Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eilíft líf á jörð — vonin endurheimt

Eilíft líf á jörð — vonin endurheimt

Eilíft líf á jörð — vonin endurheimt

„Leyndu þessum orðum, Daníel . . . þar til dregur að endalokum. Menn munu leita víða og skilningur þeirra mun aukast.“ — DAN. 12:4.

1, 2. Hvaða spurningar skoðum við í þessari grein?

MILLJÓNIR manna nú á dögum þekkja vel biblíulegan grundvöll vonarinnar um eilíft líf í paradís á jörð. (Opinb. 7:9, 17) Í upphafi mannkynssögunnar opinberaði Guð að maðurinn væri ekki gerður til að lifa aðeins í örfá ár og deyja síðan heldur til að lifa að eilífu. — 1. Mós. 1:26-28.

2 Ísraelsmenn höfðu þá von að mannkynið myndi endurheimta fullkomleikann sem Adam glataði. Í Grísku ritningunum er útskýrt með hvaða hætti Guð mun gera mannkyninu kleift að lifa að eilífu í paradís á jörð. Af hverju þurfti þá að endurheimta þessa von? Hvernig var hún dregin fram í dagsljósið að nýju og kunngerð milljónum manna?

Vonin hjúpuð myrkri

3. Af hverju kemur ekki á óvart að von manna um eilíft líf á jörð hafi verið hulin myrkri?

3 Jesús spáði því að falsspámenn myndu afbaka kenningar hans og leiða flesta í villu. (Matt. 24:11) Pétur postuli veitti kristnum mönnum þessa viðvörun: „Eins munu falskennendur líka verða á meðal ykkar.“ (2. Pét. 2:1) Páll postuli talaði um „þann tíma . . . er menn [myndu ekki þola] hina heilnæmu kenningu heldur hópa að sér kennurum eftir eigin fýsnum sínum til þess að heyra það sem kitlar eyrun“. (2. Tím. 4:3, 4) Satan vinnur að því að afvegaleiða fólk og hann hefur notað fráhvarfskristni til að hjúpa myrkri sannleikann um hina dásamlegu fyrirætlun Guðs með manninn og jörðina. — Lestu 2. Korintubréf 4:3, 4.

4. Hvaða von manna hafa fráhverfir trúarleiðtogar hafnað?

4 Í Biblíunni er útskýrt að Guðsríki sé stjórn á himnum sem muni eyða öllum stjórnum manna. (Dan. 2:44) Í þúsundáraríki Krists verður Satan fjötraður í undirdjúpi, hinir dánu reistir upp og mannkyninu veittur fullkomleiki á nýjan leik hér á jörð. (Opinb. 20:1-3, 6, 12; 21:1-4) En fráhverfir trúarleiðtogar kristna heimsins hafa tekið aðrar hugmyndir upp á arma sína. Sem dæmi má nefna að kirkjufaðirinn Órigenes frá Alexandríu, sem var uppi á þriðju öld, fordæmdi þá sem trúðu á jarðneska blessun í þúsundáraríkinu. Kaþólski guðfræðingurinn Ágústínus af Hippó (354-430) „var á þeirri skoðun að það yrði ekkert þúsundáraríki“, segir í The Catholic Encyclopedia. *

5, 6. Af hverju voru Órigenes og Ágústínus andsnúnir trúnni á þúsundáraríkið?

5 Af hverju voru Órigenes og Ágústínus andsnúnir trúnni á þúsundáraríkið? Órigenes var nemandi Klemens frá Alexandríu sem hafði tekið upp hugmyndir Grikkja um ódauðlega sál. Órigenes var undir sterkum áhrifum af hugmyndum Platóns um sálina og „tók upp eftir Platóni heildarskýringuna á eðli sálarinnar og yfirfærði hana á kenningu kristninnar,“ segir guðfræðingurinn Werner Jaeger. Þannig færði Órigenes jarðneska blessun þúsundáraríkisins yfir á andlega tilverusviðið.

