Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum hlýðin og hugrökk eins og Kristur

Verum hlýðin og hugrökk eins og Kristur

Verum hlýðin og hugrökk eins og Kristur

„Verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ — JÓH.16:33.

1. Hversu hlýðinn var Jesús Guði?

JESÚS KRISTUR gerði alltaf vilja Guðs. Aldrei hvarflaði að honum að óhlýðnast föður sínum á himnum. (Jóh. 4:34; Hebr. 7:26) En aðstæður hans á jörð auðvelduðu honum ekki að vera hlýðinn. Frá því að Jesús hóf boðunarstarf sitt reyndu óvinir hans, þeirra á meðal Satan sjálfur, að telja hann af því að vera Jehóva trúfastur. Oft beittu þeir líka brögðum eða þvingunum í sama tilgangi. (Matt. 4:1-11; Lúk. 20:20-25) Þessir óvinir ollu Jesú mikilli hugarkvöl og líkamlegum þjáningum. Að síðustu tókst þeim að fá hann líflátinn á aftökustaur. (Matt. 26:37, 38; Lúk. 22:44; Jóh. 19:1, 17, 18) Í gegnum allt þetta var Jesús hlýðinn, þrátt fyrir þjáningarnar. Hann var „hlýðinn allt til dauða“. — Lestu Filippíbréfið 2:7, 8.

2, 3. Hvað má læra af því að Jesús skyldi vera hlýðinn þrátt fyrir þjáningar?

2 Það sem dreif á daga Jesú meðan hann var á jörðinni kenndi honum að vera hlýðinn við aðrar aðstæður en hann þekkti áður. (Hebr. 5:8) Ætla mætti að Jesús ætti ekkert ólært um það að þjóna Jehóva. Hann hafði átt náið samband við Jehóva frá ómunatíð og verið „með í ráðum við hlið honum“ við sköpunina. (Orðskv. 8:30) En með því að þjást sem maður og vera þolgóður og trúfastur sannaði hann að hann væri fullkomlega ráðvandur Jehóva. Hann styrkti sambandið við föður sinn á himnum. Hvað getum við lært af fordæmi hans?

3 Enda þótt Jesús væri fullkominn maður reyndi hann ekki að vera fullkomlega hlýðinn af eigin rammleik. Hann bað um hjálp Guðs til að vera hlýðinn. (Lestu Hebreabréfið 5:7.) Við þurfum líka að vera auðmjúk og bænrækin til að vera hlýðin. Það var þess vegna sem Páll postuli hvatti kristna menn til að vera „með sama hugarfari sem Kristur Jesús var“ en hann „lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða“. (Fil. 2:5-8) Með lífi sínu sannaði Jesús að menn væru færir um að vera hlýðnir í óguðlegu mannfélagi. Hann var að vísu fullkominn en hvað um ófullkomna menn eins og okkur?

Hlýðin þótt við séum ófullkomin

4. Hvað þýðir það fyrir okkur að vera sköpuð með frjálsan vilja?

4 Guð skapaði Adam og Evu sem vitsmunaverur og gaf þeim frjálsan vilja. Við sem erum afkomendur þeirra höfum líka frjálsan vilja. Hvað þýðir það? Það þýðir að við getum ákveðið að gera gott eða illt. Guð hefur með öðrum orðum gefið okkur frelsi til að ákveða hvort við erum honum hlýðin eða óhlýðin. Slíku frelsi fylgir ábyrgð. Ákvarðanir okkar í siðferðilegum málum snúast hreinlega um líf eða dauða. Þær hafa líka áhrif á þá sem standa okkur nærri.

5. Í hvaða baráttu eigum við öll og hvernig getum við sigrað?

