Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Yfirburðir þess að fá menntun hjá Jehóva

Yfirburðir þess að fá menntun hjá Jehóva

Yfirburðir þess að fá menntun hjá Jehóva

„Já, meira að segja met ég allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú.“ — FIL. 3:8.

1, 2. Hvaða ákvörðun hafa sumir kristnir menn tekið og hvers vegna?

RÓBERT var framúrskarandi nemandi allt frá unga aldri. Þegar hann var aðeins átta ára fékk hann heimsókn frá einum af kennurunum sínum. Kennarinn sagði að honum væru allir vegir færir og lét í ljós þá von að hann færi í læknanám. Námsárangur hans í framhaldsskóla gerði honum mögulegt að fá inngöngu í bestu háskólana í landinu. En Róbert kaus að hafna því sem margir töldu einstakt tækifæri, til að ná því markmiði að gerast brautryðjandi.

2 Líkt og Róbert fá margir vottar á öllum aldri tækifæri til að ná langt í þessum heimi. Sumir kjósa að nýta ekki þessi tækifæri til fulls heldur keppa að markmiðum í þjónustu Jehóva. (1. Kor. 7:29-31) Hvers vegna eru kristnir menn eins og Róbert fúsir til að leggja sig fram í boðunarstarfinu? Aðalástæðan er kærleikur til Jehóva en auk þess gera þeir sér grein fyrir þeim yfirburðum sem fylgja menntuninni frá Jehóva. Hefur þú velt fyrir þér nýlega hvernig líf þitt væri ef þú hefðir ekki kynnst sannleikanum? Þegar við hugleiðum þá blessun sem fylgir fræðslunni frá Jehóva minnir það okkur á hve mikils virði fagnaðarerindið er og það hjálpar okkur að vera ötul að boða það öðrum.

Heiður að hljóta menntun hjá Guði

3. Af hverju getum við verið viss um að Jehóva sé fús til að kenna ófullkomnum mönnum?

3 Vegna gæsku sinnar er Jehóva fús til að kenna ófullkomnum mönnum. Í spádómi í Jesaja 54:13 segir um andasmurða kristna menn: „Allir synir þínir verða lærisveinar Drottins og hagsæld barna þinna verður mikil.“ Í meginatriðum eiga þessi orð einnig við um „aðra sauði“ Krists. (Jóh. 10:16) Þetta má sjá af spádómi sem er að uppfyllast á okkar dögum. Jesaja sá sýn þar sem fólk af öllum þjóðum streymdi að til að tilbiðja hinn sanna Guð. Í spádómi hans segir þetta fólk hvert við annað: „Komið, göngum upp á fjall Drottins, til húss Jakobs Guðs svo að hann vísi oss vegu sína og vér getum gengið brautir hans.“ (Jes. 2:1-3) Það er mikill heiður að hljóta menntun hjá Guði.

4. Hvers krefst Jehóva af þeim sem hann kennir?

4 Hvað verðum við að gera til að hljóta fræðslu frá Jehóva? Helsta skilyrðið er að vera hógvær og auðmjúk. Sálmaritarinn Davíð orti: „Góður og réttlátur er Drottinn . . . [Hann] vísar auðmjúkum veg sinn.“ (Sálm. 25:8, 9) Og Jesús sagði: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum.“ (Lúk. 10:21) Laðast þú ekki að Guði sem ‚veitir auðmjúkum náð‘? — 1. Pét. 5:5.

5. Hver gerði okkur kleift að hljóta þekkingu á Guði?

5 Geta þjónar Jehóva hrósað sér af því að hafa kynnst sannleikanum af sjálfsdáðum? Nei, því að við gætum aldrei fengið þekkingu á Guði af eigin rammleik. Jesús sagði: „Enginn getur komið til mín nema faðirinn, sem sendi mig, laði hann.“ (Jóh. 6:44) Jehóva notar prédikunarstarfið og heilagan anda sinn til að laða að Jesú auðmjúka menn, „gersemar allra þjóða“. (Hagg. 2:7, Biblían 1981) Ertu ekki þakklátur fyrir að vera einn þeirra sem Jehóva hefur laðað að syni sínum? — Lestu Jeremía 9:22, 23.

