Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Láttu ekkert trufla þig á ‚degi gleðitíðinda‘

Láttu ekkert trufla þig á ‚degi gleðitíðinda‘

Láttu ekkert trufla þig á ‚degi gleðitíðinda‘

FJÓRIR holdsveikir menn hugsuðu um valkosti sína. Enginn hafði gefið þeim ölmusu í borgarhliðinu. Sýrlendingar sátu um Samaríu og sveltu borgarbúa til að knýja fram uppgjöf. Það var til einskis að fara í borgina því að verð á mat var himinhátt. Greint hafði verið frá að minnsta kosti einu dæmi um mannát. — 2. Kon. 6:24-29.

„Hví ekki að fara í herbúðir Sýrlendinga?“ hugsuðu holdsveiku mennirnir, „við höfum engu að tapa.“ Í skjóli myrkurs lögðu þeir af stað um kvöldið. Þegar þeir komu í herbúðirnar var grafarþögn. Þar voru engir verðir. Hestar og asnar voru bundnir og hvergi sáust hermenn. Fjórmenningarnir litu inn í eitt tjaldið. Þar var enginn en nóg var af mat og drykk svo að þeir gæddu sér á vistunum. Þeir fundu líka gull, silfur, klæði og önnur verðmæti. Holdsveiku mennirnir báru burt það sem þeir gátu, földu það og komu aftur til að sækja meira. Herbúðirnar voru yfirgefnar. Jehóva hafði fyrir kraftaverk valdið því að Sýrlendingum heyrðist óvinaher vera að nálgast. Þeir héldu að það væri verið að ráðast á sig og flúðu sem fætur toguðu. Þeir skildu allt eftir og hver sem var gat tekið það.

Holdsveiku mennirnir földu verðmæti sem þeir fundu í herbúðunum. En þá varð þeim hugsað til þess að íbúar Samaríu sultu heilu hungri í næsta nágrenni og fengu því samviskubit. Þeir sögðu hver við annan: „Þetta er ekki rétt af okkur. Þetta er dagur gleðitíðinda.“ Þeir hröðuðu sér aftur til Samaríu og sögðu frá uppgötvun sinni.— 2. Kon. 7:1-11.

Við erum einnig uppi á tímum sem kalla mætti ‚dag gleðitíðinda‘. Jesús benti á áberandi hluta táknsins sem gefur til kynna að „veröldin [sé] að líða undir lok“ þegar hann sagði: „Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það. Og þá mun endirinn koma.“ (Matt 24:3, 14) Hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur?

Áhyggjur geta íþyngt okkur

Holdsveiku mennirnir voru svo spenntir yfir fundi sínum að þeir gleymdu Samaríu um stundarsakir. Þeir einblíndu á hvað þeir gætu fengið í sinn hlut. Getur eitthvað svipað komið fyrir okkur? „Hungur“ er hluti af samsetta tákninu sem einkennir tímann áður en núverandi heimskerfi líður undir lok. (Lúk. 21:7, 11) Jesús aðvaraði lærisveina sína: „Hafið gát á sjálfum yður, látið ekki svall og drykkju eða áhyggjur þessa lífs ná tökum á yður.“ (Lúk. 21:34) Sem kristnir menn þurfum við að gæta þess að áhyggjur af daglegu lífi verði ekki til þess að við missum sjónar á því að við lifum á ‚degi gleðitíðindanna‘.

Kristin kona, sem heitir Blessing, lét ekki eigin hagsmuni íþyngja sér. Hún var brautryðjandi, aflaði sér viðbótarmenntunar og síðar giftist hún Betelíta og varð hluti af Betelfjölskyldunni í Benín. Hún segir: „Ég vinn við ræstingar og líkar starfið mjög vel.“ Blessing getur litið til baka með ánægju. Hún á að baki tólf ár í fullu starfi og er glöð yfir því að hún hefur einbeitt sér að ‚degi gleðitíðindanna‘ sem við lifum á núna.

Vörum okkur á tímaþjófum

Þegar Jesús sendi út lærisveinana 70 sagði hann: „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ (Lúk. 10:2) Rétt eins og tafir við uppskeru geta þýtt að eitthvað fer til spillis getur vanræksla við boðunarstarfið þýtt að mannslíf glatist. Jesús bætti því við: „Heilsið engum á leiðinni.“ (Lúk. 10:4) Frummálsorðið fyrir að „heilsa“ getur þýtt meira en að kasta kveðju á fólk eða segja „góðan daginn“. Það getur falið í sér faðmlög og langar samræður eins og eiga sér stað þegar vinir hittast. Jesús var sem sagt að segja fylgjendum sínum að forðast tímaþjófa og nýta tímann sem best. Boðskapurinn, sem þeir áttu að flytja, var áríðandi.

Íhugaðu hve mikill tími fer í ýmiss konar afþreyingu. Í mörg ár hefur sjónvarp verið mesti tímaþjófurinn víða um lönd. Hvað um farsíma eða tölvur? Könnun meðal 1000 fullorðinna Breta leiddi í ljós að „Bretar eyða að meðaltali 88 mínútum á dag í að tala í fastlínusíma, 62 mínútum í farsíma, 53 mínútum í að senda tölvupóst og 22 mínútum við að senda textaskilaboð“. Þetta er samanlagt meira en tvöfaldur sá tími sem aðstoðarbrautryðjandi notar í boðunarstarfið. Hversu miklum tíma eyðir þú í svona samskipti?

Ernst og Hildegard Seliger hugsuðu vel um hvernig þau notuðu tímann. Samanlagt eyddu þau meira en 40 árum í fangabúðum nasista og fangelsum kommúnista. Eftir að þeim var sleppt voru þau brautryðjendur þangað til þau luku lífi sínu hér á jörð.

Margir vildu skrifast á við Seligerhjónin. Þau hefðu getað eytt megninu af tíma sínum í að lesa og skrifa bréf. En þau létu samt þjónustuna við Jehóva hafa forgang í lífi sínu.

Að sjálfsögðu viljum við öll hafa samband við þá sem við elskum og það er ekkert rangt við það. Vel valin tilbreyting í daglegu lífi okkar er til góðs. Samt sem áður er viturlegt af okkur að stýra hversu mikill tími fer í slík samskipti núna þegar við erum upptekin við að boða fagnaðarerindið.

Prédikum fagnaðarerindið rækilega

Það er mikil blessun að vera uppi á ‚degi gleðitíðindanna‘. Við skulum ekki fara út af sporinu eins og gerðist í byrjun hjá holdsveiku mönnunum. Mundu að þeir sögðu síðar: „Þetta er ekki rétt af okkur.“ Sömuleiðis er ekki rétt af okkur að láta eigin hugðarefni eða tímaþjófa hindra okkur í að taka fullan þátt í prédikunarstarfinu.

Við höfum frábæra fyrirmynd hvað þetta varðar. Þegar Páll postuli hugsaði um fyrstu tuttugu árin í þjónustunni sagði hann: „Ég hef rækilega boðað fagnaðarerindið um Krist.“ (Rómv. 15:19, NW) Páll lét ekkert draga úr brennandi áhuga sínum. Við skulum vera eins kappsfull og Páll þegar við prédikum fagnaðarerindið um ríkið á þessum ‚degi gleðitíðinda‘.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Blessing lét ekki eigin hagsmuni tálma sér að þjóna í fullu starfi.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Seligerhjónin hugsuðu vel um hvernig þau notuðu tímann.