Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er eilíft líf á jörð von kristinna manna?

Er eilíft líf á jörð von kristinna manna?

Er eilíft líf á jörð von kristinna manna?

„[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera.“— OPINB. 21:4.

1, 2. Hvernig vitum við að margir Gyðingar á fyrstu öld vonuðust eftir eilífu lífi á jörð?

UNGUR, ríkur höfðingi kom hlaupandi til Jesú, féll til fóta honum og spurði: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ (Mark. 10:17) Ungi maðurinn var að spyrja um eilíft líf — en hvar vonaðist hann til að hljóta það? Eins og við ræddum um í greininni á undan hafði Guð öldum áður gefið Gyðingum vonina um upprisu og eilíft líf á jörð. Margir Gyðingar á fyrstu öld höfðu enn þessa von.

2 Marta, vinkona Jesú, var greinilega að hugsa um jarðneska upprisu þegar hún sagði um látinn bróður sinn: „Ég veit að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“ (Jóh. 11:24) Saddúkear þess tíma neituðu að vísu að upprisa væri til. (Mark. 12:18) En í bók sinni Judaism in the First Centuries of the Christian Era segir George Foot Moore: „Rit . . . frá annarri eða fyrstu öld fyrir okkar tímatal bera vott um þá trú að á vissum tímamótum í sögu heims myndi dáið fólk fyrri kynslóða hljóta upprisu og lifa aftur á jörð.“ Ríka manninn, sem kom að máli við Jesú, langaði til að hljóta eilíft líf á jörð.

3. Um hvaða spurningar verður fjallað í þessari grein?

3 Mörg trúfélög og biblíufræðingar neita að vonin um eilíft líf á jörð sé kristin kenning. Flestir vonast eftir framhaldslífi á andlegu tilverusviði. Þegar fólk sér talað um „eilíft líf“ í grísku ritningunum halda margir að það sé alltaf átt við líf á himnum. Er það rétt? Hvað átti Jesús við þegar hann talaði um eilíft líf? Hverju trúðu lærisveinarnir? Er gefin von um eilíft líf á jörð í grísku ritningunum?

Eilíft líf „þegar Guð hefur endurnýjað allt“

4. Hvað á að eiga sér stað „þegar Guð hefur endurnýjað allt“?

4 Biblían kennir að andasmurðir kristnir menn rísi upp til himna til að ríkja yfir jörðinni. (Lúk. 12:32; Opinb. 5:9, 10; 14:1-3) En þegar Jesús talaði um eilíft líf var hann ekki alltaf að tala aðeins um þennan hóp. Þegar Jesús hvatti unga ríka manninn til að selja allt sem hann átti og fylgja sér fór maðurinn hryggur burt. Skoðum það sem Jesús sagði við lærisveinana í framhaldinu. (Lestu Matteus 19:28, 29.) Hann sagði postulunum að þeir myndu ásamt fleirum ríkja sem konungar og „dæma tólf ættkvíslir Ísraels“, það er að segja allt mannkynið að undanskildum hópnum sem ríkir á himnum. (1. Kor. 6:2) Hann sagði einnig að hver sem fylgdi honum hlyti umbun og myndi „öðlast eilíft líf“. Þetta átti að eiga sér stað þegar Guð hefði „endurnýjað allt“.

5. Hvað er átt við þegar sagt er að Guð endurnýi allt?

5 Hvað átti Jesús við þegar hann talaði um að Guð myndi endurnýja allt? Í Biblíunni frá 1859 er notað orðið ‚endursköpun‘. Í erlendum Biblíum kemur meðal annars fram orðalag eins og „nýr heimur“ og „þegar allt verður nýtt“. (The Bible — An American Translation og The Jerusalem Bible) Fyrst Jesús notar þetta orðalag án frekari skýringar hlýtur hann að eiga við þá von sem Gyðingar höfðu haft öldum saman. Það átti að endurskapa allt á jörðinni svo það yrði eins og það var í Edengarðinum áður en Adam og Eva syndguðu. Með endursköpuninni uppfyllist loforð Guðs um að „skapa nýjan himin og nýja jörð“. — Jes. 65:17.

