Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að nýta sér kosti þess að vera einhleypur

Að nýta sér kosti þess að vera einhleypur

Að nýta sér kosti þess að vera einhleypur

„OG ÞAU giftust og lifðu hamingjusöm til æviloka.“ Þannig hljóma lokaorðin í mörgum barnaævintýrum. Rómantískar bíómyndir og skáldsögur bera oft á borð svipuð skilaboð — að hamingjan sé fólgin í hjónabandi. Flest menningarsamfélög þrýsta þar að auki á ungt fólk að ganga í hjónaband. „Fólk fær mann til að halda að eina markmiðið, sem stelpur ættu að hafa, sé að gifta sig,“ sagði Debby þegar hún var rúmlega tvítug. „Það gefur í skyn að lífið byrji fyrst eftir giftingu.“

En þeir sem vita hvert viðhorf Jehóva Guðs er í slíkum málum líta hlutina ekki svo einhliða. Þó að það hafi verið venja meðal Ísraelsmanna að ganga í hjónaband talar Biblían um einhleypa karla og konur sem lifðu mjög innihaldsríku lífi. Nú á tímum velja margir kristnir einstaklingar líf án maka, og aðrir eru einhleypir vegna ákveðinna aðstæðna. En hver svo sem ástæðan er fyrir því að fólk er einhleypt er spurningin sú sama: Hvernig er hægt að nýta sér kosti þess að vera einhleypur?

Jesús var einhleypur sem er reyndar mjög skiljanlegt þegar tekið er tillit til þess verkefnis sem honum var ætlað að inna af hendi. Hann sagði lærisveinum sínum að sumir af fylgjendum hans myndu einnig velja það að vera einhleypir. (Matt. 19:10-12) Jesús gaf til kynna að til þess að geta lifað hamingjuríku lífi án maka væri nauðsynlegt að vera sáttur við slíkt líf af heilum hug og hjarta.

Eru ráðleggingar Jesú eingöngu ætlaðar þeim sem velja að vera einhleypir til að geta einbeitt sér að fullu að þjónustunni við Jehóva? (1. Kor. 7:34, 35) Ekki endilega. Lítum á aðstæður kristins einstaklings sem myndi vilja ganga í hjónaband en tekst ekki að finna heppilegan maka. „Nýlega bað mín óvænt vinnufélagi sem er ekki vottur,“ segir Ana sem er einhleyp systir á fertugsaldri. „Að sumu leyti var ég upp með mér en ég ýtti þeim tilfinningum fljótlega frá mér vegna þess að ég vil eingöngu giftast manni sem styður mig í þjónustunni við Jehóva.“

Löngunin til að giftast aðeins „í Drottni“ hjálpar mörgum systrum, sem eru í sömu sporum og Ana, að giftast ekki vantrúuðum. * (1. Kor. 7:39, Biblían 1981; 2. Kor. 6:14) Vegna þess að þær virða ráðleggingar Guðs eru þær ákveðnar í að vera einhleypar, að minnsta kosti um tíma. Hvernig tekst þeim að viðhalda gleði sinni?

Lærðu að meta það jákvæða

Það ræðst að stórum hluta af viðhorfum okkar hvort við sættum okkur við aðstæður, jafnvel þótt þær henti okkur ekki fullkomlega. „Ég er ánægð með það sem ég hef og er ekki að velta mér upp úr því sem ég hef ekki,“ segir Carmen, einhleyp systir á fimmtugsaldri. Að vísu geta komið tímabil einmanaleika og vonbrigða. En vitneskjan um að margir innan bræðrafélagsins út um allan heim eru í svipuðum sporum getur verið hvatning til þess að halda ótrauður áfram. Jehóva hefur hjálpað mörgum að sjá kosti þess að vera einhleypir og takast á við aðrar áskoranir í lífinu. — 1. Pét. 5:9, 10.

Mörg trúsystkini okkar hafa uppgötvað kosti þess að vera einhleyp. „Ég held að lykillinn að hamingjunni felist í því að sjá jákvæðu hliðarnar á hverri þeirri aðstöðu sem maður er í,“ segir Ester, einhleyp systir á fertugsaldri. „Óháð því hvort ég giftist einhvern tíma eða ekki trúi ég því að Jehóva muni ekki synja mér neinna gæða ef ég læt Guðsríki hafa forgang í lífinu,“ segir Carmen. (Sálm. 84:12) „Líf mitt er kannski ekki alveg eins og ég hafði hugsað mér en ég er hamingjusöm engu að síður og mun vera það áfram.“

Dæmi úr Biblíunni um einhleypt fólk

Dóttir Jefta hafði ekki áformað að vera einhleyp. En heit, sem faðir hennar hafði gefið, skuldbatt hana til þess að þjóna í helgidómi Jehóva frá unglingsaldri. Þetta óvænta verkefni breytti án efa framtíðaráætlunum hennar og gekk í berhögg við eðlilegar langanir hennar. Hún syrgði í tvo mánuði þegar henni varð það ljóst að hún myndi aldrei giftast og eignast fjölskyldu. Hún sætti sig engu að síður við þessar nýju aðstæður og þjónaði Jehóva fúslega það sem eftir var ævinnar. Á hverju ári fékk hún hvatningu frá öðrum ísraelskum konum sem hrósuðu henni fyrir fórnfýsi hennar. — Dóm. 11:36-40.

