Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ein hjörð, einn hirðir

Ein hjörð, einn hirðir

Ein hjörð, einn hirðir

„Þið, sem fylgið mér, [munuð] einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.“ — MATT. 19:28.

1. Hvaða samband átti Jehóva við afkomendur Abrahams og af hverju þýddi það ekki að hann hafi sniðgengið allar aðrar þjóðir?

JEHÓVA elskaði Abraham og sýndi afkomendum hans tryggan kærleika. Í meira en 15 aldir leit hann á Ísraelsmenn, afkomendur Abrahams, sem útvalda þjóð sína og ,eignarlýð‘. (Lestu 5. Mósebók 7:6.) Þýðir það að Jehóva hafi sniðgengið aðrar þjóðir með öllu? Nei, á þeim tíma gat fólk af öðrum þjóðum, sem langaði til að tilbiðja Jehóva, tengst þessari sérstöku þjóð. Þessir trúskiptingar voru álitnir hluti af þjóðinni og það átti að koma fram við þá sem bræður og jafningja. (3. Mós. 19:33, 34) Þeir þurftu að hlýða öllum lögum Jehóva. — 3. Mós. 24:22.

2. Hvaða óvæntu yfirlýsingu gaf Jesús og hvaða spurningar vekur hún?

2 Jesús kom hins vegar með þessa óvæntu yfirlýsingu og var þá að tala við Gyðinga: „Guðs ríki verður tekið frá ykkur og gefið þeirri þjóð sem ber ávexti þess.“ (Matt. 21:43) Hverjir áttu að mynda þessa nýju þjóð og hvaða áhrif hefur þessi breyting á okkur?

Nýja þjóðin

3, 4. (a) Hvernig benti Pétur postuli á hver væri nýja þjóðin? (b) Hverjir mynda nýju þjóðina?

3 Pétur postuli benti á hver væri þessi nýja þjóð. Hann sagði eftirfarandi í bréfi til trúsystkina: „Þið eruð,útvalin kynslóð, konunglegur prestdómur, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þið skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði ykkur frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“ (1. Pét. 2:9) Gyðingar, sem viðurkenndu að Jesús væri Messías, urðu fyrstir til að tilheyra nýju þjóðinni eins og spáð hafði verið. (Dan. 9:27; Matt. 10:6) Síðar bættist við fólk af öðrum þjóðum eins og Pétur sagði í framhaldinu: „Þið sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðin ,Guðs lýður‘.“ — 1. Pét. 2:10.

4 Hverja var Pétur að ávarpa hér? Hann segir í byrjun bréfsins: „Guð . . . hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum og veitt oss óforgengilega, flekklausa og ófölnandi arfleifð sem yður er geymd á himnum.“ (1. Pét. 1:3, 4) Nýja þjóðin er sem sagt mynduð af andasmurðum kristnum mönnum sem hafa himneska von. Þeir eru „Ísrael Guðs“. (Gal. 6:16) Jóhannes postuli sá í sýn að þessir andlegu Ísraelsmenn voru 144.000 talsins. Þeir eru „leystir úr hópi manna sem frumgróði handa Guði og lambinu“ og þjóna sem „prestar“ og „ríkja með [Jesú] um þúsund ár“. — Opinb. 5:10; 7:4; 14:1, 4; 20:6; Jak. 1:18.

Táknar Ísrael fleiri en hina andasmurðu?

5. (a) Um hverja er heitið „Ísrael Guðs“ notað? (b) Hefur heitið „Ísrael“ alltaf svona þrönga merkingu?

5 Ljóst er því að heitið „Ísrael Guðs“ í Galatabréfinu 6:16 er notað eingöngu um andasmurða kristna menn. En eru þess dæmi að Jehóva noti Ísraelsþjóðina til að tákna aðra kristna menn en hina andasmurðu? Svarið má finna í eftirfarandi orðum Jesú sem hann sagði við trúa postula sína: „Yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.“ (Lúk. 22:28-30) Þetta gerist ,þegar Guð endurnýjar allt‘ undir þúsund ára stjórn Krists. — Lestu Matteus 19:28.

6, 7. Um hverja er heitið „tólf ættkvíslir Ísraels“ notað í Matteusi 19:28 og Lúkasi 22:30?

