur villst frá hjörðinni, persónulega aðstoð.

Sameiginlegt verkefni

9, 10. Af hverju er það ekki aðeins hlutverk öldunganna að liðsinna sauðum sem hafa villst frá hjörðinni?

9 Við lifum á erfiðum tímum og eigum annríkt þannig að hugsanlega tökum við ekki eftir því að einhver er að fjarlægjast söfnuðinn. (Hebr. 2:1) En sauðir Jehóva eru honum dýrmætir. Hver einasti er verðmætur rétt eins og allir limir líkamans. Þess vegna þurfum við öll að sýna umhyggju fyrir trúsystkinum okkar og láta okkur annt hvert um annað. (1. Kor. 12:25) Hugsar þú þannig?

10 Þó að það sé fyrst og fremst hlutverk öldunganna að leita uppi og liðsinna sauðum sem hafa villst frá hjörðinni geta fleiri lagt sitt af mörkum til þess. Hægt er að styðja öldungana í þessu starfi. Við bæði getum og eigum að uppörva og aðstoða trúsystkini sem þurfa á hjálp að halda til að snúa aftur til hjarðarinnar. Hvernig er hægt að gera það?

11, 12. Hvernig gætir þú fengið tækifæri til að liðsinna trúsystkini sem hefur villst frá hjörðinni?

11 Í sumum tilfellum biðja öldungarnir reyndan boðbera að aðstoða óvirka sem óska eftir aðstoð við biblíunám. Markmiðið er að endurvekja „fyrri kærleik“ með þeim. (Opinb. 2:1, 4) Hægt er að byggja þá upp í trúnni með því að fara yfir efni sem þeir fóru á mis við meðan þeir sóttu ekki safnaðarsamkomur.

12 Ef öldungarnir biðja þig að sinna trúsystkini, sem er aðstoðar þurfi við biblíunám, skaltu biðja Jehóva að leiðbeina þér og blessa viðleitni þína. „Fel Drottni verk þín og þá bera áform þín árangur,“ segir í Orðskviðunum 16:3. Hugleiddu ritningargreinar og trústyrkjandi efni sem þú getur notað til að byggja upp þá sem þarfnast aðstoðar. Íhugaðu hið ágæta fordæmi Páls postula. (Lestu Rómverjabréfið 1:11, 12.) Páll þráði að sjá trúsystkini sín í Róm til að miðla þeim af gjöfum andans og styrkja þau. Og hann hlakkaði til þess að uppörvast með þeim. Ættum við ekki að vera þannig sinnuð þegar við reynum að hjálpa einhverjum sem hefur villst frá hjörð Guðs?

13. Um hvað gætirðu rætt við þann sem þú ert að aðstoða?

13 Þegar þið setjist niður til biblíunáms gætirðu kannski spurt: „Hvernig kynntist þú sannleikanum?“ Rifjaðu upp góðar endurminningar og hvettu hinn óvirka til að segja frá ánægjustundum sem hann átti á samkomum, í boðunarstarfinu og á mótum. Minnstu á góðar stundir sem þið áttuð ef til vill saman í þjónustu Jehóva. Segðu honum hve ánægjulegt þér finnist að nálægja þig Jehóva. (Jak. 4:8) Nefndu hve þakklátur þú sért að Guð skuli sjá vel fyrir þjónum sínum — ekki síst með því að veita okkur huggun og von í þrengingum okkar. — Rómv. 15:4; 2. Kor. 1:3, 4.

14, 15. Á hvað getur verið gott að minna óvirka?

14 Að öllum líkindum er gott að minna hinn óvirka á blessunina sem hann naut meðan hann var virkur í starfi safnaðarins. Á þeim tíma bætti hann við þekkingu sína á orði Guðs og fyrirætlun hans. (Orðskv. 4:18) Meðan hann ‚lifði í andanum‘ var hann eflaust betur í stakk búinn að standast freistingar. (Gal. 5:22-26) Hann var með hreina samvisku og það auðveldaði honum að leita til Jehóva í bæn og eiga ‚frið Guðs sem er æðri öllum skilningi og varðveitir hjarta okkar og hugsanir‘. (Fil. 4:6, 7) Hafðu þetta í huga, sýndu einlægan áhuga og hvettu trúsystkini þitt hlýlega til að snúa aftur til hjarðarinnar. — Lestu Filippíbréfið 2:4.

