Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Skiptir Guð um skoðun?

Skiptir Guð um skoðun?

Skiptir Guð um skoðun?

Í BIBLÍUNNI er sagt um Guð: „Hjá honum er engin umbreyting né flöktandi skuggar.“ Og Guð sagði sjálfur þessi hughreystandi orð: „Ég, Drottinn, er ekki breyttur.“ (Jakobsbréfið 1:17; Malakí 3:6) Jehóva Guð er ólíkur þeim sem erfitt er að gera til hæfis og þeim sem ekki er treystandi vegna þess að þeir eru sífellt að skipta um skoðun.

Sumir biblíulesendur velta því samt fyrir sér hvort Guð hafi breytt um skoðun. Lítum á dæmi. Í eina tíð gaf Jehóva Guð kristnum mönnum mátt til að gera kraftaverk en ekki núna. Til forna umbar Guð fjölkvæni en gerir það ekki lengur. Jehóva boðaði í Móselögunum að halda hvíldardaginn en nú krefst hann þess ekki. Sýna ekki þessi dæmi að Guð hefur breyst?

Í fyrsta lagi getum við treyst því að Guð breytir aldrei meginreglum sínum um kærleika og réttlæti. ‚Eilíf fyrirætlun‘ hans um að blessa mannkynið fyrir atbeina Guðsríkis hefur aldrei breyst. (Efesusbréfið 3:11) Engu að síður bregst Jehóva við breyttum aðstæðum alveg eins og við breytum skoðun okkar á manneskju sem veldur okkur sífelldum vonbrigðum með hegðun sinni.

Guð breytir einnig fyrirmælum sínum til þjóna sinna í samræmi við aðstæður þeirra og þarfir. Þetta ætti ekki að koma okkur á óvart. Hvað myndi góður leiðsögumaður gera ef hann sæi hættu fram undan? Hann segði hópnum að fara aðra leið, burt frá hættunni. Þýðir það að hann hafi breytt um skoðun varðandi áfangastaðinn? Nei. Við skulum því athuga dæmin þrjú sem minnst var á hér að framan og sumir velta vöngum yfir.

Hvers vegna hættu kraftaverk að gerast?

Hvers vegna gaf Guð sumum kristnum mönnum á fyrstu öldinni mátt til að gera kraftaverk? Þú veist ef til vill að Guð sýndi oft með kraftaverkum að hann var með Ísraelsmönnum á meðan þeir voru útvalin þjóð hans. Fyrir milligöngu Móse beitti hann ógnarkrafti sínum þegar hann frelsaði Ísraelsþjóðina úr Egyptalandi og leiddi hana um eyðimörkina til fyrirheitna landsins. Þrátt fyrir það sýndi þjóðin ótrúmennsku hvað eftir annað. Þegar Jehóva hafnaði að lokum Ísraelsþjóðinni og stofnaði kristna söfnuðinn gaf hann postulunum og öðrum mátt til að gera kraftaverk. Postularnir Pétur og Jóhannes læknuðu til dæmis mann sem hafði verið lamaður frá fæðingu og Páll reisti ungan mann upp frá dauðum. (Postulasagan 3:2-8; 20:9-11) Kraftaverkin, sem þeir gerðu, urðu til þess að fólk tók kristna trú í mörgum löndum. Hvers vegna hættu þá kraftaverk að gerast?

Páll postuli notaði líkingu til útskýringar: „Þegar ég var barn talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða lagði ég niður barnaskapinn.“ (1. Korintubréf 13:11) Foreldrar koma öðruvísi fram við fulltíða son en smábarn. Á svipaðan hátt breyttist framkoma Jehóva við kristna söfnuðinn þegar hann var ekki lengur eins og „barn“. Páll postuli útskýrði að kraftaverkagáfur eins og tungutal og spádómsgáfa myndu „líða undir lok“. — 1. Korintubréf 13:8.

Hvers vegna var fjölkvæni leyft?