6. Hvað lærum við um vonina um eilíft líf af dæmisögunni um sauðina og hafrana?

6 Jesús minntist aftur á eilíft líf þegar hann talaði um endalok veraldar. (Matt. 24:1-3) Hann sagði: „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum og hann mun skilja þær að eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.“ Þeir sem hljóta óhagstæðan dóm „munu fara til eilífrar refsingar en hinir réttlátu til eilífs lífs“. „Hinir réttlátu“ sem hljóta eilíft líf er það fólk sem styður dyggilega andasmurða bræður Krists. (Matt. 25:31-34, 40, 41, 45, 46) Þar sem hinir andasmurðu eru útvaldir til að fara með völd í ríkinu á himnum hljóta „hinir réttlátu“ að vera jarðneskir þegnar þess ríkis. Í Biblíunni er spáð að konungur Jehóva muni „ríkja frá hafi til hafs og frá Fljótinu til endimarka jarðar“. (Sálm. 72:8) Þegnar hans hljóta eilíft líf á jörð.

Hvað kemur fram í Jóhannesarguðspjalli?

7, 8. Hvaða tvenns konar von nefndi Jesús við Nikódemus?

7 Í guðspjöllum Matteusar, Markúsar og Lúkasar talar Jesús um „eilíft líf“ við þau tækifæri sem nefnd eru hér á undan. Samkvæmt Jóhannesarguðspjalli talar Jesús 17 sinnum um eilíft líf. Skoðum nokkur dæmi til að sjá hvað Jesús sagði um vonina um eilíft líf á jörð.

8 Samkvæmt Jóhannesi talar Jesús fyrst um eilíft líf við farísea að nafni Nikódemus. Jesús sagði við hann: „Enginn getur komist inn í Guðs ríki nema hann fæðist af vatni og anda.“ Þeir sem ganga inn í ríkið á himnum verða að ‚fæðast að nýju‘. (Jóh. 3:3-5) En Jesús sagði fleira. Næst talaði hann um vonina sem öllum stendur til boða. (Lestu Jóhannes 3:16.) Jesús talar hér um eilíft líf handa andasmurðum fylgjendum sínum og þeim sem fá eilíft líf á jörðinni.

9. Hvaða von nefndi Jesús við samverska konu?

9 Eftir að Jesús talaði við Nikódemus í Jerúsalem hélt hann áleiðis norður til Galíleu. Á leiðinni hitti hann konu hjá Jakobsbrunni í nánd við borgina Síkar í Samaríu. Hann sagði við hana: „Hvern sem drekkur af vatninu er ég gef honum mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind sem streymir fram til eilífs lífs.“ (Jóh. 4:5, 6, 14) Þetta vatn táknar það sem Guð gerir til að allir menn geti hlotið eilíft líf, þar á meðal þeir sem munu lifa á jörðinni. Í Opinberunarbókinni er lýst sýn þar sem Guð segir: „Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns.“ (Opinb. 21:5, 6; 22:17) Af þessu sjáum við að þegar Jesús talaði við samversku konuna var hann ekki bara að tala um eilíft líf handa andasmurðum erfingjum Guðsríkis heldur líka handa trúuðum mönnum með jarðneska von.

