Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eru Vottar Jehóva mótmælendatrúar?

Eru Vottar Jehóva mótmælendatrúar?

Lesendur spyrja

Eru Vottar Jehóva mótmælendatrúar?

Vottar Jehóva líta ekki svo á að þeir séu mótmælendatrúar. Af hverju ekki?

Mótmælendatrúin spratt fram í Evrópu á 16. öld og hafði það að markmiði að koma á siðbót innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Heitið „mótmælendur“ var fyrst notað um fylgjendur Marteins Lúters á ríkisþinginu í Speyer árið 1529. Allar götur síðan hefur þetta heiti verið almennt notað um alla þá sem aðhyllast kenningar og markmið siðaskiptanna. Í uppflettiritinu Merriam-Webster’s Collegiate Dictionary, 11. útgáfu, segir að mótmælandi sé sá sem „tilheyrir einhverri af þeim kirkjudeildum sem hafna allsherjarvaldi páfans og styðja kenningarnar, sem komu fram við siðaskiptin, um að menn réttlætist af trú einni saman, að allir sem trúa séu prestar og að sannleikann sé einungis að finna í Biblíunni“.

Þótt Vottar Jehóva bæði hafni því að páfinn hafi allsherjarvald og trúi að Biblían sé orð Guðs er trú þeirra og mótmælenda mjög ólík. Alfræðibókin The Encyclopedia of Religion segir reyndar um Votta Jehóva að þeir „skeri sig úr“. Við skulum skoða nánar þrjú svið þar sem þeir gera það.

Í fyrsta lagi má nefna að þótt mótmælendur hafni ýmsu sem einkennir kaþólska trú héldu siðbótarmenn fast í sumar kaþólskar trúarkenningar, eins og kenninguna um þríeinan guð, vítiseld og ódauðleika mannssálarinnar. Vottar Jehóva trúa því hins vegar að þessar kenningar stangist á við Biblíuna og gefi auk þess brenglaða mynd af Guði. — Sjá bls. 4-7 í þessu blaði.

Í öðru lagi byggist trú Votta Jehóva ekki á mótmælum heldur á uppbyggilegri fræðslu. Þeir taka eftirfarandi ráð Biblíunnar alvarlega: „Drottins þjóni sómir ekki að deila, heldur vera blíður við alla, laginn að kenna, þolugur við áreitíngar, sá eð með blíðlyndi leiðrétti mótstöðumenn.“ (2. Tímóteusarbréf 2:24, 25, Biblían 1859) Vottar Jehóva benda á að kenningar margra trúarbragða séu í mótsögn við Biblíuna. En markmið þeirra er ekki að endurbæta aðra trúarhópa. Markmið þeirra er að hjálpa einlægum einstaklingum að öðlast nákvæma þekkingu á Guði og orði hans, Biblíunni. (Kólossubréfið 1:9, 10) Þegar fólk annarrar trúar er þeim algerlega ósammála þá forðast vottar Jehóva að taka þátt í deilum sem leiða ekki til neins. — 2. Tímóteusarbréf 2:23.

Í þriðja lagi hafa Vottar Jehóva varðveitt einingu innan bræðrafélags síns sem nær um allan heiminn, ólíkt mótmælendahreyfingunni sem hefur skipst í hundruð kirkjudeilda. Vottar Jehóva í yfir 230 löndum fylgja hvatningu Páls postula um að vera „allir samhuga“ um kenningar Biblíunnar. Þeir skiptast ekki í ólíka flokka. Þess í stað eru þeir „fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun“. (1. Korintubréf 1:10, Biblían 1981) Þeir keppa allir sem einn að því „að varðveita einingu andans í bandi friðarins“. — Efesusbréfið 4:3.