Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er hægt að byggja upp trú á skapara?

Er hægt að byggja upp trú á skapara?

Er hægt að byggja upp trú á skapara?

„ÉG VELTI fyrir mér hvort til væri skapari og fylltist reiði þegar mér varð hugsað til þess að einhver hefði máttinn til að stöðva þjáningar mannanna en væri ekki tilbúinn að beita honum.“ Svo mælti fyrrverandi trúleysingi sem missti nána ættingja í Helförinni. Hann var varla einn um þessa afstöðu.

Þegar hörmungar dynja yfir finnst mörgum erfitt að trúa á Guð og þeir leita huggunar í þeirri hugmynd að hann sé ekki til. Hvaða ástæður liggja helst að baki því að sumir eru trúlausir? Væri mannkynið betur sett án Guðs eða trúarbragða, eins og sumir álíta? Getur trúleysingi byggt upp trú á kærleiksríkan skapara?

Þar sem trúarbrögðin hafa brugðist

Það er kaldhæðnislegt að trúarbrögð skuli vera helsta orsök trúleysis í heiminum. Sagnfræðingurinn Alister McGrath segir: „Það sem ýtir undir trúleysi hjá fólki er fyrst og fremst viðbjóður á óhófi og afglöpum stóru trúardeildanna.“ Oft eru trúarbrögð talin ein af orsökum styrjalda og ofbeldis. Trúleysingi og heimspekingur að nafni Michel Onfray veltir fyrir sér hvernig standi á því að sama trúarbókin geti leitt af sér tvær manngerðir. Önnur „sækist eftir heilagleik“ en hin „gerir sig seka um miskunnarlausa grimmd“ — hryðjuverk.

Margir eiga slæmar minningar um fyrri afskipti sín af trúmálum. Meðan Bertil, ungur Svíi, gegndi herþjónustu heyrði hann herprest réttlæta ofbeldisverk með því að vísa í viðvörun Jesú þess efnis að þeir sem bregði sverði muni falla fyrir sverði. Herpresturinn hélt því fram að einhver þyrfti að beita þessu sverði. Þar af leiðandi hlyti hermaðurinn að vera þjónn Guðs. — Matteus 26:52. *

Bernadette, sem missti föður sinn í Frakklandi í síðari heimsstyrjöldinni, minnist þess hve henni var misboðið með því sem presturinn sagði við jarðaför þriggja ára frænku hennar. „Guð hefur kallað þetta barn til að verða engill á himnum,“ sagði hann. Seinna eignaðist Bernadette fatlað barn en fékk þá ekki heldur neina huggun frá kirkjunni.

Ciarán ólst upp í skugga ofbeldisins á Norður-Írlandi. Hann hryllti við kenningunni um vítiseld og sagði oft að hann hataði hvern þann Guð sem bæri ábyrgð á slíkri illsku. Hann skoraði á Guð, væri hann til, að greiða sér banahögg. Ciarán er ekki einn um að hafa andúð á harðneskjulegum kenningum kirkjunnar eins og þessari. Reyndar má vel vera að trúarsetningar kirkjunnar hafi veitt kenningunni um þróun brautargengi. Eftir því sem Alister McGrath segir var það „megn óbeit“ á kenningunni um vítiseld — ekki trú á þróun — sem fékk Darwin til að efast um að Guð væri til. McGrath nefnir einnig að Darwin hafi verið „harmi sleginn vegna dauða dóttur sinnar“.

Sumir telja að trúariðkanir einkennist af hugsunarleysi eða ofstæki. Irina fékk sig fullsadda af innantómum prédikunum og staglsömum bænasöng. Hún segir: „Mér fannst bara eins og trúað fólk hreinlega hugsaði ekki.“ Louis tók dýpra í árinni. Honum var nóg boðið af grimmdarverkum sem trúarofstækismenn frömdu og sagði: „Í mörg ár fannst mér trú vera leiðinleg en nú áttaði ég mig á að hún getur haft skelfileg áhrif á fólk. Ég snerist harkalega gegn öllu sem tengdist trú.“

Betur sett án Guðs?