Menntun sem bætir líf fólks

6. Hvaða áhrif getur það haft á fólk að fá „þekkingu á Drottni“?

6 Í spádómi Jesaja er notað fagurt myndmál til að lýsa þeim breytingum sem verða á fólki á okkar tímum. Þeir sem áður voru ofbeldishneigðir eru orðnir friðsamir. (Lestu Jesaja 11:6-9.) Þeir sem áður voru óvinir vegna ólíks kynþáttar, þjóðernis, ættflokks eða menningar hafa lært að búa saman í einingu. Þeir hafa á táknrænan hátt smíðað „plógjárn úr sverðum sínum“. (Jes. 2:4) Hver er ástæðan fyrir þessum miklu breytingum? Menn hafa fengið „þekkingu á Drottni“ og farið eftir henni. Þótt þjónar Guðs séu ófullkomnir mynda þeir ósvikið alþjóðlegt bræðrafélag. Sú staðreynd að fagnaðarerindið höfðar til fólks um allan heim og ber góðan ávöxt er til vitnis um yfirburði þeirrar menntunar sem Guð veitir. — Matt. 11:19.

7, 8. (a) Hvaða „vígi“ og „hugsmíðar“ getur menntunin frá Guði brotið niður? (b) Hvað sýnir að menntunin frá Jehóva er honum til lofs?

7 Páll postuli líkti starfi þjóna Guðs við andlegan hernað. Hann skrifaði: „Vopnin, sem ég nota, eru ekki jarðnesk heldur máttug vopn Guðs til að brjóta niður vígi. Ég brýt niður hugsmíðar og allt sem hreykir sér gegn þekkingunni á Guði.“ (2. Kor. 10:4, 5) Hvers konar „vígi“ og „hugsmíðar“ getur menntunin frá Guði brotið niður? Hún getur frelsað fólk undan byrði falskenninga, hjátrúar og heimspeki svo fátt eitt sé nefnt. (Kól. 2:8) Menntunin frá Guði hjálpar fólki að sigrast á slæmum venjum og þroska með sér eiginleika Guði að skapi. (1. Kor. 6:9-11) Hún bætir fjölskyldulífið. Og hún veitir þeim sem hafa enga von raunverulegan tilgang í lífinu. Það er brýn þörf fyrir slíka menntun nú á dögum.

8 Einn eiginleiki, sem Jehóva hjálpar fólki að þroska með sér, er heiðarleiki eins og eftirfarandi frásaga ber með sér. (Hebr. 13:18) Kona á Indlandi þáði biblíunámskeið og varð síðan óskírður boðberi. Dag einn var hún á heimleið eftir að hafa unnið við byggingu ríkissalar. Hún fann þá gullkeðju á jörðinni nálægt strætisvagnabiðstöð. Keðjan var 800 dollara virði. Þótt konan væri fátæk fór hún á lögreglustöðina og afhenti keðjuna. Lögreglumaður á staðnum trúði ekki eigin augum. Seinna spurði annar lögregluþjónn hana: „Af hverju ákvaðstu að skilja keðjunni?“ Hún svaraði: „Kenningar Biblíunnar hafa breytt mér og nú er ég heiðarleg manneskja.“ Hann var stórhrifinn og sagði við safnaðaröldung sem fylgdi henni á stöðina: „Það búa rúmlega 38 milljónir manna í þessu ríki. Ef þú getur hjálpað 10 manns að breyta sér eins og þessi kona væri það mikið afrek.“ Höfum við ekki ærna ástæðu til að lofa Jehóva í ljósi þess að menntunin frá honum hefur hjálpað milljónum manna að bæta líf sitt?