6 Áður en Ágústínus snerist til „kristni“ 33 ára að aldri gerðist hann nýplatónisti — fylgismaður nýrrar útgáfu af heimspeki Platóns sem Plotínus setti fram á þriðju öld. Eftir trúskiptin hélt Ágústínus áfram að vera nýplatónisti í hugsun. „Hugur hans var sú deigla þar sem trúarbrögð Nýja testamentisins voru í hvað ríkustum mæli brædd saman við platónska útlistun á grískri heimspeki,“ segir The New Encyclopædia Britannica. Ágústínus skýrði þúsundáraríkið, sem lýst er í 20. kafla Opinberunarbókarinnar, sem „líkingasögu“, segir í The Catholic Encyclopedia. Hún bætir við: „Vestrænir guðfræðingar tóku upp þessa skýringu . . . og trúin á þúsundáraríkið í sinni fyrri mynd naut ekki lengur stuðnings.“

7. Hvaða falskenning hefur grafið undan von manna um eilíft líf á jörð og hvernig gerðist það?

7 Von manna um eilíft líf á jörð fór halloka fyrir hugmynd sem var ríkjandi í Babýlon til forna og barst um allan heim. Þetta var sú hugmynd að maðurinn hefði ódauðlega sál eða anda sem byggi aðeins um tíma í efnislegum líkama. Þegar kristni heimurinn tók þá kenningu upp á arma sína rangsneru guðfræðingar Biblíunni til að láta líta út fyrir að ritningarstaðir, sem lýsa himnesku voninni, kenni að allt gott fólk fari til himna. Samkvæmt þessari skoðun er líf manna á jörðinni aðeins tímabundið — prófsteinn á það hvort þeir séu verðugir þess að fara til himna. Vonin, sem Gyðingar höfðu haft um eilíft líf á jörð, breyttist á svipaðan hátt. Þegar Gyðingar tóku með tímanum upp grísku hugmyndina um ódauðleika sálarinnar dvínaði upprunaleg von þeirra um líf á jörðinni. Í Biblíunni er manninum lýst allt öðruvísi. Maðurinn er líkamleg og jarðnesk vera en ekki andleg. Jehóva sagði við fyrsta manninn: „Mold ert þú.“ (1. Mós. 3:19) Jörðin en ekki himininn er eilíft heimili manna. — Lestu Sálm 104:5; 115:16.

Ljósleiftur í myrkrinu

8. Hvað sögðu sumir fræðimenn 17. aldar um von mannkyns?

8 Þótt flest trúarbrögð, sem kalla sig kristin, hafni voninni um eilíft líf á jörð tókst Satan ekki alltaf að hjúpa sannleikann myrkri. Fáeinir menn á öldum áður, sem voru iðnir við að lesa í Biblíunni, skildu að einhverju leyti hvernig Guð mun veita mannkyninu fullkomleika á ný. (Sálm. 97:11; Matt. 7:13, 14; 13:37-39) Á 17. öld hafði þýðing Biblíunnar og prentun stuðlað að því að fleiri höfðu aðgang að henni. Árið 1651 skrifaði fræðimaður að þar sem menn hefðu vegna Adams „glatað paradís og eilífu lífi á jörð“ myndu allir menn vegna Krists „hljóta líf á jörðinni, því annars væri samanburðurinn ekki réttur“. (Lestu 1. Korintubréf 15:21, 22.) Eitt af frægum ljóðskáldum hins enskumælandi heims, John Milton (1608-1674), orti Paradísarmissi og framhald hennar Paradise Regained (Paradísarheimt). Í verkum sínum fjallaði Milton um launin sem hinir trúföstu hljóta í jarðneskri paradís. Þó að Milton hafi helgað stóran hluta ævi sinnar biblíurannsóknum gerði hann sér grein fyrir því að sannindi Biblíunnar yrðu ekki skilin að fullu fyrr en á nærverutíma Krists.

9, 10. (a) Hvað sagði Isaac Newton um von mannkyns? (b) Af hverju taldi Newton að nærvera Krists væri fjarri?

9 Frægi stærðfræðingurinn sir Isaac Newton (1642-1727) hafði einnig mikinn áhuga á Biblíunni. Hann skildi að hinir heilögu yrðu reistir upp til lífs á himnum og myndu ríkja ósýnilega með Kristi. (Opinb. 5:9, 10) Um þegna þessa ríkis skrifaði hann: „Eftir dómsdag verður jörðin áfram byggð dauðlegum mönnum, ekki aðeins um 1000 ár heldur að eilífu.“

