Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kristnar fjölskyldur, fylgið fordæmi Jesú

Kristnar fjölskyldur, fylgið fordæmi Jesú

Kristnar fjölskyldur, fylgið fordæmi Jesú

„Kristur . . . lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans.“ — 1. PÉT. 2:21.

1. (a) Með hvaða hlutverk fór sonur Guðs í sköpuninni? (b) Hvaða tilfinningar ber Jesús til mannkynsins?

ÞEGAR Guð skapaði himin og jörð var frumgetinn sonur hans „með í ráðum við hlið honum“. Sonur Guðs var líka með honum þegar hann hannaði og skapaði jurtir og dýr í gríðarlegri fjölbreytni hér á jörð, og þegar hann bjó til paradísina handa mönnunum sem hann ætlaði að skapa eftir mynd sinni. Syni Guðs, sem síðar var kallaður Jesús, þótti ákaflega vænt um mannkynið. Hann „fagnaði með mannanna börnum“. — Orðskv. 8:27-31; 1. Mós. 1:26, 27.

2. (a) Hvað hefur Jehóva látið í té til að hjálpa ófullkomnu mannkyni? (b) Nefndu eitt af þeim sviðum lífsins þar sem Biblían gefur okkur leiðsögn.

2 Eftir að fyrstu hjónin syndguðu varð það mikilvægur þáttur í fyrirætlun Jehóva að endurleysa synduga menn. Hann lét Krist færa lausnarfórnina í þeim tilgangi. (Rómv. 5:8) Jehóva lét enn fremur í té orð sitt, Biblíuna, til að leiðbeina manninum um hvernig best væri að takast á við arfgengan ófullkomleikann. (Sálm. 119:105) Í Biblíunni eru leiðbeiningar frá Jehóva um það hvernig fjölskyldur geti verið hamingjusamar og sterkar. Í 1. Mósebók segir um hjónabandið að ‚maðurinn búi með eiginkonu sinni og þau verði eitt‘. — 1. Mós. 2:24.

3. (a) Hvað kenndi Jesús um hjónabandið? (b) Um hvað er fjallað í þessari grein?

3 Meðan Jesús starfaði á jörðinni lagði hann áherslu á að hjónabandið ætti að vera varanlegt. Hann kenndi meginreglur sem hjálpa öllum sem fara eftir þeim að forðast hegðun og hugarfar sem getur skemmt fyrir hjónum eða spillt hamingju fjölskyldunnar. (Matt. 5:27-37; 7:12) Í þessari grein er fjallað um hvernig kennsla og fordæmi Jesú hjálpar eiginmönnum, eiginkonum, foreldrum og börnum að vera hamingjusöm og gera lífið innihaldsríkt.

Kristinn eiginmaður virðir konu sína

4. Hvað er hliðstætt með hlutverki Jesú og kristinna eiginmanna?

4 Guð fól eiginmanninum það hlutverk að vera höfuð fjölskyldunnar rétt eins og Jesús er höfuð safnaðarins. Páll postuli sagði: „Maðurinn er höfuð konunnar eins og Kristur er höfuð og frelsari kirkjunnar, líkama síns. Karlmenn, elskið konur ykkar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana.“ (Ef. 5:23, 25) Framkoma Jesú við fylgjendur sína er fyrirmyndin um hvernig kristinn eiginmaður á að koma fram við konuna sína. Lítum á nokkur dæmi um það hvernig Jesús fór með forystuhlutverkið sem Guð fól honum.

5. Hvernig fór Jesús með vald sitt yfir lærisveinunum?

5 Jesús var „hógvær og af hjarta lítillátur“. (Matt. 11:29) En hann var líka einbeittur og framtakssamur. Hann vanrækti aldrei skyldur sínar. (Mark. 6:34; Jóh. 2:14-17) Hann leiðbeindi lærisveinunum mildilega, jafnvel ítrekað ef þörf var á. (Matt. 20:21-28; Mark. 9:33-37; Lúk. 22:24-27) En aldrei skammaði hann þá eða niðurlægði. Hann lét þá aldrei fá á tilfinninguna að honum þætti ekki vænt um þá eða þeir væru ófærir um að gera það sem hann kenndi þeim. Hann hrósaði þeim og hvatti þá. (Lúk. 10:17-21) Það er engin furða að hann skyldi ávinna sér virðingu þeirra því að hann var bæði kærleiksríkur og umhyggjusamur.

