Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað á ég að gjalda Jehóva?

Hvað á ég að gjalda Jehóva?

Hvað á ég að gjalda Jehóva?

Ruth Danner segir frá

Mamma sagði oft í gamni að árið 1933 hafi verið ár hamfara: Hitler komst til valda, páfinn lýsti yfir heilögu ári og ég kom í heiminn.

FORELDRAR mínir áttu heima í borginni Yutz í Lorraine, sögufrægu landsvæði í Frakklandi við landamæri Þýskalands. Mamma og pabbi giftust árið 1921. Hún var kaþólsk en hann lúterstrúar. Helena, eldri systir mín, fæddist 1922 og foreldrar mínir létu skíra hana að kaþólskum sið.

Dag nokkurn árið 1925 eignaðist pabbi bókina Harpa Guðs. Eftir að hafa lesið hana var hann sannfærður um að hafa fundið sannleikann. Hann skrifaði til útgefendanna og þeir settu hann í samband við Biblíunemendurna eins og Vottar Jehóva voru kallaðir á þeim tíma. Pabbi fór strax að segja öðrum frá því sem hann hafði lært. Mamma var ekki sátt við það. „Gerðu það sem þú vilt,“ kallaði hún upp yfir sig á fallegu þýskunni sinni, „en hafðu engan félagsskap við þessa Biblíunemendur!“ Pabbi hafði samt gert upp hug sinn og lét skírast sem einn af þeim árið 1927.

Eftir það reyndi móðuramma mín að fá mömmu til að skilja við pabba. Einn daginn við messu í kaþólsku kirkjunni áminnti presturinn sóknarbörnin að „halda sig fjarri falsspámanninum Danner“. Þegar amma kom heim úr messunni henti hún blómapotti í pabba ofan af annarri hæð. Þungur potturinn lenti á öxlinni en höfuð hans slapp með naumindum. Þetta atvik varð til þess að mamma fór að velta fyrir sér hvort trúarbrögð sem breyttu fólki í morðingja gætu verið af hinu góða. Hún fór að lesa rit Votta Jehóva og sannfærðist fljótt um að hafa fundið sannleikann. Hún lét skírast 1929.

Pabbi og mamma gerðu allt sem þau gátu til þess að við systurnar kynntumst Jehóva sem lifandi Guði. Þau lásu biblíusögur fyrir okkur og spurðu síðan hvers vegna biblíupersónurnar hegðuðu sér eins og raun bar vitni. Á þessum tíma hætti pabbi að taka nætur- og kvöldvaktir, þó að sú ákvörðun hefði í för með sér töluverðan tekjumissi. Hann vildi nota tímann til að mæta á samkomur, fara í boðunarstarfið og fræða okkur systurnar um sannindi Biblíunnar.

Blikur á lofti

Foreldrar mínir voru vanir að taka á móti farandhirðum og Betelítum frá Sviss og Frakklandi. Þessir bræður sögðu okkur frá erfiðleikum trúsystkina í Þýskalandi sem var í aðeins nokkurra kílómetra fjarlægð frá heimili okkar. Stjórn nasista flutti votta Jehóva í fangabúðir og tók börn þeirra frá þeim.

Við Helen höfðum verið búnar undir að takast á við þær þrekraunir sem voru fram undan. Pabbi og mamma hjálpuðu okkur að muna biblíuvers sem leiðbeindu okkur. Þau sögðu okkur til dæmis: „Þegar þið vitið ekki hvað gera skal hugsið þá um Orðskviðina 3:5, 6. Ef þið eruð hræddar við prófraunir í skólanum notið þá 1. Korintubréf 10:13. Ef þið verðið viðskila við okkur farið þá með Orðskviðina 18:10.“ Ég lærði 23. og 91. sálm utan að og lærði að treysta því að Jehóva myndi alltaf vernda mig.

Árið 1940 innlimuðu nasistar Alsace-Lorraine í Þýskaland. Nýja stjórnin krafðist þess að allt fullorðið fólk gengi í nasistaflokkinn. Pabbi neitaði og Gestapó hótaði að hann yrði tekinn fastur. Þegar mamma vildi ekki sauma hermannabúninga fóru þeir líka að ógna henni.

Það var hrein martröð að vera í skólanum. Í bekknum mínum var á hverjum degi byrjað á því að biðja fyrir Hitler, heilsa með „Heil Hitler“ og syngja þjóðsönginn með útréttan hægri handlegg. Foreldrar mínir hjálpuðu mér að þjálfa samviskuna í stað þess að banna mér að fara með hitlerskveðjuna. Ég ákvað því sjálf að gera það ekki. Kennararnir slógu mig utan undir og hótuðu að reka mig úr skóla. Þegar ég var sjö ára varð ég að standa frammi fyrir öllum kennurum skólans en þeir voru 12. Þeir reyndu að neyða mig til þess að heilsa með „Heil Hitler“. Ég stóð samt staðföst með hjálp Guðs.

