Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Réttlátir lofa Guð að eilífu

Réttlátir lofa Guð að eilífu

Réttlátir lofa Guð að eilífu

„Minning hins réttláta er ævarandi . . . réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.“ — SÁLM. 112:6, 9.

1. (a) Hvaða gleðilegu framtíð eiga þeir í vændum sem eru réttlátir í augum Guðs? (b) Hvaða spurning vaknar?

ALLIR sem eru réttlátir í augum Guðs eiga unaðslega framtíð fyrir sér. Þeir geta notið þess að fræðast endalaust um stórfenglega eiginleika Jehóva. Og þeir munu lofa hann af heilu hjarta þegar þeir halda áfram að kynnast sköpunarverkum hans. En til að sjá þessa dýrlegu von rætast verða þeir að vera ‚réttlátir‘. Það kemur skýrt fram í Sálmi 112. En hvernig geta syndugir menn verið réttlátir í augum Jehóva sem er heilagur og réttlátur Guð? Sama hve hart við leggjum að okkur að gera rétt mistekst okkur margt, stundum mjög alvarlega. — Rómv. 3:23; Jak. 3:2.

2. Hvaða tvö kraftaverk vann Jehóva í kærleika sínum?

2 Í kærleika sínum fann Jehóva fullkomna lausn á þessum vanda. Hver er hún? Fyrst vann hann það kraftaverk að flytja líf sonar síns á himnum í móðurkvið meyjar svo að hann gæti fæðst sem fullkominn maður. (Lúk. 1:30-35) Eftir að óvinir Jesú tóku hann af lífi vann Jehóva annað einstakt kraftaverk. Hann reisti Jesú upp til lífs sem dýrlega andaveru. — 1. Pét. 3:18.

3. Af hverju umbunaði Guð syni sínum með lífi á himnum?

3 Jehóva umbunaði Jesú með því að veita honum nokkuð sem hann átti ekki áður en hann var sendur til jarðar. Hann veitti honum ‚líf sem þrýtur ekki‘. (Hebr. 7:15-17, 28) Jehóva gerði þetta vegna þess að Jesús hafði reynst fullkomlega ráðvandur í erfiðustu prófraunum. Þar með gaf Jesús föður sínum besta svarið — fullkomið svar — við þeirri lygi Satans að mennirnir þjóni Guði af eigingjörnu tilefni en ekki vegna órjúfanlegs kærleika. — Orðskv. 27:11.

4. (a) Hvað gerði Jesús fyrir okkur þegar hann sneri aftur til himna og hvernig brást Jehóva við? (b) Hvernig líturðu á það sem Jehóva og Jesús hafa gert fyrir þig?

4 Eftir að Jesús var kominn aftur til himna ‚birtist hann fyrir augliti Guðs okkar vegna‘ og afhenti honum andvirði ‚síns eigin blóðs‘. Faðirinn á himnum tók fúslega við dýrmætri fórn Jesú sem ‚friðþægingu fyrir syndir okkar‘. Þannig ‚hreinsaði hann samvisku okkar‘ svo að við getum „þjónað lifanda Guði“. Er það ekki ærin ástæða til að enduróma upphafsorðið í Sálmi 112 — „hallelúja“ eða lofið Jah? —  Hebr. 9:12-14, 24; 1. Jóh. 2:2.

5. (a) Hvað þurftum við að gera til að vera réttlát í augum Guðs? (b) Hvernig eru Sálmur 111 og 112 byggðir upp?

5 Til að vera réttlát í augum Guðs þurfum við að trúa á úthellt blóð Jesú. Við ættum aldrei að láta dag líða án þess að þakka Jehóva fyrir kærleika hans. (Jóh. 3:16) Við þurfum líka að halda áfram að lesa og hugleiða orð Guðs og gera okkar besta til að lifa í samræmi við boðskap þess. Í Sálmi 112 eru góðar leiðbeiningar handa öllum sem vilja varðveita hreina samvisku frammi fyrir Guði. Sálmur 111 og 112 mynda eina heild. Báðir hefjast með upphrópuninni „hallelúja“. Í framhaldinu koma 22 línur sem er raðað í stafrófsröð eftir 22 bókstöfum hebreska stafrófsins. *

