Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers konar manneskja viltu vera?

Hvers konar manneskja viltu vera?

Hvers konar manneskja viltu vera?

LÖGREGLUSTJÓRI í bæ á Filippseyjum spurði brautryðjanda nokkurn: „Hvernig tókst þér að fá þennan mann til að breyta sér?“ Hann benti á blaðastafla á skrifborðinu sínu og sagði: „Veistu hvað þetta er? Þetta eru allt saman gamlar kærur á hendur honum. Þú ert búinn að leysa stórt vandamál í þessum bæ.“ Umræddur maður hafði verið drykkfelldur, ofbeldishneigður og til sífelldra vandræða. Hvað fékk hann til að snúa algerlega við blaðinu? Það var innblásinn boðskapur Biblíunnar.

Margir hafa farið eftir ráðum Páls postula um að „hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni . . . og íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill“. (Ef. 4:22-24) Til að tileinka okkur kristna trú þurfum við meðal annars að íklæðast hinum nýja manni, hvort sem það útheimtir litlar breytingar eða stórar.

Breytingarnar, sem við gerum, og framfarirnar, sem við tökum til að verða hæf til skírnar, eru þó aðeins byrjunin. Við skírnina erum við ekki ólík trjábút sem hefur verið skorinn til í megindráttum. Hægt er að sjá hvað á að verða úr honum en heilmikil vinna er enn þá eftir. Tréskurðarmaðurinn á enn eftir að skera út fínni drætti til að skapa fallegt listaverk. Við skírnina búum við yfir helstu eiginleikum sem krafist er til að verða þjónar Guðs. En hinn nýi maður á enn eftir að þroskast. Við þurfum að halda áfram að bæta hann með því að gera ýmsar lagfæringar.

Meira að segja Páli fannst hann þurfa að taka framförum. Hann sagði hreinskilnislega: „Þótt ég vilji gera hið góða er hið illa mér tamast.“ (Rómv. 7:21) Páli var fyllilega ljóst hvers konar maður hann var og hvers konar maður hann vildi verða. Hvað um okkur? Við þurfum líka að velta eftirfarandi spurningum fyrir okkur: Hvað er mér tamast? Hvers konar manneskja er ég? Og hvernig langar mig til að verða?

Hvað er þér tamast?

Þegar þarf að gera upp gamalt hús er ekki nóg að mála það að utan ef innviðirnir eru fúnir. Það er ávísun á vandræði síðar meir að hunsa skemmdir í burðarvirki hússins. Á sama hátt er ekki nóg að þykjast bara vera heiðvirður. Við verðum að rannsaka innviði sjálfra okkar og þekkja þau vandamál sem þarf að leysa. Að öðrum kosti er alveg öruggt að okkar ‚gamli maður‘ skýtur aftur upp kollinum. Það er því nauðsynlegt að gera ítarlega sjálfsskoðun. (2. Kor. 13:5) Við þurfum að koma auga á óæskileg einkenni og reyna að uppræta þau. Jehóva býður fram aðstoð sína svo að við getum gert það.

Páll skrifaði: „Orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ (Hebr. 4:12) Boðskapurinn í orði Guðs, Biblíunni, getur haft sterk áhrif á okkur. Hann smýgur inn í okkur, í táknrænni merkingu alveg inn í merginn, innst í beinunum. Hann leiðir í ljós hugsanir okkar og hvatir og afhjúpar hvernig við erum innst inni, borið saman við það sem við sýnumst vera eða við höldum okkur vera. Er ekki óhætt að segja að orð Guðs hjálpi okkur að þekkja vandamál okkar?

Þegar gert er við gamalt hús dugar líklega ekki að skipta bara um það sem er ónýtt. Ef við vitum hvað olli skemmdunum getum við komið í veg fyrir að þær endurtaki sig. Til að hafa stjórn á veikleikum okkar þurfum við sömuleiðis bæði að þekkja óæskileg einkenni í fari okkar og komast að því hvað veldur þeim eða ýtir undir þau. Það er margt sem mótar persónuleika okkar. Meðal annars má nefna þjóðfélagsstöðu okkar, fjárhag, umhverfið, menninguna, foreldra okkar, félaga og trúarlegt uppeldi. Kvikmyndir og sjónvarpsefni, sem við horfum á, svo og önnur afþreying, setur meira að segja mark sitt á okkur. Ef við vitum hvað hefur óæskileg áhrif á okkur erum við í betri aðstöðu til að sporna við þessum áhrifum.

