Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Messías — leið Guðs til að veita hjálpræði

Messías — leið Guðs til að veita hjálpræði

Messías — leið Guðs til að veita hjálpræði

„Eins og allir deyja vegna sambands síns við Adam, svo munu allir lífgaðir verða vegna sambands síns við Krist.“ — 1. KOR. 15:22.

1, 2. (a) Hver voru viðbrögð Andrésar og Filippusar þegar þeir hittu Jesú? (b) Af hverju getum við sagt að við höfum meiri sannanir fyrir því að Jesús sé Messías en kristnir menn á fyrstu öld höfðu?

„VIÐ höfum fundið Messías!“ sagði Andrés við Pétur, bróðir sinn. Hann var sannfærður um að Jesús frá Nasaret væri hinn smurði. Filippus lét líka sannfærast, leitaði uppi Natanel, vin sinn, og sagði við hann: „Við höfum fundið þann sem Móse skrifar um í lögmálinu og einnig spámennirnir, Jesú frá Nasaret, son Jósefs.“ — Jóh. 1:40, 41, 45.

2 Ert þú sannfærður um að Jesús sé hinn fyrirheitni Messías, sá sem Jehóva lofaði að myndi ‚leiða okkur til hjálpræðis‘? (Hebr. 2:10) Nú á dögum höfum við miklu fleiri sannanir fyrir því að hann hafi verið Messías en fylgjendur hans á fyrstu öld höfðu. Atburðirnir í lífi Jesú frá fæðingu hans til upprisu, eins og þeim er lýst í innblásnu orði Guðs, sanna svo ekki verður um villst að Jesús var Kristur. (Lestu Jóhannes 20:30, 31.) Af Biblíunni má einnig sjá að Jesús myndi halda áfram frá himnum að uppfylla hlutverk sitt sem Messías. (Jóh. 6:40; lestu 1. Korintubréf 15:22.) Þú getur líka sagt, miðað við það sem þú hefur lært af Biblíunni, að þú hafir „fundið Messías“. En fyrst skulum við skoða hvernig fyrstu lærisveinar Jesú komust réttilega að þeirri niðurstöðu að þeir hefðu fundið Messías.

Leyndardómurinn um Messías opinberaður smám saman

3, 4. (a) Hvernig gátu lærisveinarnir á fyrstu öld „fundið Messías“? (b) Af hverju myndirðu segja að Jesús einn hafi getað uppfyllt alla Messíasarspádómana?

3 Hvernig gátu fylgjendur Jesú á fyrstu öld verið vissir um að hann væri Messías? Fyrir milligöngu spámanna hafði Jehóva smám saman opinberað hvað myndi einkenna hinn fyrirheitna Messías. Biblíufræðingur nokkur líkti þessu ferli við það að setja saman styttu úr mörgum marmarabútum. Ímyndaðu þér að margir menn, sem hefðu aldrei átt nein samskipti, kæmu hver um sig með marmarabút inn í herbergi. Ef þessir bútar pössuðu saman og mynduðu fullkomna styttu væri rökrétt að álykta að einhver hefði bak við tjöldin gert styttuna og sent mönnunum bútana. Á sambærilegan hátt veitir hver Messíasarspádómur mikilvægar upplýsingar um Messías.

4 Hverjar eru líkurnar á því að allir spádómarnir um Messías hafi getað uppfyllst fyrir tilviljun á einum manni? Fræðimaður nokkur sagði að líkurnar á því að einhver hefði getað uppfyllt alla Messíasarspádómana fyrir tilviljun væru „svo hverfandi“ að það væri hrein fjarstæða. „Jesú tókst þetta — og engum nema Jesú í allri mannkynssögunni“.

5, 6. (a) Hvernig yrði dóminum gegn Satan fullnægt? (b) Hvernig opinberaði Guð smám saman í hvaða ættlegg fyrirheitni niðjinn kæmi?

5 Messíasarspádómarnir fjalla um ‚leyndardóm‘ sem hefur þýðingu fyrir allan alheim. (Kól. 1:26, 27; 1. Mós. 3:15) Í þessum leyndardómi fólst dómur yfir Satan djöflinum, „hinum gamla höggormi“ sem steypti mannkyninu út í synd og dauða. (Opinb. 12:9) Hvernig yrði þeim dómi fullnægt? Jehóva sagði fyrir að ‚kona‘ myndi eignast „niðja“ sem myndi merja höfuð Satans. ‚Niðjinn‘, sem spáð hafði verið, myndi merja höfuð höggormsins og uppræta orsök uppreisnar, syndar og dauða. En fyrst myndi Guð leyfa Satan að höggva „niðja“ konunnar í hælinn í táknrænum skilningi.

