Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vissir þú?

Vissir þú?

Vissir þú?

Var holdsveiki á tímum Biblíunnar sami sjúkdómurinn og við þekkjum undir þessu heiti nú á dögum?

Þegar talað er um sjúkdóminn „holdsveiki“ nú á dögum er átt við bakteríusýkingu í mönnum. Það var læknirinn G. A. Hansen sem uppgötvaði fyrst þessa bakteríu (Mycobacterium leprae) árið 1873. Vísindamenn hafa komist að því að bakterían getur lifað í allt að níu daga utan mannslíkamans í slími úr nefi. Það hefur auk þess komið í ljós að fólk, sem er í návígi við holdsveika, er í aukinni smithættu og að smit getur borist með fatnaði. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni sýktust meira en 220.000 manns af holdsveiki árið 2007.

Það er enginn vafi á því að holdsveiki var til í Mið-Austurlöndum á biblíutímanum og samkvæmt Móselögunum átti að setja holdsveikt fólk í einangrun. (3. Mósebók 13:4, 5) En hebreska orðið tsa·raʹʽað, sem þýtt er holdsveiki, var ekki bara notað um sjúkdóm sem lagðist á menn. Tsa·raʹʽað gat líka komið upp í húsum og flíkum. Þessi tegund af holdsveiki gat lagst á flíkur úr ull og hör eða á eitthvað sem gert var úr leðri. Stundum var hægt að fjarlægja hana í þvotti en ef „gulgræn eða rauðleit“ skella var enn í efninu átti að brenna það. (3. Mósebók 13:47-52) Ef holdsveikin lagðist á hús birtist hún sem „gulgrænar eða rauðleitar“ skellur á veggjum þess. Fjarlægja átti sýkta steina og múrhúð og fleygja þeim — fjarri híbýlum manna. Ef holdsveikin kom upp aftur átti að rífa húsið og farga byggingarefninu. (3. Mósebók 14:33-45) Sumir telja að slíkar holdsveikiskellur í flíkum og húsum geti verið það sem nú kallast mygla eða fúkki. En ekki er hægt að fullyrða neitt í þeim efnum.

Af hverju varð uppþot meðal silfursmiða í Efesus þegar Páll postuli prédikaði þar?

Silfursmiðirnir í Efesus högnuðust á því að búa til „eftirlíkingar úr silfri af musteri Artemisar“ sem var verndari borgarinnar og auk þess gyðja veiðimennsku, frjósemi og barnsfæðinga. (Postulasagan 19:24) Líkneski af Artemis átti að hafa fallið „af himni“ og því var komið fyrir í musteri hennar í Efesus. (Postulasagan 19:35) Þetta musteri var talið eitt af sjö undrum veraldar til forna. Fólk flykktist til Efesus í pílagrímsferðir í mars og apríl á hverju ári til að sækja hátíðir gyðjunni til heiðurs. Með komu þessara gesta jókst eftirspurn eftir trúarlegum hlutum eins og minjagripum, verndargripum, fórnum til handa gyðjunni eða til að nota við tilbeiðslu þegar heim var komið. Fornar áletranir í Efesus greina frá framleiðslu á gull- og silfurstyttum af Artemis og aðrar áletranir nefna sérstaklega samtök silfursmiða.

Páll kenndi að líkneski væru „guðir sem með höndum [væru] gerðir“. (Postulasagan 19:26) Silfursmiðirnir óttuðust að þetta gæti ógnað lífsviðurværi þeirra og æstu því til uppþots til að mótmæla boðun Páls. Demetríus var einn af silfursmiðunum og lýsti í hnotskurn ótta starfsbræðra sinna þegar hann sagði: „Nú horfir þetta ekki einungis iðn okkar til smánar heldur einnig til þess að helgidómur hinnar miklu gyðju, Artemisar, verði einskis virtur og að hún, sem öll Asía og heimsbyggðin dýrkar, verði svipt tign sinni.“ — Postulasagan 19:27.