Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju ættirðu að vígjast Jehóva?

Af hverju ættirðu að vígjast Jehóva?

Af hverju ættirðu að vígjast Jehóva?

„Á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs sem ég heyri til.“ — POST. 27:23.

1. Hvað gerir fólk áður en það lætur skírast og hvaða spurningar vekur það?

„HEFUR þú, á grundvelli fórnar Jesú Krists, iðrast synda þinna og vígt þig Jehóva til að gera vilja hans?“ Þetta er önnur af spurningunum sem skírnþegar svara í lok skírnarræðu. Af hverju þurfa kristnir menn að vígjast Jehóva? Hvernig er það okkur til góðs að vera vígð Guði? Af hverju er ekki hægt að tilbiðja Guð í samræmi við vilja hans án þess að vígjast honum? Til að skilja svörin þurfum við að kanna hvað það er að vígjast Guði.

2. Hvað merkir það að vígjast Jehóva?

2 Hvað merkir það að vígjast Guði? Tökum eftir hvernig Páll postuli lýsti sambandi sínu við Guð. Hann lenti í sjávarháska og sagði þá í áheyrn annarra skipsfélaga að Jehóva væri ,sá Guð sem hann heyrði til‘. (Lestu Postulasöguna 27:22-24.) Allir sannkristnir menn tilheyra Jehóva. Aftur á móti er heimurinn á heildina litið „á valdi hins vonda“. (1. Jóh. 5:19) Kristnir menn verða eign Jehóva þegar þeir vígjast honum í bæn í samræmi við vilja hans. Með því að vígjast Guði gefum við honum persónulegt loforð. Skírnin kemur svo í kjölfarið.

3. Hvað táknaði skírn Jesú og hvernig geta fylgjendur hans líkt eftir honum?

3 Jesús setti okkur fordæmi með því að ákveða sjálfur að gera vilja Guðs. Hann var vígður Guði frá fæðingu vegna þess að Ísraelsþjóðin var vígð Guði. En þegar hann skírðist gekk hann lengra en krafist var samkvæmt lögmálinu. Að sögn Biblíunnar sagði hann: „Sjá, ég er kominn til að gera vilja þinn, Guð minn.“ (Hebr. 10:7; Lúk. 3:21) Skírn Jesú táknaði því að hann bauð sig fram til að gera vilja föður síns á himnum. Fylgjendur hans líkja eftir honum þegar þeir láta skírast. Í þeirra tilfelli er niðurdýfingarskírnin hins vegar opinber yfirlýsing um að þeir hafi vígst Guði persónulega í bæn.

Hvernig er það okkur til góðs að vígjast Guði?

4. Hvað má læra um skuldbindingu og hollustu af vináttu þeirra Davíðs og Jónatans?

4 Það er alvörumál fyrir kristinn mann að vígjast Guði og það felur meira í sér en að skuldbindast honum. En hvernig er það okkur til góðs að vígjast Guði? Til samanburðar skulum við kanna hvernig það er til góðs fyrir fólk að skuldbindast hvert öðru. Tökum vináttusamband sem dæmi. Til að njóta góðrar vináttu þarf maður að taka á sig ábyrgðina sem fylgir því að vera vinur. Það felur í sér tryggð og hollustu — þér finnst þú skuldbundinn að láta þér annt um vin þinn. Davíð og Jónatan eru eitt fegursta dæmið, sem sagt er frá í Biblíunni, um sterk vináttutengsl. Þeir gerðu jafnvel vináttusáttmála hvor við annan. (Lestu 1. Samúelsbók 17:57; 18:1, 3.) Þó að vináttubönd af þessu tagi séu frekar sjaldgæf breytir það ekki því að gagnkvæm skuldbinding og hollusta stuðlar yfirleitt að góðri vináttu. — Orðskv. 17:17; 18:24.