6. (a) Hvað getur eiginmaður lært af framkomu Jesú við lærisveinana? (b) Hvað hvetur Pétur postuli eiginmenn til að gera?

6 Kristnir eiginmenn læra af fordæmi Jesú að forysta í fjölskyldunni á ekki að einkennast af yfirdrottnun og harðneskju heldur virðingu og fórnfúsum kærleika. Pétur postuli hvatti kristna eiginmenn til að líkja eftir kærleika Jesú með því að sýna eiginkonum sínum „nærgætni . . . og virða þær mikils“. (Lestu 1. Pétursbréf 3:7.) Hvernig getur eiginmaður þá farið með yfirráð sín en jafnframt sýnt konu sinni virðingu?

7. Hvernig getur eiginmaður sýnt konu sinni virðingu? Lýstu með dæmi.

7 Eiginmaður getur meðal annars sýnt konunni sinni virðingu með því að íhuga vel sjónarmið hennar og tilfinningar áður en hann tekur ákvörðun sem hefur áhrif á fjölskylduna. Kannski snýst ákvörðunin um búferlaflutning eða breytta vinnu, eða þá um hversdagslegri mál eins og hvert eigi að fara í frí eða hvernig eigi að haga fjármálum fjölskyldunnar þegar hart er í ári. Þetta eru mál sem snerta alla fjölskylduna svo að það vitnar um tillitssemi og nærgætni af hálfu eiginmannsins að taka tillit til skoðana konunnar. Auk þess getur það hjálpað honum að taka yfirvegaða ákvörðun og eiginkonan á þá auðveldara með að styðja hann. (Orðskv. 15:22) Kristinn eiginmaður, sem virðir konuna sína, ávinnur sér ást hennar og virðingu. Síðast en ekki síst ávinnur hann sér velþóknun Jehóva. — Ef. 5:28, 29.

Eiginkona sem virðir eiginmann sinn

8. Af hverju er Eva ekki góð fyrirmynd til eftirbreytni?

8 Jesús er kristnum eiginkonum fullkomin fyrirmynd um að lúta yfirráðum. Það er reginmunur á því hvernig hann leit á yfirráð og á viðhorfum fyrstu konunnar. Eva er ekki góð fyrirmynd fyrir eiginkonur. Það var ráðstöfun Guðs að Adam væri höfuð hennar, og Guð miðlaði fyrirmælum sínum fyrir milligöngu hans. En Eva virti ekki forráð eiginmanns síns. Hún tók ekki mark á þeim fyrirmælum sem hann flutti henni. (1. Mós. 2:16, 17; 3:3; 1. Kor. 11:3) Eva lét vissulega blekkjast en hún hefði engu að síður átt að ráðfæra sig við manninn sinn um það hvort rétt væri að trúa röddinni sem þóttist geta sagt henni hvað Guð vissi. En hún gerði það ekki, heldur var svo ósvífin að ráðskast með eiginmann sinn. — 1. Mós. 3:5, 6; 1. Tím. 2:14.

9. Hvernig er Jesús góð fyrirmynd um að vera undirgefinn?

9 Jesús er aftur á móti fullkomin fyrirmynd um að vera undirgefinn yfirráðum. Viðhorf hans og lífsstefna sýnir að það hvarflaði ekki að honum að reyna að hrifsa til sín völd og gera sig jafnan Guði. Hann gerði hið gagnstæða, „svipti sig öllu [og] tók á sig þjóns mynd“. (Fil. 2:5-7) Núna er Jesús orðinn konungur en sýnir sama hugarfar og áður. Hann er auðmjúkur og er föður sínum undirgefinn í einu og öllu. Hann styður yfirráð Jehóva. — Matt. 20:23; Jóh. 5:30; 1. Kor. 15:28.