6 Smám saman opinberaði Jehóva hver fyrirheitni ‚niðjinn‘ myndi verða. Guð vann Abraham eið og sagði: „Allar þjóðir heims munu blessun hljóta af niðjum þínum.“ (1. Mós. 22:18) Móse spáði að þessi niðji yrði ‚spámaður‘ sér meiri. (5. Mós. 18:18, 19) Davíð var lofað að Messías kæmi í ættlegg hans og myndi erfa hásæti hans um aldur og ævi. Og spámenn staðfestu það síðar. — 2. Sam. 7:12, 16; Jer. 23:5, 6.

Hvað sýndi að Jesús væri Messías?

7. Hvernig má segja að Jesús hafi komið frá ‚konu‘ Guðs?

7 Söfnuði andavera Guðs á himnum er líkt við konu og þaðan sendi Guð son sinn, fyrsta sköpunarverk sitt, til jarðar til að vera fyrirheitni ‚niðjinn‘. Einkasonur Guðs varð því að ‚svipta sig öllu‘, það er að segja lífinu á himnum, og fæðast sem fullkomið mannsbarn. (Fil. 2:5-7; Jóh. 1:14) Heilagur andi ‚yfirskyggði‘ Maríu og það tryggði að barnið yrði „heilagt, sonur Guðs“. — Lúk. 1:35.

8. Hvernig uppfyllti Jesús Messíasarspádóm þegar hann lét skírast?

8 Messíasarspádómarnir gáfu til kynna hvar og hvenær Jesús kæmi fram á sjónarsviðið. Hann fæddist í Betlehem eins og spáð hafði verið. (Míka 5:1) Á fyrstu öldinni voru Gyðingar fullir eftirvæntingar. Þar sem fólk var að bíða eftir Messíasi spurðu sumir „hvort Jóhannes [skírari] kynni að vera Kristur“. En Jóhannes svaraði: „Sá kemur sem mér er máttugri.“ (Lúk. 3:15, 16) Haustið 29, þegar Jesús var þrítugur, kom hann til Jóhannesar til að láta skírast. Hann kom því fram sem Messías nákvæmlega á réttum tíma. (Dan. 9:25) Síðan hóf hann viðburðaríka þjónustu sína. „Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd,“ sagði hann. — Mark. 1:14, 15.

9. Um hvað voru lærisveinar Jesú sannfærðir þótt þeir skildu ekki allt til fulls?

9 En það þurfti að leiðrétta væntingar fólks. Jesús var hylltur sem konungur og það með réttu en fólk skildi ekki til fulls að ríki hans kæmi ekki fyrr en síðar og að hann myndi stjórna frá himnum. (Jóh. 12:12-16; 16:12, 13; Post. 2:32-36) En þegar Jesús spurði: „Hvern segið þið mig vera?“ svaraði Pétur hiklaust: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“ (Matt. 16:13-16) Pétur svaraði á svipaðan hátt þegar margir hneyksluðust á kennslu Jesú og sneru baki við honum. — Lestu Jóhannes 6:68, 69.

Að hlýða á Messías

10. Af hverju lagði Jehóva áherslu á nauðsyn þess að hlýða á Jesú?

10 Á himnum var einkasonur Guðs voldug andavera. Á jörðinni var Jesús fulltrúi föður síns. (Jóh. 16:27, 28) Hann sagði: „Kenning mín er ekki mín heldur hans er sendi mig.“ (Jóh. 7:16) Jehóva staðfesti við ummyndunina að Jesús væri Messías og gaf eftirfarandi fyrirmæli: „Hlýðið á hann!“ (Lúk. 9:35) Já, hlýðið á hinn útvalda og fylgið fyrirmælum hans. Það krefst trúar og góðra verka en þetta tvennt er algerlega nauðsynlegt til að þóknast Guði og hljóta eilíft líf. — Jóh. 3:16, 35, 36.

11, 12. (a) Af hverju höfnuðu Gyðingar á fyrstu öld Jesú sem Messíasi? (b) Hverjir trúðu á Jesú?

11 Þótt órækar sannanir væru fyrir því að Jesús væri Messías höfnuðu flestir Gyðingar honum. Af hverju? Af því að þeir höfðu sínar eigin fyrir fram ákveðnu hugmyndir um Messías, þar á meðal að hann yrði pólitískur leiðtogi sem myndi frelsa þá undan oki Rómverja. (Lestu Jóhannes 12:34.) Þess vegna gátu þeir ekki tekið við Messíasi sem uppfyllti spádómana um að menn myndu forðast hann, að hann yrði fyrirlitinn, harmkvælamaður, kunnugur þjáningum og yrði að lokum líflátinn. (Jes. 53:3, 5) Sumir dyggir lærisveinar Jesú urðu líka fyrir vonbrigðum með það að hann skyldi ekki veita pólitíska lausn. En þeir voru trúir og með tímanum fengu þeir nákvæmari skilning. — Lúk. 24:21.

