Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum vakandi

Verum vakandi

Verum vakandi

„Endir allra hluta er í nánd. Verið . . . algáð til bæna.“ — 1. PÉT. 4:7.

1. Hver var þungamiðjan í kennslu Jesú?

ÞEGAR Jesús Kristur var hér á jörð var Guðsríki þungamiðjan í kennslu hans. Fyrir milligöngu þessa ríkis mun Jehóva verja alheimsdrottinvald sitt og helga nafn sitt. Þess vegna kenndi Jesús lærisveinum sínum að biðja til Guðs: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matt. 4:17; 6:9, 10) Bráðlega eyðir Guðsríki heimi Satans og sér til þess að vilji Guðs verði gerður um alla jörðina. Eins og Daníel spáði mun Guðsríki „eyða öllum þessum [núverandi] ríkjum og gera þau að engu en standa sjálft að eilífu“. — Dan. 2:44.

2. (a) Hvernig myndu fylgjendur Jesú vita að hann væri nærverandi sem konungur? (b) Hvað annað myndi táknið gefa til kynna?

2 Fylgjendur Jesú höfðu mikinn áhuga á komu Guðsríkis og því spurðu þeir hann: „Hvernig sjáum við að þú sért að koma og veröldin að líða undir lok?“ (Matt. 24:3) Sýnilegt tákn yrði gefið í ljósi þess að koma eða nærvera Krists sem konungur yrði ósýnileg jarðarbúum. Þetta tákn yrði samsett af ýmsu sem spáð var um í Biblíunni. Þannig gætu fylgjendur Jesú, sem væru uppi á þeim tíma, skilið að hann hefði byrjað að ríkja á himnum. Táknið myndi líka marka upphaf þess tímabils sem Biblían kallar ‚síðustu daga‘ hins núverandi illa heimskerfis. — 2. Tím. 3:1-5, 13; Matt. 24:7-14.

Verum vakandi á hinum síðustu dögum

3. Af hverju þurfa kristnir menn að vera vakandi?

3 Pétur postuli skrifaði: „Endir allra hluta er í nánd. Verið því gætin og algáð til bæna.“ (1. Pét. 4:7) Fylgjendur Jesú þurfa að vera algáðir og vakandi fyrir heimsatburðum sem gefa til kynna að hann sé nærverandi sem konungur. Og þeir þurfa að vera enn betur á verði eftir því sem endir hins illa heimskerfis færist nær. Jesús sagði lærisveinum sínum: „Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur [til að fullnægja dómi yfir heimi Satans].“ — Mark. 13:35, 36.

4. Hver er munurinn á viðhorfum þjóna Jehóva annars vegar og þeirra sem tilheyra heimi Satans hins vegar? (Sjá einnig rammagrein.)

4 Fólk er almennt undir yfirráðum Satans og hefur ekki verið vakandi fyrir merkingu heimsatburðanna. Það skilur ekki að Kristur er nærverandi sem konungur. En sannir fylgjendur Krists hafa verið vakandi og skilið raunverulega merkingu þess sem gerst hefur á liðinni öld. Frá árinu 1925 hafa Vottar Jehóva gert sér grein fyrir því að fyrri heimsstyrjöldin og atburðir í kjölfar hennar eru skýr sönnun þess að Kristur byrjaði að ríkja á himnum árið 1914. Þá hófust síðustu dagar þessa illa heimskerfis sem er undir stjórn Satans. Margt athugult fólk gerir sér grein fyrir því að heimurinn var ekki samur eftir fyrri heimsstyrjöldina en það skilur samt ekki af hverju. — Sjá rammagreinina „Öld óróleikans gekk í garð“.

5. Af hverju er mikilvægt að halda vöku sinni?

5 Þeir hræðilegu atburðir, sem hafa átt sér stað um allan heim síðastliðna öld, eru sönnun þess að við lifum á síðustu dögum. Það er mjög stutt þangað til Jehóva gefur Kristi skipun um að leiða máttugar englahersveitir gegn heimi Satans. (Opinb. 19:11-21) Sannkristnum mönnum er sagt að halda vöku sinni. Það er mikilvægt að gera það á meðan við bíðum eftir endalokum þessa heimskerfis. (Matt. 24:42) Við verðum að vera vakandi og sinna sérstöku starfi um alla jörð undir forystu Krists.

Starf unnið út um allan heim

6, 7. Hvernig hefur boðunarstarfinu miðað áfram á hinum síðustu dögum?