Forsenda hamingju

6. Hvaða blessun hlýtur hinn guðhræddi sem lýst er í Sálmi 112?

6„Sæll er sá sem óttast Drottin og gleðst yfir boðum hans. Niðjar hans verða voldugir í landinu, ætt réttvísra mun blessun hljóta.“ (Sálm. 112:1, 2) Við tökum eftir að sálmaritarinn talar fyrst í eintölu um þann sem óttast Jehóva en skiptir síðan yfir í fleirtölu þegar hann talar um ‚réttvísa‘ í lok annars versins. Miðað við það getur Sálmur 112 átt við hóp en ekki aðeins einstakling. Páli postula var reyndar innblásið að heimfæra Sálm 112:9 á samskipti Guðs við kristna menn á fyrstu öld. (Lestu 2. Korintubréf 9:8, 9.) Það er óhætt að segja að sálmurinn lýsi vel hvernig fylgjendur Krists nú á tímum geta verið hamingjusamir.

7. Af hverju þurfa þjónar Guðs að óttast hann á heilnæman hátt og hvernig eigum við að líta á boðorð hans?

7 Eins og Sálmur 112:1 ber með sér eru sannkristnir menn sælir eða hamingjusamir þegar þeir „óttast Drottin“ Jehóva. Þessi heilnæmi ótti við að misþóknast honum hjálpar þeim að láta ekki þann anda, sem ríkir í heimi Satans, hafa áhrif á sig. Þeir hafa mikla ánægju af því að lesa og hugleiða orð Guðs og hlýða boðorðum hans, þar á meðal þeim fyrirmælum að boða fagnaðarerindið um ríkið út um allan heim. Þeir reyna að gera fólk af öllum þjóðum að lærisveinum og vara óguðlega við því að dómsdagur Guðs sé í nánd. — Esek. 3:17, 18; Matt. 28:19, 20.

8. (a) Hvernig hefur Guð umbunað dyggum þjónum sínum nú á tímum? (b) Hvaða blessun bíður þeirra sem hafa jarðneska von?

8 Þar sem þjónar Guðs hafa hlýtt þessum fyrirmælum eru þeir nú orðnir um sjö milljónir talsins. Því verður ekki móti mælt að þeir eru orðnir „voldugir í landinu“ eða á jörðinni. (Jóh. 10:16; Opinb. 7:9, 14) Og þeir eiga eftir að fá enn meiri „blessun“ þegar Jehóva heldur áfram að hrinda vilja sínum í framkvæmd. Þeir sem eiga jarðneska von munu sem hópur hljóta vernd í „þrengingunni miklu“ og fá að mynda ‚nýja jörð þar sem réttlæti býr‘. Þegar fram líða stundir munu þeir sem lifa af Harmagedón hljóta enn meiri blessun. Þeir verða á staðnum til að taka á móti þeim milljónum sem rísa upp frá dauðum. Þetta eru spennandi framtíðarhorfur! Að lokum ná þeir sem hafa yndi af boðorðum Guðs fullkomleika og búa síðan að eilífu við „frelsið í dýrðinni með börnum Guðs“. — 2. Pét. 3:13; Rómv. 8:21.

Viturleg notkun auðæfa

9, 10. Hvernig hafa sannkristnir menn notað andleg auðæfi sín og hvernig mun réttlæti þeirra standa stöðugt að eilífu?

9„Nægtir og auðæfi eru í húsi hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu. Réttvísum skín ljós í myrkri, mildum, miskunnsömum og réttlátum.“ (Sálm. 112:3, 4) Sumir af þjónum Guðs á biblíutímanum voru auðugir. Og þeir sem Guð hefur velþóknun á auðgast í öðrum skilningi þó að þeir séu ekki ríkir að efnislegum auði. Sannleikurinn er sá að þeir sem auðmýkja sig fyrir Guði eru margir fátækir og lítils metnir líkt og var á dögum Jesú. (Lúk. 4:18; 7:22; Jóh. 7:49) En hvort sem við eigum mikið eða lítið af efnislegum gæðum getum við verið auðug að andlegum verðmætum. — Matt. 6:20; 1. Tím. 6:18, 19; lestu Jakobsbréfið 2:5.