Sumir sem voru geldingar á tímum Jesaja hafa örugglega verið vonsviknir vegna aðstæðna sinna. Í Biblíunni er ekki tíundað hvað olli því að þessir menn voru geldingar. En af þeim sökum gátu þeir hvorki orðið fullgildir meðlimir í söfnuði Ísraelsmanna né gengið í hjónaband og eignast börn. (5. Mós. 23:1) Jehóva skildi samt fyllilega tilfinningar þeirra og hrósaði þeim fyrir heilshugar hlýðni við sáttmála hans. Hann sagði að þeir myndu hafa „minnismerki“ og „eilíft nafn“ í húsi hans. Með öðrum orðum myndu þessir trúföstu geldingar hafa örugga von um eilíft líf undir stjórn Jesú í Messíasaríkinu. Jehóva myndi aldrei gleyma þeim. — Jes. 56:3-5.

Aðstæður Jeremía voru allt aðrar. Eftir að Guð hafði útnefnt hann sem spámann sinn fékk hann þau fyrirmæli að vera áfram einhleypur vegna þeirra örðugu tíma sem þá voru og vegna þess hvers eðlis verkefni hans var. „Þú skalt ekki taka þér eiginkonu,“ sagði Jehóva, „og hvorki eignast syni né dætur á þessum stað.“ (Jer. 16:1-4) Biblían greinir ekki frá því hvaða tilfinningar bærðust með Jeremía vegna þessara fyrirmæla en ljóst er að hann hafði yndi af orðum Jehóva. (Jer. 15:16) Seinna þegar Jeremía upplifði hið skelfilega 18 mánaða umsátur um Jerúsalemborg hefur hann vafalaust séð viskuna í því að vera einhleypur. — Harmlj. 4:4, 10

Leiðir til að auðga lífið

Áðurnefndar biblíupersónur voru einheypar en þær nutu stuðnings Jehóva og notuðu tíma sinn í að þjóna honum. Nú á dögum getur tilgangsríkt starf einnig auðgað líf okkar. Í Biblíunni var því spáð að mikill her kvenna myndi boða fagnaðarerindið. (Sálm. 68:12) Á meðal þeirra eru þúsundir einhleypra systra. Starf þeirra hefur borið árangur og margar hafa eignast andlega syni og dætur. — Mark. 10:29, 30; 1. Þess. 2:7b, 8.

„Brauðryðjandastarfið hjálpar mér að halda ákveðinni stefnu í lífinu,“ segir Loli sem er einhleyp og hefur þjónað í fullu starfi í 14 ár. „Ég hef ávallt nóg fyrir stafni og það forðar mér frá einmanaleika. Að degi loknum er ég ánægð vegna þess að ég sé að þjónusta mín hjálpar fólki. Það gefur mér mikla gleði.“

Margar systur hafa haft tækifæri til þess að læra nýtt tungumál og hafa aukið þjónustuna með því að prédika fyrir erlendu fólki. „Í heimaborg minni búa mörg þúsund útlendingar,“ segir Ana, sem minnst var á áðan. Henni finnst mjög ánægjulegt að geta prédikað fyrir frönskumælandi fólki. „Það að læra nýtt tungumál til þess að geta haft tjáskipti við innflytjendur hefur opnað mér nýjan heim í starfi mínu og gert það mjög áhugavert.“

Það að vera einhleypur hefur yfirleitt í för með sér minni fjölskylduábyrgð og margir hafa nýtt sér það og þjónað þar sem þörfin er meiri. „Ég trúi því staðfastlega að því uppteknari sem maður er í þjónustunni við Jehóva því auðveldara eigi maður með að eignast góða vini og finnast maður elskaður,“ segir Lidiana, einhleyp systir á fertugsaldri sem hefur þjónað erlendis þar sem þörfin er meiri. „Ég hef eignast marga góða vini sem hafa mismunandi bakgrunn og koma frá ýmsum löndum, og sú vinátta hefur virkilega auðgað líf mitt.“

Í Biblíunni er sagt frá trúboðanum Filippusi en hann átti fjórar ógiftar dætur sem allar voru gæddar spádómsgáfu. (Post. 21:8, 9) Þær hafa örugglega verið jafn kappsamar í þjónustu sinni og faðir þeirra. Ætli þær hafi ekki notað spádómsgáfur sínar til gagns fyrir trúsystkini sín í Sesareu? (1. Kor. 14:1, 3) Nú á tímum er það sömuleiðis öðrum til gagns og uppörvunar að einhleypar systur mæti reglulega á safnaðarsamkomur og taki þátt í þeim.