6 Hinar 144.000 verða himneskir konungar, prestar og dómarar í þúsundáraríkinu. (Opinb. 20:4) Hverja munu þeir dæma og yfir hverjum munu þeir ríkja? Í Matteusi 19:28 og Lúkasi 22:30 segir að þeir dæmi „tólf ættkvíslir Ísraels“. Hverja tákna „tólf ættkvíslir Ísraels“ í þessu samhengi? Þær tákna alla sem hafa jarðneska von, þá sem trúa á fórn Jesú en tilheyra ekki hinum konunglega prestdómi. (Levíættkvísl er ekki meðtalin í skránni um 12 ættkvíslir Ísraels.) Í þessu samhengi tákna 12 ættkvíslir Ísraels þá sem njóta góðs af prestsþjónustu hinna 144.000. Þeir tilheyra líka þjóð Guðs og hann elskar þá og viðurkennir. Það á vel við að þeim skuli vera líkt við þjóð hans til forna.

7 Eftir að Jóhannes postuli sá hina 144.000 andlegu Ísraelsmenn fá varanlegt innsigli fyrir þrenginguna miklu sá hann ,mikinn múg, sem enginn gat tölu á komið, af öllum þjóðum‘. (Opinb. 7:9) Þessi hópur lifir af þrenginguna miklu og fær að búa undir þúsund ára stjórn Krists. Þá verða milljarðar manna reistir upp frá dauðum. (Jóh. 5:28, 29; Opinb. 20:13) Þessi hópur samanlagt myndar „tólf ættkvíslir Ísraels“ sem Jesús og 144.000 meðstjórnendur hans eiga að dæma. — Post. 17:31; 24:15; Opinb. 20:12.

8. Hvernig voru tengsl hinna 144.000 og annarra manna fyrirmynduð á friðþægingardeginum?

8 Þessi tengsl hinna 144.000 og annarra manna voru fyrirmynduð á hinum árlega friðþægingardegi til forna. (3. Mós. 16:6-10) Æðstipresturinn átti fyrst að fórna nauti í syndafórn „fyrir sjálfan sig og fjölskyldu sína“. Fórn Jesú er því beitt fyrst í þágu undirpresta hans sem eiga að þjóna með honum á himnum. Á friðþægingardeginum var einnig fórnað tveim geithöfrum fyrir syndir annarra Ísraelsmanna. Í þessu samhengi, þar sem ættkvísl prestanna táknar hinar 144.000, tákna aðrir Ísraelsmenn alla þá sem hafa jarðneska von. Af þessu má sjá að „tólf ættkvíslir Ísraels“ í Matteusi 19:28 tákna ekki andagetna undirpresta Jesú heldur alla aðra sem trúa á fórn hans. *

9. Hverja tákna prestarnir í sýn Esekíels um musterið og hverja tákna þeir Ísraelsmenn sem ekki voru af prestaættum?

9 Lítum á annað dæmi. Esekíel spámaður sá mikla sýn um musteri Jehóva. (Esek. 40.-48. kafli) Í sýninni störfuðu prestarnir í musterinu þar sem þeir fræddu fólk og tóku við leiðbeiningum og leiðréttingu frá Jehóva. (Esek. 44:23-31) Í sömu sýn kom fólk af öðrum ættkvíslum til að tilbiðja og færa fórnir. (Esek. 45:16, 17) Í þessu samhengi tákna prestarnir því hina andasmurðu en aðrir Ísraelsmenn, sem ekki voru af prestaættum, tákna þá sem hafa jarðneska von. Af sýninni má sjá að hóparnir tveir vinna náið saman en prestahópurinn fer með forystuna í hreinni tilbeiðslu.

10, 11. (a) Hvernig hafa orð Jesú ræst með trústyrkjandi hætti? (b) Hvaða spurning vaknar varðandi aðra sauði?

10 Jesús talaði um „aðra sauði“ sem væru ekki úr sama „sauðabyrgi“ og ,lítil hjörð‘ andasmurðra fylgjenda hans. (Jóh. 10:16; Lúk. 12:32) Hann sagði: „Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.“ Það hefur verið trústyrkjandi að sjá þessi orð rætast. Tveir hópar manna hafa sameinast — fámennur hópur hinna andasmurðu og svo mikill múgur af öðrum sauðum. (Lestu Sakaría 8:23.) Aðrir sauðir þjóna á táknrænan hátt í ytri forgarði musterisins en ekki þeim innri.

