Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Bara einn drykk enn“

„Bara einn drykk enn“

„Bara einn drykk enn“

ALLEN byrjaði að misnota áfengi þegar hann var 11 ára. * Hann og vinir hans léku sér í skóginum og hermdu eftir persónum sem þeir sáu í bíómyndunum. Persónurnar, sem þeir hermdu eftir, voru skáldaðar en áfengið, sem Allen og vinir hans drukku, var raunverulegt.

Tony var fertugur þegar hann fór að auka drykkjuna. Í stað þess að fá sér eitt til tvö glös af áfengi á dag urðu þau fimm til sex. Að lokum hætti hann að geta talið hve mikið hann drakk yfir daginn.

Allen leitaði sér aðstoðar vegna áfengisvandans. Tony hafnaði hjálpinni sem fjölskylda og vinir buðu honum. Allen er enn á lífi og getur sagt sögu sína en Tony dó fyrir nokkrum árum í mótorhjólaslysi eftir að hafa drukkið of mikið.

Þótt einhver drekki í einrúmi hefur ofdrykkja hans óhjákvæmilega áhrif á líf annarra og það oft með hörmulegum afleiðingum. * Ofnotkun áfengis á oft sinn þátt í andlegu og líkamlegu ofbeldi, árásum og morðum sem framin eru, bílslysum og vinnuslysum auk þess að hafa mjög skaðleg áhrif á heilsuna. Misnotkun áfengis kostar samfélagið gríðarlegar fjárhæðir ár hvert svo ekki sé talað um persónulegan og tilfinningalegan skaða sem einstaklingar, fjölskyldur og börn verða fyrir.

En samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna eiga „ekki allir við áfengisvandamál að stríða þótt þeir drekki reglulega og þeir sem stríða við áfengisvanda drekka ekki endilega á hverjum degi“. Margir, sem eru ekki alkóhólistar, hafa vanið sig á að drekka of mikið án þess að átta sig á því. Aðrir drekka bara öðru hverju en drekka þá meira en fimm glös í hvert sinn.

Ef þú velur að drekka áfengi, hversu mikið er þá of mikið? Hvernig geturðu vitað hvenær þú átt ekki að fá þér meira vín? (Orðskviðirnir 23:29, 30) Í næstu greinum koma fram gagnlegar upplýsingar um þetta mál.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 5 Þar sem karlmenn eru fjórum sinnum líklegri en konur til að verða alkóhólistar er oftast talað um karla í þessum greinum. Umfjöllunin á engu að síður við bæði kynin.