Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horfum til launanna

Horfum til launanna

Horfum til launanna

„[Ég] keppi þannig að markinu, til verðlaunanna.“ — FIL. 3:14.

1. Hvaða laun biðu Páls postula?

PÁLL postuli, einnig þekktur sem Sál frá Tarsus, var af virtri ætt. Hann hlaut uppfræðslu í trúarbrögðum forfeðra sinna hjá hinum fræga lögmálskennara Gamalíel. (Post. 22:3) Að mati margra beið Páls góður starfsframi en hann sagði skilið við sína fyrri trú og gerðist kristinn. Síðan horfði hann fram til launanna — að hljóta eilíft líf sem ódauðlegur konungur og prestur í himnesku ríki Guðs. Þetta ríki mun fara með völd yfir jörðinni sem verður breytt í paradís. — Matt. 6:10; Opinb. 7:4; 20:6.

2, 3. Hve mikils mat Páll þau laun að hljóta líf á himnum?

2 Páll sýndi hve mikils hann mat þessi laun og sagði: „Það sem var mér ávinningur met ég nú vera tjón sakir Krists. Já, meira að segja met ég allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn. Sakir hans hef ég misst allt og met það sem sorp.“ (Fil. 3:7, 8) Það sem flestir telja mikilvægt — staða, auður, starfsframi og upphefð — mat Páll sem sorp eftir að hann kynntist sannleikanum um fyrirætlun Guðs með mennina.

3 Það sem skipti Pál mestu máli upp frá því var þekkingin á Jehóva og Jesú Kristi. Jesús minntist á þessa dýrmætu þekkingu í bæn til Guðs og sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóh. 17:3) Páll hafði einlæga löngun til að hljóta eilíft líf eins og sjá má af orðum hans í Filippíbréfinu 3:14: „[Ég] keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur í Kristi kallað okkur til.“ Já, hann einblíndi á þau laun að hljóta eilíft líf og vera hluti af stjórn Guðs á himnum.

Eilíft líf á jörðinni

4, 5. Hvaða laun bíða milljóna manna sem gera vilja Guðs nú á dögum?

4 Flestir sem kjósa að gera vilja Guðs hljóta að launum eilíft líf í nýjum heimi hans. Það eru laun sem vert er að keppa að. (Sálm. 37:11, 29) Jesús staðfesti að þetta væri örugg von. Hann sagði: „Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa.“ (Matt. 5:5) Jesús er sjálfur aðalerfingi jarðarinnar eins og kemur fram í Sálmi 2:8, ásamt 144.000 meðstjórnendum á himnum. (Dan. 7:13, 14, 22, 27) Þeir sem tilheyra öðrum sauðum munu búa á jörðinni og „erfa“ hinn jarðneska hluta ‚ríkisins sem þeim var ætlaður frá grundvöllun heims‘. (Matt. 25:34, 46) Við höfum fullvissu fyrir því að þetta verði að veruleika vegna þess að Guð lofar því og hann ‚lýgur aldrei‘. (Tít. 1:2) Við getum verið jafn sannfærð og Jósúa um að loforð Guðs rætist, en hann sagði við Ísraelsmenn: „Ekkert fyrirheitanna sem voru ykkur í hag og Drottinn, Guð ykkar, gaf ykkur er óefnt, öll hafa þau ræst, ekkert þeirra hefur brugðist.“ — Jós. 23:14.

5 Lífið í nýjum heimi Guðs verður ekki eins og það er í dag. Heimurinn verður allt öðruvísi: laus við styrjaldir, glæpi, fátækt, óréttlæti, sjúkdóma og dauða. Fólk mun hafa fullkomna heilsu og búa á jörð sem hefur verið breytt í paradís. Lífið verður innihaldsríkara og ánægjulegra en við getum nokkurn tíma ímyndað okkur. Já, hver dagur verður öðrum yndislegri. Hvílík verðlaun!

6, 7. (a) Hvernig gaf Jesús sýnishorn af því sem mun eiga sér stað í nýjum heimi Guðs? (b) Hvernig fá hinir dánu tækifæri til að byrja upp á nýtt?