11 Fyrst Jehóva lætur Ísraelsmenn, sem voru ekki af prestaættum, stundum tákna aðra sauði, ættu þá þeir sem hafa jarðneska von að neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni? Við skulum líta nánar á það í framhaldinu.

Nýi sáttmálinn

12. Hvaða nýja fyrirkomulag boðaði Jehóva?

12 Jehóva boðaði nýtt fyrirkomulag handa fólki sínu þegar hann sagði: „Þannig er sáttmálinn sem ég mun gera við Ísraelsmenn þegar þessir dagar eru liðnir . . . Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra. Ég verð Guð þeirra og þeir verða lýður minn.“ (Jer. 31:31-33) Fyrir tilstilli þessa nýja sáttmála átti fyrirheit Jehóva við Abraham að uppfyllast með dýrlegum og varanlegum hætti. — Lestu 1. Mósebók 22:18.

13, 14. (a) Hverjir eiga aðild að nýja sáttmálanum? (b) Hverjir njóta góðs af nýja sáttmálanum og hvernig ,halda þeir sér fast við‘ hann?

13 Jesús var með þennan nýja sáttmála í huga kvöldið áður en hann dó. Hann sagði: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði sem fyrir yður er úthellt.“ (Lúk. 22:20; 1. Kor. 11:25) Eiga allir kristnir menn hlut að þessum nýja sáttmála? Nei. Sumir eru aðilar að nýja sáttmálanum líkt og postularnir sem drukku af bikarnum það kvöld. * Jesús gerði annan sáttmála við þá þess efnis að þeir yrðu meðkonungar hans í ríkinu. (Lúk. 22:28-30) Þeir munu eiga hlutdeild með honum í ríki hans. — Lúk. 22:15, 16.

14 Hvað um þá sem búa á jörðinni undir stjórn ríkis hans? Þeir njóta góðs af nýja sáttmálanum. (Gal. 3:8, 9) Þeir „halda sér fast við“ sáttmálann þó að þeir eigi ekki aðild að honum. Þeir gera það með því að fara eftir ákvæðum hans eins og Jesaja spámaður sagði fyrir: „Og útlendinga, sem gengnir eru Drottni á hönd til að þjóna honum og elska nafn hans, til að verða þjónar hans, alla þá sem halda hvíldardaginn og vanhelga hann ekki og halda sér fast við sáttmála minn, mun ég leiða til míns heilaga fjalls og gleðja þá í bænahúsi mínu.“ Síðan segir Jehóva: „Því að hús mitt skal nefnast bænahús fyrir allar þjóðir.“ — Jes. 56:6, 7.

Hverjir eiga að neyta brauðsins og vínsins?

15, 16. (a) Við hvað tengir Páll postuli nýja sáttmálann? (b) Af hverju eiga þeir sem hafa jarðneska von ekki að neyta brauðsins og vínsins?

15 Þeir sem eiga aðild að nýja sáttmálanum mega „með djörfung ganga inn í hið heilaga“. (Lestu Hebreabréfið 10:15-20.) Þeir eiga að fá í hendur „ríki, sem ekki getur bifast“. (Hebr. 12:28) Þeir einir sem verða konungar og prestar á himnum með Jesú Kristi eiga að drekka af ,kaleiknum‘ sem táknar nýja sáttmálann. Þeir sem eru aðilar að nýja sáttmálanum eru fastnaðir lambinu. (2. Kor. 11:2; Opinb. 21:2, 9) Allir aðrir, sem eru viðstaddir minningarhátíðina, eru hæverskir áhorfendur og neyta ekki brauðsins og vínsins.

