Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Unglingar — takið góðum framförum

Unglingar — takið góðum framförum

Unglingar — takið góðum framförum

„Stunda þetta, ver allur í þessu til þess að framför þín sé öllum augljós.“ — 1. TÍM. 4:15.

1. Hvers vill Guð að unga fólkið njóti?

„GLEÐ þig, ungi maður, í æsku þinni og láttu liggja vel á þér unglingsár þín og breyttu eins og hjartað leiðir þig.“ (Préd. 11:9) Svo mælti Salómon Ísraelskonungur. Höfundur þessa boðskapar, Jehóva Guð, vill auðvitað að þið unglingarnir séuð glaðir og ánægðir. Og hann vill líka að gleðin endist ykkur fram yfir unglingsárin. En unglingsárin einkennast oft af slæmum mistökum sem geta spillt fyrir hamingju og gleði fólks á ókomnum árum. Jafnvel þótt Job væri trúr þjónn Guðs talaði hann um að hann þyrfti að ‚gjalda æskusynda sinna‘. (Job. 13:26) Á unglingsárunum og næstu árum þar á eftir þurfa kristin ungmenni oft að taka stórar ákvarðanir. Ef unga fólkið sýnir ekki góða dómgreind getur það setið uppi með tilfinningaleg vandamál og erfiðleika sem geta fylgt þeim það sem eftir er ævinnar. — Préd. 11:10.

2. Hvaða ráð Biblíunnar geta hjálpað unglingum að forðast alvarleg mistök?

2 En unga fólki þarf að sýna góða dómgreind. Lítum á leiðbeiningar sem Páll postuli gaf söfnuðinum í Korintu. Hann skrifaði: „Hugsið ekki eins og börn . . . hafið dómgreind sem fullorðnir.“ (1. Kor. 14:20) Unga fólkið getur forðast alvarleg mistök ef það fylgir þessum ráðum og lærir að hugsa og hafa dómgreind eins og fullorðnir.

3. Hvað geturðu gert til að taka út þroska?

3 Ef þú ert á unglingsaldri skaltu hafa hugfast að það kostar vinnu að taka út þroska. Páll sagði Tímóteusi: „Lát engan líta smáum augum á æsku þína en ver fyrirmynd trúaðra í orði og hegðun, í kærleika, trú og hreinlífi. Ver kostgæfinn við að lesa upp úr Ritningunni, uppörva og kenna . . . Stunda þetta, ver allur í þessu til þess að framför þín sé öllum augljós.“ (1. Tím. 4:12-15) Kristnir unglingar þurfa að taka framförum þannig að öllum sé það augljóst.

Hvað er átt við með framförum?

4. Hvað er fólgið í því að taka framförum sem kristinn maður?

4 Með framförum er átt við að fara fram, þroskast og breytast til hins betra. Páll hvatti Tímóteus til að leggja kapp á að taka framförum í orði, hegðun, kærleika, trú og hreinlífi, auk þess að gera þjónustu sinni enn betri skil. Hann átti að kappkosta að vera til fyrirmyndar í líferni sínu. Hann þurfti þess vegna að halda áfram að þroskast í trúnni.

5, 6. (a) Hvenær urðu framfarir Tímóteusar augljósar? (b) Hvernig getið þið unglingar tekið framförum líkt og Tímóteus?

5 Tímóteus var orðinn reyndur safnaðaröldungur þegar Páll skrifaði þessar leiðbeiningar einhvern tíma á árabilinu 61 til 64. Hann var ekki rétt að byrja að þroskast í trúnni. Árið 49 eða 50, þegar Tímóteus var líklega um tvítugt, báru bræðurnir í Lýstru og Íkóníum honum gott orð enda höfðu þeir séð hann taka framförum. (Post. 16:1-5) Páll tók hann þá með sér í trúboðsferð. Eftir að hafa fylgst með Tímóteusi um nokkurra mánaða skeið og séð hann þroskast enn meir sendi Páll hann til Þessaloníku til að styrkja og uppörva kristna menn þar í borg. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 3:1-3, 6.) Greinilegt er að Tímóteus tók augljósum framförum sem ungur maður.