6 Þegar Jesús var á jörðinni fékk hann kraft frá heilögum anda Guðs til að gefa sýnishorn af öllu því dásamlega sem mun eiga sér stað í nýja heiminum. Tökum dæmi. Jesús sagði manni, sem hafði verið lamaður í 38 ár, að standa upp og ganga og Biblían segir að maðurinn hafi gert það. (Lestu Jóhannes 5:5-9.) Við annað tækifæri hitti Jesús „mann sem var blindur frá fæðingu“ og læknaði hann. Seinna var maðurinn spurður út í þann sem hafði læknað hann. Maðurinn svaraði: „Frá alda öðli hefur ekki heyrst að nokkur hafi gert þann sjáandi sem blindur var borinn. Ef þessi maður væri ekki frá Guði gæti hann ekkert gert.“ (Jóh. 9:1, 6, 7, 32, 33) Jesús gat gert allt þetta vegna þess að hann fékk kraft frá Guði. Jesús „læknaði þá er lækningar þurftu“ hvar sem hann kom. — Lúk. 9:11.

7 Auk þess að geta læknað sjúka og lamaða reisti Jesús upp dána. Í Biblíunni er til dæmis sagt frá 12 ára stúlku sem dó og það olli foreldrum hennar mikilli sorg. En Jesús sagði: „Stúlka litla, ég segi þér, rís upp!“ Og það gerði hún. Geturðu ímyndað þér viðbrögð foreldranna og annarra sem voru á staðnum? (Lestu Markús 5:38-42.) Í nýjum heimi Guðs verða allir frá sér numdir af gleði þegar milljarðar verða reistir upp því að „upp [munu] rísa bæði réttlátir og ranglátir“. (Post. 24:15; Jóh. 5:28, 29) Þeir fá tækifæri til að byrja upp á nýtt og öðlast von um eilíft líf.

8, 9. (a) Hvað verður um erfðasyndina undir þúsundárastjórn Krists? (b) Á grundvelli hvers verða hinir upprisnu dæmdir?

8 Þeir sem rísa upp fá tækifæri til að öðlast eilíft líf og verða ekki dæmdir fyrir syndir sem þeir drýgðu áður en þeir dóu. (Rómv. 6:7) Þegar andvirði lausnarfórnarinnar verður notað til fulls í þúsundáraríki Krists ná hlýðnir þegnar Guðsríkis fullkomleika og verða að lokum algerlega lausir við áhrifin af synd Adams. (Rómv. 8:21) Jehóva mun „afmá dauðann að eilífu. Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu.“ (Jes. 25:8) Í orði Guðs segir einnig að ‚bókum verði lokið upp‘ en það gefur til kynna að þeir sem þá lifi fái nýjar upplýsingar. (Opinb. 20:12) Þegar jörðinni verður breytt í paradís „læra jarðarbúar réttlæti“. — Jes. 26:9.

9 Hinir upprisnu verða ekki dæmdir á grundvelli syndarinnar sem þeir erfðu frá Adam heldur eftir því sem þeir kjósa sjálfir að gera. Í Opinberunarbókinni 20:12 segir: „Hinir dauðu voru dæmdir eftir verkum sínum eins og ritað var í bókunum,“ það er að segja verkum sínum eftir upprisuna. Þetta er einstakt dæmi um réttlæti, miskunn og kærleika Jehóva. Auk þess verður allt gleymt sem olli þeim sársauka í hinum gamla heimi, þess „verður ekki minnst framar og það skal engum í hug koma“. (Jes. 65:17) Þar sem gæði lífsins verða óþrjótandi og nýjar upplýsingar aðgengilegar mun hið slæma úr fortíðinni ekki lengur hrjá þá. Allar slæmar minningar verða horfnar úr huga þeirra. (Opinb. 21:4) Hið sama á við um ‚múginn mikla‘ sem lifir af Harmagedón. — Opinb. 7:9, 10, 14.

10. (a) Hvernig verður lífið í nýjum heimi Guðs? (b) Hvað getur hjálpað þér að horfa til launanna?