Jesús sýndi fram á að Guð hefði sett meginreglur um hjónabandið þegar hann sagði við fyrstu hjónin: „Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og búa með konu sinni og þau tvö skulu verða einn maður.“ (Matteus 19:5) Hjónaband átti að vera varanlegt samband eins manns og einnar konu. En þegar Guð gerði Ísraelsmenn að þjóð og gaf þeim lögmálið var fjölkvæni samt orðið algengt. Þótt Guð hafi ekki átt upptökin að fjölkvæni eða hvatt til þess setti hann lög til að hafa stjórn á því. Þegar kristni söfnuðurinn var stofnaður var fjölkvæni greinilega bannað í orði Guðs. — 1. Tímóteusarbréf 3:2.

Jehóva Guð umber ýmsa hluti uns hann telur tímabært að leiðrétta þá. (Rómverjabréfið 9:22-24) Jesús benti á að Jehóva hefði um tíma umborið óviðeigandi siðvenjur í hjónabandi sem „tilhliðrun“ vegna „þverúðar“ Ísraelsþjóðarinnar. — Matteus 19:8; Orðskviðirnir 4:18.

Hvers vegna var hvíldardagurinn haldinn tímabundið?

Guð innleiddi vikulegan hvíldardag eftir að hann leiddi Ísraelsmenn út úr Egyptalandi. Hann setti síðan ákvæði um hann í lögmálið. (2. Mósebók 16:22-30; 20:8-10) Páll postuli benti á að Jesús hafi boðið sig fram til fórnar og afmáð „skuldabréfið“ það er að segja „lögmálið með boðorðum þess og skipunum“. (Kólossubréfið 2:14; Efesusbréfið 2:15) Það sem Jesús „afmáði“ fól meðal annars í sér hvíldardagsákvæðið því að í framhaldinu segir í Biblíunni: „Enginn skyldi því dæma ykkur fyrir mat eða drykk eða það sem snertir hátíðir, tunglkomur eða hvíldardaga.“ (Kólossubréfið 2:16) Til hvers setti Guð eiginlega lögmálið að meðtöldu hvíldardagsákvæðinu?

Páll postuli skrifaði: „Þannig hefur lögmálið orðið tyftari okkar þangað til Kristur kom.“ Síðan bætti hann við: „En nú, eftir að trúin er komin, erum við ekki lengur undir tyftara.“ (Galatabréfið 3:24, 25) Guð var ekki að skipta um skoðun heldur notaði hvíldardaginn sem tímabundna ráðstöfun til að kenna fólki að það ætti að taka sér tíma reglulega til að hugleiða andleg mál. Þótt hvíldardagslögin væru tímabundin bentu þau fram til þess tíma þegar mannkynið fengi varanlega hvíld frá líkamlegum og andlegum þjáningum. — Hebreabréfið 4:10; Opinberunarbókin 21:1-4.

Áreiðanlegur og gæskuríkur Guð

Dæmin hér að framan sýna að Jehóva Guð gaf mismunandi leiðbeiningar og fyrirmæli á mismunandi tímum. En það merkir ekki að hann hafi skipt um skoðun heldur brást hann við þörfum þjóna sinna við breytilegar aðstæður og gerði það þeim í hag. Það sama gerist nú á tímum.

Jehóva breytir ekki grundvallarreglum sínum. Þess vegna getum við alltaf vitað hvað við verðum að gera til þess að gleðja hann. Enn fremur getum við verið viss um að allt sem Guð hefur lofað mun rætast. Hann segir: „Ég geri allt sem mér þóknast . . . Það sem ég hef ákveðið geri ég.“ — Jesaja 46:10, 11.

[Innskot á blaðsíðu 23]

Guð breytir aldrei meginreglum sínum um kærleika og réttlæti.

[Innskot á blaðsíðu 24]

Páll útskýrði að í fyllingu tímans myndu kraftaverkagáfur „líða undir lok“.

[Innskot á blaðsíðu 25]

Hjónabandið átti að vera varanlegt samband karls og konu.