9. Hvernig getur fólk gert miklar breytingar í lífi sínu?

9 Jehóva notar einkum tvennt til að hjálpa fólki að gera miklar breytingar í lífi sínu — kraftinn í orði sínu og heilagan anda. (Rómv. 12:2; Gal. 5:22, 23) Í Kólossubréfinu 3:10 segir: „[Íklæðist] hinum nýja [manni] sem Guð er að skapa að nýju í sinni mynd til þess að þið fáið gjörþekkt hann.“ Boðskapurinn í orði Guðs, Biblíunni, getur dregið fram það sem býr innra með manninum og hefur kraft til að breyta hugsunarhætti hans og viðhorfum. (Lestu Hebreabréfið 4:12.) Með því að fá nákvæma þekkingu á Biblíunni og laga sig að réttlátum meginreglum Jehóva er hægt að verða vinur hans og eiga von um að lifa að eilífu.

Undirbúningur fyrir framtíðina

10. (a) Af hverju er Jehóva í einstakri aðstöðu til að búa okkur undir framtíðina? (b) Hvaða miklu breytingar eiga sér bráðum stað á jörðinni?

10 Jehóva er í einstakri aðstöðu til að búa okkur undir framtíðina því að hann veit hvað er fram undan. Hann ákveður framtíð mannkyns. (Jes. 46:9, 10) Spádómar Biblíunnar opinbera að „hinn mikli dagur Drottins“ sé í nánd. (Sef. 1:14) Á þeim degi sannast það sem stendur í Orðskviðunum 11:4: „Lítt gagna auðæfi á degi reiðinnar en réttlæti frelsar frá dauða.“ Það verður samband okkar við Jehóva sem skiptir máli þegar hann fullnægir dómi sínum yfir heimi Satans. Peningar verða einskis virði. Í Esekíel 7:19 segir jafnvel: „Þeir fleygja silfri sínu á göturnar, gullið verður að skarni.“ Þessi vitneskja getur hjálpað okkur að breyta viturlega núna.

11. Hvernig býr menntunin frá Guði okkur undir framtíðina?

11 Menntunin frá Jehóva býr okkur undir dag hans með því að hjálpa okkur að forgangsraða rétt. Páll postuli skrifaði í bréfi til Tímóteusar: „Vara ríkismenn þessarar aldar við að hreykja sér og treysta fallvöltum auði, bjóð þeim heldur að treysta Guði.“ Við getum dregið lærdóm af þessum innblásnu ráðum þótt við séum ekki efnuð. Hver er hann? Í stað þess að safna efnislegum auði ættum við að leggja okkur fram um að „gera gott“ og „vera [rík] að góðum verkum“. Með því að láta þjónustuna við Jehóva hafa forgang í lífi okkar söfnum við handa okkur „fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna“. (1. Tím. 6:17-19) Slík fórnfýsi ber vitni um góða dómgreind því að Jesús sagði: „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni?“ (Matt. 16:26, 27) Í ljósi þess hve nálægur dagur Jehóva er ættum við að spyrja okkur: „Hvar safna ég mér fjársjóði? Hvort þjóna ég Guði eða mammón?“ — Matt. 6:19, 20, 24.

12. Af hverju ætti það ekki að draga úr okkur þótt sumir líti niður á starf okkar?

12 Mikilvægast af þeim ‚góðu verkum‘, sem Biblían hvetur kristna menn til að sinna, er að bjarga mannslífum með því að prédika og kenna. (Matt. 24:14; 28:19, 20) Sumir líta ef til vill niður á boðunarstarf okkar svipað og fólk gerði á fyrstu öld. (Lestu 1. Korintubréf 1:18-21.) En það breytir ekki því að boðskapurinn er mikilvægur og það þarf að gefa öllum tækifæri til að trúa á hann meðan enn er tími til. (Rómv. 10:13, 14) Við hljótum sjálf mikla blessun þegar við hjálpum öðrum að njóta góðs af menntuninni frá Guði.