12 Önnur ástæða fyrir því að fólk hafnaði Jesú sem hinum fyrirheitna Messíasi voru kenningar hans en mörgum fannst erfitt að meðtaka þær. Til að fá að ganga inn í Guðsríki þurftu menn að ‚afneita sjálfum sér‘, ‚eta‘ hold og blóð Jesú, ‚fæðast að nýju‘ og vera „ekki af heiminum“. (Mark. 8:34; Jóh. 3:3; 6:53; 17:14, 16) Hinum stoltu, ríku og hræsnisfullu fannst of erfitt að uppfylla þessi skilyrði. En auðmjúkir Gyðingar tóku við Jesú sem Messíasi og hið sama er að segja um suma Samverja sem sögðu: „Hann er sannarlega frelsari heimsins.“ — Jóh. 4:25, 26, 41, 42; 7:31.

13. Hvernig var Jesús höggvinn í hælinn á táknrænan hátt?

13 Jesús sagði fyrir að æðstuprestarnir myndu dæma hann og heiðingjar staurfesta hann en að hann myndi rísa upp á þriðja degi. (Matt. 20:17-19) Hann staðfesti frammi fyrir æðstaráðinu að hann væri „Kristur, sonur Guðs“, og var dæmdur fyrir guðlast. (Matt. 26:63-66) Pílatus komst að þeirri niðurstöðu að Jesús hefði „ekkert það drýgt er dauða sé vert“ en þar sem Gyðingar ákærðu hann einnig fyrir uppreisnaráróður „framseldi [Pílatus] þeim Jesú að þeir færu með hann sem þeir vildu“. (Lúk. 23:13-15, 25) Þannig ‚afneituðu‘ þeir „höfðingja lífsins“ og lögðu á ráðin um að lífláta hann þrátt fyrir allar þær miklu sannanir fyrir því að hann væri sendur af Guði. (Post. 3:13-15) Messías var „afmáður“ eins og spáð hafði verið. Hann var staurfestur á páskadag árið 33. (Dan. 9:26, 27; Post. 2:22, 23) Með þessum grimmilega dauðdaga var hann höggvinn í „hælinni“ eins og lýst var í spádóminum í 1. Mósebók 3:15.

Af hverju þurfti Messías að deyja?

14, 15. (a) Hvaða tvær ástæður eru fyrir því að Jehóva leyfði að Jesús dæi? (b) Hvað gerði Jesús eftir að hann var reistur upp?

14 Það eru tvær mikilvægar ástæður fyrir því að Jehóva leyfði að Jesús dæi. Í fyrsta lagi upplýsti Jesús mikilvægan þátt í ‚leyndardóminum‘ með því að vera trúfastur allt til dauða. Hann sannaði í eitt skipti fyrir öll að fullkominn maður getur verið trúfastur og varið drottinvald Guðs þrátt fyrir að Satan reyni hann til hins ýtrasta. (1. Tím. 3:16) Í öðru lagi kom Mannssonurinn til að „gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla,“ eins og Jesús sagði. (Matt. 20:28) Með þessu lausnargjaldi var greidd sektin fyrir syndina sem afkomendur Adams erfðu. Og nú var hægt að veita öllum eilíft líf sem viðurkenndu að Jesús væri sá sem Guð notar til að veita mönnum hjálpræði. — 1. Tím. 2:5, 6.

15 Eftir þrjá daga í gröfinni var Kristur reistur upp. Í 40 daga birtist hann lærisveinum sínum til að sanna að hann væri lifandi og til að gefa þeim frekari leiðbeiningar. (Post. 1:3-5) Síðan steig hann upp til himna til að færa Jehóva andvirði dýrmætrar fórnar sinnar og bíða þess tíma að nærvera hans sem konungur Messíasarríkisins ætti að hefjast. Þangað til hafði hann í nógu að snúast.

Jesús lýkur hlutverki sínu sem Messías

16, 17. Lýstu hlutverki Jesú sem Messías eftir að hann steig upp til himna.

