Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að þiggja með þakklæti og gefa af örlæti

Að þiggja með þakklæti og gefa af örlæti

Að þiggja með þakklæti og gefa af örlæti

JEHÓVA er kærleiksríkur himneskur faðir okkar og hann ber mikla umhyggju fyrir okkur. Í Biblíunni erum við fullvissuð um að honum þyki mjög vænt um alla þjóna sína. (1. Pét. 5:7) Ein leið hans til að sýna væntumþykju sína er að sjá okkur fyrir ýmiss konar aðstoð til að við getum þjónað honum trúfastlega. (Jes. 48:17) Jehóva vill að við nýtum okkur þessa hjálp, sérstaklega þegar við verðum fyrir erfiðleikum sem valda okkur áhyggjum. Þetta sést vel af Móselögunum.

Jehóva setti ákvæði í lagasáttmálann um að séð væri fyrir „hinum fátæka“. Þetta gat verið munaðarleysingi, ekkja eða útlendingur. (3. Mós. 19:9, 10; 5. Mós. 14:29) Jehóva veit að sumir þjónar hans þurfa kannski að fá hjálp frá trúsystkinum sínum. (Jak. 1:27) Það ætti því enginn að veigra sér við að þiggja hjálp frá þeim sem finna löngun hjá sér til að veita hana. En við viljum þiggja hana með réttu hugarfari.

Í Biblíunni er samt líka bent á að þjónar Guðs hafi mörg tækifæri til að gefa. Munum eftir fátæku ekkjunni sem Jesús fylgdist með í musterinu í Jerúsalem. (Lúk. 21:1-4) Hún naut örugglega góðs af þeirri kærleiksríku aðstoð sem ekkjur áttu að fá samkvæmt lögmálinu. En þótt hún væri fátæk er hennar ekki minnst vegna þess sem hún þáði heldur vegna þess sem hún gaf. Gjafmildi hennar stuðlaði að hamingju hennar enda sagði Jesús: „Sælla er að gefa en þiggja.“ (Post. 20:35) Með það í huga er gott að spyrja sig: Hvernig get ég sýnt gjafmildi og uppskorið gleðina sem fylgir því? — Lúk. 6:38.

„Hvað á ég að gjalda Drottni?“

Sálmaritarinn spurði: „Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig?“ (Sálm. 116:12) Um hvaða velgjörðir var hann að tala? Jehóva hafði stutt hann þegar hann „mætti nauðum og harmi“. Þar að auki hafði Jehóva ‚bjargað lífi hans frá dauða‘. Og nú langaði hann til að endurgjalda Jehóva hjálpina á einhvern hátt. Hvað gat sálmaritarinn gert? Hann sagði: „Ég greiði Drottni heit mín.“ (Sálm. 116:3, 4, 8, 10-14) Hann hét því að halda öll loforðin sem hann hafði gefið Jehóva og að uppfylla allar skyldur sínar gagnvart honum.

Það getur þú líka gert. Hvernig? Með því að fylgja lögum Guðs og meginreglum hans öllum stundum lífsins. Reyndu þess vegna að láta tilbeiðsluna á Jehóva vera það mikilvægasta í lífi þínu og láttu heilagan anda hans leiða þig í öllu sem þú gerir. (Préd. 12:13; Gal. 5:16-18) Að sjálfsögðu geturðu aldrei endurgreitt Jehóva að fullu allt sem hann hefur gert fyrir þig. En það gleður samt hjarta hans að sjá að þú þjónar honum af heilum huga. (Orðskv. 27:11) Það er mikill heiður að geta glatt Jehóva á þennan hátt!

Stuðlaðu að velferð safnaðarins

Þú ert örugglega sammála því að þú hefur notið góðs af kristna söfnuðinum á marga vegu. Þar hefurðu fengið andlega fæðu frá Jehóva í ríkum mæli. Þú kynntist sannleikanum sem hefur frelsað þig frá fölskum trúarkenningum og andlegu myrkri. (Jóh. 8:32) Hinn „trúi og hyggni þjónn“ skipuleggur safnaðarsamkomur, svæðismót og umdæmismót. (Matt. 24:45-47) Þar færðu þekkingu sem leiðir til eilífs lífs í paradís á jörð þar sem engar þjáningar verða til. Geturðu með einhverju móti talið upp allt það sem þú hefur fengið — og átt eftir að fá — fyrir milligöngu safnaðar Guðs? Hvað getur þú gert fyrir söfnuðinn í staðinn?

Páll postuli skrifaði: „[Kristur] tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika.“ (Ef. 4:15, 16) Þótt þessi ritningarstaður eigi aðallega við hóp andasmurðra manna getur meginreglan, sem hér kemur fram, átt við alla kristna menn. Já, hver og einn í söfnuðinum getur stuðlað að velferð og vexti safnaðarins. Hvernig þá?