Jehóva blessar þá sem færa fórnir

13. Hvaða fórnir færði Páll postuli vegna fagnaðarerindisins?

13 Áður en Páll postuli tók kristna trú var verið að búa hann undir frama í þjóðskipulagi Gyðinga. Sennilega var hann ekki nema 13 ára þegar hann flutti frá heimaborg sinni, Tarsus, til Jerúsalem til að læra hjá Gamalíel sem var virtur lögmálskennari. (Post. 22:3) Með tímanum fór hann að skara fram úr jafnöldrum sínum og ef hann hefði haldið áfram á þeirri braut hefði hann kannski hlotið frama innan gyðingdómsins. (Gal. 1:13, 14) Þegar hann tók við fagnaðarerindinu og hóf að prédika það sneri hann baki við öllu þessu. Sá Páll eftir þeirri ákvörðun sem hann tók? Nei. Hann skrifaði: „Meira að segja met ég allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn. Sakir hans hef ég misst allt og met það sem sorp.“ — Fil. 3:8.

14, 15. Hvaða blessun hljótum við sem „samverkamenn Guðs“?

14 Kristnir menn nú á dögum færa fórnir vegna fagnaðarerindisins líkt og Páll gerði. (Mark. 10:29, 30) Förum við á mis við eitthvað þegar við gerum það? Róbert, sem nefndur var í byrjun, talar fyrir munn margra þegar hann segir: „Ég sé ekki eftir neinu. Þjónusta í fullu starfi hefur veitt mér gleði og lífsfyllingu og ég hef fengið að finna og sjá að Jehóva er góður. Í hvert sinn sem ég færi fórnir til að ná markmiðum í þjónustu Jehóva hefur blessunin frá honum alltaf verið meiri en fórnin sem ég færði. Það er eins og ég hafi í rauninni ekki fórnað neinu. Ég hef bara hagnast.“ — Sálm. 34:9; Orðskv. 10:22.

15 Ef þú hefur tekið þátt í prédikunar- og kennslustarfinu um skeið hefur þú eflaust fundið og séð að Jehóva er góður. Hefurðu einhvern tíma fundið fyrir hjálp heilags anda hans þegar þú boðar fagnaðarerindið? Hefurðu séð gleði skína úr augum fólks þegar Jehóva opnar hjarta þess fyrir boðskapnum? (Post. 16:14) Hefur Jehóva hjálpað þér að yfirstíga hindranir og kannski gefið þér tækifæri til að færa út kvíarnar í þjónustunni? Hefur hann stutt þig á erfiðleikatímum og gert þér kleift að halda áfram að þjóna honum þegar þér fannst þú vera að gefast upp? (Fil. 4:13) Þegar við finnum persónulega fyrir hjálp Jehóva í þjónustunni verður hann okkur raunverulegri og við tengjumst honum enn nánari böndum. (Jes. 41:10) Er ekki heiður að fá að vera „samverkamenn Guðs“ og hjálpa öðrum að þiggja menntun hjá honum? — 1. Kor. 3:9.

16. Hvernig lítur þú á það sem þú gerir og þær fórnir sem þú færir til að hjálpa öðrum að afla sér menntunar hjá Jehóva?

16 Margir vonast til að áorka einhverju markverðu á lífsleiðinni. Við vitum að jafnvel mikil stórvirki í þessum heimi falla oft fljótt í gleymsku. En það starf sem Jehóva framkvæmir núna til að helga nafn sitt verður án efa í minnum haft til frambúðar. Það verður litið á það sem merkan áfanga í sögu þjóna Jehóva. (Orðskv. 10:7; Hebr. 6:10) Það er mikill heiður að fá að hjálpa öðrum að afla sér menntunar hjá Jehóva, og sinna starfi sem mun aldrei gleymast.

Hvernig svarar þú?

• Til hvers ætlast Jehóva af þeim sem hann kennir?

• Hvernig bætir menntunin frá Jehóva líf fólks?

• Hvaða blessun hljótum við þegar við hjálpum öðrum að afla sér menntunar hjá Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Þeir sem hljóta menntun hjá Jehóva mynda ósvikið alþjóðlegt bræðrafélag.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Er ekki heiður að fá að vera „samverkamenn Guðs“?