Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að skilja hlutverk hins meiri Móse

Að skilja hlutverk hins meiri Móse

Að skilja hlutverk hins meiri Móse

„Spámann líkan mér mun Drottinn, Guð ykkar, kalla fram úr hópi bræðra ykkar. Á hann skuluð þið hlýða.“ — POST. 3:22.

1. Hvaða áhrif hafði Jesús Kristur á mannkynssöguna?

FYRIR tvö þúsund árum fæddist lítill drengur. Fæðingin varð tilefni fyrir fjölda engla til að lofa Guð í áheyrn nokkurra fjárhirða. (Lúk. 2:8-14) Drengurinn óx úr grasi og þrjátíu árum síðar hóf hann þjónustu sem stóð aðeins þrjú og hálft ár en breytti þó gangi mannkynssögunnar. Hinn kunni sagnfræðingur Philip Schaff skrifaði um þennan unga mann: „Þó að hann hafi aldrei stungið niður penna sjálfur hreyfði hann við fleiri pennum og lét í té efni í fleiri ræður, prédikanir, umræður, lærdómsrit, listaverk og lofsöngva en allur herskari mikilmenna fyrr og nú.“ Þessi einstaki ungi maður var auðvitað Jesús Kristur.

2. Hvað sagði Jóhannes postuli um Jesú og starf hans?

2 Í lok frásögu sinnar af starfi Jesú skrifaði Jóhannes postuli: „En margt er það annað sem Jesús gerði og yrði það hvað eina upp skrifað ætla ég að öll veröldin mundi ekki rúma þær bækur sem þá yrðu ritaðar.“ (Jóh. 21:25) Jóhannes vissi að hann gæti ekki skrásett nema brot af því sem Jesús sagði og gerði á þessum þrem og hálfu viðburðaríku árum. Engu að síður er það sem Jóhannes segir frá í guðspjalli sínu afar verðmætt fyrir okkur.

3. Hvernig getum við fengið dýpri skilning á hlutverki Jesú í fyrirætlun Guðs?

3 En það eru ekki aðeins guðspjöllin fjögur sem veita okkur trústyrkjandi upplýsingar um ævi Jesú. Í frásögum Biblíunnar af nokkrum trúum þjónum Guðs fyrir daga Jesú er að finna upplýsingar sem veita okkur dýpri skilning á hlutverki hans í fyrirætlun Guðs. Lítum nánar á málið.

Menn sem fyrirmynduðu Krist

4, 5. Hverjir fyrirmynduðu Jesú og með hvaða hætti?

4 Jóhannes og hinir guðspjallaritararnir þrír tala um að Móse, Davíð og Salómon hafi fyrirmyndað Jesú sem smurðan þjón Guðs og tilvonandi konung. Að hvaða leyti voru þessir þjónar Guðs til forna fyrirmynd um Jesú og hvað má læra af frásögunum af þeim?

5 Í stuttu máli kemur fram í Biblíunni að Móse hafi verið spámaður, meðalgangari og frelsari. Jesús er það líka. Davíð var fjárhirðir og konungur sem sigraði óvini Ísraels. Jesús er líka hirðir og sigursæll konungur. (Esek. 37:24, 25) Meðan Salómon var Guði trúr var hann vitur valdhafi og Ísraelsmenn bjuggu við frið undir stjórn hans. (1. Kon. 4:25, 29) Jesús er líka einstaklega vitur og er kallaður „Friðarhöfðingi“. (Jes. 9:5) Ljóst er að Jesús Kristur gegnir svipuðu hlutverki í fyrirætlun Jehóva og þessir menn forðum daga en hlutverk hans er þó mun háleitara. Við skulum byrja á því að kanna hvað er líkt með Jesú og Móse og kanna hvernig samanburðurinn gefur okkur skýrari mynd af hlutverki Jesú í fyrirætlun Guðs.

