Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fylgir þú hinni „ágætari leið“ kærleikans?

Fylgir þú hinni „ágætari leið“ kærleikans?

Fylgir þú hinni „ágætari leið“ kærleikans?

„GUÐ er kærleikur.“ Þessi orð Jóhannesar postula benda á höfuðeiginleika Guðs. (1. Jóh. 4:8) Það er kærleikur hans til mannkynsins sem gerir okkur mögulegt að nálgast hann og eiga persónulegt samband við hann. Á hvaða aðra vegu hefur kærleikur Guðs áhrif á okkur? Sagt hefur verið að við mótumst af því sem við elskum. Og það er satt. En það má líka segja að við mótumst af því hverja við elskum og hverjir elska okkur. Þar sem við erum sköpuð eftir mynd Guðs höfum við hæfni til að endurspegla kærleika hans. (1. Mós. 1:27) Þess vegna skrifaði Jóhannes postuli að við elskum Guð „því að Guð elskaði okkur að fyrra bragði“. — 1. Jóh. 4:19.

Fjögur orð til að lýsa kærleikanum

Páll postuli kallaði kærleikann „enn þá miklu ágætari leið“. (1. Kor. 12:31) Af hverju lýsti hann kærleikanum þannig? Hvernig kærleika var Páll að tala um? Til að komast að því skulum við skoða nánar orðið „kærleikur“.

Í forn-grísku voru til fjögur orð sem notuð voru í ýmsum myndum til að lýsa kærleika: storgeʹ, eʹros, filiʹa og agaʹpe. Agaʹpe er notað til að lýsa Guði sem „er kærleikur“. * Prófessor William Barclay segir um þessa tegund kærleikans í riti sínu New Testament Words: „Agapē er bundið huganum: það er ekki bara tilfinning sem kviknar óbeðin í hjörtum okkar; það er meginregla sem við lifum eftir af ráðnum hug. Agapē er fyrst og fremst tengt viljanum.“ Agaʹpe er kærleikur sem stýrist af meginreglum en honum fylgja oft sterkar tilfinningar. Þar sem bæði eru til góðar og slæmar meginreglur er augljóst að kristnir menn verða að láta góðar meginreglur stýra sér en þær hefur Jehóva Guð útlistað í Biblíunni. Þegar við berum lýsingar Biblíunnar á agaʹpe saman við önnur orð, sem eru notuð til að lýsa kærleika, skiljum við betur hvernig kærleika við eigum að sýna.

Ást innan fjölskyldunnar

Það er yndislegt að tilheyra hlýlegri og samheldinni fjölskyldu. Gríska orðið storgeʹ var oft notað til að lýsa eðlilegri ástúð sem ríkir innan fjölskyldunnar. Kristnir menn leggja sig fram um að sýna öðrum í fjölskyldunni kærleika. En Páll spáði að á síðustu dögum yrðu menn almennt „kærleikslausir“. * — 2. Tím. 3:1, 3.

Því miður verður æ sjaldgæfara í heimi nútímans að fólk sýni þessa eðlilegu ástúð sem ætti að ríkja innan fjölskyldunnar. Af hverju fara svona margar verðandi mæður í fóstureyðingu? Af hverju eru svona margir sem sýna öldruðum foreldrum engan áhuga? Af hverju heldur skilnuðum stöðugt áfram að fjölga? Af því að eðlileg ástúð innan fjölskyldunnar er á undanhaldi.

Auk þess segir í Biblíunni: „Svikult er hjartað framar öllu öðru.“ (Jer. 17:9) Ástúð innan fjölskyldunnar tengist hjartanu og tilfinningunum. En það er athyglisvert að Páll notaði agaʹpe til að lýsa því hvernig eiginmaður á að elska eiginkonu sína. Páll líkti þessum kærleika við kærleikann sem Kristur sýnir söfnuðinum. (Ef. 5:28, 29) Þessi kærleikur er byggður á meginreglum Jehóva, höfundar fjölskyldunnar.

Sannur kærleikur til fjölskyldunnar fær okkur til að sýna öldruðum foreldrum áhuga og axla ábyrgð á börnum okkar. Hann knýr foreldra líka til að veita börnunum kærleiksríkan aga þegar þess þarf og kemur í veg fyrir að þeir láti stjórnast af tilfinningasemi sem endar oft með undanlátsemi. — Ef. 6:1-4.

Rómantísk ást og meginreglur Biblíunnar

Rómantísk ást milli hjóna er sannarlega gjöf frá Guði. (Orðskv. 5:15-17) En hinir innblásnu biblíuritar nota aldrei orðið eʹros sem lýsir slíkri ást. Af hverju ekki? Fyrir nokkrum áratugum var eftirfarandi athugasemd birt í Varðturninum: „Í dag lítur út fyrir, að allur heimurinn geri sömu mistök og Grikkir fortíðarinnar. Þeir tilbáðu Eros sem guð, krupu við altari hans og færðu honum fórnir . . . En sagan sýnir, að þessi tilbeiðsla á ást milli kynjanna hefur aðeins niðurlægingu, lauslæti og afturför í för með sér. Það er ef til vill ástæðan til þess, að biblíuritararnir notuðu ekki þetta orð.“ Til að stofna ekki til sambanda sem byggjast aðeins á líkamlegu aðdráttarafli verðum við að stilla rómantískum tilfinningum í hóf eða stjórna þeim með meginreglum Biblíunnar. Spyrðu þig: „Er rómantíska ástin í réttu hlutfalli við sannan kærleika til maka míns eða tilvonandi maka?“