5. Hvernig gat þræll notið góðs af því til frambúðar að eiga góðan húsbónda?

5 Í lögmálinu, sem Guð gaf Ísraelsmönnum, er lýst öðrum tengslum milli manna þar sem skuldbindingar voru til góðs. Ef þræll vildi fá að njóta þess öryggis að búa til frambúðar hjá góðum húsbónda gat hann gert varanlegan og bindandi samning við hann. Í lögmálinu segir: „Hafi nú þrællinn sagt: Mér þykir vænt um húsbónda minn, eiginkonu mína og börn og vil því ekki fá frelsi, skal húsbóndi hans leiða hann fram fyrir Guð og að dyrunum eða dyrastafnum. Síðan skal húsbóndi hans stinga al í gegnum eyra hans og hann verða þræll hans ævilangt.“ — 2. Mós. 21:5, 6.

6, 7. (a) Hvers vegna er það til góðs fyrir fólk að skuldbinda sig? (b) Hvað má álykta af því um samband okkar við Jehóva?

6 Skuldbinding skiptir miklu máli í hjónabandi. Þegar fólk gengur í hjónaband er það ekki að skuldbinda sig samningi heldur annarri manneskju. Ef karl og kona eru í óvígðri sambúð búa hvorki þau né börnin þeirra við raunverulegt öryggi. En þegar fólk er skuldbundið hvort öðru í heiðvirðu hjónabandi hefur það sterka biblíulega ástæðu til að reyna til hins ýtrasta að leysa ágreiningsmál sín á kærleiksríkan hátt. — Matt. 19:5, 6; 1. Kor. 13:7, 8; Hebr. 13:4.

7 Á biblíutímanum reyndist það til góðs fyrir fólk að gera bindandi samninga um viðskipti og atvinnu. (Matt. 20:1, 2, 8) Hið sama er að segja um okkar tíma. Til dæmis er það okkur til góðs að gera skriflega samninga áður en við stofnum til viðskipta eða þegar við ráðum okkur í vinnu. Fyrst skuldbindingar eru til góðs þegar um er að ræða vináttusambönd, hjónaband og atvinnu hlýtur að skipta enn meira máli í samskiptum okkar við Jehóva að vígjast honum skilyrðislaust. Við skulum nú kanna hvernig það var til góðs fyrir fólk forðum daga að vígjast Jehóva Guði og að hvaða leyti það var miklu meira en hrein skuldbinding.

Það var til góðs fyrir Ísraelsþjóðina að vera vígð Guði

8. Hvað fólst í því fyrir Ísraelsþjóðina að vera vígð Guði?

8 Ísraelsþjóðin í heild vígðist Jehóva þegar hún hét honum hollustu. Jehóva safnaði þjóðinni saman við Sínaífjall og sagði: „Ef þið nú hlýðið á mig af athygli og haldið sáttmála minn skuluð þið verða sérstök eign mín, umfram aðrar þjóðir.“ Fólkið svaraði einum rómi: „Við skulum gera allt sem Drottinn hefur boðið.“ (2. Mós. 19:4-8) Að vígjast Guði fól miklu meira í sér fyrir þjóðina en að skuldbinda sig til að gera eitthvað ákveðið. Það þýddi að þjóðin tilheyrði Jehóva og hann fór með hana eins og ,sérstaka eign sína‘.

9. Hvernig var það til góðs fyrir Ísraelsmenn að vera vígðir Guði?

9 Ísraelsmenn nutu góðs af því að tilheyra Jehóva. Hann var þeim trúr og tryggur og annaðist þá eins og ástríkt foreldri annast barn sitt. Hann sagði við þjóðina: „Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt þá gleymi ég þér samt ekki.“ (Jes. 49:15) Jehóva leiðbeindi þeim með hjálp lögmálsins, hvatti þá fyrir milligöngu spámanna og verndaði þá fyrir atbeina engla. Sálmaskáld kvað: „Hann boðar Jakobi orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði. Slíkt hefur hann ekki gert fyrir neina aðra þjóð.“ (Sálm. 147:19, 20; lestu Sálm 34:8, 20; 48:15.) Jehóva annast þá sem vígjast honum nú á dögum rétt eins og hann annaðist þjóðina sem tilheyrði honum forðum daga.

Af hverju ættum við að vígjast Guði?

10, 11. Erum við fædd inn í alheimsfjölskyldu Guðs? Skýrðu svarið.