10. Hvernig gæti eiginkona stutt forystu eiginmannsins?

10 Kristin eiginkona ætti að líkja eftir Jesú með því að styðja forystu eiginmanns síns. (Lestu 1. Pétursbréf 2:21; 3:1, 2.) Tökum dæmi um hvernig hún getur gert það. Sonur hennar spyr hana hvort hann megi gera eitthvað sem er háð samþykki foreldra hans. Þar sem þau hjónin hafa ekki rætt þetta mál áður væri rétt af henni að spyrja drenginn hvort hann sé búinn að spyrja pabba sinn. Ef sonurinn hefur ekki gert það ætti hún að ræða málið við manninn sinn áður en ákvörðun er tekin. Og kristin eiginkona ætti auðvitað ekki að andmæla manninum sínum eða véfengja skoðanir hans í áheyrn barnanna. Ef hún er honum ósammála um eitthvað ræðir hún það við hann í einrúmi. — Ef. 6:4.

Jesús er foreldrum góð fyrirmynd

11. Hvernig er Jesús foreldrum góð fyrirmynd?

11 Þó að Jesús hafi ekki gifst og eignast börn er hann kristnum foreldrum prýðileg fyrirmynd. Á hvaða hátt? Hann kenndi lærisveinum sínum bæði í orði og verki og var alltaf þolinmóður og kærleiksríkur. Hann sýndi þeim hvernig þeir ættu að inna af hendi verkefnið sem hann fól þeim. (Lúk. 8:1) Með afstöðu sinni og framkomu við þá kenndi hann þeim hvernig þeir ættu að koma fram hver við annan. — Lestu Jóhannes 13:14-17.

12, 13. Hvað er nauðsynlegt fyrir foreldra til að ala börnin upp í guðsótta?

12 Börn hafa tilhneigingu til að líkja eftir foreldrum sínum, annaðhvort til góðs eða ills. Foreldrar ættu því að spyrja sig: Hvaða skilaboð sendum við börnunum varðandi tímann sem við eyðum í að horfa á sjónvarp og í aðra afþreyingu annars vegar og biblíunám og boðunarstarf hins vegar? Hvað látum við eiginlega ganga fyrir? Erum við góð fyrirmynd með því að láta sanna tilbeiðslu skipa veigamikinn sess í lífi okkar? Kristnir foreldrar þurfa að hafa lög Guðs í huga sér og hjarta til að geta alið börnin upp í guðsótta. — 5. Mós. 6:6.

13 Það fer ekki fram hjá börnunum ef foreldrarnir leggja sig fram um það dagsdaglega að fylgja meginreglum Biblíunnar. Þið hafið áhrif á börnin með orðum ykkar og kennslu. Ef þið hafið tvöfalt siðgæði eru þau hins vegar fljót að koma auga á það, og þá álykta þau kannski sem svo að meginreglur Biblíunnar skipti ekki ýkja miklu máli eða það sé ekki raunhæft að fara eftir þeim. Og það gæti orðið til þess að þau láti undan álagi heimsins.

14, 15. Hvaða gildismat ættu foreldrar að innræta börnunum og hvernig geta þeir meðal annars gert það?

14 Kristnir foreldrar vita að barnauppeldi felur meira í sér en að annast efnislegu þarfirnar. Það væri mikil skammsýni að kenna barninu að hugsa aðeins um efnisleg markmið. (Préd. 7:12) Jesús kenndi lærisveinunum að láta andlegu markmiðin ganga fyrir. (Matt. 6:33) Kristnir foreldrar ættu að líkja eftir Jesú með því að reyna að vekja löngun hjá börnunum til að setja sér góð markmið í þjónustunni við Guð.

15 Ein leið til að gera þetta er að nýta sem best tækifæri til að koma börnunum í kynni við þá sem þjóna Guði í fullu starfi. Það er óneitanlega hvetjandi fyrir unglinga að kynnast brautryðjendum eða farandhirðinum og eiginkonu hans. Trúboðar, Betelítar eða þeir sem vinna við byggingarstörf á alþjóðavettvangi geta talað af sannfæringu um gleðina sem fylgir því að þjóna Jehóva. Gestir úr þessum hópi hafa eflaust frá mörgu skemmtilegu að segja. Fórnfýsi þeirra getur verið börnunum ykkar hvatning til að taka skynsamlegar ákvarðanir, setja sér göfug markmið og afla sér viðeigandi menntunar til að geta séð sér farborða samhliða fullu starfi í þjónustu Guðs.

Börn — hvað getur hjálpað ykkur að líkja eftir Jesú?

