Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig og hvers vegna ætti að deila út verkefnum?

Hvernig og hvers vegna ætti að deila út verkefnum?

Hvernig og hvers vegna ætti að deila út verkefnum?

SÁ SIÐUR að fela öðrum verkefni á sér lengri sögu en jörðin. Jehóva skapaði einkason sinn og hafði hann svo „með í ráðum“ þegar hann skapaði alheiminn. (Orðskv. 8:22, 23, 30; Jóh. 1:3) Þegar Guð skapaði fyrstu hjónin sagði hann þeim: „Fyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna.“ (1. Mós. 1:28) Skaparinn fól mönnunum það verkefni að stækka paradísina Eden uns hún næði um allan hnöttinn. Já, allt frá upphafi hafa Jehóva og þjónar hans verið duglegir að deila út verkefnum og ábyrgð.

Af hverju er gott að dreifa ábyrgð? Hvers vegna ættu öldungar að læra að dreifa ábyrgð og deila út vissum verkefnum í söfnuðinum og hvernig á að gera það?

Að deila út verkefnum

Með því að fela öðrum verkefni er verið að virkja krafta þeirra og kunnáttu til að ná fram ákveðnum markmiðum. Jafnframt er verið að dreifa ábyrgð.

Ætlast er til að þeir sem fá umboð til að vinna ákveðið verkefni innan safnaðarins geri því góð skil og láti vita hvernig því miðar. Að jafnaði ættu þeir að ráðfæra sig við þann sem fól þeim verkefnið. Öldungurinn, sem úthlutaði verkefninu, ber engu að síður ábyrgð á því. Hann þarf að fylgjast með að verkinu miði vel áfram og gefa leiðbeiningar eftir þörfum. En sumir velta samt fyrir sér hvers vegna ætti að fela öðrum verkefni ef maður getur unnið það sjálfur.

Hvers vegna ætti að deila út verkefnum?

Leiddu hugann að því þegar Jehóva skapaði einkason sinn og fól honum að vinna með sér við að skapa allt annað. Fyrir milligöngu hans „var allt skapað . . . í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega“. (Kól. 1:16) Skaparinn hefði getað gert þetta allt sjálfur en hann vildi að sonur sinn fengi að kynnast gleðinni sem fylgir því að ljúka vel unnu verki. (Orðskv. 8:31) Þannig kynntist sonurinn eiginleikum Guðs betur. Segja má að faðirinn hafi notað tækifærið til að kenna einkasyni sínum.

Þegar Jesús Kristur var á jörðinni líkti hann eftir föður sínum og deildi út verkefnum. Hann kenndi lærisveinunum jafnt og þétt og þjálfaði þá til starfa. Hann sendi á undan sér postulana 12 og seinna 70 aðra lærisveina til að boða fagnaðarerindið. (Lúk. 9:1-6; 10:1-7) Þegar Jesús kom svo sjálfur á eftir þeim var búið að leggja góðan grundvöll sem hann gat byggt á. Þegar hann fór til himna fékk hann þeim enn meiri ábyrgð, þar á meðal það verkefni að boða fagnaðarerindið um allan heim. — Matt. 24:45-47; Post. 1:8.

Að deila út verkefnum, kenna og þjálfa var áberandi einkenni kristna safnaðarins. Páll sagði við Tímóteus: „Það sem þú heyrðir mig tala í margra votta viðurvist skalt þú fá í hendur trúum mönnum sem líka munu færir um að kenna öðrum.“ (2. Tím. 2:2) Reyndir bræður eiga að kenna öðrum sem geta síðan kennt enn fleirum.

Öldungur getur leyft fleirum að njóta gleðinnar sem fylgir því að kenna og gæta hjarðarinnar með því að gefa þeim hluta af þeim verkefnum sem honum eru falin. Öldungar þurfa að hafa hugfast að manninum eru takmörk sett. Það er því enn ríkari ástæða fyrir þá til að biðja aðra um að létta undir með sér. Biblían segir: „Hjá hinum hógværu er viska.“ (Orðskv. 11:2) Hógvær maður þekkir takmörk sín. Ef þú reynir að gera allt sjálfur er það ávísun á að þú örmagnist og verðir fjarri fjölskyldu þinni meira en góðu hófi gegnir. Það er því viturlegt að deila ábyrgðinni með öðrum. Tökum umsjónarmann öldungaráðsins sem dæmi. Hann gæti beðið aðra öldunga að endurskoða bókhald safnaðarins. Með því að fara yfir gögnin geta þessir öldungar sett sig inn í fjárhagsstöðu safnaðarins.