10 Newton áleit að nærvera Krists myndi ekki eiga sér stað fyrr en öldum síðar. „Ein ástæða þess að Newton taldi svo langt þangað til Guðsríki kæmi var svartsýni hans vegna hinnar rótgrónu fráhvarfstrúar á þrenningu sem hann sá í kringum sig,“ segir sagnfræðingurinn Stephen Snobelen. Fagnaðarerindið var enn hulið. Og Newton kom ekki auga á neina kristna hreyfingu sem gæti boðað það. Hann skrifaði: „Þessir spádómar Daníels og Jóhannesar [hinir síðarnefndu skráðir í Opinberunarbókinni] eiga ekki að skiljast fyrr en á endalokatímanum.“ Newton útskýrði: „‚Menn munu leita víða,‘ sagði Daníel, ‚og skilningur þeirra mun aukast.‘ Því að prédika verður fagnaðarerindið öllum þjóðum fyrir þrenginguna miklu og endalok veraldar. Múgurinn mikli, sem hefur pálmagreinar í höndum og kemur úr þrengingunni miklu, getur ekki verið óteljandi og af öllum þjóðum nema fagnaðarerindið verði prédikað áður en þrengingin kemur.“ — Dan. 12:4; Matt. 24:14; Opinb. 7:9, 10.

11. Af hverju var von manna hulin myrkri fyrir flesta á dögum Miltons og Newtons?

11 Á dögum Miltons og Newtons var hættulegt að láta í ljós hugmyndir sem stönguðust á við opinberar kenningar kirkjunnar. Þess vegna var stór hluti biblíurannsókna þeirra ekki birtur fyrr en eftir dauða þeirra. Þrátt fyrir siðaskipti 16. aldar var kenningin um ódauðleika sálarinnar ekki leiðrétt, og helstu kirkjur mótmælenda héldu áfram að kenna þá hugmynd Ágústínusar að þúsundáraríkið væri þegar liðið. Hefur skilningurinn aukist á endalokatímanum?

„Skilningur þeirra mun aukast“

12. Hvenær átti skilningurinn að aukast?

12 Daníel spáði um mjög jákvæða þróun sem átti að eiga sér stað þegar drægi að „endalokum“. (Lestu Daníel 12:3, 4, 9, 10.) „Þá munu þau sem hlýtt hafa Guði skína sem sól,“ sagði Jesús. (Matt. 13:43) Hvernig jókst skilningurinn á endalokatímanum? Lítum á þróun mála á áratugunum fyrir 1914, árið þegar endalokatíminn hófst.

13. Hvað skrifaði Charles Taze Russell eftir að hafa rannsakað það sem Biblían segir um endurreisn mannkynsins?

13 Á síðari hluta 19. aldar voru ýmsir einlægir menn að leitast við að skilja ‚heilnæmu orðin‘. (2. Tím. 1:13) Einn þeirra var Charles Taze Russell. Árið 1870 stofnuðu hann og aðrir sannleiksleitandi menn biblíunámshóp. Árið 1872 skoðuðu þeir það sem Biblían segir um endurreisn mannkynsins til fullkomleika. Síðar skrifaði Russell: „Fram að þeim tíma höfðum við ekki séð þann skýra mun sem er á umbun kirkjunnar (safnaðar hinna andasmurðu) sem nú er reynd og umbun hinna trúuðu í heiminum.“ Umbun síðarnefnda hópsins er „endurreisn til mannlegs fullkomleika sem Adam höfuð þeirra og forfaðir naut í Eden forðum daga“. Russell viðurkenndi að hann hefði notið hjálpar annarra í biblíunámi sínu. Hverjir voru það?

14. (a) Hvernig skildi Henry Dunn Postulasöguna 3:21? (b) Hverjir áttu að lifa að eilífu á jörðinni að sögn Dunns?

14 Henry Dunn var einn þeirra. Hann hafði skrifað um það „þegar Guð endurreisir alla hluti eins og hann hefur frá alda öðli látið heilaga spámenn sína boða“. (Post. 3:21) Dunn vissi að þessi endurreisn fól í sér að mannkynið hlyti aftur fullkomleika á jörðinni í þúsundáraríki Krists. Dunn leitaði einnig svara við spurningu sem hafði valdið mörgum heilabrotum: Hverjir munu lifa að eilífu á jörðinni? Hann sagði að milljónir hlytu upprisu, yrðu fræddir um sannleikann og fengju tækifæri til að sýna trú á Krist.