10 Hvorki sjúkdómar eða dauði mun hrjá fólk í nýjum heimi Guðs. „Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er veikur.‘“ (Jes. 33:24) Að lokum munu byggjendur nýju jarðarinnar hafa fullkomna heilsu og vakna á hverjum morgni fullir tilhlökkunar því að þeir eiga annan stórkostlegan dag í vændum. Þeir hlakka til að vinna ánægjulega vinnu og eiga félagsskap við aðra sem er innilega annt um þá. Það eru dásamleg verðlaun að fá að lifa við slíkar aðstæður. Væri ekki tilvalið að taka fram Biblíuna og lesa spádómana í Jesaja 33:24 og 35:5-7? Reyndu að sjá sjálfan þig fyrir þér við þessar aðstæður. Það hjálpar þér að horfa til launanna.

Þeir sem misstu sjónar á laununum

11. Lýstu hvernig Salómon hóf stjórnartíð sína.

11 Þegar við skiljum hvaða laun við eigum í vændum verðum við að einbeita okkur að þeim svo að við missum ekki sjónar á þeim. Tökum dæmi. Þegar Salómon varð konungur yfir Ísrael til forna bað hann auðmjúklega til Guðs um skilning og dómgreind svo að hann gæti dæmt rétt í málum þjóðarinnar. (Lestu 1. Konungabók 3:6-12.) Biblían segir um framhaldið: „Guð gaf Salómon speki og mikinn skilning.“ Já, „speki Salómons var meiri en speki allra Austurlandabúa og tók fram allri speki Egypta“. — 1. Kon. 4:29-32.

12. Hvaða fyrirmæli gaf Jehóva konungum Ísraels?

12 Jehóva hafði áður sagt að hver sem gerðist konungur mætti „ekki afla sér of margra hesta“ og „ekki heldur taka sér of margar konur svo að hjarta hans [viki] ekki af réttri leið“. (5. Mós. 17:14-17) Ef konungurinn aflaði sér margra hesta gæfi það til kynna að hann treysti á hernaðarmátt til að vernda þjóðina í stað þess að reiða sig á vernd Jehóva. Og það væri hættulegt að taka sér margar konur því að sumar þeirra gætu verið frá heiðnum nágrannaþjóðum sem dýrkuðu falsguði, og þessar konur gætu snúið konunginum frá sannri tilbeiðslu á Jehóva.

13. Hvernig missti Salómon sjónar á því sem honum hafði verið gefið?

13 Salómon fylgdi ekki þessum fyrirmælum heldur gerði þvert á móti það sem Jehóva hafði sagt að konungar ættu ekki að gera. Hann eignaðist þúsundir hesta og reiðmanna. (1. Kon. 4:26) Hann eignaðist líka 700 eiginkonur og 300 hjákonur sem voru margar hverjar af heiðnu þjóðunum umhverfis Ísrael. Þær sneru „hjarta hans til annarra guða svo að hann fylgdi ekki Drottni, Guði sínum, heils hugar“. Salómon tók þátt í viðurstyggilegri falstrúariðkun heiðinna þjóða sem útlendar konur hans kynntu fyrir honum. Þess vegna sagði Jehóva við Salómon: „Ég [mun] hrifsa af þér konungsríkið.“ — 1. Kon. 11:1-6, 11.

14. Hvað hafði óhlýðni Salómons og Ísraelsþjóðarinnar í för með sér?

14 Salómon einblíndi ekki lengur á þann dýrmæta heiður sem hann hafði hlotið — að vera fulltrúi hins sanna Guðs. Konungurinn sökkti sér niður í falska tilbeiðslu. Með tímanum gerðist öll þjóðin fráhverf Guði en það leiddi til þess að hún var hernumin og flutt í útlegð árið 607 f.Kr. Þótt Gyðingar hafi að lokum endurreist sanna tilbeiðslu sagði Jesús mörgum öldum síðar: „Guðs ríki verður tekið frá ykkur og gefið þeirri þjóð sem ber ávexti þess.“ Og það er einmitt það sem gerðist. Jesús lýsti yfir: „Guð mun yfirgefa musteri yðar og það verður lagt í rúst.“ (Matt. 21:43; 23:37, 38) Vegna ótrúfesti sinnar missti þjóðin þann mikla heiður að vera fulltrúi hins sanna Guðs. Árið 70 e.Kr. lögðu rómverskar hersveitir bæði Jerúsalem og musterið í rúst og margir þeirra Gyðinga sem lifðu af voru gerðir að þrælum.