Þegar öldungar deila út verkefnum fá aðrir tækifæri til að öðlast færni og reynslu. Öldungurinn, sem útdeilir verkinu, sér þá líka hvað býr í þeim sem fékk verkefnið. Með því að fela öðrum að sjá um viðeigandi verkefni í söfnuðinum geta öldungarnir kannað hæfni væntanlegra safnaðarþjóna. — 1. Tím. 3:10.

Að lokum má nefna að öldungar sýna að þeir treysta öðrum þegar þeir fela þeim verkefni. Páll kenndi Tímóteusi og þjálfaði hann með því að vinna með honum við trúboðsstarfið. Fyrir vikið urðu þeir nánir vinir. Páll kallaði Tímóteus ‚skilgetið barn sitt í trúnni‘. (1. Tím. 1:2) Jehóva og Jesús urðu sömuleiðis nánir þegar þeir unnu saman við að skapa allt annað. Öldungar geta myndað góð tengsl við aðra með því að fela þeim verkefni.

Af hverju eru sumir tregir til?

Sumir öldungar eiga erfitt með að deila út verkefnum þó að þeir skilji mætavel hvaða kosti það hefur. Ef til vill eru þeir tregir til því að þeim finnst þeir vera að gefa frá sér vald. Þeim finnst kannski að þeir þurfi alltaf að vera sjálfir við stýrið ef svo má að orði komast. En mundu að áður en Jesús steig upp til himna fól hann lærisveinunum afar þýðingarmikið verkefni vitandi að þeir myndu vinna enn meiri verk en hann. — Matt. 28:19, 20; Jóh. 14:12.

Aðrir öldungar hafa ef til vill áður falið öðrum ýmis verkefni en með misjöfnum árangri. Þeir hugsa kannski sem svo að þeir geti sjálfir skilað betra verki og verið fljótari. Páll postuli þekkti þennan vanda. Hann sá kosti þess að deila út verkefnum en vissi einnig að menn myndu ekki alltaf rísa undir væntingum. Í fyrstu trúboðsferðinni leiðbeindi hann ungum ferðafélaga sínum Markúsi. Páll varð fyrir sárum vonbrigðum þegar Markús gafst upp og fór heim. (Post. 13:13; 15:37, 38) Páll hætti samt ekki að kenna öðrum og þjálfa. Eins og áður hefur komið fram bauð hann hinum unga Tímóteusi að slást í för með sér. Þegar Tímóteus var tilbúinn að axla meiri ábyrgð skildi Páll við hann í Efesus og fékk honum umboð til að útnefna umsjónarmenn og safnaðarþjóna. — 1. Tím. 1:3; 3:1-10, 12, 13; 5:22.

Öldungar ættu ekki að gefast upp við að kenna bræðrum og þjálfa þá þó að einn og einn standi sig ekki sem skyldi. Það er viturlegt og mikilvægt að læra að treysta öðrum og kenna þeim. En hvað ættu öldungar að hafa í huga þegar þeir fela öðrum verkefni?

Hvernig ætti að deila út verkefnum?

Þegar þú felur bræðrum verkefni hafðu þá í huga hæfileika þeirra. Þegar sjá þurfti um daglega matarúthlutun í Jerúsalem völdu postularnir ‚sjö vel kynnta menn sem voru fullir anda og visku‘. (Post. 6:3) Ef þú biður óáreiðanlegan mann um að gera eitthvað er óvíst að hann sinni því. Byrjaðu því á að deila út smærri verkefnum. Þegar einhver hefur sannað sig má eflaust fela honum meiri ábyrgð.

En það er ekki allt og sumt. Menn eru ólíkir, hæfileikarnir breytilegir og þeir hafa misjafna reynslu. Vinalegur og hlýlegur bróðir getur nýst vel sem salarvörður en bróðir, sem er skipulagður að eðlisfari, getur orðið góður aðstoðarmaður safnaðarritarans. Hægt er að fela systur með listræna hæfileika að sjá um blómaskreytingar fyrir minningarhátíðina.