15. Hvað skildi George Storrs um upprisuna?

15 Árið 1870 komst George Storrs einnig að þeirri niðurstöðu að hinir ranglátu hlytu upprisu og fengju tækifæri til að lifa að eilífu. Hann skildi einnig af Biblíunni að upprisinn maður, sem nýtti sér ekki þetta tækifæri, „myndi deyja þótt ‚syndarinn væri tíræður‘“. (Jes. 65:20) Storrs bjó í Brooklyn, í New York og ritstýrði tímariti sem hét Bible Examiner.

16. Hvað aðgreindi biblíunemendurna frá kristna heiminum?

16 Russell skildi af Biblíunni að tími væri kominn til að boða fagnaðarerindið víða. Árið 1879 fór hann því að gefa út tímaritið Zion’s Watch Tower and Herald of Christ’s Presence sem nú heitir Varðturninn kunngerir ríki Jehóva. Áður voru aðeins fáir sem skildu sannleikann um von mannkyns en nú voru hópar biblíunemenda í mörgum löndum sem fengu Varðturninn og lásu hann saman. Sú trú að aðeins fáir færu til himna en milljónir fengju fullkomið líf á jörðinni aðgreindi biblíunemendurna frá stærstum hluta kristna heimsins.

17. Hvernig hefur skilningurinn vaxið til muna?

17 Tímar endalokanna, sem spáð hafði verið um, hófust árið 1914. Jókst þá skilningurinn á von mannkyns? (Dan. 12:4) Árið 1913 voru prédikanir Russells birtar í 2.000 dagblöðum en lesendahópurinn var samanlagt 15.000.000. Undir lok ársins1914 höfðu meira en 9.000.000 manna í þrem heimsálfum séð „Sköpunarsöguna í myndum“. Þetta var sýning með kvikmyndum og litskyggnum sem útskýrði þúsund ára stjórn Krists. Frá árinu 1918 til 1925 fluttu þjónar Jehóva ræðuna „Milljónir núlifandi manna munu aldrei deyja“ á meira 30 tungumálum um allan heim. Þessi ræða útskýrði vonina um eilíft líf á jörð. Árið 1934 gerðu vottar Jehóva sér grein fyrir því að þeir sem vonuðust til þess að hljóta eilíft líf á jörð ættu að láta skírast. Þessi skilningur fyllti þá auknum eldmóði fyrir því að prédika fagnaðarerindið um ríkið. Núna eru milljónir manna innilega þakklátar Jehóva fyrir vonina um eilíft líf á jörð.

„Frelsið í dýrðinni“ er fram undan

18, 19. Hvaða lífsgæðum er lýst í Jesaja 65:21-25?

18 Spámanninum Jesaja var innblásið að skrifa um lífið sem þjónar Guðs munu njóta á jörðinni. (Lestu Jesaja 65:21-25.) Sum tré, sem voru lifandi fyrir um 2.700 árum þegar Jesaja skrifaði þessi orð, eru líklega enn lifandi. Geturðu ímyndað þér hvernig það væri að lifa svona lengi við góða heilsu og með fulla starfsorku?

19 Í stað þess að vera stutt ganga frá vöggu til grafar mun lífið bjóða upp á ótal tækifæri til að byggja, gróðursetja og læra. Hugsaðu þér vináttuböndin sem þú átt eftir að rækta. Þessi innilegu vinabönd halda áfram að vaxa um ókomna tíð. Frelsið, sem ‚börn Guðs‘ fá þá að njóta, verður ólýsanlegt. — Rómv. 8:21.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Ágústínus hélt því fram að þúsund ára stjórn Guðsríkis væri þegar hafin. Það hefði gerst með stofnun kirkjunnar.

Geturðu útskýrt?

• Hvernig varð von mannkyns um líf á jörðinni hjúpuð myrkri?

• Hvað skildu sumir sem lásu Biblíuna á 17. öld?

• Hvernig varð von mannkyns skýrari þegar nær dró árinu 1914?

• Hvernig hefur skilningur á jarðnesku voninni vaxið til muna?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 13]

Ljóðskáldið John Milton (til vinstri) og stærðfræðingurinn Isaac Newton (til hægri) þekktu vonina um eilíft líf á jörð.

[Myndir á blaðsíðu 15]

Biblíunemendurnir skildu af Ritningunni að tími væri kominn til að boða sanna von mannkyns um allan heim.