15 Segjum að þú sért öldungur og þú sért í hirðisheimsókn hjá hjónum sem eru orðin óvirk. Þú gætir hvatt þau til að rifja upp hvernig þeim var innanbrjósts þegar þau kynntust sannleikanum í orði Guðs. Var hann ekki unaðslegur, hrífandi og rökréttur? Fundu þau ekki til frelsis? (Jóh. 8:32) Voru þau ekki þakklát fyrir að fá að kynnast Jehóva, kærleika hans og fyrirætlun? (Samanber Lúkas 24:32.) Minntu þau á að vígðir þjónar Jehóva eigi sérstakt og náið samband við hann og hljóti þann heiður að mega biðja til hans. Hvettu þau til að láta ‚fagnaðarerindið um dýrð hins blessaða Guðs‘ veita sér innblástur á nýjan leik. — 1. Tím. 1:11.

Höldum áfram að sýna þeim kærleika

16. Nefndu dæmi sem sýnir að óvirkir geta orðið virkir boðberar á ný þegar þeir fá aðstoð.

16 Virka þessar tillögur sem hér hafa verið viðraðar? Já, tökum sem dæmi ungan mann sem varð boðberi 12 ára en varð svo óvirkur 15 ára. Síðar varð hann aftur virkur boðberi og hefur nú þjónað í fullu starfi í meira en 30 ár. Hann náði sér aftur á strik fyrst og fremst af því að safnaðaröldungur aðstoðaði hann. Hjálpin, sem hann fékk, var honum mikils virði.

17, 18. Hvaða eiginleikar geta hjálpað þér að liðsinna einstaklingi sem hefur villst frá hjörð Guðs?

17 Það er kærleikur sem er kristnum mönnum hvöt til að hjálpa óvirkum að snúa aftur til safnaðarins. Jesús sagði við fylgjendur sína: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað. Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóh. 13:34, 35) Kristnir menn þekkjast á kærleikanum. Eigum við ekki að láta kærleikann ná til skírðra votta sem eru orðnir óvirkir? Að sjálfsögðu. En þegar við liðsinnum þeim sem þarfnast aðstoðar þurfum við að sýna ýmsa kristna eiginleika.

18 Hvaða eiginleika gætirðu þurft að sýna til að hjálpa einhverjum sem hefur villst frá hjörð Guðs? Meðal annars meðaumkun, góðvild, auðmýkt og langlyndi, auk kærleikans. Þú gætir líka þurft að fyrirgefa ef svo ber undir. Páll skrifaði: „Íklæðist . . . hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera. En íklæðist yfir allt þetta elskunni sem bindur allt saman og fullkomnar allt.“ — Kól. 3:12-14.

19. Af hverju er það erfiðisins virði að hjálpa týndum sauðum að komast aftur inn í sauðabyrgið?

19 Í næstu námsgrein í þessu blaði ræðum við um ýmsar ástæður fyrir því að sumir villast frá hjörð Guðs. Þar kemur einnig fram hvaða móttökum þeir sem snúa aftur mega búast við. Þegar þú ferð yfir þá grein og rifjar upp efni þessarar greinar máttu treysta að það er erfiðisins virði að reyna að hjálpa týndum sauðum að komast aftur inn í sauðabyrgið. Í núverandi heimskerfi eyða margir allri ævinni í að reyna að safna peningum, en eitt mannslíf er miklu meira virði en allir peningar í heimi. Þetta kemur skýrt fram í dæmisögu Jesú um týnda sauðinn. (Matt. 18:12-14) Hafðu það hugfast þegar þú leggur þig fram af alúð og kappi við að hjálpa ástkærum sauðum Jehóva sem hafa villst frá hjörðinni.

Hvert er svarið?

• Hvaða ábyrgð hvílir á umsjónarmönnum safnaðarins gagnvart sauðum sem hafa villst frá hjörðinni?

• Hvernig geturðu hjálpað þeim sem starfa ekki með söfnuðinum núna?

• Hvaða eiginleikar geta hjálpað þér að liðsinna þeim sem hafa villst frá hjörðinni?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 10]

Kristnir umsjónarmenn leggja sig fram um að hjálpa þeim sem hafa villst frá hjörð Guðs.