6 Við hvetjum ykkur unga fólkið í söfnuðinum til að leggja ykkur fram um að þroskast í trúnni svo að það sé öllum augljóst að þið takið góðum framförum í kristnu líferni og verðið sífellt færari að kenna öðrum sannleika Biblíunnar. Sagt er frá Jesú þegar hann var 12 ára og nefnt að hann „þroskaðist að visku og vexti“. (Lúk. 2:52) Við skulum nú kanna hvernig þú getur tekið framförum á þrem sviðum: (1) þegar þú verður fyrir mótlæti, (2) þegar þú býrð þig undir hjónaband og (3) þegar þú kappkostar að verða „góður þjónn“ og boðberi fagnaðarerindisins. — 1. Tím. 4:6.

Heilbrigð hugsun þegar á móti blæs

7. Hvaða áhrif getur mótlæti haft á ungt fólk?

7 Carol er 17 ára vottur. „Stundum hef ég verið tilfinningalega og líkamlega úrvinda,“ segir hún. „Ég hef verið svo langt niðri að mig langaði ekki til að vakna á morgnana.“ * Af hverju leið henni svona illa? Foreldrar hennar skildu þegar hún var tíu ára og hún þurfti að búa hjá móður sinni sem hafnaði siðferðisreglum Biblíunnar. Kannski þarft þú að búa við erfiðar aðstæður líkt og Carol og sérð ekki fram á að það breytist.

8. Hvað átti Tímóteus við að glíma?

8 Það var ekki heldur þrautalaust fyrir Tímóteus að taka framförum sem kristinn maður. Hann átti til dæmis oft við veikindi að stríða vegna magans. (1. Tím. 5:23) Þegar Páll sendi hann til Korintu til að taka á vandamálum af völdum einstaklinga sem véfengu postulavald Páls hvatti hann söfnuðinn til að vera samvinnuþýður svo að Tímóteus gæti verið óttalaus. (1. Kor. 4:17; 16:10, 11, Biblían 1981) Svo virðist sem Tímóteus hafi verið feiminn eða óframfærinn.

9. Hvað er heilbrigð hugsun og hvernig er hún ólík „anda hugleysis“?

9 Páll skrifaði Tímóteusi síðar til að hjálpa honum: „Ekki gaf Guð okkur anda hugleysis heldur anda máttar og kærleiks og stillingar [„heilbrigða hugsun“, NW].“ (2. Tím. 1:7) Að vera heilbrigður í hugsun felur í sér að geta hugsað rökrétt og kunna að taka hlutunum eins og þeir eru en ekki eins og maður vildi að þeir væru. Sumir óþroskaðir unglingar sýna visst hugleysi og reyna að flýja álag og erfiðleika með því að sofa sem mest, sitja endalaust við sjónvarpið, drekka, neyta fíkniefna, stunda partí eða lifa siðlausu lífi. Kristnir menn eru hvattir til að „afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega [„með heilbrigðri hugsun“, NW], réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum“. — Tít. 2:12.

10, 11. Hvernig getur heilbrigð hugsun gert okkur andlega sterk?

10 Í Biblíunni er brýnt „fyrir ungum mönnum að vera hóglátir [„heilbrigðir í hugsun“, NW]“. (Tít. 2:6) Til að gera það þarftu að biðja til Jehóva og treysta að hann styrki þig þegar þú átt við erfiðleika að stríða. (Lestu 1. Pétursbréf 4:7.) Þannig lærirðu að treysta á máttinn sem þú færð frá Guði. — 1. Pét. 4:11.

11 Bænin ásamt heilbrigðri hugsun hjálpaði Carol. „Eitt það erfiðasta, sem ég hef þurft að gera á ævinni, var að taka afstöðu gegn röngu líferni mömmu,“ segir hún. „En bænin hjálpaði mér mikið. Ég veit að Jehóva er með mér svo að ég er ekki lengur hrædd.“ Mundu að mótlæti getur styrkt þig og gert þig að betri manneskju. (Sálm. 105:17-19; Harmlj. 3:27) Jehóva bregst þér aldrei, hvað sem verður á vegi þínum. Hann hjálpar þér. — Jes. 41:10.

