Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Skírð í nafni hverra?

Skírð í nafni hverra?

Skírð í nafni hverra?

„Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda.“ — MATT. 28:19.

1, 2. (a) Hvað átti sér stað í Jerúsalem á hvítasunnu árið 33? (b) Af hverju létu margir skírast?

FJÖLDI fólks var kominn til Jerúsalem frá öðrum löndum á hvítasunnu árið 33. Mikilvæg hátíð var haldin þann dag og margt aðkomumanna tók þátt í henni. En þá átti sér stað óvenjulegur atburður, og í framhaldinu flutti Pétur postuli áhrifamikla ræðu sem hafði ótrúleg áhrif. Um 3.000 Gyðingar og trúskiptingar voru snortnir af því sem hann sagði, iðruðust og létu skírast. Þar með bættust þeir við kristna söfnuðinn sem hafði verið stofnaður skömmu áður. (Post. 2:41) Það hlýtur að hafa vakið mikla athygli að svona margir skyldu skírast í laugum og vatnsþróm í Jerúsalem og nágrenni.

2 Hver var undanfari þess að svona margir létu skírast? Fyrr um daginn hafði orðið „gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á“. Um 120 lærisveinar Jesú voru samankomnir í loftstofu einni þar sem þeir fylltust heilögum anda. Í framhaldinu söfnuðust saman guðræknir karlar og konur og heyrðu þessa lærisveina „tala öðrum tungum“. Fólkið hlustaði á Pétur, meðal annars beinskeytt orð hans um dauða Jesú, og mörgum fannst „sem stungið væri í hjörtu þeirra“. Hvað áttu þeir til bragðs að taka? Pétur svaraði: „Takið sinnaskiptum og látið skírast í nafni Jesú Krists svo að þið öðlist . . . gjöf heilags anda.“ — Post. 2:1-4, 36-38.

3. Hvað þurftu iðrandi Gyðingar og trúskiptingar að gera á hvítasunnu?

3 Lítum á trúarlegan bakgrunn þessara Gyðinga og trúskiptinga sem hlýddu á Pétur. Þeir höfðu viðurkennt Jehóva sem Guð sinn. Af Hebresku ritningunum vissu þeir um heilagan anda, starfskraft Guðs, sem hann hafði notað við sköpunina og síðar. (1. Mós. 1:2; Dóm. 14:5, 6; 1. Sam. 10:6; Sálm. 33:6) En nú þurfti eitthvað nýtt að koma til. Það var áríðandi fyrir þá að skilja hvern Jehóva notaði til að veita mönnum hjálpræði. Þeir þurftu að viðurkenna að Jesús væri Messías. Þess vegna lagði Pétur áherslu á að þeir þyrftu að skírast „í nafni Jesú Krists“. Nokkrum dögum áður hafði hinn upprisni Jesús sagt Pétri og öðrum að skíra fólk „í nafni föður og sonar og heilags anda“. (Matt. 28:19, 20) Þetta hafði djúpstæða merkingu á fyrstu öld og gerir enn. Hvað þýðir þetta?

Í nafni föður

4. Hvaða breyting hafið orðið á samskiptum Jehóva við mennina?

4 Þeir sem brugðust jákvætt við ræðu Péturs tilbáðu Jehóva, eins og áður hefur komið fram, og höfðu átt samband við hann. Þeir höfðu reynt að fylgja lögmáli hans og það var þess vegna sem fólk var komið frá öðrum löndum til Jerúsalem. (Post. 2:5-11) En Guð var nýbúinn að gera veigamikla breytingu á samskiptum sínum við mennina. Hann hafði hafnað Gyðingum sem útvalinni þjóð sinni; menn þurftu ekki lengur að halda lögmálið til að hljóta velþóknun hans. (Matt. 21:43; Kól. 2:14) Ef áheyrendur Péturs vildu eiga samband við Jehóva áfram þurfti eitthvað nýtt að koma til.