15. Nefndu dæmi um menn sem misstu sjónar á því sem skiptir máli.

15 Júdas Ískaríot var einn postulanna 12. Hann hlustaði á frábæra kennslu Jesú og sá kraftaverkin sem hann gerði með hjálp heilags anda Guðs. En Júdas verndaði ekki hjarta sitt. Honum hafði verið falin umsjón með pyngjunni sem peningar Jesú og postulanna 12 voru geymdir í. En „hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók af því sem í hana var látið“. (Jóh. 12:6) Græðgi hans náði hámarki þegar hann lagði á ráðin með hinum hræsnisfullu æðstuprestum um að svíkja Jesú fyrir 30 silfurpeninga. (Matt. 26:14-16) Demas, starfsfélagi Páls postula, er annað dæmi um mann sem fór út af sporinu. Hann verndaði ekki hjarta sitt. Páll sagði: „Demas hefur yfirgefið mig vegna þess að hann elskaði þennan heim.“ — 2. Tím. 4:10; lestu Orðskviðina 4:23.

Lærdómur fyrir okkur

16, 17. (a) Hversu öflugri andstöðu mætum við? (b) Hvað getur hjálpað okkur að standast allt sem Satan notar gegn okkur?

16 Allir þjónar Guðs ættu að hugsa alvarlega um fordæmin sem eru að finna í Biblíunni því að þar segir: „Allt þetta kom yfir þá sem fyrirboði og það er ritað til viðvörunar okkur sem endir aldanna er kominn yfir.“ (1. Kor. 10:11) Núna lifum við á síðustu dögum þessa illa heimskerfis. — 2. Tím. 3:1, 13.

17 Satan djöfullinn, „guð þessarar aldar“, veit að „hann hefur nauman tíma“. (2. Kor. 4:4; Opinb. 12:12) Hann gerir allt sem hann getur til að fá þjóna Guðs til að brjóta kristnar meginreglur. Satan stjórnar þessum heimi og áróðursmiðlum hans. En þjónar Jehóva hafa eitthvað sem er mun öflugra — ‚kraftinn mikla‘. (2. Kor. 4:7) Við getum reitt okkur á þennan kraft frá Guði til að standast allt sem Satan notar gegn okkur. Við erum því hvött til að biðja án afláts og getum verið viss um að Jehóva mun „gefa þeim heilagan anda sem biðja hann“. — Lúk. 11:13.

18. Hvernig ættum við að líta á núverandi heim?

18 Það styrkir okkur líka að vita að allur heimur Satans ferst bráðum en að sannkristnir menn lifa af. „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans en sá sem gerir Guðs vilja varir að eilífu.“ (1. Jóh. 2:17) Í ljósi þess er mjög óviturlegt af þjónum Jehóva að halda að núverandi heimur hafi upp á eitthvað að bjóða sem er varanlegra en samband þeirra við Jehóva. Heimurinn undir stjórn Satans er eins og sökkvandi skip. Jehóva hefur gefið trúföstum þjónum sínum „björgunarbát“ sem er kristni söfnuðurinn. Núna þegar þeir eru við það að sigla inn í nýja heiminn geta þeir treyst þessu loforði: „Illvirkjum verður tortímt en þeir sem vona á Drottin fá landið til eignar.“ (Sálm. 37:9) Horfðu því stöðugt til hinna dásamlegu launa sem bíða þín.

Manstu?

• Hvernig leit Páll á launin sem biðu hans?

• Á grundvelli hvers verða þeir dæmdir sem lifa að eilífu á jörðinni?

• Hvað er viturlegt af þér að gera núna?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 13]

Geturðu ímyndað þér hvernig það verður að hljóta launin þegar þú lest frásögur Biblíunnar?