Þegar þú færð öðrum verkefni og ábyrgð skaltu taka skýrt fram hvers sé vænst. Áður en Jóhannes skírari sendi menn til Jesú sagði hann þeim hvað hann vildi vita og hvernig ætti að orða spurninguna. (Lúk. 7:18-20) Eftir að Jesús hafði mettað mannfjöldann með kraftaverki bað hann lærisveinana að taka saman leifarnar. Hins vegar útlistaði hann ekki nánar hvernig þeir ættu að bera sig að. (Jóh. 6:12, 13) Eðli verksins og hæfni aðstoðarmannsins ræður miklu. Öldungurinn og aðstoðarmaðurinn ættu að hafa sömu sýn á það hvernig eigi að skila verkinu af hendi og hve oft eigi að hafa samráð meðan á því stendur. Báðum ætti að vera ljóst hve mikið svigrúm aðstoðarmaðurinn hafi til að taka ákvarðanir. Ef ljúka á verkinu innan ákveðins tíma getur það haft betri áhrif ef tekin er sameiginleg ákvörðun um tímarammann frekar en að tilkynna bara hvenær verkinu eigi að vera lokið.

Sá sem fær verkefni ætti að hafa aðgang að fé, verkfærum og aðstoð eftir þörfum. Það getur verið gott að aðrir viti hvað hefur verið ákveðið. Þegar Jesús gaf Pétri „lykla himnaríkis“ voru aðrir lærisveinar viðstaddir. (Matt. 16:13-19) Á svipaðan hátt getur stundum verið gott að láta söfnuðinn vita hver ber ábyrgð á ákveðnu verki.

Nokkur varnaðarorð að lokum. Ef þú ert búinn að fela einhverjum verkefni en reynir svo að stjórna því sjálfur ertu að senda honum þau skilaboð að þú treystir honum eiginlega ekki. Það getur auðvitað gerst að útkoman verði önnur en þú væntir. En ef bróðirinn, sem hefur tekið að sér verkefnið, fær hæfilegt olnbogarými mun hann sennilega öðlast sjálfstraust og reynslu. Að sjálfsögðu ættirðu samt að hafa áhuga á hvernig honum gengur að vinna verkið. Enda þótt Jehóva hafi falið syni sínum ákveðið hlutverk við sköpun allra hluta vann hann samt sjálfur að verkinu. Hann sagði við son sinn: „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd.“ (1. Mós. 1:26) Styddu verkið með ráðum og dáð og hrósaðu aðstoðarmanninum fyrir dugnað hans. Það getur verið gott fyrir hann að farið sé stuttlega yfir árangurinn. Ef verkið er ekki nógu vel unnið skaltu ekki hika við að gefa frekari leiðbeiningar eða aðstoð. Mundu að þú berð ábyrgð á verkinu þótt þú hafir falið öðrum að vinna það. — Lúk. 12:48.

Margir hafa notið góðs af því að fá verkefni frá safnaðaröldungum sem sýndu þeim persónulegan áhuga. Allir öldungar þurfa að læra hvernig og hvers vegna þeir ættu að deila út verkefnum, eins og Jehóva gerir.

[Rammi á blaðsíðu 29]

MEÐ ÞVÍ AÐ DEILA ÚT VERKEFNUM

• fá aðrir að kynnast gleðinni sem fylgir því að skila af sér góðu verki

• áorkar þú meiru

• sýnir þú visku og hógværð

• kennir þú öðrum og þjálfar þá

• sýnir þú öðrum að þú treystir þeim

[Rammi á blaðsíðu 30]

HVERNIG Á AÐ DEILA ÚT VERKEFNUM

• Veldu fólk sem hentar í verkið

• Skýrðu málið vel

• Gerðu grein fyrir til hvers er ætlast

• Láttu í té það sem þarf til að vinna verkið

• Vertu áhugasamur um verkið og sýndu að þú treystir þeim sem vinnur það

• Mundu að þú berð ábyrgð á verkinu

[Myndir á blaðsíðu 31]

Sá sem gefur öðrum verkefni þarf að skýra málið vel og fylgjast með hvernig gengur.