Móse — fyrirmynd um Jesú

6. Hvernig benti Pétur postuli á að fólk yrði að hlýða á Jesú?

6 Skömmu eftir hvítasunnu árið 33 vitnaði Pétur postuli í spádóm Móse sem rættist á Jesú Kristi. Pétur stóð frammi fyrir hópi guðsdýrkenda í musterinu. Þeir Jóhannes höfðu læknað betlara nokkurn sem hafði verið lamaður frá fæðingu. Fólkið var „furðu lostið“ og vildi sjá með eigin augum það sem gerst hafði. Pétur benti á að þetta furðuverk hefði átt sér stað fyrir atbeina heilags anda Jehóva og fyrir milligöngu Jesú Krists. Síðan vitnaði hann í Hebresku ritningarnar og sagði: „Móse sagði: Spámann líkan mér mun Drottinn, Guð ykkar, kalla fram úr hópi bræðra ykkar. Á hann skuluð þið hlýða í öllu er hann talar til ykkar.“ — Post. 3:11, 22, 23; lestu 5. Mósebók 18:15, 18, 19.

7. Af hverju hafa áheyrendur Péturs skilið orð hans um spámann meiri en Móse?

7 Áheyrendur Péturs hafa sennilega þekkt þessi orð Móse. Þetta voru Gyðingar og þeir báru mikla virðingu fyrir Móse og biðu þess með óþreyju að fram kæmi spámaður honum meiri. (5. Mós. 34:10) Hann átti ekki aðeins að vera smurður þjónn Jehóva líkt og Móse hafði verið heldur Messías, „Kristur Guðs, hinn útvaldi“ þjónn Jehóva. — Lúk. 23:35; Hebr. 11:26.

Hvað er líkt með Jesú og Móse?

8. Hvað var líkt með lífi Móse og Jesú?

8 Ýmislegt var líkt með lífi Móse og Jesú. Til dæmis reyndu grimmir valdhafar að tortíma báðum á barnsaldri en þeir komust undan. (2. Mós. 1:22–2:10; Matt. 2:7-14) Báðir voru ‚kallaðir frá Egyptalandi‘. Hósea spámaður sagði: „Þegar Ísrael var ungur fékk ég ást á honum og kallaði son minn frá Egyptalandi.“ (Hós. 11:1) Hósea vísar hér til þess þegar Ísraelsmenn voru leiddir út úr Egyptalandi undir forystu Móse sem Guð hafði skipað leiðtoga þeirra. (2. Mós. 4:22, 23; 12:29-37) En Hósea vísar ekki aðeins til liðins tíma heldur einnig ókomins atburðar. Það sem hann skrifaði var líka spádómur sem rættist þegar Jósef og María sneru aftur með Jesú frá Egyptalandi eftir að Heródes konungur var dáinn. — Matt. 2:15, 19-23.

9. (a) Hvaða kraftaverk unnu Móse og Jesús? (b) Nefndu fleiri hliðstæður með Móse og Jesú. (Sjá rammann „Fleira sem er líkt með Jesú og Móse“ á bls. 26.)

9 Bæði Móse og Jesús unnu kraftaverk. Þar með sýndu þeir fram á að þeir störfuðu í umboði Jehóva. Móse er reyndar fyrsti maðurinn sem getið er um að hafi unnið kraftaverk. (2. Mós. 4:1-9) Sum þeirra tengdust vatni. Það var að boði hans sem vatnið í Níl og mýrunum umhverfis breyttist í blóð, Rauðahafið klofnaði og vatn spratt fram af kletti í eyðimörkinni. (2. Mós. 7:19-21; 14:21; 17:5-7) Jesús vann líka kraftaverk þar sem vatn kom við sögu. Fyrsta kraftaverk hans var að breyta vatni í vín í brúðkaupsveislu. (Jóh. 2:1-11) Hann lægði öldur á Galíleuvatni og einu sinni gekk hann jafnvel á vatni. (Matt. 8:23-27; 14:23-25) Í rammanum á bls. 26 eru nefndar fleiri hliðstæður með Móse og Jesú.