10. Hvað sagði Jesús við trúarlega andstæðinga sína eftir að hafa læknað mann við Betesdalaugina?

10 Árið eftir var Jesús aftur staddur í Jerúsalem. Þar læknaði hann sjúkan mann við Betesdalaugina. Þegar Gyðingar gagnrýndu Jesú fyrir það sem hann gerði sagði hann við þá: „Ekkert getur sonurinn gert af sjálfum sér. Hann gerir það eitt sem hann sér föðurinn gera.“ Jesús sagði þeim að faðirinn hefði „falið syninum allt dómsvald“ og bætti svo við: „Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim sem sendi mig hefur eilíft líf.“ Jesús sagði líka: „Sú stund kemur þegar allir þeir sem í gröfunum eru munu heyra raust [Mannssonarins] og ganga fram. Þeir sem gert hafa hið góða munu rísa upp til lífsins en þeir sem drýgt hafa hið illa munu rísa upp til dómsins.“ (Jóh. 5:1-9, 19, 22, 24-29) Jesús útskýrði þannig fyrir Gyðingunum, sem ofsóttu hann, að hann væri útnefndur af Guði til að uppfylla von Gyðinga um eilíft líf á jörð og að hann myndi gera það með því að reisa upp hina dánu.

11. Hvernig vitum við að orð Jesú í Jóhannesi 6:48-51 fela í sér vonina um eilíft líf á jörð?

11 Í Galíleu fóru þúsundir manna að fylgja Jesú eftir að þeir fengu brauð sem hann hafði gefið þeim fyrir kraftaverk. Jesús talaði við þá um annars konar brauð — „brauð lífsins“. (Lestu Jóhannes 6:40, 48-51.) „Brauðið er líkami minn sem ég gef,“ sagði hann. Jesús gaf líf sitt ekki aðeins fyrir þá sem áttu að ríkja með honum á himnum. Hann gaf það líka „heiminum til lífs“, en þar er átt við þá menn sem hægt er að endurleysa. „Hver sem etur af þessu brauði,“ það er að segja trúir á endurlausnina sem fæst fyrir fórn Jesú, hefur von um eilíft líf. Orð Jesú um „eilíft líf“ fólu í sér vonina sem Gyðingar höfðu haft lengi um eilíft líf á jörð undir stjórn Messíasar.

12. Hvaða von var Jesús að tala um þegar hann sagði andstæðingum sínum að hann gæfi sauðum sínum eilíft líf?

12 Seinna, á vígsluhátíðinni í Jerúsalem, sagði Jesús við andstæðinga sína: „Þér trúið ekki því að þér eruð ekki úr hópi sauða minna. Mínir sauðir heyra raust mína og ég þekki þá og þeir fylgja mér. Ég gef þeim eilíft líf.“ (Jóh. 10:26-28) Var Jesús aðeins að tala um líf á himnum eða hafði hann líka í huga eilíft líf í paradís á jörð? Hann hafði nýlega hughreyst fylgjendur sína með orðunum: „Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið.“ (Lúk. 12:32) En á þessari sömu vígsluhátíð sagði hann: „Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða.“ (Jóh. 10:16) Af þessu má sjá að þegar Jesús talaði við andstæðinga sína fólu orð hans bæði í sér von um eilíft líf á himnum fyrir ‚litlu hjörðina‘ og von um eilíft líf á jörð fyrir milljónir ‚annarra sauða‘.

Von sem þarfnaðist engra skýringa

13. Hvað átti Jesús við þegar hann lofaði illvirkjanum að hann skyldi fá að vera „í Paradís“?

13 Þegar Jesús kvaldist á aftökustaurnum staðfesti hann von mannkyns með óhrekjandi hætti. Illvirki, sem var staurfestur við hlið hans, sagði: „Jesús, minnst þú mín þegar þú kemur í ríki þitt!“ Jesús lofaði honum að hann skyldi fá að vera „í Paradís“. (Lúk. 23:42, 43) Þar sem þessi maður var greinilega Gyðingur þurfti hann enga frekari skýringu á því hvað paradís væri. Hann þekkti vonina um eilíft líf á jörð í komandi heimi.

14. (a) Hvað sýnir að postularnir áttu erfitt með að skilja orð Jesú um himneska von? (b) Hvenær fengu fylgjendur Jesú skýran skilning á himnesku voninni?

