Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ferðalag aftur í tímann

Ferðalag aftur í tímann

Bréf frá Bandaríkjunum

Ferðalag aftur í tímann

ÍMYNDAÐU þér hvað það væri gaman að fara í ferðalag og sjá hvernig forfeður manns lifðu. Í vissum skilningi fórum við fjögur saman í slíka ferð frá Sviss til Bandaríkjanna. Í hugum flestra eru Bandaríkin mjög nútímalegt samfélag að öllu leyti. En á ferðalagi okkar fórum við tvö hundruð ár aftur í tímann. Við ætlum að segja ykkur frá því.

Okkur var boðið að dvelja í þrjá mánuði í Indianaríki vegna þess að við tölum svissnesk-þýsku mállýskuna. Markmið okkar var að segja Amish-fjölskyldum, sem búa þar, frá fagnaðarerindinu um ríki Guðs en þær tala enn mállýsku forfeðra sinna. Mörg hundruð af þessum fjölskyldum eiga heima í Indiana.

Amish-fólkið er afkomendur anabaptista frá 17. öld. Nafnið má rekja til Jakobs Ammans, leiðtoga þeirra, sem bjó í Sviss. Með því að rannsaka Biblíuna hafði þetta guðrækna fólk áttað sig á því að það væri rangt að skíra ungbörn og gegna herþjónustu. Stjórnvöld ofsóttu það vegna afstöðu þess. Nokkrir létu jafnvel lífið vegna trúarsannfæringar sinnar. Ofsóknirnar færðust í aukana og fjöldi þessa fólks var nauðbeygt til að flýja til annarra landshluta innan Sviss og til Frakklands. En um miðja 19. öld höfðu þúsundir þeirra flúið til Bandaríkjanna. Þeir fluttu með sér menningu sína og svissnesk-þýsku mállýskuna.

Þetta vingjarnlega fólk rekur upp stór augu þegar við komum í heimsókn og tölum sama tungumál og það. Reynið að sjá þetta fyrir ykkur.

„Hvernig stendur á því að þið talið eins og við?“ spyrja þau á svissnesk-þýsku.

„Af því að við komum frá Sviss,“ svörum við.

„En þið eruð ekki Amish-fólk!“ Undrunin leynir sér ekki.

Margir opna upp á gátt og við okkur blasir lífsstíll sem virðist tilheyra löngu liðinni tíð. Í staðinn fyrir ljósaperur eru olíulampar, í stað bíla hestur og kerra, í stað rennandi vatns brunnur og vindmylla, í stað útvarps söngur.

Það sem hrífur okkur einna mest er auðmýkt og lítillæti þeirra sem við erum að heimsækja. Margt Amish-fólk leggur sérstaka áherslu á að lesa daglega í Biblíunni og það leggur mikið upp úr að ræða saman um biblíuleg málefni. Þá gefst tækifæri til að tala um fyrirætlun Guðs varðandi mannkynið og jörðina.

Það berst fljótt út að fólk frá Sviss sé komið í heimsókn. Margir biðja okkur um að heimsækja ættingja sína og við gerum það með ánægju. Spenningurinn og eftirvæntingin eykst að mun þegar okkur er boðið í heimsókn í skólann þeirra. Hvers megum við vænta?

Við berjum dyra. Kennarinn opnar og býður okkur samstundis inn í skólastofuna þar sem 38 nemendur mæna eftirvæntingarfullum augum á aðkomufólkið. Átta aldursbekkir eru saman í einni stofu og nemendurnir á aldrinum 7 til 15 ára. Stúlkurnar eru allar eins klæddar, í bláum kjólum og með hvít höfuðföt og drengirnir eru í svörtum buxum og dökkbláum skyrtum. Það er hátt til lofts. Þrír veggir eru blámálaðir. Skólatafla er á veggnum beint á móti þegar komið er inn. Rétt hjá er hnattlíkan og nokkur upprúlluð landakort. Í horninu er stór ofn úr járni.

Við fáum okkur sæti gegnt nemendunum. Börnin horfa á okkur forvitnum augum. Hver nemendahópur er kallaður upp að kennarapúltinu og spurður út úr um það sem þeim var sett fyrir daginn áður að læra heima. Það kemur okkur skemmtilega á óvart þegar kennarinn fer að spyrja börnin út úr um svissnesku Alpana. Kennslubókin er frekar gömul og kennarinn spyr okkur hvort Sviss sé enn þá eins og bókin lýsir landinu. Fara kýrnar enn þá í haga hátt uppi í hlíðarnar á sumrin eða er enn þá snjór í fjöllunum? Kennarinn ljómar þegar við sýnum litmyndir af snæviþöktum fjallatindunum í stað þeirra svart-hvítu í kennslubókinni.

Eiginkona kennarans, sem er honum til aðstoðar, varpar fram algengri spurningu: „Getið þið jóðlað?“ Við kunnum það ekki. Þar sem við vitum að Amish-fólkið er leikið í að syngja og jóðla biðjum við hópinn um að syngja fyrir okkur. Við fáum ósk okkar uppfyllta og hlustum hugfangin á þennan 40 manna kór. Síðan eru börnin send út í frímínútur.

Nú biður eiginkona kennarans okkur um að syngja eitthvað fyrir þau. Við höfum meðferðis texta nokkurra þjóðlaga á svissnesk-þýsku svo að við látum tilleiðast. Þetta fréttist út á leikvöllinn og á svipstundu eru öll börnin komin aftur inn í kennslustofuna. Við gerum okkar besta og syngjum frammi fyrir bekknum.

Síðar er okkur boðið í hádegismat hjá tólf manna fjölskyldu. Langt viðarborð er hlaðið góðgæti — kartöflustöppu, skinku, maís, brauði, ostum, grænmeti, sætabrauði og öðrum ábætisréttum. Áður en byrjað er að borða fer hver og einn með bæn í hljóði. Á meðan réttirnir eru látnir ganga á milli röbbum við um Sviss, land forfeðra þeirra, og þau segja okkur frá lífinu á býlinu. Börnin hvísla og flissa allan tímann meðan á borðhaldinu stendur. Þegar allir eru búnir að matast er aftur farið með bæn og það er merki um að börnin megi standa upp frá borðinu — en ekki til að leika sér. Allir fá það verkefni að taka af borðinu og þvo upp en fyrst verður að dæla vatninu og hita það.

Á meðan börnin þvo upp bjóða foreldrarnir okkur inn í setustofu. Þar er enginn sófi en við setjumst í þægilega ruggustóla úr viði. Gömul biblía á þýsku er tekin fram úr bókaskápnum og eins og algengt er á heimilum Amish-fjölskyldna erum við brátt komin í fjörlegar umræður um trúarleg málefni. Hvað ætlast Jehóva Guð fyrir með jörðina og mannkynið? Hvað átti Jesús við þegar hann sagði að hinir hógværu myndu erfa jörðina? Ætlar Guð virkilega að kvelja hina illu að eilífu í logandi víti? Hverjir fara eftir boði Jesú um að boða fagnaðarerindið út um alla jörðina? Það gleður okkur innilega að ræða allar þessar spurningar, og miklu fleiri, við fólk sem hefur trúarlegan áhuga og er með Biblíuna sér við hönd.

Við eigum góðar minningar um ferðalagið aftur í tímann þar sem við upplifðum svo margt ánægjulegt. Við vonum og biðjum að þessar heimsóknir og umræður á svissnesk-þýsku hafi ekki aðeins opnað margar dyr heldur einnig mörg hjörtu fyrir nákvæmri þekkingu á sannleikanum sem er að finna í orði Guðs, Biblíunni.