Að búa sig undir farsælt hjónaband

12. Af hverju ætti kristið fólk, sem langar til að giftast, að fylgja meginreglunni í Orðskviðunum 20:25?

12 Þess eru dæmi að ungt fólk hafi anað út í hjónaband og ímyndað sér að það væri leiðin til að finna hamingjuna og losna við einmanakennd, tómleika og vandamálin heima fyrir. En hjúskaparheit er alvörumál. Á biblíutímanum voru dæmi um að fólk ynni Guði heit í fljótræði án þess að íhuga alvarlega hvað fælist í því. (Lestu Orðskviðina 20:25.) Ungt fólk hugleiðir ekki alltaf nógu vel hvaða kröfur fylgja hjónabandi og uppgötvar eftir á að farsælt hjónaband kostar heilmikla vinnu.

13. Hvaða spurninga ættu þeir sem hyggja á hjónaband að spyrja sig og hvaða ráðum hafa þeir aðgang að?

13 Áður en þú ferð að draga þig eftir annarri manneskju ættirðu að spyrja þig: Af hverju vil ég gifta mig? Hvaða væntingar hef ég? Er þetta rétta manneskjan fyrir mig? Er ég tilbúinn til að taka á mig þær skyldur sem fylgja hjónabandi? Hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur gefið út efni sem er samið sérstaklega með það fyrir augum að hjálpa fólki að líta í eigin barm. * (Matt. 24:45-47) Þú ættir að líta á slíkt efni sem góð ráð frá Jehóva. Skoðaðu efnið vandlega og heimfærðu það síðan á sjálfan þig. Gættu þess að vera ekki eins og ‚skynlaus skepna‘ sem hugsar ekki sinn gang. (Sálm. 32:8, 9) Gerðu þér fulla grein fyrir þeim skyldum sem fylgja hjónabandi. Ef þér finnst þú tilbúinn til að stofna til sambands með hjónaband í huga skaltu alltaf hafa hugfast að vera til ‚fyrirmyndar í hreinlífi‘.— 1. Tím. 4:12.

14. Af hverju er mikilvægt fyrir þá sem ganga í hjónaband að vera andlega þroskaðir?

14 Andlegur þroski er líka mikilvægur eftir að stofnað hefur verið til hjónabands. Kristinn maður leitast við að verða „fullþroska og [ná] vaxtartakmarki Krists fyllingar“. (Ef. 4:11-14) Hann leggur sig fram um að líkjast Kristi, minnugur þess að „Kristur hugsaði ekki um sjálfan sig“. (Rómv. 15:3) Þegar bæði hjónin hugsa meira um hag hvort annars en sinn eigin verður heimilið friðsælt skjól og athvarf. (1. Kor. 10:24) Eiginmaðurinn sýnir þá fórnfúsan kærleika og konan leggur sig fram um að vera honum undirgefin, rétt eins og Jesús er undirgefinn Guði. — 1. Kor. 11:3; Ef. 5:25.

„Fullna þjónustu þína“

15, 16. Hvernig geturðu tekið framförum í boðunarstarfinu?

15 Páll beindi athygli að mikilvægu verkefni Tímóteusar og skrifaði: „Prédika þú orðið, gef þig að því í tíma og ótíma.“ Síðan bætti hann við: „Ger verk fagnaðarboða, fullna þjónustu þína.“ (2. Tím. 4:1, 2, 5) Til að skila þessu verkefni vel af hendi þurfti Tímóteus að nærast og styrkjast „af orði trúarinnar“. — Lestu 1. Tímóteusarbréf 4:6.

16 Hvernig geturðu nært þig „af orði trúarinnar“? Páll skrifaði: „Ver kostgæfinn við að lesa upp úr Ritningunni, uppörva og kenna . . . Stunda þetta, ver allur í þessu.“ (1. Tím. 4:13, 15) Rækilegt sjálfsnám er nauðsynlegt til að taka framförum. Orðin „ver allur í þessu“ gefa til kynna að sökkva sér niður í eitthvað. Hvernig eru námsvenjur þínar? Sekkur þú þér niður í dýpri sannindi Biblíunnar? (1. Kor. 2:10) Eða gerirðu eins lítið og þú kemst af með? Ef þú sekkur þér niður í námsefnið læturðu það hafa áhrif á hjartað. — Lestu Orðskviðina 2:1-5.