5 Þar sem við fáum ófullkomleikann í arf er okkur ekki eðlislægt að vera hlýðin. Það er ekki alltaf auðvelt að fara eftir lögum Guðs. Páll átti í baráttu með það. Hann skrifaði: „Ég sé annað lögmál í limum mínum og það stríðir gegn lögmáli hugar míns, hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum.“ (Rómv. 7:23) Það er vitanlega auðveldara að hlýða þegar það kostar engar fórnir, sársauka eða óþægindi. En hvað gerum við þegar löngun til að hlýða stangast á við „allt sem maðurinn girnist, allt sem glepur augað“? Þessi skaðlegu áhrif eru sprottin af ófullkomleikanum og af „anda heimsins“ sem er allt umhverfis okkur, og þau eru ákaflega sterk. (1. Jóh. 2:16; 1. Kor. 2:12) Til að standast þau verðum við að ‚búa hjarta okkar undir‘ hættuna eða freistinguna áður en hana ber að garði, og einsetja okkur að hlýða Jehóva hvað sem á dynur. (Sálm. 78:8) Sagt er frá mörgum í Biblíunni sem farnaðist vel vegna þess að þeir voru undirbúnir í hjarta sér. — Esra. 7:10, NW; Dan. 1:8.

6, 7. Lýstu hvernig sjálfsnám getur hjálpað okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir.

6 Ein leið til að undirbúa sig í hjartanu er að vera iðinn við nám í Biblíunni og biblíutengdum ritum. Sjáðu fyrir þér eftirfarandi aðstæður. Segjum að það sé námskvöld hjá þér. Þú ert nýbúinn að biðja um anda Jehóva til að hjálpa þér að fara eftir því sem þú lærðir í orði hans. Þú hefur hugsað þér að horfa á ákveðna bíómynd í sjónvarpinu annað kvöld. Þú hefur heyrt að hún hafi fengið jákvæða umsögn kvikmyndagagnrýnenda en þú veist líka að hún inniheldur siðleysi og ofbeldi að einhverju marki.

7 Þú hugleiðir ráð Páls í Efesusbréfinu 5:3: „Frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal ykkar. Slíkt hæfir ekki heilögum.“ Þú manst líka hvað Páll ráðleggur í Filippíbréfinu 4:8. (Lestu.) Þú hugleiðir þessar innblásnu leiðbeiningar og spyrð sjálfan þig: Fylgi ég fordæmi Jesú um að hlýða Guði í einu og öllu ef ég opna hugann og hjartað af ásettu ráði fyrir slíku efni? Hvað ætlarðu að gera? Ætlarðu að láta slag standa og horfa á myndina?

8. Af hverju þurfum við að fylgja siðferðisreglum Jehóva í einu og öllu?

8 Það væri óráðlegt að gefa eftir og fylgja ekki meginreglum Jehóva í einu og öllu. Við megum ekki hugsa sem svo að við séum nógu sterk til að láta ekki vondan félagsskap hafa áhrif á okkur, ekki heldur félagsskap í formi afþreyingarefnis með ofbeldisfullu eða siðlausu innihaldi. Við verðum að vernda sjálf okkur og börn okkar fyrir spillandi áhrifum af anda heimsins. Tölvueigendur leggja mikið á sig til að verjast tölvuveirum sem geta eyðilagt gögn, truflað starfsemi tölvunnar eða jafnvel náð stjórn á henni og notað hana til að ráðast á aðrar tölvur. Eigum við að gera eitthvað minna til að verjast ‚vélabrögðum‘ Satans? — Ef. 6:11.

9. Af hverju þurfum við daglega að vera staðráðin í að hlýða Jehóva?

9 Við þurfum næstum daglega að ákveða á einn eða annan hátt hvort við ætlum eða ætlum ekki að gera hlutina eins og Jehóva vill. Til að hljóta hjálpræði þurfum við að hlýða Guði og lifa í samræmi við réttlátar meginreglur hans. Með því að fylgja fordæmi Jesú og vera hlýðin, jafnvel „allt til dauða“, sýnum við að trú okkar er ósvikin. Jehóva umbunar okkur trúfestina. Jesús sagði: „Sá sem staðfastur er allt til enda verður hólpinn.“ (Matt. 24:13) Þetta kallar augljóslega á að við byggjum upp ósvikið hugrekki líkt og Jesús sýndi. — Sálm. 31:25.