10 Andasmurðir kristnir menn og félagar þeirra sitja ekki á andlegum auðæfum sínum. Þeir ‚skína sem ljós‘ í myrkum heimi Satans og lýsa „réttvísum“. Þeir gera það með því að miðla öðrum af fjársjóðum viskunnar og þekkingarinnar á Guði. Andstæðingar hafa reynt að stöðva boðun fagnaðarerindisins en án árangurs. Ávöxturinn af þessu réttláta starfi mun standa „að eilífu“. Ef þjónar Guðs eru ráðvandir og réttlátir í prófraunum hafa þeir örugga von um að ‚standa að eilífu‘ það er að segja að hljóta eilíft líf.

11, 12. Lýstu hvernig þjónar Guðs nota fjármuni sína.

11 Þjónar Guðs, bæði hinir andasmurðu og þeir sem mynda ‚múginn mikla‘, hafa verið örlátir á efnislega hluti. Í Sálmi 112:9 segir: „Hann hefur miðlað mildilega og gefið fátækum.“ Sannkristnir menn aðstoða oft trúsystkini efnislega og sömuleiðis þurfandi nágranna. Þeir nota einnig fjármuni sína til að styðja hjálparstarf á neyðartímum. Eins og Jesús gaf til kynna stuðlar það einnig að hamingju og gleði. — Lestu Postulasöguna 20:35; 2. Korintubréf 9:7.

12 Og hugsaðu þér fjármunina sem notaðir eru í að gefa út þetta tímarit á 172 tungumálum. Mörg þeirra eru töluð af frekar fátæku fólki. Blaðið er einnig gefið út á ýmsum táknmálum heyrnarlausra, auk blindraleturs.

Örlátur og réttvís

13. Hverjir eru bestu fyrirmyndirnar um örlæti og hvernig getum við líkt eftir þeim?

13„Vel farnast þeim sem lánar fúslega.“ (Sálm. 112:5) Þú kannast eflaust við það að þeir sem aðstoða aðra gera það ekki alltaf af hreinu örlæti. Sumir eru yfirlætislegir eða gefa með ólund. Það er ekki sérlega gaman að þiggja aðstoð frá fólki sem lítur niður á mann eða gefur í skyn að maður sé til óþurftar. Hins vegar er upplífgandi að þiggja liðsinni örlátrar manneskju. Jehóva er afbragðsdæmi um örlátan og glaðan gjafara. (1. Tím. 1:11, Biblían 1912; Jak. 1:5, 17) Jesús Kristur endurspeglaði fullkomlega örlæti föður síns. (Mark. 1:40-42) Til að vera réttlát í augum Guðs þurfum við að gefa fúslega og með gleði, ekki síst í boðunarstarfinu þegar við reynum að hjálpa fólki að kynnast Jehóva.

14. Lýstu hvernig við getum ‚annast málefni okkar af réttvísi‘.

14„[Hann] annast málefni sín af réttvísi.“ (Sálm. 112:5) Eins og spáð var annast trúi þjónshópurinn hagsmuni húsbóndans í samræmi við réttlæti Jehóva. (Lestu Lúkas 12:42-44.) Þetta kemur vel fram í biblíulegum leiðbeiningum sem öldungar fá en þeir þurfa stundum að taka á alvarlegum syndum sem eiga sér stað í söfnuðinum. Réttvísi þjónsins sýnir sig einnig í biblíulegum leiðbeiningum sem hann gefur varðandi starfsemi safnaða, trúboðsheimila og Betelheimila. Það eru ekki aðeins safnaðaröldungar sem þurfa að vera réttvísir heldur þurfa allir kristnir menn að sýna þennan eiginleika í samskiptum hver við annan og við vantrúaða, bæði í viðskiptum og á öðrum sviðum. — Lestu Míka 6:8, 11.

Réttlátir hljóta blessun

15, 16. (a) Hvaða áhrif hafa ótíðindin í heiminum á réttláta? (b) Hverju eru þjónar Guðs staðráðnir í að halda áfram?