Ein af kennslukonunum reyndi að spila á tilfinningar mínar. Hún sagði að ég væri góður nemandi, sér líkaði mjög vel við mig og sér þætti leitt ef mér yrði vikið úr skóla. Hún sagði: „Þú þarft ekki að rétta út handlegginn. Lyftu honum bara aðeins. Og þú þarft ekki að segja ‚Heil Hitler!‘ Hreyfðu bara varirnar og láttu sem þú sért að segja það.“

Þegar ég sagði mömmu hvað kennarinn hafði sagt mér að gera minnti hún mig á frásöguna í Biblíunni af Hebreunum þremur frammi fyrir líkneskinu sem Babýloníukonungur lét reisa. „Hvað áttu þeir að gera?“ spurði hún. „Falla fram,“ svaraði ég. „Ef þeir hefðu beygt sig fram til að reima sandalana á sömu stundu og þeim var sagt að falla fram fyrir líkneskið, hefði það verið rétt? Þú ákveður. Gerðu það sem þú telur vera rétt.“ Ég ákvað að gefa Jehóva einum hollustu mína eins og Sadrak, Mesak og Abed-Negó gerðu. — Dan. 3:1, 13-18.

Kennararnir ráku mig mörgum sinnum úr skólanum og hótuðu að taka mig frá foreldrum mínum. Ég var mjög kvíðin en pabbi og mamma stöppuðu í mig stálinu. Þegar ég lagði af stað í skólann fór mamma með bæn með mér og bað Jehóva að vernda mig. Ég vissi að hann gæfi mér kraft til að standa stöðug í sannleikanum. (2. Kor. 4:7). Pabbi sagði að yrði þrýstingurinn of mikill skyldi ég vera óhrædd við að koma heim. „Okkur þykir mjög vænt um þig. Þú verður alltaf dóttir okkar,“ sagði hann. „Þetta er á milli þín og Jehóva.“ Slík orð styrktu löngun mína til að vera trúföst. — Job. 27:5

Gestapó kom margsinnis heim til okkar í leit að ritum frá vottunum og til þess að yfirheyra foreldra mína. Þeir tóku mömmu og héldu henni klukkustundum saman og sóttu pabba og systur mína þar sem þau voru við vinnu. Ég vissi aldrei hvort mamma yrði heima þegar ég kæmi heim úr skólanum. Nágrannakonan sagði stundum við mig: „Þeir hafa farið burt með móður þína.“ Þá faldi ég mig í húsinu og spurði sjálfa mig: „Eru þeir að pynda hana? Ætli ég sjái hana nokkurn tíma aftur?“

Flutt í útlegð

Gestapó-menn vöktu okkur klukkan hálf fjögur að morgni 28. janúar 1943. Þeir sögðu að við systurnar og foreldrar okkar yrðum ekki flutt í útlegð ef við gengjum í nasistaflokkinn. Við fengum þrjá tíma til að búa okkur undir brottförina. Mamma var viðbúin að svona gæti farið og hafði látið föt til skiptanna ásamt biblíu niður í bakpoka okkar. Við notuðum því tímann til að biðja saman og uppörva hvert annað. Pabbi minnti okkur á að ekkert gæti „gert okkur viðskila við kærleika Guðs“. — Rómv. 8:35-39.

Gestapó-mennirnir komu aftur. Ég gleymi aldrei þegar Anglade, öldruð trúsystir, veifaði okkur tárvotum augum í kveðjuskyni. Það var ekið með okkur á lestarstöðina í Metz. Eftir þriggja daga lestarferð komum við til Kochlowice-fangabúðanna í Póllandi en þær heyrðu undir útrýmingarbúðirnar í Auschwitz. Tveimur mánuðum síðar vorum við flutt til Gliwice en það var klaustur sem hafði verið breytt í vinnubúðir. Nasistar sögðu að þeir myndu sleppa okkur og skila aftur eigum okkar ef við hvert og eitt undirrituðum vottorð um að við afneituðum trú okkar. Pabbi og mamma neituðu og hermennirnir sögðu: „Þið eigið aldrei afturkvæmt heim.“

Í júní vorum við flutt til Swietochlowice. Þar fór ég að finna til höfuðverkja sem hrjá mig enn í dag. Ég fékk sýkingu í fingurna og læknir fjarlægði nokkrar neglur án deyfingar. Það var huggun harmi gegn að ég hafði það verkefni að sendast fyrir verðina og leiðin lá oft í bakaríið. Búðarkonan gaf mér þá gjarnan eitthvað að borða.

Fram að þessu höfðum við fjölskyldan verið út af fyrir okkur, aðskilin frá öðrum föngum. Í október 1943 vorum við send í búðir í bænum Zabkowice. Þar sváfum við í kojum á háaloftinu ásamt 60 öðrum körlum, konum og börnum. SS-menn sáu til þess að maturinn, sem við fengum, væri skemmdur og nærri óætur.