10 Þegar komið er að vígslu og skírn er sumum ef til vill spurn af hverju það sé ekki hægt að tilbiðja Guð án þess að vígjast honum. Við skiljum ástæðuna þegar við hugleiðum stöðu okkar frammi fyrir Guði. Munum að við erum öll syndarar vegna þess að við erum fædd utan fjölskyldu Guðs. (Rómv. 3:23; 5:12) Við fáum ekki að tilheyra alheimsfjölskyldu hans nema við vígjumst honum. Lítum nánar á málið.

11 Ekkert okkar á jarðneskan föður sem gat gefið okkur þess konar líf sem Guð ætlaðist til, það er að segja eilíft líf. (1. Tím. 6:19) Við fæddumst ekki sem börn Guðs vegna þess að þegar fyrstu hjónin syndguðu slitnaði mannkynið úr tengslum við ástríkan föður sinn og skapara. (Samanber 5. Mósebók 32:5.) Þaðan í frá hefur mannkynið staðið utan alheimsfjölskyldu Jehóva og verið fráhverft honum.

12. (a) Hvernig geta ófullkomnir menn fengið að tilheyra fjölskyldu Guðs? (b) Hvað þurfum við að gera áður en við látum skírast?

12 Sem einstaklingar getum við hins vegar óskað eftir því að Guð leyfi okkur að tilheyra fjölskyldu viðurkenndra þjóna sinna. * Hvernig geta syndarar eins og við átt kost á því? Páll postuli skrifaði: „Vér vorum óvinir Guðs og urðum sættir við hann með dauða sonar hans.“ (Rómv. 5:10, Biblían 1981) Með því að skírast biðjum við Guð að gefa okkur góða samvisku svo að við getum verið honum þóknanleg. (1. Pét. 3:21) En við þurfum að gera ákveðnar ráðstafanir áður en við skírumst. Við þurfum að kynnast Guði, læra að treysta honum, iðrast og breyta háttalagi okkar. (Jóh. 17:3; Post. 3:19; Hebr. 11:6) Og enn eitt er nauðsynlegt áður en við getum fengið inngöngu í fjölskyldu Guðs. Hvað er það?

13. Af hverju er viðeigandi að við þurfum að vígjast Guði til að fá að tilheyra fjölskyldu hans?

13 Áður en sá sem hefur verið fjarlægur Guði getur fengið inngöngu í viðurkennda fjölskyldu hans þarf hann að gefa Guði hátíðlegt loforð. Til að skilja ástæðuna fyrir því skulum við hugsa okkur heiðvirðan föður sem sýnir umhyggju munaðarlausum unglingi og langar til að taka hann inn í fjölskylduna. Faðirinn er þekktur fyrir að vera góður maður. En áður en hann viðurkennir unglinginn sem son sinn vill hann að unglingurinn gefi sér loforð. Hann segir því við hann: „Áður en ég viðurkenni þig sem son minn þarf ég að fá að vita hvort þú munir elska mig og virða sem föður.“ Því aðeins að unglingurinn lofi því hátíðlega fær hann að tilheyra fjölskyldunni. Er það nokkuð ósanngjarnt? Jehóva tekur þá eina inn í fjölskyldu sína sem eru fúsir til að vinna honum heit og vígjast honum. Í Biblíunni segir: „Bjóðið fram sjálf ykkur að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn.“ — Rómv. 12:1.

Merki um kærleika og trú

14. Hvernig er það merki um kærleika að vígjast Guði?

14 Með því að gefa Guði vígsluheit látum við í ljós að við elskum hann innilega. Að sumu leyti má líkja því við hjúskaparheit. Kristinn brúðgumi tjáir ást sína með því að heita að vera brúði sinni trúr og tryggur hvað sem á dynur. Hann er ekki bara að gefa loforð um að gera eitthvað ákveðið heldur er hann að skuldbinda sig brúði sinni. Hann veit að hann fær ekki að búa með henni nema hann vinni hjúskaparheitið. Við getum ekki heldur notið að fullu þeirra gæða sem fylgja því að tilheyra fjölskyldu Jehóva nema við gefum honum vígsluheit. Við vígjumst því Guði vegna þess að við þráum að tilheyra honum, þótt við séum ófullkomin, og við erum staðráðin í að vera honum trú og trygg hvað sem á dynur. — Matt. 22:37.