Jesús — besta fyrirmyndin um hugrekki

10. Hvers konar þrýstingi getum við orðið fyrir og hvernig ættum við að bregðast við?

10 Viðhorf og hátterni heimsins er allt í kringum okkur. Við þurfum þess vegna að vera hugrökk til að láta umhverfið ekki spilla okkur. Kristnir menn finna fyrir siðferðilegum, félagslegum, fjárhagslegum og trúarlegum þrýstingi sem gæti fengið þá til að víkja frá réttlátum lífsreglum Jehóva. Margir verða fyrir andstöðu frá fjölskyldunni. Menntastofnanir í sumum löndum halda þróunarkenningunni fram af æ meiri krafti og trúleysi færist sífellt í aukana. Við getum ekki bara setið aðgerðalaus með hendur í skauti. Við þurfum að gera eitthvað til að standa á móti þrýstingnum og verja okkur. Jesús er dæmi um hvernig hægt er að gera það.

11. Hvernig getur fordæmi Jesú aukið okkur hugrekki?

11 Jesús sagði við lærisveina sína: „Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ (Jóh. 16:33) Hann lét aldrei undan þrýstingi frá heiminum og lét heiminn aldrei hindra sig í að boða fagnaðarerindið. Það kom aldrei til greina hjá honum að gera málamiðlanir í tengslum við sanna tilbeiðslu og viðeigandi hegðun. Við megum ekki gera það heldur. Jesús sagði um lærisveina sína í bæn til Guðs: „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ (Jóh. 17:16) Ef við kynnum okkur hugrekki Krists og hugleiðum það getum við haft hugrekki til að halda okkur aðgreindum frá heiminum.

Lærum af Jesú að vera hugrökk

12-14. Nefndu dæmi um hugrekki Jesú.

12 Jesús sýndi mikið hugrekki í þjónustu sinni. Hann notaði vald sitt sem sonur Guðs og gekk óttalaust „í helgidóminn og rak út alla sem voru að selja þar og kaupa, hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna“. (Matt. 21:12) Þegar hermenn komu til að handtaka hann síðasta kvöldið hans hér á jörð steig hann hugrakkur fram til að vernda lærisveinana og sagði: „Ef þið leitið mín þá lofið þessum að fara.“ (Jóh. 18:8) Rétt á eftir sagði hann Pétri að slíðra sverð sitt. Þannig lét hann í ljós að hann treysti ekki á jarðnesk vopn heldur Jehóva. — Jóh. 18:11.

13 Jesús afhjúpaði óhikað harðbrjósta falskennara samtíðarinnar og rangar kenningar þeirra. „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér læsið himnaríki fyrir mönnum,“ sagði hann við þá. „Þér . . . hirðið ekki um það sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti . . . Þér hreinsið bikarinn og diskinn utan en innan eru þeir fullir yfirgangs og óhófs.“ (Matt. 23:13, 23, 25) Lærisveinar Jesú þurftu að vera hugrakkir eins og hann vegna þess að falstrúarleiðtogar myndu líka ofsækja þá og lífláta suma. — Matt. 23:34; 24:9.

14 Jesús tók jafnvel hugrakka afstöðu gegn illum öndum. Einu sinni stóð hann augliti til auglitis við andsetinn mann sem var svo sterkur að enginn gat hlekkjað hann. Jesús var óhræddur og rak út alla illu andana sem höfðu manninn á valdi sínu. (Mark. 5:1-13) Guð hefur ekki gefið kristnum mönnum mátt til að vinna slík kraftaverk nú á tímum. En Satan hefur „blindað huga vantrúaðra“ svo að við eigum í andlegum hernaði gegn honum þegar við boðum fagnaðarerindið og kennum. (2. Kor. 4:4) Vopnin, sem við berjumst með, eru „ekki jarðnesk“ frekar en hjá Jesú, heldur „máttug vopn Guðs til að brjóta niður vígi“, það er að segja djúpstæðar en rangar trúarhugmyndir. (2. Kor. 10:4) Við getum lært af Jesú hvernig best sé að beita þessum andlegu vopnum.

15. Á hverju byggðist hugrekki Jesú?