Það er því ekki að undra að mörgum finnist trúarbrögð vera þrándur í götu framfara og friðar. Sumir hafa jafnvel spurt sig hvort mannkynið væri betur sett án Guðs og trúarbragða. En væri það ávísun á önnur vandamál að hafna svona algerlega allri trúarlegri hugsun?

Voltaire, heimspekingur á 18. öld, deildi hart á kirkjuna fyrir grimmd hennar og spillingu. Samt taldi hann að siðferðisvitund mannsins stjórnaðist af því að til væri Guð. Seinna lýsti þýski heimspekingurinn Friedrich Nietzsche því yfir, eins og frægt er orðið, að Guð væri dáinn. Engu að síður óttaðist hann þá siðferðishnignun og mögulegan skaða sem guðsafneitun gæti leitt af sér. Var ótti hans á rökum reistur?

Rithöfundurinn Keith Ward bendir á að þegar 20. öldin hófst hafi ekki dregið úr villimennsku heldur hafi hún „aukist í þvílíkum mæli að menn hefðu aldrei getað ímyndað sér annað eins“. Tilraunir manna með trúleysi hafa heldur ekki unnið bug á veikleikum mannsins svo sem spillingu og umburðarleysi. Staðreyndir sem þessar hafa vakið margt hugsandi fólk, meira að segja trúleysingja, til vitundar um að trú á Guð hafi góð siðferðileg áhrif.

Keith Ward bendir á að trú á Guð hafi góð áhrif og segir: „Trú gerir stöðuga siðferðilega kröfu til fólks. Hún leggur mönnunum þá ábyrgð á herðar að annast heiminn sem Guð hefur skapað.“ Fjölmargar nýlegar rannsóknir benda til þess að trúaðir beri frekar umhyggju fyrir hag annarra. Slík ósérhlífni virðist síðan stuðla að lífshamingju. Niðurstöður sem þessar undirstrika hve dýrmæt meginreglan er sem Jesús gaf: „Sælla er að gefa en þiggja.“ — Postulasagan 20:35.

Félagsráðgjafi, sem áður var trúlaus, varð snortinn þegar hann sá hve öflug áhrif Biblían getur haft á fólk. Hann sagði: „Eftir að hafa varið mörgum árum, með mjög litlum árangri, í að reyna að hjálpa fólki að breyta hegðun sem var skaðleg sjálfum þeim og öðrum fannst mér alveg ótrúlegt að sjá hve mikið fólk gat breyst til hins betra. Ég komst líka að raun um að þessar breytingar voru varanlegar.“

En þrátt fyrir það eru sumir trúleysingjar á þeirri skoðun að guðstrúin hafi miklu oftar valdið blóðsúthellingum og átökum en að hún hafi skapað góðsemi og umhyggju. Þeir samsinna því ef til vill að trú hafi góð áhrif á suma en sjálfir eru þeir ákaflega vantrúaðir. Af hverju?

Fleiri ástæður til að efast

Mörgum er kennt að það sé vísindalega sönnuð staðreynd að lífið hafi þróast. Anila hlaut menntun sína í Albaníu, landi þar sem trúleysi er haldið á lofti. „Okkur var kennt í skólanum að það væri barnalegt og forneskjulegt að trúa á Guð,“ segir hún. „Ég lærði margt dásamlegt um plöntur og aðrar lífverur en ég eignaði þróun allan heiðurinn því að þá leit út fyrir að ég væri vísindalega þenkjandi.“ Núna viðurkennir hún að „það hafi þurft að trúa í blindni á þær sannanir sem voru gefnar“.