16 Frá því að Jesús var reistur upp hefur hann verið konungur kristna safnaðarins og haft dygga umsjón með starfsemi hans. (Kól. 1:13) Á tilsettum tíma fór hann að beita mætti sínum sem konungur Guðsríkis. Spádómar Biblíunnar og heimsatburðir staðfesta að nærvera hans sem konungur hófst árið 1914 en þá hófst einnig endalokatími veraldar. (Matt. 24:3; Opinb. 11:15) Stuttu eftir það fór hann fyrir heilögum englum þegar Satan og illu öndunum var kastað niður af himnum. — Opinb. 12:7-10.

17 Prédikunar- og kennslustarfið, sem Jesús hóf árið 29, er í þann mund að ná hámarki. Bráðum dæmir hann alla sem lifa. Þá mun hann segja við auðmjúka menn sem viðurkenna að Jehóva noti hann til að veita hjálpræði: „Takið við ríkinu sem yður var ætlað frá grundvöllun heims.“ (Matt. 25:31-34, 41) Þeim sem hafna Jesú sem konungi verður útrýmt þegar hann leiðir himneskar hersveitir gegn allri illsku. Síðan bindur Jesús Satan og kastar honum og illum öndum hans í „undirdjúpið“. — Opinb. 19:11-14; 20:1-3.

18, 19. Hverju kemur Jesús til leiðar þegar hann fullnar hlutverk sitt sem Messías og hvað hefur það í för með sér fyrir hlýðna menn?

18 Þau þúsund ár, sem Jesús stjórnar, mun hann rísa fyllilega undir nafni sem „Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir [og] Friðarhöfðingi“. (Jes. 9:5, 6) Undir stjórn hans verða mennirnir fullkomnir, þar á meðal þeir sem hann reisir upp. (Jóh. 5:26-29) Messías leiðir þá fúsa menn „til vatnslinda lífsins“ og gerir hlýðnu mannkyni kleift að eignast friðsamlegt samband við Jehóva. (Lestu Opinberunarbókina 7:16, 17.) Eftir lokaprófið verður öllum uppreisnarseggjum, þar á meðal Satan og illu öndunum, „kastað í díkið elds“ en þar með fær ‚höggormurinn‘ banahögg í höfuðið. — Opinb. 20:10.

19 Jesús fullnar hlutverk sitt sem Messías á dásamlegan og fullkominn hátt. Jörðin verður paradís byggð endurleystum mönnum sem lifa að eilífu við fullkomna heilsu og hamingju. Heilagt nafn Jehóva hefur þá verið hreinsað af öllum ákærum og búið að staðfesta í eitt skipti fyrir öll að hann er réttmætur Drottinn alheims. Dásamleg arfleið bíður allra sem hlýða hinum smurða þjóni Guðs.

Hefur þú fundið Messías?

20, 21. Hvaða ástæður hefurðu til þess að tala við aðra um Messías?

20 Frá árinu 1914 höfum við lifað á nærverutíma Krists (á grísku parúsíʹa). Þótt nærvera hans sem konungur Guðsríkis sé ósýnileg er hún augljós af uppfyllingu biblíuspádóma. (Opinb. 6:2-8) Þrátt fyrir það hunsa flestir sannanirnar fyrir því að Messías sé nærverandi alveg eins og Gyðingar gerðu á fyrstu öld. Fólk vill fá pólitískan messías eða að minnsta kosti messías sem starfar fyrir atbeina mennskra valdhafa. En þú hefur lært að Jesús sé nú þegar ríkjandi sem konungur Guðsríkis. Fannst þér ekki stórkostlegt að komast að því? Fannst þú þig ekki knúinn til að segja eins og lærisveinarnir á fyrstu öld: „Við höfum fundið Messías“?

21 Leggurðu áherslu á hlutverk Jesú sem Messías þegar þú segir öðrum frá sannleikanum? Ef þú gerir það lærirðu að meta enn meir það sem hann hefur gert fyrir þig, það sem hann er að gera núna og það sem hann á eftir að gera. Eflaust hefurðu talað við ættingja og vini um Messías líkt og þeir Andrés og Filippus. Hvernig væri að fara aftur til þeirra og sýna þeim af enn meiri sannfæringu að Jesús Kristur sé vissulega hinn fyrirheitni Messías, sá sem Guð notar til að leiða okkur til hjálpræðis?

Geturðu útskýrt?

• Hvernig gátu lærisveinarnir á fyrstu öld fundið Messías?

• Hvaða tvær mikilvægar ástæður eru fyrir því að Jesús dó?

• Hvað á Jesús enn eftir að gera til að fullna hlutverk sitt sem Messías?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 21]

Hvernig gat fólk á fyrstu öld vitað að Jesús væri hinn fyrirheitni Messías?

[Mynd á blaðsíðu 23]

Leggurðu áherslu á hlutverk Jesú sem Messías þegar þú talar við aðra?