Virðum Krist sem spámann

10. (a) Hvað er sannur spámaður? (b) Af hverju var Móse sannur spámaður?

10 Þegar minnst er á spámann hugsa flestir um mann sem spáir um framtíðina en það er aðeins einn þáttur í starfi spámanns. Sannur spámaður er talsmaður Jehóva, maður sem er innblásið að kunngera „stórmerki Guðs“. (Post. 2:11, 16, 17) Spámennskan getur falist í því að boða ókomna atburði, opinbera vissa þætti í fyrirætlun Jehóva eða lýsa yfir dómum hans. Móse var slíkur spámaður. Hann boðaði plágurnar tíu sem komu yfir Egyptaland, lagði fram lagasáttmálann við Sínaífjall og fræddi þjóðina um vilja Guðs. En síðar meir átti að koma fram spámaður meiri en Móse.

11. Hvernig reyndist Jesús vera spámaðurinn sem var meiri en Móse?

11 Sakaría spáði á fyrstu öld okkar tímatals hvaða hlutverk Jóhannes, sonur hans, átti að fara með samkvæmt fyrirætlun Guðs. (Lúk. 1:76) Jóhannes var síðar nefndur Jóhannes skírari og fékk það hlutverk að boða komu hins langþráða spámanns sem var meiri en Móse, það er að segja Jesú Krists. (Jóh. 1:23-36) Sem spámaður sagði Jesús margt fyrir. Hann talaði til dæmis um dauða sinn, hvernig hann myndi deyja, hvar það yrði og hverjir yrðu valdir að því. (Matt. 20:17-19) Áheyrendum til mikillar undrunar spáði hann einnig að Jerúsalem og musterið yrðu lögð í rúst. (Mark. 13:1, 2) Spádómar hans teygja sig allt til okkar tíma. — Matt. 24:3-41.

12. (a) Hvernig lagði Jesús grunninn að boðun fagnaðarerindisins út um allan heim? (b) Af hverju fylgjum við fordæmi Jesú?

12 Jesús var ekki aðeins spámaður. Hann var einnig prédikari og kennari. Hann prédikaði fagnaðarerindið um ríki Guðs og enginn talaði af meiri djörfung en hann. (Lúk. 4:16-21, 43) Sem kennari tók hann öllum öðrum fram. „Aldrei hefur nokkur maður talað þannig,“ sögðu menn sem heyrðu hann kenna. (Jóh. 7:46) Jesús var óþreytandi að útbreiða fagnaðarerindið um ríkið og kveikti sams konar brennandi áhuga í brjósti fylgjenda sinna. Þannig lagði hann grunninn að þeirri boðun og kennslu sem hefur teygt sig út um allan heim og er enn í fullum gangi. (Matt. 28:18-20; Post. 5:42) Á síðasta ári voru fylgjendur Krists um sjö milljónir og notuðu um einn og hálfan milljarð klukkustunda í að boða fagnaðarerindið um ríkið og kenna áhugasömum sannindi Biblíunnar. Tekur þú eins mikinn þátt í þessu starfi og aðstæður þínar leyfa?

13. Hvað hjálpar okkur að ‚vaka‘?

13 Það leikur enginn vafi á að Jehóva uppfyllti spádóminn um að fram kæmi spámaður líkur Móse. Hvaða áhrif hefur þessi vitneskja á þig? Styrkir hún traust þitt til innblásinna spádóma sem varða nánustu framtíð? Ef við hugleiðum fordæmi spámannsins sem var meiri en Móse er það okkur hvatning til að ‚vaka og vera allsgáð‘ gagnvart því sem Guð ætlar að gera á næstunni. — 1. Þess. 5:2, 6.