Biturð getur reynst vera hindrun hjá sumum. Vottar Jehóva verða oft varir við slíkt viðhorf þegar þeir fara hús úr húsi til að sýna fólki hvað Biblían segir um framtíðina. Ungur vottur heimsótti Bertil, sem minnst var á áður, til að ræða við hann um Biblíuna. Bertil minnist þess að hafa sagt við sjálfan sig: ,Aumingja þú. Þú hittir nú ekki á rétta manninn!‘ Bertil segir: „Ég bauð honum inn og gaf lausan tauminn gremju minni út í Guð, Biblíuna og trúarbrögðin.“

Óréttlætið í heiminum angraði Gus en hann býr í Skotlandi. Til að byrja með var hann þrætugjarn og ósammála vottum Jehóva þegar hann ræddi við þá. Hann spurði spurninga í líkingu við það sem spámaðurinn Habakkuk spurði Guð: „Hví sýnirðu mér illskuna og horfir aðgerðalaus á ranglætið?“ — Habakkuk 1:3.

Það hefur lengi angrað mennina að Guði virðist standa á sama um illskuna í heiminum. (Sálmur 73:2, 3) Franski rithöfundurinn Simone de Beauvoir sagði eitt sinn: „Ég átti auðveldara með að hugsa um heim án skapara en skapara með allar mótsagnir heimsins á bakinu.“

Er þá engin skýring til fyrst mörg trúarbrögð geta ekki útskýrt slíkar mótsagnir? Gus sagðist að lokum hafa fengið „góða og gilda útskýringu á því af hverju almáttugur skapari hefur leyft að mannkynið þjáist um stund“. Hann sagði að það hefði verið „mikilvægt skref“ fyrir sig. *

Það getur vel verið að sumir sem segjast vera trúleysingjar hafi efasemdir um þróunarkenninguna, skynji hjá sér þörf fyrir að kynnast Guði og biðji meira að segja til hans. Við skulum nú finna út hvað fékk nokkra trúleysingja og efasemdamenn til að kanna málið betur og með tímanum byggja upp náið samband við skaparann.

Hvað hjálpaði þeim að byggja upp trú á skapara?

Ungi maðurinn, sem heimsótti Bertil, höfðaði til heilbrigðrar skynsemi og benti honum á að það væri gríðarstór munur á sannri kristni og trú þeirra sem væru aðeins kristnir að nafninu til. Bertil nefnir hvað hreyfði jafnvel enn meira við honum en rökin sem færð voru fyrir tilvist skapara. Hann segir: „Ég dáðist að því hve þolinmóður [ungi votturinn] var gagnvart þrjóskunni í mér . . . Hann æsti sig aldrei og hafði alltaf eitthvert lesefni handa mér og var vel undirbúinn.“ *

Svetlana hafði orðið fyrir miklum áhrifum af þróunarkenningunni og kommúnisma. Hún var sannfærð um að aðeins hinir hæfustu lifi. Þetta harðneskjulega viðhorf til lífsins angraði hana engu að síður. Það sem hún lærði í læknisfræði jók á ruglinginn. Hún segir: „Þegar fjallað var um trúleysi lærðum við að hinir hæfustu lifi. En í læknanáminu var okkur kennt að við ættum að hjálpa hinum veiku.“ Hún velti því líka fyrir sér af hverju menn, sem áttu að vera lengra komnir en apar á þróunarbrautinni, glímdu við tilfinningaleg vandamál sem hrjáðu ekki apana. Svarið við þessum mótsögnum kom úr óvæntri átt. Hún segir: „Amma mín sýndi mér í Biblíunni að okkar eigin ófullkomleiki kallar fram neikvæðar tilfinningar.“ Svetlana gladdist líka yfir því að fá að vita svör Biblíunnar við spurningum eins og hvers vegna heiðarlegt fólk þjáist.

Leif, sem er ættaður frá Norðurlöndunum, var harður þróunarsinni og taldi Biblíuna vera ævintýrabók. En dag nokkurn skoraði vinur hans á hann að líta nánar á málið og sagði: „Gerirðu þér grein fyrir því að þú ert aðeins að endurtaka það sem aðrir hafa sagt án þess að vita nokkuð um Biblíuna?“ Leif lýsir hvaða áhrif þessi orð höfðu á hann og segir: „Ég gerði mér ljóst að ég hafði aldrei véfengt þróunarkenninguna, heldur hafði ég gleypt við henni í heilu lagi . . . Ég tel að eitt af því sem geti vakið trúleysingja til umhugsunar sé þekking á spádómum Biblíunnar og hvernig þeir rættust.“ — Jesaja 42:5, 9.