Þrátt fyrir harðréttið gáfum við aldrei upp vonina. Við höfðum lesið í Varðturninum að mikið prédikunarstarf ætti að fara fram eftir stríðið. Við vissum því hvers vegna við þjáðumst og að erfiðleikarnir tækju bráðlega enda.

Fréttir af framsókn bandamanna gáfu okkur til kynna að nasistar væru að tapa stríðinu. Snemma árs 1945 ákváðu SS-mennirnir að yfirgefa búðirnar. Nítjánda febrúar vorum við neydd til að hefja um 240 kílómetra göngu. Eftir fjórar vikur komum við til Steinfels í Þýskalandi. Þar ráku verðirnir fangahjörðina niður í námu. Margir hugsuðu að nú yrðum við drepin. En þennan dag komu bandamenn, SS-sveitirnar flúðu og eldraun okkar var að baki.

Markmiðunum náð

Fimmta maí 1945, eftir nærri tvö og hálft ár, komum við heim til Yutz, skítug og grálúsug. Við höfðum ekki skipt um föt síðan í febrúar. Þess vegna ákváðum við að brenna gömlu fötin. Ég man að mamma sagði við okkur: „Látum þetta verða fegursta daginn í lífi okkar! Við eigum ekkert. Við eigum ekki einu sinni fötin sem við erum í. Samt höfum við öll fjögur komið trúföst til baka. Við hvikuðum ekki frá trú okkar.“

Eftir þriggja mánaða heilsubótardvöl í Sviss fór ég aftur í skóla. Ég þurfti ekki lengur að óttast brottvísun. Nú gátum við hitt trúsystkini okkar og prédikað opinberlega. Ég lét skírast 28. ágúst 1947, til tákns um vígsluheit mitt. Ég var þá 13 ára en hafði vígt líf mitt Jehóva mörgum árum áður. Faðir minn skírði mig í ánni Mósel. Mig langaði til að verða brautryðjandi strax en pabbi krafðist þess að ég lærði einhverja iðn. Þess vegna fór ég að læra saumaskap. Árið 1951, þegar ég var 17 ára, gerðist ég brautryðjandi og mér var falið að starfa í Thionville, nálægu sveitarfélagi.

Sama ár fór ég á mót í París og sótti um að verða trúboði. Ég var ekki nógu gömul en bróðir Nathan Knorr sagðist myndu láta umsóknina bíða „þar til síðar“. Í júní 1952 fékk ég boð um að vera með í 21. hópi Gíleaðskólans í South Lansing í New York í Bandaríkjunum.

Gíleaðskólinn og lífið eftir það

Hvílík reynsla! Mér hafði oft fundist erfitt að tala opinberlega á eigin tungu. Nú varð ég að tala á ensku. En kennararnir studdu mig með ánægju. Einn af bræðrunum gaf mér gælunafnið Guðríkisbros vegna þess hvernig ég brosti þegar ég varð feimin.

Útskriftin fór fram á Yankee Stadium í New York 19. júlí 1953. Ég var send til Parísar ásamt Idu Candusso. Mig óaði við að prédika fyrir efnuðum Parísarbúum. Mér auðnaðist samt að leiðbeina fjölmörgu auðmjúku fólki við biblíunám. Ida giftist og fór til Afríku árið 1956 en ég var um kyrrt í París.

Árið 1960 giftist ég bróður sem var Betelíti. Við störfuðum sem sérbrautryðjendur í héruðunum Chaumont og Vichy. Fimm árum síðar smitaðist ég af berklum og varð að hætta að starfa sem brautryðjandi. Mér leið skelfilega því að frá barnæsku hafði ég haft það markmið að þjóna í fullu starfi og halda því áfram. Nokkru seinna fór eiginmaðurinn frá mér vegna annarrar konu. Stuðningur trúsystkina hjálpaði mér á þessum þungbæru árum og Jehóva hélt áfram að bera byrðar mínar. — Sálm. 68:20.

Nú á ég heima í Louviers í Normandí, nálægt frönsku deildarskrifstofunni. Ég er hamingjusöm að hafa fundið fyrir handleiðslu Jehóva í lífi mínu þrátt fyrir heilsubrest. Uppeldið, sem ég fékk, hjálpar mér að hafa rétt hugarfar enn þann dag í dag. Foreldrar mínir kenndu mér að Jehóva væri raunveruleg persóna sem ég gæti elskað og talað við, og að hann svari bænum mínum. Ég hugsa oft eins og sálmaritarinn: „Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig?“ — Sálm. 116:12.

[Innskot á blaðsíðu 6]

„Ég er hamingjusöm að finna fyrir handleiðslu Jehóva í lífi mínu.“

[Mynd á blaðsíðu 5]

Sex ára með gasgrímuna.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Sextán ára með trúboðum og brautryðjendum í Lúxemborg í sérstöku boðunarátaki.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Með pabba og mömmu á móti árið 1953.