Virðum Krist sem meðalgangara

14. Hvernig var Móse meðalgangari milli Guðs og Ísraelsmanna?

14 Jesús var meðalgangari rétt eins og Móse. Meðalgangari er tengiliður milli tveggja aðila. Móse hafði meðalgöngu um gerð lagasáttmálans milli Jehóva og Ísraelsmanna. Ef niðjar Jakobs hlýddu lögum Guðs myndu þeir vera sérstök eign hans og söfnuður. (2. Mós. 19:3-8) Þessi sáttmáli var í gildi frá 1513 f.Kr. fram á fyrstu öld okkar tímatals.

15. Að hvaða leyti er Jesús fremri Móse sem meðalgangari?

15 Árið 33 gerði Jehóva betri sáttmála við nýja Ísraelsþjóð sem er nefnd „Ísrael Guðs“, en þar er átt við söfnuð andasmurðra kristinna manna sem náði með tíð og tíma út um allan heim. (Gal. 6:16) Sáttmálinn, sem Móse hafði meðalgöngu um, hafði að geyma ákvæði sem Guð ritaði á steintöflur. Sáttmálinn, sem Jesús miðlaði, er honum fremri því að Guð ritar lög hans á hjörtu manna. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 2:5; Hebreabréfið 8:10.) „Ísrael Guðs“ er því sérstök eign Guðs, „þjóð sem ber ávexti“ Messíasarríkisins. (Matt. 21:43) Þeir sem tilheyra þessari andlegu þjóð eiga aðild að nýja sáttmálanum. Þeir eru þó ekki einir um að njóta góðs af honum. Ótal aðrir, þeirra á meðal fólk sem sefur núna dauðasvefni, hljóta eilífa blessun fyrir atbeina þessa sáttmála sem er mun fremri hinum gamla.

Virðum Krist sem frelsara

16. (a) Hvernig notaði Jehóva Móse til að frelsa Ísrael? (b) Hver er frelsari manna samkvæmt 2. Mósebók 14:13?

16 Mikil hætta vofði yfir Ísraelsmönnum nóttina áður en þeir yfirgáfu Egyptaland. Þá nótt myndi engill Guðs fara um landið og deyða alla frumburði. Jehóva sagði Móse að frumburðir Ísraelsmanna yrðu óhultir ef þeir tækju dálítið af blóði páskalambsins og bæru á dyrastafi og dyratré húsa sinna. (2. Mós. 12:1-13, 21-23) Og sú varð raunin. Síðar var öll þjóðin í alvarlegri hættu. Hún var innikróuð milli Rauðahafsins og Egypta sem eltu hana á hervögnum sínum. Aftur notaði Jehóva Móse til að frelsa þjóðina þegar hann vann það kraftaverk að kljúfa hafið og opna undankomuleið. — 2. Mós. 14:13, 21.

17, 18. Að hvaða leyti er Jesús fremri Móse sem frelsari?

17 Þótt Jehóva hafi unnið mikil máttarverk þegar hann bjargaði Ísraelsmönnum er sú frelsun, sem hann kemur til leiðar fyrir atbeina Jesú, miklu meiri. Það er fyrir milligöngu Jesú sem hlýðnir menn eru frelsaðir úr ánauð syndarinnar. (Rómv. 5:12, 18) Og sú frelsun er ‚eilíf lausn‘. (Hebr. 9:11, 12) Nafnið Jesús merkir ‚Jehóva er hjálpræði‘. Jesús frelsar okkur ekki aðeins úr fjötrum fyrri synda heldur opnar hann okkur líka leið til betri framtíðar. Með því að frelsa fylgjendur sína úr ánauð syndarinnar frelsar hann þá undan reiði Guðs svo að þeir geta átt samband við Guð og notið kærleika hans. — Matt. 1:21.