6 Í Biblíunni var búið að spá fyrir um það starf sem þjónum Jehóva er falið að sinna. Það er hluti af hinu samsetta tákni um að við lifum á síðustu dögum hins illa heimskerfis. Jesús lýsti þessu alþjóðlega starfi þegar hann taldi upp ýmislegt sem myndi gerast á endalokatímanum. Í spádómi hans er að finna þessa mikilvægu yfirlýsingu: „Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það. Og þá mun endirinn koma.“ — Matt. 24:14.

7 Skoðum nokkrar staðreyndir sem tengjast þessum þætti í spádómi Jesú. Þegar hinir síðustu dagar hófust árið 1914 var aðeins lítill hópur sem boðaði fagnaðarerindið. Núna hefur þessi hópur vaxið svo um munar. Meira en 7.000.000 votta Jehóva prédika um alla jörð. Þeir tilheyra meira en 100.000 söfnuðum. Árið 2008 komu þar að auki um 10.000.000 með vottum Jehóva á minningarhátíðina um dauða Krists. Það var mjög mikil aukning miðað við árið á undan.

8. Af hverju hefur andstaða ekki komið í veg fyrir að boðunarstarfið beri árangur?

8 Um allan heim er verið að vitna rækilega um Guðsríki áður en endir þessa heimskerfis skellur á. Þetta er gert þrátt fyrir að Satan sé „guð þessarar aldar“. (2. Kor. 4:4) Öll pólitísk, trúarleg og viðskiptaleg öfl þessa heims, auk áróðursmiðla hans, eru undir áhrifum Satans. Hvers vegna hefur prédikunarstarfið þá skilað svona ótrúlegum árangri? Það hlýtur að vera vegna stuðnings Jehóva. Af þeim sökum miðar boðun fagnaðarerindisins einstaklega vel áfram þrátt fyrir tilraunir Satans til að stöðva það.

9. Af hverju má líkja andlegri velsæld þjóna Guðs við kraftaverk?

9 Það er kraftaverki líkast hve boðunarstarfið hefur skilað miklum árangri, hve þjónum Jehóva hefur fjölgað og hvílíka velsæld þeir búa við í andlegum skilningi. Án stuðnings frá Guði, þar á meðal leiðbeininga hans og verndar, væri ekki hægt að framkvæma boðunarstarfið. (Lestu Matteus 19:26.) Heilagur andi Guðs hefur áhrif á hjörtu þeirra sem eru vakandi og tilbúnir til að þjóna. Því getum við verið viss um að prédikunarstarfið verður unnið af kappi þangað til verkinu er lokið „og þá mun endirinn koma“. Sá tími nálgast óðfluga.

Þrengingin mikla

10. Hvernig lýsti Jesús þrengingunni miklu?

10 Endir þessa illa heimskerfis dynur á í ‚þrengingunni miklu‘. (Opinb. 7:14) Biblían segir okkur ekki hve lengi hún varir en Jesús sagði: „Þá verður sú mikla þrenging sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og verður aldrei framar.“ (Matt. 24:21) Heimurinn hefur þegar gengið í gegnum miklar þrengingar eins og síðari heimsstyrjöldina þegar um 50 til 60 milljónir týndu lífi. En það eru óverulegar þrengingar í samanburði við þrenginguna miklu. Hún nær hámarki í Harmagedónstríðinu. Þá gefur Jehóva aftökusveitum sínum lausan tauminn og þær munu eyða jarðneskum heimi Satans með öllu. — Opinb. 16:14, 16.

11, 12. Hvaða viðburður markar upphaf þrengingarinnar miklu?

11 Í spádómum Biblíunnar er ekki gefin upp nein dagsetning á því hvenær fyrsti hluti þrengingarinnar miklu hefst. Hins vegar er tekið fram hvaða stórviðburður marki upphaf hennar. Hún hefst þegar stjórnmálaöflin eyða öllum falstrúarbrögðum. Spádómarnir í 17. og 18. kafla Opinberunarbókarinnar líkja fölskum trúarbrögðum við skækju sem hefur drýgt saurlifnað með stjórnmálaöflum jarðarinnar. Í Opinberunarbókinni 17:16 má sjá að bráðum munu þessi stjórnmálaöfl „hata skækjuna og svipta hana öllu og skilja hana eftir nakta. Þau munu eta hold hennar og brenna hana í eldi“.