Við gerum það með því að reyna alltaf að hvetja og uppörva hvert annað. (Rómv. 14:19) Við getum líka stuðlað að vexti safnaðarins með því að sýna ávöxt andans í öllum samskiptum okkar við trúsystkini. (Gal. 5:22, 23) Við getum leitað eftir tækifærum til að „gera öllum gott og einkum trúsystkinum okkar“. (Gal. 6:10; Hebr. 13:16) Allir í söfnuðinum — bræður og systur, ungir og aldnir — geta tekið þátt í að ‚byggja söfnuðinn upp í kærleika‘.

Þar að auki getum við notað hæfileika okkar, starfsorku og fjármuni til að eiga þátt í því björgunarstarfi sem söfnuðurinn vinnur að. „Gefins hafið þér fengið,“ sagði Jesús Kristur. Hvernig eigum við að bregðast við því? „Gefins skuluð þér láta í té,“ sagði hann. (Matt. 10:8) Vertu þess vegna iðinn við að boða fagnaðarerindið um Guðsríki og gera menn að lærisveinum. (Matt. 24:14; 28:19, 20) Er eitthvað sem takmarkar hve mikið þú getur gert? Mundu þá eftir fátæku ekkjunni sem Jesús talaði um. Hún gaf mjög lítið. En samt sagði Jesús að hún hefði gefið meira en allir hinir. Hún gaf allt sem aðstæður hennar leyfðu. — 2. Kor. 8:1-5, 12.

Þiggðu hjálp með réttu hugarfari

Það gæti engu að síður gerst að þú þurfir að fá hjálp frá söfnuðinum. Þú ættir aldrei að veigra þér við að þiggja hvers kyns stuðning sem söfnuðurinn getur veitt þér til að standast álagið frá þessu heimskerfi. Jehóva hefur séð okkur fyrir hæfum og umhyggjusömum mönnum sem hafa umsjón með söfnuðinum — til að hjálpa þér þegar þú verður fyrir prófraunum og erfiðleikum. (Post. 20:28) Öldungar og aðrir í söfnuðinum vilja hughreysta þig, styðja og vernda á erfiðum tímum. — Gal. 6:2; 1. Þess. 5:14.

Þegar þú færð nauðsynlega aðstoð er samt mikilvægt að þú þiggir hana með réttu hugarfari. Sýndu alltaf þakklæti fyrir það sem þú færð. Líttu á slíka hjálp trúsystkina sem óverðskuldaða náð frá Guði. (1. Pét. 4:10) Af hverju er það svona mikilvægt? Af því að við viljum ekki þiggja hjálp á sama hátt og margir í heiminum gera — án nokkurs þakklætis.

Vertu öfgalaus og sanngjarn

Í bréfi sínu til safnaðarins í Filippí skrifaði Páll um Tímóteus: „Ég hef engan honum líkan sem lætur sér eins einlæglega annt um hagi ykkar.“ En síðan bætti hann við: „Allir leita þess sem sjálfra þeirra er en ekki þess sem Krists Jesú er.“ (Fil. 2:20, 21) Hvernig getum við, með þessa aðvörun Páls í huga, forðast að hugsa fyrst og fremst um eigin hag?

Við ættum aldrei að vera kröfuhörð þegar við biðjum aðra í söfnuðinum um að gefa af tíma sínum og athygli til að hjálpa okkur með vandamál okkar. Af hverju ekki? Hugsaðu um þetta: Við værum örugglega mjög þakklát ef bróðir veitti okkur efnislega aðstoð í einhverju neyðartilfelli. En myndum við krefjast þess að hann veitti okkur slíka aðstoð? Auðvitað ekki. Þótt kærleiksrík trúsystkini séu alltaf fús til að hjálpa okkur megum við ekki gera óraunhæfar kröfur um hve mikinn tíma þau nota til að hjálpa okkur. Við verðum að vera sanngjörn og öfgalaus. Við viljum auðvitað að það sem gert er til að hjálpa okkur sé gert af fúsum vilja.

Bræður þínir og systur eru örugglega alltaf reiðubúin til að hjálpa þér. En stundum getur verið að þau hafi ekki möguleika á að veita þér alla þá aðstoð sem þú þarfnast. Ef svo er geturðu samt verið viss um að Jehóva sér fyrir þér, líkt og hann gerði fyrir sálmaritarann, óháð því hvaða raunum þú lendir í. — Sálm. 116:1, 2; Fil. 4:10-13.

Þú skalt þess vegna ekki hika við að þiggja þakklátur það sem Jehóva veitir þér — sérstaklega á erfiðleikatímum. (Sálm. 55:23) Hann vill að þú gerir það. En hann vill líka að þú sért ‚glaður gjafari‘. Vertu því staðráðinn í að gefa það sem aðstæður þínar leyfa til að styrkja sanna tilbeiðslu. (2. Kor. 9:6, 7) Með því móti geturðu gert bæði — þegið með þakklæti og gefið af örlæti.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 31]

„Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig?“ — Sálm. 116:12.

▪ Leitaðu færis að „gera öllum gott“.

▪ Veittu öðrum hvatningu og uppörvun.

▪ Vertu iðinn við að gera fólk að lærisveinum eftir því sem aðstæður þínar leyfa.