16 Páll skýrir líka fyrir okkur að þeir sem hafi jarðneska von eigi ekki að neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni. Hann skrifaði hinum andasmurðu: „Hvert sinn sem þið etið þetta brauð og drekkið af bikarnum boðið þið dauða Drottins þangað til hann kemur.“ (1. Kor. 11:26) Hvenær „kemur“ Drottinn? Þegar hann kemur til að taka hinn síðasta af brúðarhópnum heim til himna. (Jóh. 14:2, 3) Ljóst er að hin árlega kvöldmáltíð Drottins verður ekki haldin endalaust. Þeir sem eftir eru af niðjum konunnar á jörð halda áfram að neyta þessarar máltíðar uns sá síðasti hefur hlotið laun sín á himnum. (Opinb. 12:17) Ef þeir sem fá að lifa að eilífu á jörð ættu að neyta brauðsins og vínsins þyrfti minningarhátíðin hins vegar að halda áfram að eilífu.

„Þeir verða þjóð mín“

17, 18. Hvernig hefur spádómurinn í Esekíel 37:26, 27 ræst?

17 Jehóva lýsti einingu fólks síns í eftirfarandi spádómi: „Ég mun gera við þá sáttmála þeim til heilla og það skal verða ævarandi sáttmáli við þá. Ég mun fjölga þeim og setja helgidóm minn mitt á meðal þeirra um alla framtíð. Bústaður minn verður hjá þeim og ég verð Guð þeirra og þeir verða þjóð mín.“ — Esek. 37:26, 27.

18 Allir þjónar Guðs njóta góðs af því að þetta fagra fyrirheit, þessi friðarsáttmáli, hefur ræst. Jehóva hefur tryggt öllum hlýðnum þjónum sínum frið. Ávöxtur anda hans birtist greinilega meðal þeirra. Helgidómur hans er meðal þeirra en hér táknar hann hreina tilbeiðslu kristinna manna. Þeir eru í sannleika orðnir þjóð hans vegna þess að þeir hafa snúið baki við skurðgoðadýrkun í sérhverri mynd og Jehóva er eini guðinn sem þeir tilbiðja.

19, 20. Hverjir tilheyra þeim hópi sem Jehóva kallar ,þjóð sína‘ og hvaða blessun fylgir nýja sáttmálanum?

19 Það hefur verið hrífandi að sjá þessa tvo hópa sameinast á okkar tímum. Múgurinn mikli á ekki þá von að fara til himna en hann er stoltur af því að fá að vera með þeim sem hafa þá von. Þessi sívaxandi múgur hefur tengst Ísrael Guðs. Þar með er hann í þeim hópi sem Jehóva kallar ,þjóð sína‘. Eftirfarandi spádómur rætist á honum: „Á þeim degi munu margir heiðingjar ganga Drottni á hönd, gerast hans lýður og búa hjá þér.“ — Sak. 2:15; 8:21; lestu Jesaja 65:22; Opinberunarbókina 21:3, 4.

20 Jehóva hefur gert allt þetta mögulegt fyrir atbeina nýja sáttmálans. Milljónir manna af mörgum þjóðum tilheyra nú þjóðinni sem Jehóva hefur velþóknun á. (Míka 4:1-5) Þeir eru staðráðnir í að halda sér fast við sáttmálann með því að virða ákvæði hans og lifa í samræmi við hann. (Jes. 56:6, 7) Þar með hljóta þeir þá blessun að búa við stöðugan frið ásamt Ísrael Guðs. Megi það vera hlutskipti þitt — nú og um alla eilífð!

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Hið sama er að segja um orðið ,söfnuður‘. Það er fyrst og fremst notað um hina andasmurðu. (Hebr. 12:23) En orðið getur líka haft aðra merkingu og náð yfir alla kristna menn óháð því hvaða von þeir hafa. — Sjá Varðturninn, 1. júní 2007, bls. 13-15.

^ gr. 13 Jesús er meðalgangari þessa sáttmála, ekki aðili að honum. Sem meðalgangari neytti hann greinilega ekki af brauðinu og víninu.

Manstu?

• Hverjar eru „tólf ættkvíslir Ísraels“ sem hinar 144.000 munu dæma?

• Hvernig tengjast hinir andasmurðu og aðrir sauðir nýja sáttmálanum?

• Eiga allir kristnir menn að neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni?

• Hvaða eining átti að verða á okkar tímum?

[Spurningar]

[Línurit/​Myndir á bls. 25]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

Margir þjóna nú með Ísrael Guðs.

1950 | 373.430

1970 | 1.483.430

1990 | 4.017.213

2009 | 7.313.173