17, 18. (a) Hvað ættirðu að þroska með þér? (b) Hvernig getur það hjálpað þér í boðunarstarfinu að hafa sama hugarfar og Tímóteus?

17 Michelle er ungur brautryðjandi. Hún segir: „Til að ná árangri í boðunarstarfinu hef ég góða reglu á sjálfsnámi mínu og sæki samkomur reglulega. Þetta hjálpar mér að taka stöðugum framförum.“ Brautryðjandastarf getur vissulega hjálpað þér að nota Biblíuna betur í boðunarstarfinu og taka öðrum framförum. Leggðu þig fram um að lesa vel og gefa innihaldsrík svör á samkomum. Þegar þú færð verkefni í Boðunarskólanum ættirðu að gera þau fræðandi og fylgja úthlutuðu efni.

18 Að ‚gera verk fagnaðarboða‘ merkir að vera dugmikill boðberi og kenna öðrum svo að þeir hljóti hjálpræði. Þú þarft að temja þér góða kennslutækni. (2. Tím. 4:2) Ef þú ferð í boðunarstarfið með reyndum boðberum geturðu lært af þeim eins og Tímóteus lærði af því að starfa með Páli. (1. Kor. 4:17) Páll sagði um kristna menn í Þessaloníku að hann hefði ekki aðeins flutt þeim fagnaðarerindið heldur líka gefið þeim „eigið líf“. Hann notaði líf sitt til að hjálpa þeim vegna þess að honum þótti vænt um þá. (1. Þess. 2:8) Til að líkja eftir Páli í boðunarstarfinu þarftu að hafa sama hugarfar og Tímóteus sem lét sér annt um aðra og ‚þjónaði að boðun fagnaðarerindisins‘. (Lestu Filippíbréfið 2:19-23.) Sýnirðu sams konar fórnfýsi í boðunarstarfinu?

Framfarir veita lífsfyllingu

19, 20. Af hverju er ánægjulegt að taka framförum í sannleikanum?

19 Það kostar vinnu að taka framförum. En ef þú heldur þolinmóður áfram að þjálfa kennslutæknina færðu með tíð og tíma að „auðga . . . marga“ í andlegum skilningi, og þeir verða eins og ‚sigursveigur‘ fyrir þig og veita þér gleði. (2. Kor. 6:10; 1. Þess. 2:19) „Ég nota meiri tíma en nokkru sinni fyrr til að hjálpa öðrum,“ segir Fred sem er boðberi í fullu starfi. „Það er hverju orði sannara að sælla er að gefa en þiggja“.

20 Daphne er ungur brautryðjandi. Hún segir um gleðina og ánægjuna sem hún hefur af því að taka framförum í sannleikanum: „Ég eignaðist miklu nánara samband við Jehóva þegar ég kynntist honum betur. Manni líður ótrúlega vel þegar maður leggur sig fram um að þóknast Jehóva eftir bestu getu!“ Jehóva veitir alltaf athygli þeim framförum sem við tökum þó að menn taki ekki eftir þeim. (Hebr. 4:13) Það leikur enginn vafi á því að þið unga fólkið getið heiðrað og lofað föðurinn á himnum. Haldið áfram að gleðja hjarta hans og takið stöðugum framförum í þjónustu hans. — Orðskv. 27:11.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 13 Sjá kaflann „Is This Person Right for Me?“ í bókinni Questions Young People Ask — Answers That Work, 2. bindi; greinina „Leiðsögn Guðs um val á maka“ í Varðturninum 1. júlí 2001 og greinina „How Wise Is a Teenage Marriage?“ í Vaknið! (enskri útgáfu) 22. september 1983.

Hvað lærðir þú?

• Hvað er fólgið í því að taka framförum í sannleikanum?

• Hvernig geturðu tekið góðum framförum . . .

þegar á móti blæs?

þegar þú býrð þig undir hjónaband?

í boðunarstarfinu?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Bænin getur hjálpað þér að standast mótlæti.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Hvernig geta ungir boðberar lært áhrifaríkar kennsluaðferðir?