Eftir að hafa gert sjálfsrannsókn höfum við kannski tilhneigingu til að hugsa sem svo: ‚Ég er bara svona.‘ Það er hættulegt hugarfar. Páll sagði um kristna menn í Korintu sem höfðu áður verið saurlífismenn, kynvillingar, vínsvallarar og fleira í þeim dúr: „Þannig voruð þið sumir hverjir. En þið létuð laugast . . . Það gerði . . . andi vors Guðs.“ (1. Kor. 6:9-11) Með hjálp heilags anda getum við líka gert nauðsynlegar breytingar.

Líttu á sögu Marcosar * sem býr á Filippseyjum. Hann segir um uppvaxtarár sín: „Foreldrar mínir voru alltaf að rífast. Þess vegna gerði ég uppreisn þegar ég var 19 ára.“ Marcos stundaði fjárhættuspil og varð alræmdur fyrir þjófnað og vopnuð rán. Hann hafði meira að segja uppi áform um að ræna flugvél í félagi við aðra, þótt ekkert yrði úr því. Marcos hélt þessu líferni áfram eftir að hann kvæntist. Að lokum tapaði hann aleigunni í fjárhættuspili. Stuttu eftir það byrjaði hann að sitja biblíunámskeið sem vottar Jehóva héldu með eiginkonu hans. Í fyrstu fannst honum hann vera óverðugur þess að verða vottur. En með því að breyta eftir því sem hann lærði og sækja samkomur gat hann snúið baki við fyrra líferni. Núna er hann skírður vottur og kennir öðrum hvernig þeir geti líka breytt sér.

Hvernig viltu vera?

Hvað gætum við þurft að gera til að bæta kristna eiginleika okkar? Páll ráðleggur kristnum mönnum: „Nú skuluð þið segja skilið við allt þetta: reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð. Ljúgið ekki hvert að öðru því þið hafið afklæðst hinum gamla manni með gjörðum hans.“ Páll hvetur þá síðan til að ‚íklæðast hinum nýja manni sem Guð er að skapa að nýju í sinni mynd til þess að þeir fái gjörþekkt hann‘. — Kól. 3:8-10.

Við viljum því umfram allt afklæðast gamla manninum og íklæðast hinum nýja. Hvaða eiginleika verðum við að rækta með okkur til að geta það? Páll segir: „Íklæðist . . . hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera. En íklæðist yfir allt þetta elskunni sem bindur allt saman og fullkomnar allt.“ (Kól. 3:12-14) Með því að leggja hart að okkur við að þroska þessa eiginleika verðum við „æ þekkari bæði Drottni og mönnum“. (1. Sam. 2:26, Biblían 1981) Þegar Jesús var á jörðinni sýndi hann guðrækni og góða eiginleika svo að af bar. Með því að kynna okkur fordæmi hans og fylgja því líkjumst við honum betur og verðum þar af leiðandi „eftirbreytendur Guðs“. — Ef. 5:1, 2.

Önnur leið til að átta okkur á þeim breytingum sem við gætum þurft að gera er að kynna okkur eiginleika fólks sem sagt er frá í Biblíunni og skoða hvað var aðlaðandi við það og hvað ekki. Lítum til dæmis á Jósef, son ættföðurins Jakobs. Hann varð fyrir miklu óréttlæti en hélt samt áfram að vera jákvæður og varðveita góða eiginleika. (1. Mós. 45:1-15) Absalon, sonur Davíðs konungs, þóttist á hinn bóginn bera mikla umhyggju fyrir þjóðinni og var dáður fyrir glæsimennsku sína. Í rauninni var hann þó svikari og morðingi. (2. Sam. 13:28, 29; 14:25; 15:1-12) Uppgerðargóðvild og líkamsfegurð ein saman gerir engan aðlaðandi.

Þú getur breytt þér

Við þurfum að gefa gaum að hinum innri manni ef við viljum breyta okkur til hins betra og verða fögur í augum Guðs. (1. Pét. 3:3, 4) Til að bæta okkur þurfum við að læra að koma auga á óæskilega eiginleika og orsakir þeirra, auk þess að rækta með okkur góða eiginleika. Er alveg öruggt að við getum bætt okkur ef við leggjum okkur vel fram?

Já, með hjálp Jehóva getum við breytt því sem breyta þarf. Við getum beðið líkt og sálmaritarinn: „Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.“ (Sálm. 51:12) Við getum beðið um að fá anda Guðs og styrkt löngun okkar til að laga líf okkar betur að vilja hans. Það leikur enginn vafi á því að við getum breytt okkur og orðið enn meira aðlaðandi í augum Jehóva.

[Neðanmáls]

^ gr. 11 Nafninu hefur verið breytt.

[Mynd á blaðsíðu 4]

Er hægt að gera við hús, sem er stórskemmt eftir fárviðri, með því einu að mála það að utan?

[Mynd á blaðsíðu 5]

Hvernig gengur þér að líkja eftir Kristi?