12 Þegar þessi tími kemur hefur Guð „lagt þeim [pólitískum valdhöfum] í brjóst að gera vilja sinn“, það er að segja að eyða öllum fölskum trúarbrögðum. (Opinb. 17:17) Því má segja að þessi eyðing komi frá Guði. Þetta er dómur hans gegn hræsnisfullum trúarbrögðum sem hafa svo lengi ofsótt þjóna hans og haldið á lofti kenningum sem stangast á við vilja hans. Heimurinn á almennt ekki von á þessari komandi eyðingu falstrúarbragðanna. En trúfastir þjónar Jehóva vænta hennar. Og á þessum síðustu dögum hafa þeir varað fólk við.

13. Hvað gefur til kynna að eyðing falstrúarbragðanna komi snögglega?

13 Það verður mikið áfall fyrir fólk að horfa upp á eyðingu falstrúarbragðanna. Í spádómum Biblíunnar má sjá að jafnvel sumir „konungar jarðarinnar“ muni segja um þessa eyðingu: „Vei, vei, . . . á einni stundu kom dómur þinn.“ (Opinb. 18:9, 10, 16, 19) Þar sem Biblían notar orðalagið „á einni stundu“ sýnir það að þetta gerist tiltölulega hratt.

14. Hvernig bregst Jehóva við þegar óvinir hans snúast gegn þjónum hans?

14 Í Biblíunni er gefið til kynna að einhvern tíma eftir eyðingu falstrúarbragðanna verði ráðist á þjóna Jehóva sem hafa boðað dómsboðskap hans. (Esek. 38:14-16) Þegar sú árás byrjar neyðast árásarmennirnir til að mæta Jehóva sem lofar að vernda trúfasta þjóna sína. Jehóva segir: „Í ákefð minni, í minni brennandi heift, tala ég . . . til þess að þær [þjóðirnar] viðurkenni, að ég er Drottinn.“ (Lestu Esekíel 38:18-23, Biblían 1981.) Í orði sínu segir Guð: „Hver sá sem snertir við yður [trúföstum þjónum hans], snertir sjáaldur mitt.“ (Sak. 2:12) Þegar óvinir Jehóva ráðast á þjóna hans um allan heim bregst hann við með því að taka í taumana. Þar með hefst síðasti hluti þrengingarinnar miklu og hámark hennar — Harmagedónstríðið. Undir forystu Krists framfylgja máttugar englahersveitir dómi Jehóva gegn heimi Satans.

Hvaða áhrif ætti þetta að hafa á okkur?

15. Hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur að vita að endir þessa heimskerfis er nærri?

15 Hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur að vita að endir þessa illa heimskerfis nálgast óðum? Pétur postuli skrifaði: „Þar eð allt þetta ferst, þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi.“ (2. Pét. 3:11) Þessi orð leggja áherslu á hve nauðsynlegt sé að við gætum þess að hegða okkur í samræmi við kröfur Guðs. Við verðum líka að lifa guðrækilegu lífi sem endurspeglar kærleika okkar til Jehóva. Það felur í sér að leggja sig allan fram við að prédika fagnaðarerindið um ríkið áður en endirinn kemur. Pétur skrifaði líka: „Endir allra hluta er í nánd. Verið . . . algáð til bæna.“ (1. Pét. 4:7) Við styrkjum samband okkar við Jehóva og sýnum kærleika okkar til hans með því að leita stöðugt til hans í bæn. Við ættum að biðja hann um að nota heilagan anda og alheimssöfnuðinn til að leiðbeina okkur.

16. Af hverju verðum við að fylgja leiðbeiningum Guðs vandlega?

16 Á þessum hættutímum verðum við að fylgja vandlega eftirfarandi leiðbeiningum Biblíunnar: „Hafið því nákvæma gát á hvernig þið breytið, ekki sem fávís heldur sem vís. Notið hverja stund því að dagarnir eru vondir.“ (Ef. 5:15, 16) Illskan er núna meiri en nokkru sinni fyrir í sögu mannkyns. Satan hefur fundið upp margar leiðir til að trufla fólk eða koma í veg fyrir að það geri vilja Jehóva. Við sem erum þjónar Guðs vitum þetta og viljum ekki að neitt grafi undan hollustu okkar við Guð. Við vitum líka hvað mun bráðlega eiga sér stað og leggjum traust okkar á Jehóva og fyrirætlun hans. — Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

17. Hver verða viðbrögð þeirra sem lifa af Harmagedón þegar upprisan á sér stað?

17 Hið dásamlega loforð Guðs um að reisa upp hina látnu mun vissulega rætast. „Upp [munu] rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ (Post. 24:15) Taktu eftir fullvissunni í orðunum ‚upp munu rísa‘. Á þessu leikur enginn vafi því að Jehóva hefur heitið því. Í Jesaja 26:19 er að finna þetta loforð: „Menn þínir, sem dánir eru, munu lifna . . . Þeir sem í moldinni búa munu vakna og fagna . . . jörðin [mun] fæða þá sem dánir eru.“ Þessi orð rættust upphaflega þegar þjóð Guðs til forna fékk að snúa aftur til heimalands síns. Það fullvissar okkur um að þetta loforð rætist bókstaflega í nýja heiminum. Gleðin verður ólýsanleg þegar hinir upprisnu sameinast ástvinum sínum. Já, heimur Satans líður brátt undir lok og nýr heimur Guðs er handan við hornið. Hve mikilvægt er því ekki að vera vakandi.