15. Hvernig er það merki um trú að vígjast Guði?

15 Við sýnum trú með því að vígjast Guði. Hvernig þá? Þar sem við trúum á Jehóva erum við sannfærð um að það sé okkur til góðs að eiga náið samband við hann. (Sálm. 73:28) Við vitum að það verður ekki alltaf auðvelt að ganga með Guði þar sem við búum meðal „rangsnúinnar og gerspilltrar kynslóðar“, en við treystum að hann styrki okkur eins og hann hefur heitið. (Fil. 2:15; 4:13) Við vitum að við erum ófullkomin en trúum og treystum að Jehóva sýni okkur miskunn, jafnvel þegar okkur verður eitthvað á. (Lestu Sálm 103:13, 14; Rómverjabréfið. 7:21-25.) Við trúum að Jehóva umbuni okkur ef við erum staðráðin í að vera honum ráðvönd. — Sálm. 101:6.

Þeir sem vígjast Guði eru hamingjusamir

16, 17. Af hverju verðum við hamingjusöm ef við vígjumst Jehóva?

16 Við verðum hamingjusöm ef við vígjumst Jehóva vegna þess að það hefur í för með sér að við gefum af sjálfum okkur. Jesús kom inn á grundvallarsannindi þegar hann sagði: „Sælla er að gefa en þiggja.“ (Post. 20:35) Hann kynntist af eigin raun ánægjunni af því að gefa meðan hann þjónaði hér á jörð. Hann neitaði sér um hvíld, mat og þægindi ef þörf var á til að geta hjálpað öðrum að finna veginn til lífsins. (Jóh. 4:34) Hann hafði yndi af því að gleðja hjarta föður síns. „Ég geri ætíð það sem honum þóknast,“ sagði hann. — Jóh. 8:29; Orðskv. 27:11.

17 Jesús benti fylgjendum sínum á bestu lífsleiðina þegar hann sagði: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér.“ (Matt. 16:24) Við styrkjum samanbandið við Jehóva með því að gera það. Er hægt að hugsa sér nokkurn annan sem er betur treystandi til að annast okkur á kærleiksríkan hátt?

18. Af hverju getur ekkert veitt okkur viðlíka hamingju og að vígjast Jehóva og lifa samkvæmt því?

18 Ekkert annað getur veitt okkur viðlíka hamingju og að vígjast Jehóva og lifa síðan samkvæmt vígsluheiti okkar með því að gera vilja hans. Margir helga sig því að sækjast eftir efnislegum auði en þeim hlotnast hvorki sönn hamingja né lífsfylling. Þeir sem vígjast Jehóva finna hins vegar varanlega hamingju. (Matt. 6:24) Það er mikil gleði og heiður að fá að vera „samverkamenn Guðs“ en við erum þó ekki helguð eða vígð ákveðnu verki heldur þakklátum Guði. (1. Kor. 3:9) Enginn er þakklátari en hann fyrir þá fórnfýsi sem dyggir þjónar hans sýna. Hann á meira að segja eftir að veita þeim æskuþróttinn á ný þannig að þeir geti notið umhyggju hans að eilífu. — Job. 33:25; lestu Hebreabréfið 6:10.

19. Hvaða heiður hljóta þeir sem vígja Jehóva líf sitt?

19 Með því að vígja Jehóva líf þitt eignast þú náið samband við hann. „Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur,“ segir í Biblíunni. (Jak. 4:8; Sálm. 25:14) Í greininni á eftir verður fjallað um hvers vegna við getum treyst að það sé rétt ákvörðun að tilheyra Jehóva.

[Neðanmáls]

^ gr. 12 ,Aðrir sauðir‘ Jesú verða ekki synir Guðs fyrr en þúsund árunum er lokið. Þar sem þeir hafa vígst Guði geta þeir hins vegar ávarpað hann „föður“, og það má réttilega líta svo á að þeir tilheyri fjölskyldu þjóna Jehóva. — Jóh. 10:16; Jes. 64:7; Matt. 6:9; Opinb. 20:5.

Hvert er svarið?

• Hvað er fólgið í því að vígjast Guði?

• Hvernig er það okkur til góðs að vera vígð Guði?

• Af hverju þurfa kristnir menn að vígjast Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 6]

Það veitir okkur varanlega hamingju að vígjast Jehóva og lifa samkvæmt því.