15„Því að hann mun aldrei haggast. Minning hins réttláta er ævarandi, hann þarf ekki að kvíða ótíðindum, hjarta hans er stöðugt, hann treystir Drottni. Hjarta hans er óhult, hann óttast ekki; skjótt fær hann að líta fall óvina sinna.“ (Sálm. 112:6-8) Aldrei áður í sögunni hafa jafn mikil ótíðindi dunið á mannkyninu — styrjaldir, hryðjuverk, glæpir, fátækt, skaðvænleg mengun og nýir sjúkdómar eða gamlir sem hafa tekið sig upp að nýju. Þeir sem eru réttlátir í augum Guðs fara ekki varhluta af þessum ótíðindum. Þeir lamast hins vegar ekki af ótta heldur er ‚hjarta þeirra stöðugt og óhult‘ því að þeir horfa til framtíðar, vitandi að réttlátur nýr heimur Guðs er í nánd. Ef þeir verða fyrir einhverjum hörmungum eru þeir í betri aðstöðu til að mæta þeim vegna þess að þeir reiða sig á stuðning Jehóva. Hann lætur réttláta þjóna sína „aldrei haggast“. Hann gefur þeim styrk og kraft til að standa af sér erfiðleikana. — Fil. 4:13.

16 Réttlátir þjónar Guðs þurfa líka að þola hatur andstæðinga og lygarnar sem þeir breiða út. En það hefur ekki þaggað niður í þeim og mun aldrei gera það. Þjónar Guðs halda staðfastlega áfram því verki sem hann hefur falið þeim, að boða fagnaðarerindið um ríkið og gera alla sem taka við því að lærisveinum. Hinir réttlátu eiga eflaust eftir að finna fyrir aukinni andstöðu eftir því sem endirinn nálgast. Hatrið nær svo hámarki þegar Satan djöfullinn kemur fram sem Góg frá Magóg og ræðst á þá í öllum heimshornum. Þá fáum við loks að ‚líta fall óvina okkar‘ þegar þeir bíða auðmýkjandi ósigur. Það verður ólýsanleg reynsla að sjá nafn Jehóva helgað að fullu og öllu. — Esek. 38:18, 22, 23.

„Hafið upp með sæmd“

17. Hvað merkir það að hinn réttláti verði ‚hafinn upp með sæmd‘?

17 Það verður ólýsanlega ánægjulegt að lofa Jehóva einum munni án andstöðu frá Satan og heiminum sem hann stjórnar. Það verður eilíft hlutskipti allra sem eru réttlátir í augum Guðs. Þeir bíða ekki smánarlegan ósigur því að Jehóva lofar að „horn“ réttlátra verði „hafið upp með sæmd“. (Sálm. 112:9) Réttlátir þjónar Guðs munu fagna því að sjá alla óvini alheimsdrottins Jehóva líða undir lok.

18. Hvernig rætast lokaorðin í Sálmi 112?

18„Hinn óguðlegi sér það og honum gremst, hann gnístir tönnum og ferst. Óskir óguðlegra rætast ekki.“ (Sálm. 112:10) Allir sem halda áfram að berjast gegn þjónum Guðs farast bráðlega. Öfund þeirra, hatur og sú ósk að sjá starf okkar leggjast af deyr með þeim í ‚þrengingunni miklu‘. — Matt. 24:21.

19. Hverju megum við treysta?

19 Verður þú í hópi þeirra hamingjusömu manna sem halda lífi þegar Guð sigrar óvini sína? Eða verður þú í hópi hinna ‚réttlátu‘ sem rísa upp frá dauðum ef svo fer að sjúkdómar eða elli draga þig til dauða áður en heimur Satans tekur enda? (Post. 24:15) Svarið getur verið já ef þú heldur áfram að trúa á lausnarfórn Jesú og líkja eftir Jehóva eins og þeir sem réttláti maðurinn í Sálmi 112 táknar. (Lestu Efesusbréfið 5:1, 2.) Jehóva sér til þess að „minning“ þeirra og réttlætisverk falli ekki í gleymsku. Hann man eftir þeim og elskar þá um ókomna framtíð. — Sálm. 112:3, 6, 9.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Uppbygging og efni þessara tveggja sálma sýnir að þeir mynda eina heild. Í Sálmi 111 er Guð lofaður fyrir eiginleika sína og í Sálmi 112 er lýst hvernig guðhræddur maður líkir eftir honum. Þetta sést vel ef við berum saman Sálm 111:3, 4 og Sálm 112:3, 4.

Til upprifjunar

• Hvaða tilefni höfum við til að hrópa „hallelúja“?

• Hvaða atburðir á okkar tímum gleðja kristna menn?

• Hvers konar gjafara elskar Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 25]

Við verðum að trúa á úthellt blóð Jesú til að vera réttlát í augum Guðs.

[Myndir á blaðsíðu 26]

Sjálfviljaframlög renna til hjálparstarfs og framleiðslu biblíunámsrita.