Manstu?

• Hver var þungamiðjan í kennslu Jesú?

• Hversu víðtæk er boðun fagnaðarerindisins á okkar dögum?

• Af hverju er nauðsynlegt að vera vakandi?

• Hvað finnst þér uppörvandi við loforðið í Postulasögunni 24:15?

[Spurningar]

[Rammi/mynd á blaðsíðu 16, 17]

ÖLD ÓRÓLEIKANS GEKK Í GARÐ

Árið 2007 kom út bókin The Age of Turbulence: Adventures in a New World. Höfundurinn er Alan Greenspan sem var seðlabankastjóri Bandaríkjanna í næstum tvo áratugi, en seðlabankinn hefur yfirumsjón með öllu bankakerfi þjóðarinnar. Í bókinni dregur Greenspan fram þann mikla mun sem var á stöðu heimsmála fyrir 1914 og eftir. Greenspan segir:

„Allar samtímaheimildir bera með sér að fyrir 1914 virtist heimurinn stefna jafnt og þétt í átt til aukinnar siðfágunar og siðmenningar. Allt benti til þess að mannlegt samfélag gæti orðið fullkomið. Á nítjándu öld hafði verið bundinn endi á hina fyrirlitlegu þrælaverslun. Ómanneskjulegt ofbeldi virtist á undanhaldi . . . Tækninni hafði fleygt fram frá upphafi nítjándu aldar og hún hafði fært okkur járnbrautir, síma, raflýsingu, kvikmyndir, bifreiðar og heimilistæki sem voru fleiri en svo að tölu yrði á komið. Með framförum í læknisfræði, betri næringu og stórfelldri dreifingu á hreinu drykkjarvatni höfðu lífslíkur lengst . . . Allir héldu að slíkar framfarir hlytu að halda áfram.“

En . . . „þótt síðari heimsstyrjöldin hafi verið mun mannskæðari en sú fyrri olli sú fyrri meira tjóni á siðmenningu og siðfágun: hún tortímdi hugmynd. Ég get ekki hætt að hugsa um árin á undan fyrri heimsstyrjöldinni þegar framtíð mannkyns virtist áhyggjulaus og framfarir óstöðvandi. Viðhorf okkar eru gerólík því sem þau voru fyrir einni öld en kannski í heldur betra samræmi við veruleikann. Eiga ótti og hryðjuverk, hlýnun jarðar eða vaxandi áhersla á skoðanir og hagsmuni almennings eftir að hafa sömu áhrif á núverandi skeið bættra lífskjara og alþjóðavæðingar og fyrri heimsstyrjöldin hafði á tímabilið á undan? Enginn veit það með vissu.“

reenspan rifjar upp námsár sín og ummæli Benjamins M. Andersons (1886-1949) sem var prófessor í hagfræði á þeim tíma: „Þeir sem voru komnir til vits og ára fyrir fyrri heimsstyrjöldina og þekktu þann heim sem þá var, horfa um öxl með sárum söknuði. Þá ríkti almenn öryggistilfinning sem hefur ekki þekkst síðan.“ — Economics and the Public Welfare.

Gerald J. Meyer kemst að svipaðri niðurstöðu í bókinni A World Undone sem kom út árið 2006. Þar segir: „Oft er haft á orði að sögulegir atburðir hafi ‚breytt öllu‘. Það má með sanni segja um stríðið mikla [1914-18]. Stríðið breytti bókstaflega öllu: ekki aðeins landamærum, ekki aðeins ríkisstjórnum og örlögum þjóða heldur því hvaða augum fólk hefur séð heiminn og sjálft sig allar götur síðan. Stríðið myndaði eins konar tómarúm í tímanum með þeim afleiðingum að heimurinn eftir stríðið glataði fyrir fullt og allt tengslunum við þann heim sem fyrir var.“

[Mynd á blaðsíðu 18]

Jehóva gefur máttugum englahersveitum lausan tauminn í Harmagedónstríðinu.