5, 6. Hvað gerðu margir Gyðingar og trúskiptingar á fyrstu öld til að geta átt samband við Guð?

5 Þeir áttu vissulega ekki að snúa baki við Jehóva, lífgjafa sínum. (Post. 4:24) Þeir sem tóku við skýringum Péturs sáu betur en nokkru sinni fyrr að Jehóva var góður faðir. Hann sendi Messías til að frelsa þá og var meira að segja fús til að fyrirgefa þeim sem Pétur ávarpaði þegar hann sagði: „Með öruggri vissu viti þá öll Ísraels ætt að þennan Jesú, sem þið krossfestuð, hefur Guð gert bæði að Drottni og Kristi.“ Þeir sem tóku til sín orð Péturs höfðu nú enn ríkari ástæðu til að vera þakklátir fyrir það sem faðirinn hafði gert fyrir alla sem vildu eiga samband við hann. — Lestu Postulasöguna 2:30-36.

6 Þessir Gyðingar og trúskiptingar áttuðu sig nú á því að til að eiga samband við Jehóva þurftu þeir að viðurkenna að hann veitti þeim hjálpræði fyrir atbeina Jesú. Þú skilur þess vegna af hverju þeir iðruðustu synda sinna, þar á meðal þess að hafa vitandi eða óafvitandi átt þátt í því að Jesús var tekinn af lífi. Og það er fullkomlega skiljanlegt af hverju þeir „ræktu trúlega uppfræðslu postulanna“ næstu daga eftir þetta. (Post. 2:42) Þeir vildu og gátu gengið „með djörfung að hásæti Guðs náðar“. — Hebr. 4:16.

7. Hvernig hafa margir breytt um afstöðu til Guðs og látið skírast í nafni föður?

7 Nú á tímum hafa milljónir manna af alls konar uppruna lært sannleikann um Jehóva af Biblíunni. (Jes. 2:2, 3) Sumir voru áður trúlausir eða trúðu að til væri Guð en töldu að hann skipti sér ekki af sköpunarverki sínu. En þeir sannfærðust um að til væri skapari sem þeir gætu átt innihaldsríkt samband við. Sumir dýrkuðu þríeinan guð eða skurðgoð af ýmsu tagi. En síðan uppgötvuðu þeir að Jehóva einn væri alvaldur Guð og nú ávarpa þeir hann með nafni. Það er í samræmi við orð Jesú þess efnis að lærisveinar hans ættu að skírast í nafni föður.

8. Hvað þurftu þeir sem vissu ekki um Adamssyndina að skilja varðandi föðurinn?

8 Þeir hafa einnig komist að raun um að þeir erfðu syndina frá Adam. (Rómv. 5:12) Þetta var þeim nýlunda sem þeir þurftu að viðurkenna. Það má líkja þeim við veikan mann sem vissi ekki að hann væri veikur. Hann hefur kannski haft ákveðin einkenni, svo sem verki af og til. En þar sem hann hefur ekki greinst með ákveðinn sjúkdóm hefur hann ef til vill ímyndað sér að hann sé við þokkalega góða heilsu. En veruleikinn er annar. (Samanber 1. Korintubréf 4:4.) Hvað nú ef hann fengi nákvæma sjúkdómsgreiningu? Væri þá ekki viturlegt af honum að leita sér þekktrar og viðurkenndrar meðferðar við sjúkdóminum? Margir hafa brugðist við með svipuðum hætti þegar þeir uppgötvuðu sannleikann um erfðasyndina. Þeir viðurkenndu „sjúkdómsgreiningu“ Biblíunnar og áttuðu sig á að Guð býður þeim upp á „lækningu“. Allir sem eru fjarlægir föðurnum á himnum þurfa að leita til hans því að hann getur „læknað“ þá. — Ef. 4:17-19.

