Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Mesta sönnunin fyrir kærleika Guðs

Mesta sönnunin fyrir kærleika Guðs

Nálægðu þig Guði

Mesta sönnunin fyrir kærleika Guðs

1. Mósebók 22:1-18

ABRAHAM elskaði Guð. Þessi trúfasti ættfaðir elskaði einnig Ísak, soninn sem hann hafði eignast í ellinni. En þegar Ísak var líklega 25 ára varð Abraham fyrir prófraun sem gekk þvert á eðlishvöt hans sem föður — Guð sagði honum að fórna syni sínum. En Ísak dó ekki í sögulok. Á síðustu stundu skarst Guð í leikinn og lét engil stöðva Abraham. Þessi frásaga Biblíunnar í 1. Mósebók 22:1-18 gefur okkur spádómlega innsýn í það hversu mikinn kærleika Guð ber til okkar.

‚Guð reyndi Abraham‘, segir í versi 1. Abraham var trúfastur maður en nú var trú hans reynd sem aldrei fyrr. Guð sagði: „Tak þú son þinn, einkason þinn sem þú elskar, hann Ísak, og . . . fórna honum sem brennifórn á því fjalli sem ég mun vísa þér á.“ (Vers 2) Hafðu í huga að Guð leyfir ekki að þjónar hans séu reyndir umfram það sem þeir þola. Prófraunin sýndi því hve mikið traust hann bar til Abrahams. — 1. Korintubréf 10:13.

Abraham hlýddi tafarlaust. Við lesum: „Árla morguns söðlaði Abraham asna sinn, tók með sér tvo af sveinum sínum og Ísak son sinn, klauf við til brennifórnar, lagði síðan af stað“. (Vers 3) Abraham sagði greinilega engum frá því í hverju prófraunin var fólgin.

Við tók þriggja daga ferðalag sem hefur gefið Abraham tíma til alvarlegrar íhugunar. En ásetningur hans haggaðist ekki. Trú hans sýndi sig í því sem hann sagði. Þegar hann sá fjallið sem Guð hafði valið sagði hann við þjóna sína: „Bíðið hérna . . . en við drengurinn munum ganga þangað upp eftir til að biðjast fyrir og komum svo til ykkar aftur“. Þegar Ísak spurði hvar sauðurinn væri, sem ætti að fórna, sagði Abraham: „Guð mun sjá sér fyrir sauð.“ (Vers 58) Abraham bjóst við að snúa aftur með son sinn. Hvers vegna? Vegna þess að „hann hugði að Guð væri jafnvel þess megnugur að vekja [Ísak] upp frá dauðum“. — Hebreabréfið 11:19.

Engill stöðvaði Abraham uppi á fjallinu þegar hann tók „hnífinn í hönd sér til þess að slátra syni sínum“. Guð sá fyrir hrút sem sat fastur í greinaþykkni og Abraham gat fórnað „í stað sonar síns“. (Vers 10-13) Í augum Guðs var eins og Ísak hefði verið fórnað. (Hebreabréfið 11:17) Fræðimaður hefur útskýrt „að fyrir Guði hafi vilji Abrahams til að fórna syni sínum jafngilt því að hann hefði í raun gert það“.

Abraham reyndist verðugur þess trausts sem Jehóva sýndi honum. Og honum var launað fyrir að hafa treyst Jehóva því að Jehóva endurtók og jók við sáttmálann sem hann hafði gert við hann. Í sáttmálanum var lofað blessun fyrir allar þjóðir heims. — Vers 15-18.

Guð hlífði Abraham við þeirri fórn sem hann hlífði sjálfum sér ekki við. Abraham var fús til að fórna Ísak og það vísaði á táknrænan hátt til þess þegar Guð fórnaði einkasyni sínum, Jesú, fyrir syndir okkar. (Jóhannes 3:16) Fórn Jesú Krists er mesta sönnunin fyrir kærleika Jehóva til okkar. Þar sem Guð var tilbúinn til að færa slíka fórn fyrir okkur er gott að spyrja sjálfan sig: Hverju er ég tilbúinn að fórna til að þóknast Guði?