18 Frelsunin, sem Jesús veitir úr fjötrum syndarinnar, felur í sér að þegar fram líða stundir losnum við undan grimmilegum áhrifum syndarinnar — sjúkdómum og dauða. Reynum að sjá fyrir okkur hvað þetta þýðir. Jesús kom einu sinni á heimili manns sem hét Jaírus en 12 ára dóttir hans var dáin. Jesús hughreysti föður hennar og sagði: „Óttast ekki, trú þú aðeins og mun hún heil verða.“ (Lúk. 8:41, 42, 49, 50) Og stúlkan reis upp frá dauðum rétt eins og Jesús hafði sagt! Geturðu ímyndað þér hve glaðir foreldrarnir urðu? Þá hefurðu hugmynd um þá ólýsanlegu gleði sem fellur okkur í skaut þegar „allir þeir sem í gröfunum eru munu heyra raust [Jesú] og ganga fram“ upprisnir. (Jóh. 5:28, 29) Jesús er sannarlega frelsari okkar. — Lestu Postulasöguna 5:31; Tít. 1:4; Opinb. 7:10.

19, 20. (a) Hvaða áhrif hefur það á okkur að hugleiða hlutverk Jesú sem hinn meiri Móse? (b) Um hvað er fjallað í næstu grein?

19 Sú vitneskja að við getum hjálpað fólki að njóta góðs af björgunarverki Jesú er okkur hvöt til að taka þátt í að boða fagnaðarerindið og kenna fólki. (Jes. 61:1-3) Og þegar við íhugum hlutverk Jesú sem var meiri en Móse styrkjum við það traust okkar að hann frelsi fylgjendur sína þegar hann kemur til að fullnægja dómi yfir óguðlegum mönnum. — Matt. 25:31-34, 41, 46; Opinb. 7:9, 14.

20 Já, Jesús er hinn meiri Móse. Hann afrekaði margt sem Móse hefði aldrei getað gert. Með starfi sínu sem spámaður og meðalgangari hefur hann haft áhrif á allt mannkynið. Frelsunin, sem Jesús kemur til leiðar handa mannkyni, er ekki tímabundin heldur eilíf. En við getum lært margt fleira um Jesú af trúum þjónum Guðs til forna. Í næstu grein verður rætt hvernig Davíð og Salómon fyrirmynduðu hann.

Geturðu svarað?

Að hvaða leyti er Jesús meiri en Móse . . .

• sem spámaður?

• sem meðalgangari?

• sem frelsari?

[Spurningar]

[Rammi/mynd á blaðsíðu 26]

Fleira sem er líkt með Jesú og Móse

◻ Báðir sögðu skilið við háa stöðu til að geta þjónað Jehóva og fólki hans. — 2. Kor. 8:9; Fil. 2:5-8; Hebr. 11:24-26.

◻ Báðir voru útvaldir til þjónustu af Jehóva. — Mark. 14:61, 62; Jóh. 4:25, 26; Hebr. 11:26.

◻ Báðir komu í nafni Jehóva. — 2. Mós. 3:13-16; Jóh. 5:43; 17:4, 6, 26.

◻ Báðir voru hógværir og auðmjúkir. — 4. Mós. 12:3; Matt. 11:28-30.

◻ Báðir áttu þátt í að sjá fólki fyrir mat. — 2. Mós. 16:12; Jóh. 6:48-51.

◻ Báðir voru dómarar og löggjafar. — 2. Mós. 18:13; Mal. 4:4; Jóh. 5:22, 23; 15:10.

◻ Báðum var trúað fyrir að ráða yfir húsi Guðs. — 4. Mós. 12:7; Hebr. 3:2-6.

◻ Báðir eru kallaðir trúir vottar Jehóva. — Hebr. 11:24-29; 12:1; Opinb. 1:5.

◻ Guð fjarlægði lík beggja eftir að þeir voru dánir. — 5. Mós. 34:5, 6; Lúk. 24:1-3; Post. 2:31; 1. Kor. 15:50; Júd. 9.