16. Hvernig virti Jesús jarðneska foreldra sína og föður sinn á himnum?

16 Jesús er ykkur börnunum líka frábær fyrirmynd. Jósef og Maríu var falið að annast hann og hann var þeim hlýðinn. (Lestu Lúkas 2:51.) Hann gerði sér grein fyrir því að þótt þau væru ófullkomin hafði Guð falið þeim það verkefni að sjá um hann. Þar af leiðandi átti hann að bera virðingu fyrir þeim. (5. Mós. 5:16; Matt. 15:4) Þegar Jesús var orðinn fulltíða maður gerði hann alltaf það sem faðir hans á himnum hafði velþóknun á. Það þýddi að hann þurfti að standast freistingar. (Matt. 4:1-10) Stundum finnst ykkur, sem eruð börn og unglingar, kannski freistandi að óhlýðnast foreldrunum. Hvað getur hjálpað ykkur að líkja eftir Jesú?

17, 18. (a) Hvers konar þrýstingi eru börn og unglingar beitt í skóla? (b) Hvað getur hjálpað ykkur að standast prófraunir?

17 Flest skólasystkini ykkar bera sennilega litla eða enga virðingu fyrir siðferðisreglum Biblíunnar. Þau reyna kannski að fá ykkur til að taka þátt í einhverju vafasömu og gera svo gys að ykkur þegar þið viljið það ekki. Ertu einhvern tíma uppnefndur af því að þú vilt ekki taka þátt í einhverju sem skólafélagarnir taka upp á? Hvernig bregstu þá við? Þú veist að þú veldur foreldrum þínum og Jehóva vonbrigðum ef þú lætur undan og fylgir fjöldanum. Hvernig myndi fara fyrir þér ef þú fylgdir skólafélögunum? Þú hefur kannski sett þér ákveðin markmið, svo sem að gerast brautryðjandi eða verða safnaðarþjónn, starfa á svæði þar sem vantar fleiri boðbera eða vinna á Betel. Heldurðu að þú eigir auðveldara með að ná markmiðum þínum ef þú ert mikið með skólafélögunum?

18 Þið unga fólkið í söfnuðinum, lendið þið einhvern tíma í aðstæðum þar sem reynir á trú ykkar? Hvað gerið þið þá? Hugsið um Jesú, fyrirmynd ykkar. Hann lét ekki undan freistingum heldur var staðfastur í því sem hann vissi að var rétt. Ef þið hafið þetta hugfast hafið þið kjark til að segja skólafélögunum skýrt og greinilega að þið viljið ekki gera eitthvað með þeim sem þið vitið að er rangt. Líkið eftir Jesú með því að vera hlýðin og horfa fram til ánægjulegs ævistarfs í þjónustu Jehóva. — Hebr. 12:2.

Lykillinn að hamingjuríku fjölskyldulífi

19. Hvað færir okkur sanna hamingju?

19 Jehóva Guð og Jesús Kristur vilja mannkyninu allt hið besta. Jafnvel þó að við séum ófullkomin getum við verið þokkalega hamingjusöm. (Jes. 48:17, 18; Matt. 5:3) Jesús kenndi trúarleg sannindi sem eru grundvöllur þess að menn geti verið hamingjusamir, en hann kenndi lærisveinunum margt fleira. Hann kenndi líka hvernig best sé að lifa lífinu. Auk þess var hann sjálfur lifandi dæmi um skynsamlega lífsstefnu og rétt hugarfar. Allir í fjölskyldunni geta nýtt sér fordæmi hans til góðs. Eiginmenn, eiginkonur, foreldrar og börn, fylgið fordæmi Jesú! Lykillinn að hamingjuríku fjölskyldulífi er fólginn í því að líkja eftir Jesú og tileinka sér kenningar hans.

Hvert er svarið?

• Hvernig ætti eiginmaður að fara með hlutverk sitt sem höfuð fjölskyldunnar?

• Hvernig getur eiginkona líkt eftir Jesú?

• Hvað geta foreldrar lært af framkomu Jesú við lærisveinana?

• Hvað geta börn og unglingar lært af fordæmi Jesú?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 8]

Hvað gerir kærleiksríkur eiginmaður áður en hann tekur ákvörðun sem hefur áhrif á aðra í fjölskyldunni?

[Mynd á blaðsíðu 9]

Við hvaða aðstæður getur eiginkona sýnt að hún styðji forystu eiginmannsins?

[Mynd á blaðsíðu 10]

Börn líkja eftir góðum siðum foreldranna.