Lýdía var frumkristin systir sem bjó í Filippí og hennar er getið í Biblíunni fyrir gestrisni hennar. (Post. 16:14, 15, 40) Hún var sennilega einhleyp eða ekkja en örlæti hennar og gestrisni leiddi til þess að hún naut uppörvandi samveru við farandumsjónarmenn þess tíma, eins og Pál, Sílas og Lúkas. Ef við sýnum sama hugarfar getum við einnig notið slíkra blessana nú á dögum.

Að finnast maður elskaður

Fyrir utan að sinna tilgangsríku starfi til að auðga lífið þörfnumst við öll ástar og umhyggju. Hvernig getur einhleypt fólk uppfyllt þá þörf? Í fyrsta lagi er Jehóva ávallt til staðar til að elska okkur, til að styrkja okkur og til að hlusta á okkur. Davíð konungur var stundum „einmana og beygður“ en engu að síður vissi hann að hann gæti ávallt leitað til Jehóva og fengið stuðning. (Sálm. 25:16; 55:23) „Þótt faðir minn og móðir yfirgefi mig tekur Drottinn mig að sér,“ skrifaði hann. (Sálm. 27:10) Jehóva býður öllum þjónum sínum að nálgast sig og verða nánir vinir sínir. — Sálm. 25:14; Jak. 2:23; 4:8.

Þar að auki finnum við innan alheimssafnaðarins andlega feður, mæður, bræður og systur sem auðga líf okkar með elsku sinni. (Matt. 19:29; 1. Pét. 2:17) Mörg einhleyp trúsystkini hafa mikla ánægju af að fylgja fordæmi Dorkasar sem „var mjög góðgerðasöm og örlát við snauða“. (Post. 9:36, 39) „Hvert sem ég fer finn ég sanna vini í söfnuðinum sem elska mig og veita mér stuðning þegar ég er niðurdregin,“ segir Loli. „Til að styrkja þessi vináttubönd reyni ég að sýna öðrum kærleika og áhuga. Ég hef þjónað í átta söfnuðum og ég hef alltaf eignast sanna vini. Það eru ekki endilega systur á mínum aldri — stundum eru það ömmur eða táningsstelpur.“ Í öllum söfnuðum eru trúsystkini sem þarfnast umhyggju og félagsskapar. Það getur verið þeim til mikillar hjálpar ef við sýnum þeim einlægan áhuga og það getur einnig fullnægt okkar eigin þörf fyrir að elska og finnast við elskuð. — Lúk. 6:38.

Guð gleymir ekki

Í Biblíunni segir að allir kristnir menn verði að færa einhvers konar fórnir vegna þeirra erfiðu tíma sem við lifum á. (1. Kor. 7:29-31) Og þeir sem eru einhleypir vegna hlýðni við þá fyrirskipun Guðs að giftast aðeins í Drottni eiga sannarlega skilið virðingu okkar og tillitsemi. (Matt. 19:12) En þó að þeir færi þessa fórn þýðir það ekki að þeir geti ekki notið lífsins til fulls.

„Ég lifi hamingjuríku lífi sem byggist á sambandi mínu við Jehóva og þjónustunni við hann,“ segir Lidiana. „Ég þekki hjón sem eru hamingjusöm og önnur sem eru það ekki. Þessi staðreynd hefur sannfært mig um að hamingja mín veltur ekki á því hvort ég gifti mig eða ekki.“ Eins og Jesús benti á snýst hamingjan í meginatriðum um að gefa og að þjóna, og það geta allir kristnir menn gert. — Jóh. 13:14-17, Post. 20:35.

Það sem veitir okkur mesta gleði er tvímælalaust sú vitneskja að Jehóva blessi okkur fyrir hverjar þær fórnir sem við færum til að vera honum hlýðin. Biblían fullvissar okkur um að Guð sé ekki ranglátur. „Hann gleymir ekki verki ykkar og kærleikanum sem þið auðsýnduð honum.“ — Hebr. 6:10.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Þó að hér sé vísað til systra á meginreglan líka við um bræður.

[Innskot á blaðsíðu 25]

„Ég er ánægð með það sem ég hef og er ekki að velta mér upp úr því sem ég hef ekki.“ — Carmen.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Loli og Lidiana hafa ánægju af að þjóna þar sem þörfin er meiri.

[Mynd á blaðsíðu 27]

Guð býður öllum þjónum sínum að nálgast sig.