9. Hvað gerði Jehóva til að gefa mönnunum kost á að eiga samband við sig?

9 Ef þú ert búinn að vígja Jehóva Guði líf þitt og ert orðinn skírður kristinn maður veistu hve stórkostlegt það er að eiga samband við hann. Þú gerir þér grein fyrir því hve kærleiksríkur Jehóva, faðir þinn, er. (Lestu Rómverjabréfið 5:8.) Enda þótt Adam og Eva syndguðu gegn Guði gerði hann ráðstafanir til að afkomendur þeirra, þar á meðal við, gætu átt gott samband við hann. Til að gera það þurfti Guð að þola þann sársauka að horfa upp á ástkæran son sinn þjást og deyja. Vitneskjan um það hjálpar okkur að viðurkenna yfirráð hans, elska hann og hlýða boðum hans. Ef þú ert ekki enn búinn að vígjast Guði og láta skírast er ástæða fyrir þig til að gera það.

Í nafni sonar

10, 11. (a) Í hve mikilli þakkarskuld stendur þú við Jesú? (b) Hvað finnst þér um að Jesús skyldi deyja sem lausnarfórn?

10 Leiddu hugann aftur að því sem Pétur sagði við mannfjöldann. Hann lagði áherslu á að fólk viðurkenndi Jesú en það er nátengt því að láta skírast „í nafni . . . sonar“. Af hverju var það mikilvægt þá og af hverju er það mikilvægt núna? Að viðurkenna Jesú og láta skírast í nafni hans þýðir að viðurkenna það hlutverk sem hann gegnir í samskiptum okkar við skaparann. Það þurfti að festa Jesú á aftökustaur til að létta bölvun lögmálsins af Gyðingum, en dauði hans hafði enn meira í för með sér. (Gal. 3:13) Hann færði lausnarfórnina sem allir menn þörfnuðust. (Ef. 2:15, 16; Kól. 1:20; 1. Jóh. 2:1, 2) Til að áorka því þoldi Jesús ranglæti, smán, pyndingar og að lokum dauða. Hve mikils meturðu fórn hans? Hugsaðu þér að þú hefðir verið 12 ára drengur á farþegaskipinu Titanic þegar það rakst á borgarísjaka og sökk árið 1912. Þú reynir að komast í björgunarbát en þar er ekkert pláss. Maður, sem er í björgunarbátnum, kyssir konuna sína, stekkur yfir á þilfarið og lyftir þér upp í björgunarbátinn. Hvernig er þér innanbrjósts? Þú hlýtur að vera honum þakklátur. Þú getur áreiðanlega gert þér í hugarlund hvernig dreng, sem upplifði þetta sjálfur, hefur liðið. * En Jesús gerði miklu meira en þetta fyrir þig. Hann dó til að þú gætir lifað að eilífu.

11 Hvernig var þér innanbrjósts þegar þú uppgötvaðir hvað sonur Guðs gerði fyrir þig? (Lestu 2. Korintubréf 5:14, 15.) Sennilega hefurðu verið innilega þakklátur. Það stuðlaði að því að þú vígðir Guði líf þitt og ,lifðir ekki framar sjálfum þér heldur honum sem dó fyrir þig‘. Að skírast í nafni sonar merkir að viðurkenna hvað Jesús hefur gert fyrir þig og viðurkenna vald hans sem „höfðingja lífsins“. (Post. 3:15; 5:31) Þú áttir ekki samband við skaparann áður en þetta gerðist og áttir reyndar enga raunverulega von. En nú trúirðu á úthellt blóð Jesú Krists og ert skírður og átt þess vegna samband við föðurinn. (Ef. 2:12, 13) Páll postuli skrifaði: „Ykkur, sem voruð áður fráhverf Guði og óvinveitt í huga og vondum verkum, hefur hann nú sætt við sig með dauða Krists í jarðneskum líkama. Hann lætur ykkur koma fram fyrir sig heilög og lýtalaus.“ — Kól. 1:21, 22.