15 Hugrekki Jesú var ekki innantóm mannalæti heldur byggðist á trú. Við þurfum líka að sýna þess konar hugrekki. (Mark. 4:40) Hvernig getum við byggt upp sanna trú? Sem fyrr er Jesús okkur góð fyrirmynd. Hann hafði djúpstæða þekkingu á Ritningunni og treysti henni í hvívetna. Hann beitti ekki bókstaflegu sverði heldur sverði andans, orði Guðs. Æ ofan í æ studdi hann það sem hann kenndi með því að vísa í Ritninguna. Oft sagði hann: „Ritað er,“ það er að segja í orði Guðs, áður en hann kenndi eitthvað. *

16. Hvernig getum við styrkt trúna?

16 Við þurfum að lesa daglega í Biblíunni og sækja safnaðarasamkomur til að hugfesta þau sannindi sem eru undirstaða trúarinnar. Það er nauðsynlegt til að hafa trú sem stenst þær prófraunir sem fylgja því óhjákvæmilega að vera lærisveinn. (Rómv. 10:17) Við þurfum líka að hugleiða vel og vandlega það sem við lærum svo að það festi rætur í hjartanu. Trú okkar þarf að vera lifandi til að við sýnum hugrekki í verki. (Jak. 2:17) Og við þurfum að biðja um heilagan anda vegna þess að trú er einn af ávöxtum andans. — Gal. 5:22.

17, 18. Hvernig sýndi ung systir hugrekki í skólanum?

17 Kitty er ung systir í söfnuðinum. Hún komst að raun um hvernig hugrekki kviknar af ósvikinni trú. Hún vissi frá unga aldri að hún ætti ekki að skammast sín fyrir fagnaðarerindið í skólanum og hana langaði sannarlega til að vitna fyrir skólasystkinum sínum. (Rómv. 1:16) Á hverju ári einsetti hún sér að koma fagnaðarerindinu á framfæri en hélt að sér höndum af því að hana brast kjark. Þegar hún var stálpaður unglingur skipti hún um skóla. Hún ákvað að nú skyldi hún bæta fyrir tækifærin sem hún hafði látið ganga sér úr greipum. Hún bað Jehóva að gefa sér skynsemi, heppilegt tækifæri og hugrekki eins og Kristur hafði.

18 Á fyrsta skóladeginum voru nemendurnir beðnir að kynna sig einn í einu. Sumir minntust á trúaruppeldi sitt og létu fylgja með að þeir stunduðu eiginlega ekki trú sína. Kitty áttaði sig á að þetta var tækifærið sem hún hafði beðið Jehóva að gefa sér. Þegar kom að henni sagði hún örugg í bragði: „Ég er vottur Jehóva og lít á Biblíuna sem leiðarvísi í andlegum og siðferðilegum málum.“ Sumir af nemendunum ranghvolfdu augunum þegar hún hélt áfram. Aðrir fylgdust þó með og spurðu hana ýmissa spurninga síðar. Kennarinn nefndi Kitty jafnvel sem gott dæmi um að verja trú sína. Hún er mjög ánægð með að hafa lært af hugrekki Jesú.

Sýnum trú og hugrekki eins og Kristur

19. (a) Hvað er fólgið í ósvikinni trú? (b) Hvernig getum við glatt Jehóva?

19 Postularnir vissu líka að þeir yrðu að sýna hugrekki byggt á trú. Þeir báðu Jesú: „Auk oss trú.“ (Lestu Lúkas 17:5, 6.) Ósvikin trú er meira en að trúa bara að Guð sé til. Hún er fólgin í því að eignast náið trúnaðarsamband við Jehóva, ekki ósvipað og lítið barn á við mildan og ástríkan föður. Salómon var innblásið að skrifa: „Sonur minn, verði hjarta þitt viturt, þá gleðst ég líka í hjarta mínu og nýru mín fagna þegar varir þínar mæla það sem rétt er.“ (Orðskv. 23:15, 16) Við gleðjum Jehóva ef við sýnum það hugrekki að verja réttlátar meginreglur hans, og vitneskjan um það gerir okkur enn hugrakkari. Við skulum því alltaf líkja eftir Jesú og standa hugrökk með því sem rétt er.

[Neðanmáls]

Geturðu svarað?

• Hvað gerir okkur kleift að vera hlýðin þótt við séum ófullkomin?

• Á hverju byggist ósvikin trú og hvernig getur það hjálpað okkur að vera hugrökk?

• Hvað gerist ef við erum hlýðin og hugrökk eins og Kristur?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 13]

Býrðu hjarta þitt undir að standast freistingar?

[Mynd á blaðsíðu 15]

Við getum sýnt hugrekki byggt á trú eins og Jesús gerði.