14 Jesús þurfti hins vegar að skýra nánar orð sín um himneska von. Þegar hann sagði lærisveinunum að hann færi til himna til að búa þeim stað skildu þeir ekki hvað hann átti við. (Lestu Jóhannes 14:2-5.) Seinna sagði hann við þá: „Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú. En þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann.“ (Jóh. 16:12, 13) Fylgjendur Jesú skildu ekki að þeir ættu að ríkja á himnum fyrr en eftir hvítasunnu árið 33 þegar þeir voru smurðir með anda Guðs sem tilvonandi konungar. (1. Kor. 15:49; Kól. 1:5; 1. Pét. 1:3, 4) Vonin um arfleifð á himnum var opinberun og mikið er um hana fjallað í innblásnum bréfum Grísku ritninganna. En staðfesta þessi bréf von mannkyns um eilíft líf á jörð?

Hvað kemur fram í innblásnu bréfunum?

15, 16. Hvernig kemur vonin um eilíft líf á jörð fram í innblásnu bréfi Páls til Hebrea og orðum Péturs?

15 Í Hebreabréfinu ávarpar Páll postuli trúsystkini sín og segir: „Helguðu vinir sem hafið fengið köllun til himinsins.“ Samkvæmt frumgríska textanum sagði hann líka að Guð hefði lagt „hina komandi jarðarbyggð“ undir Jesú. (Hebr. 2:3, 5, NW; 3:1) Í Grísku ritningunum merkir orðið, sem hér er þýtt „jarðarbyggð“, alltaf jörð byggða mönnum. ‚Hin komandi jarðarbyggð‘ er því jörðin eins og hún verður í framtíðinni undir stjórn Jesú Krists. Þá uppfyllir Jesús loforð Guðs: „Réttlátir fá landið [„jörðina“, NW] til eignar og búa þar ævinlega.“ — Sálm. 37:29.

16 Pétri postula var einnig innblásið að skrifa um framtíð mannkyns. Hann sagði: „Guð [ætlar] að eyða með eldi himnunum sem nú eru ásamt jörðinni. Hann mun varðveita þá til þess dags er óguðlegir menn verða dæmdir og tortímast.“ (2. Pét. 3:7) Hvað kemur í staðinn fyrir núverandi stjórnvöld (himininn) og hið illa mannfélag (jörðina)? (Lestu 2. Pétursbréf 3:13.) Þau víkja fyrir ‚nýjum himni‘ — Messíasarríki Guðs — og ‚nýrri jörð‘ — réttlátu samfélagi manna sem tilbiðja Guð á réttan hátt.

17. Hvernig er von manna lýst í Opinberunarbókinni 21:1-4?

17 Í síðustu bók Biblíunnar er að finna hjartnæma lýsingu á því þegar mennirnir verða fullkomnir á nýjan leik. (Lestu Opinberunarbókina 21:1-4.) Þetta hefur verið von trúaðra manna allt frá því að fullkomleikinn glataðist í Edengarðinum. Réttlátir menn fá að lifa að eilífu í paradís á jörð án þess að hrörna. Þessi von á sér sterkan grundvöll bæði í hebresku ritningunum og þeim grísku, og hún styrkir trúfasta þjóna Jehóva enn þann dag í dag. — Opinb. 22:1, 2.

Geturðu útskýrt?

• Hvað átti Jesús við þegar hann talaði um að Guð myndi endurnýja allt?

• Um hvað ræddi Jesús við Nikódemus?

• Hverju lofaði Jesús illvirkjanum sem var staurfestur við hlið hans?

• Hvernig kemur vonin um eilíft líf á jörð skýrt fram í bréfi Páls til Hebrea og í orðum Péturs?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 8]

Sauðir Jesú hljóta eilíft líf á jörð.

[Myndir á blaðsíðu 10]

Jesús talaði við fólk um eilíft líf.