Ciarán, sem minnst var á fyrr í greininni, var vonsvikinn eftir áralanga þátttöku í stjórnmálum. Þegar hann velti fyrir sér lífinu og tilverunni rann upp fyrir honum að einungis máttugur og kærleiksríkur Guð gæti leyst vandamálin sem blasa við jarðarbúum og vísað honum sjálfum veginn út úr volæðinu. Hann andvarpaði með sjálfum sér:,Ég vildi óska að ég fyndi slíkan Guð.‘ Í mikilli sálarangist bað hann til Guðs: „Ef þú heyrir til mín, viltu þá sýna mér það einhvern veginn, og benda mér á leið út úr vandamálum mínum og þjáningum mannkynsins.“ Fáeinum dögum síðar bankaði vottur Jehóva upp á hjá honum. Votturinn sýndi honum það sem Biblían segir um þau illu áhrif sem búa að baki stjórnum manna. (Efesusbréfið 6:12) Þessi útskýring staðfesti það sem Ciarán hafði sjálfur haldið og vakti forvitni hans. Eftir að hafa kynnt sér Biblíuna betur öðlaðist hann sterka trú á kærleiksríkan skapara.

Skapari mannkyns og samband þitt við hann

Hræsni í trúarbrögðum, illskan í heiminum og kenningar eins og þróunarkenningin hafa fengið marga til að efast eða jafnvel afneita því að til sé skapari. Biblían getur hins vegar gefið fullnægjandi svör við spurningum þínum ef þú vilt. Hún hefur einnig að geyma fyrirætlanir Guðs, „fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð“. (Jeremía 29:11) Þessi von varð eins og græðandi smyrsl á sárin fyrir Bernadette sem hafði eignast fatlað barn og efaðist um að til væri skapari.

Skýring Biblíunnar á því hvers vegna Guð leyfir þjáningar hefur snert hugi og hjörtu margra sem áður voru trúlausir. Með því að gefa þér tíma til að skoða svör Biblíunnar við þessum mikilvægu spurningum getur þú einnig fengið vissu fyrir því að til sé Guð sem „eigi er . . . langt frá neinum af okkur“. — Postulasagan 17:27.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Finna má svar við spurningunni hvort sannkristinn maður ætti að taka þátt í stríði í greininni „Is War Compatible With Christianity?“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. október 2009, bls. 29-31.

^ gr. 22 Finna má ítarlegri upplýsingar um hvers vegna Guð leyfir illskuna á bls. 106-114 í bókinni Hvað kennir Biblían? gefin út af Vottum Jehóva.

^ gr. 25 Í greinaröðinni „Er til skapari?“ í Vaknið! október-desember 2006, má finna rök sem styðja sköpunarsöguna. Blaðið er gefið út af Vottum Jehóva.

[Rammi á bls. 13]

Spurningar sem þróunarkenningin hefur látið ósvarað

• Hvernig getur líf komið af lífvana efni? — SÁLMUR 36:10.

• Af hverju fjölga jurtir og dýr sér eingöngu eftir sinni tegund? — 1. MÓSEBÓK 1:11, 21, 24-28.

• Ef mennirnir eru komnir af öpum, sem eru þeim óæðri, hvers vegna hefur þá ekki fundist einn einasti „apamaður“ sem er öpunum fremri? — SÁLMUR 8:6, 7.

• Hvernig er hægt að útskýra umhyggju og fórnfýsi með kenningunni um að hinir hæfustu lifi? — RÓMVERJABRÉFIÐ 2:14, 15.

• Á mannkynið áreiðanlega von um bjarta framtíð? — SÁLMUR 37:29.

[Myndir á bls. 12, 13]

Hvernig gat kærleiksríkur Guð skapað heim þar sem börn kveljast og þjást?

Trúarhræsni hefur gert marga afhuga Guði.