Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Páfagarður reynir að koma í veg fyrir að nafn Guðs sé notað

Páfagarður reynir að koma í veg fyrir að nafn Guðs sé notað

Páfagarður reynir að koma í veg fyrir að nafn Guðs sé notað

YFIRSTJÓRN kaþólsku kirkjunnar beitir sér nú fyrir því að nafn Guðs sé alls ekki notað við guðsþjónustur. Ein af deildum páfaráðs rómversk-kaþólsku kirkjunnar gaf fyrirmæli þar að lútandi á síðasta ári á ráðstefnum kaþólskra biskupa um heim allan. Þetta var gert „samkvæmt tilskipun“ páfa.

Fyrirmælin eru gefin í plaggi sem er dagsett 29. júní 2008. Þar er fordæmt að þrátt fyrir skipun um hið gagnstæða hafi „sá siður gert vart við sig á síðustu árum að nefna Guð Ísraels með eiginnafni hans, kallað hið helga eða guðlega fjórstafanafn, skrifað með fjórum samhljóðum hebreska stafrófsins í myndinni יהוה, YHWH“. Í plagginu kemur fram að nafn Guðs sé gjarnan umritað Yahweh, Yahwè, Jahweh, Jahwè, Jave, Yehovah og þar fram eftir götunum. * Tilskipuninni er ætlað að herða á hefðbundinni afstöðu kaþólsku kirkjunnar. Með öðrum orðum á að segja „Drottinn“ í stað þess að nota fjórstafanafnið. Í guðsþjónustum kaþólskra, sálmum og bænum „á hvorki að nota né segja nafnið YHWH“.

Til að rökstyðja þessa afstöðu er í skjali Páfagarðs vísað til „ævafornrar hefðar“ í kaþólskri trú. Í tilskipuninni er staðhæft að í Sjötíumannaþýðingunni, sem er grísk þýðing hebresku ritninganna frá því fyrir daga Krists, sé nafn Guðs að jafnaði þýtt með gríska orðinu Kyrios, það er að segja „Drottinn“. Fullyrt er í tilskipuninni að „frá öndverðu hafi kristnir menn aldrei borið fram fjórstafanafnið“. En þar er horft fram hjá skýrum rökum fyrir hinu gagnstæða. Í elstu handritum Sjötíumannaþýðingarinnar stendur ekki Kyrios heldur nafn Guðs með hebresku letri, יהוה. Fylgjendur Krists á fyrstu öld þekktu nafn Guðs og notuðu það. Jesús sagði sjálfur í bæn til föður síns: „Ég hef kunngjört þeim nafn þitt.“ (Jóhannes 17:26) Og í hinni þekktu bæn, sem kölluð er faðirvorið, kenndi hann fylgjendum sínum að biðja: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn.“ — Matteus 6:9.

Það ætti að vera öllum kristnum mönnum keppikefli að sjá nafn Guðs helgað. Með tilraunum sínum til að koma í veg fyrir að nafnið sé notað óvirðir Páfagarður Jehóva Guð sem sagði: „Þetta er nafn mitt um aldur og ævi, heiti mitt frá kyni til kyns.“ — 2. Mósebók 3:15.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Nafn Guðs hefur verið umritað „Jahve“ og „Jehóva“ í íslenskum biblíuþýðingum.

[Innskot á blaðsíðu 22]

„Þetta er nafn mitt um aldur og ævi.“ — 2. Mósebók 3:15.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Brot úr Sjötíumannaþýðingunni frá fyrstu öld okkar tímatals. Í hringnum má sjá nafn Guðs ritað með fjórum hebreskum bókstöfum sem oft eru umritaðir JHVH.

[Credit line]

Með góðfúslegu leyfi Egypt Exploration Society.