Á „manndómsskeiði“ er kynhvötin oft mjög sterk. En ungt fólk, sem heldur sig við meginreglur Biblíunnar, varðveitir siðferðilegan hreinleika. (1. Kor. 7:36; Kól. 3:5) Við lítum á hjónabandið sem heilaga gjöf frá Jehóva. Jesús sagði um hjón: „Það sem Guð hefur tengt saman má eigi maðurinn sundur skilja.“ (Matt. 19:6) Við erum skuldbundin maka okkar. Við erum honum ekki bara trú svo framarlega sem líkamlegt aðdráttarafl er gagnkvæmt. Þegar vandamál koma upp í hjónabandinu leitum við ekki að auðveldri leið út úr sambandinu heldur leggjum okkur fram um að sýna eiginleika Guði að skapi til að gera fjölskyldulífið hamingjuríkt. Slík viðleitni færir varanlega hamingju. — Ef. 5:33; Hebr. 13:4.

Kærleikur milli vina

Lífið væri einmanalegt án vina! Orðskviður í Biblíunni segir: „Til er sá vinur sem reynist tryggari en bróðir.“ (Orðskv. 18:24) Jehóva vill að við eigum sanna vini. Hin nána vinátta milli Davíðs og Jónatans er vel þekkt. (1. Sam. 18:1) Og í Biblíunni segir að Jesús hafi elskað Jóhannes postula en þar er notað gríska orðið filiʹa sem þýðir hlýhugur eða vinátta. (Jóh. 20:2) Það er ekkert að því að eiga náinn vin í söfnuðinum. En í 2. Pétursbréfi 1:7 erum við hvött til að sýna kærleika (agaʹpe) í „bróðurelskunni“ (filiʹadelfiʹa, samsett orð úr fiʹlos sem þýðir „vinur“ á grísku og adelfosʹ, sem þýðir „bróðir“). Við verðum að fylgja þessum leiðbeiningum til að eiga varanleg vinabönd. Það er gott að spyrja sig: „Sýni ég vináttu í samræmi við meginreglur Biblíunnar?“

Orð Guðs hjálpar okkur að forðast hlutdrægni í samskiptum við vini. Við höfum ekki tvöfaldan mælikvarða. Það þýðir að við lækkum ekki viðmiðin fyrir vini okkar en gerum síðan strangari kröfur til annarra. Við smjöðrum ekki heldur til að eignast vini. Umfram allt hjálpa meginreglur Biblíunnar okkur að hafa dómgreind til að vera vandfýsin þegar við veljum okkur vini og forðast vondan félagsskap sem „spillir góðum siðum“. — 1. Kor. 15:33.

Einstök kærleiksbönd

Kærleiksböndin, sem sameina kristna menn, eru alveg einstök! Páll postuli skrifaði: „Elskan sé flærðarlaus . . .Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika.“ (Rómv. 12:9, 10) Kristnir menn sýna vissulega ‚elsku‘ (agaʹpe) sem er „flærðarlaus“. Þessi kærleikur er ekki bara ósjálfráð tilfinning heldur á sér traustan grunn í meginreglum Biblíunnar. En Páll talar líka um ‚bróðurlegan kærleika‘ (filadelfiʹa) og ‚að vera ástúðlegur‘ (filoʹstorgos, samsett orð af fiʹlos og storgeʹ). Fræðimaður nokkur segir að ‚bróðurlegur kærleikur‘ sé „ástúðlegur kærleikur, það að sýna vinsemd, hluttekningu, bjóða fram hjálp“. Ef þessi kærleikur er sýndur ásamt agaʹpe stuðlar hann að innilegum vinaböndum meðal þjóna Jehóva. (1. Þess. 4:9, 10) Hitt orðið, sem þýtt er ‚að vera ástúðlegur‘, kemur bara einu sinni fyrir í Biblíunni og lýsir nánu og innilegu sambandi, eins og innan fjölskyldu.

Kærleiksböndin, sem sameina sannkristna menn, eru sambland af fjölskyldukærleika og hlýhug til sannra vina, en öll samskipti við aðra stjórnast af kærleika byggðum á meginreglum Biblíunnar. Kristni söfnuðurinn er ekki klúbbur eða veraldleg stofnun heldur samheldin fjölskylda sem er sameinuð í tilbeiðslu á Jehóva Guði. Við köllum trúsystkini okkar bræður og systur og lítum þannig á þau. Þau tilheyra andlegri fjölskyldu okkar, við elskum þau sem vini og komum alltaf fram við þau í samræmi við meginreglur Biblíunnar. Við skulum öll halda áfram að styrkja bönd kærleikans sem sameina hinn sannkristna söfnuð og eru einkennismerki hans. — Jóh. 13:35.

[Footnotes]

^ gr. 5 Agaʹpe er líka notað í neikvæðu samhengi. — Jóh. 3:19; 12:43; 2. Tím. 4:10; 1. Jóh. 2:15-17.

^ gr. 7 Orðið „kærleikslausir“ er þýðing á einni mynd af orðinu storgeʹ með neikvæða forskeytinu a sem þýðir „án“. Sjá einnig Rómverjabréfið 1:31.

[Innskot á blaðsíðu 12]

Hvað gerir þú til að styrkja kærleiksböndin sem sameina okkur?