12, 13. (a) Hvaða áhrif ætti það að vera skírður í nafni sonarins að hafa á viðbrögð þín ef einhver móðgar þig? (b) Hvaða skylda hvílir á þér þar sem þú ert skírður í nafni Jesú?

12 Þó að þú sért skírður í nafni sonarins ertu þér sárlega meðvitaður um syndugar tilhneigingar þínar. Þessi vitund er þér til góðs alla daga. Ef einhver móðgar þig, svo dæmi sé tekið, hefurðu þá hugfast að þið eruð báðir syndugir? Þið þurfið báðir á fyrirgefningu Guðs að halda og ættuð báðir að vera fúsir til að fyrirgefa. (Mark. 11:25) Jesús sagði dæmisögu til að leggja áherslu á þetta. Hún segir frá húsbónda sem gaf þjóni sínum upp skuld sem nam tíu þúsund talentum (60 milljónum denara). Síðar vildi þessi þjónn ekki miskunna samþjóni sínum sem skuldaði honum 100 denara. Jesús heimfærði síðan dæmisöguna: Jehóva fyrirgefur ekki þeim sem fyrirgefur ekki bróður sínum. (Matt. 18:23-35) Að vera skírður í nafni sonarins merkir að viðurkenna vald Jesú og leitast við að fylgja fordæmi hans og því sem hann kenndi, meðal annars að vera fús til að fyrirgefa öðrum. — 1. Pét. 2:21; 1. Jóh. 2:6.

13 Þar sem þú ert ófullkominn geturðu ekki líkt fullkomlega eftir Jesú. Engu að síður viltu líkja eftir honum sem best þú getur, í samræmi við það að þú ert vígður Guði af heilu hjarta. Það felur meðal annars í sér að vinna statt og stöðugt að því að afklæðast gamla persónuleikanum og íklæðast þeim nýja. (Lestu Efesusbréfið 4:20-24.) Ef þú átt vin sem þú virðir mikils reynirðu sennilega að líkja eftir fordæmi hans og góðum eiginleikum. Þig langar einnig til að læra af Kristi og líkja eftir honum.

14. Hvernig geturðu sýnt að þú virðir vald Jesú sem konungs á himnum?

14 Það er annað sem þú getur gert til að sýna að þú skilur hvað er fólgið í því að vera skírður í nafni sonarins. Guð hefur lagt „allt . . . undir fætur honum og gefið hann kirkjunni [söfnuðinum] sem höfuðið yfir öllu“. (Ef. 1:22) Þú þarft sem sagt að virða það hvernig Jesús leiðbeinir þeim sem eru vígðir Jehóva. Kristur notar ófullkomna menn í söfnuðunum, sérstaklega safnaðaröldungana en þeir eru þroskaðir og reyndir í trúnni. Markmiðið með því að velja þessa menn til starfa er „að fullkomna hin heilögu . . . líkama Krists til uppbyggingar“. (Ef. 4:11, 12) Þó að ófullkomnum manni verði eitthvað á getur Jesús, konungur ríkisins á himnum, tekið á málinu á sinn hátt þegar það er tímabært. Trúirðu því?

15. Hvaða blessun áttu í vændum ef þú lætur skírast?

15 En sumir hafa ekki vígst Jehóva og látið skírast. Ef þú ert í þeim hópi, skilurðu þá eftir þessa umfjöllun að það er bæði skynsamlegt af þér að viðurkenna soninn og það vitnar um að þú sért þakklátur? Þú átt mikla blessun í vændum ef þú skírist í nafni sonarins. — Lestu Jóhannes 10:9-11.

Í nafni heilags anda

16, 17. Hvað merkir það fyrir þig að vera skírður í nafni heilags anda?

16 Hvað merkir það að skírast í nafni heilags anda? Eins og áður hefur komið fram var þeim sem hlýddu á Pétur á hvítasunnu kunnugt um heilagan anda. Þeir gátu meira að segja séð með eigin augum að Guð hélt áfram að beita heilögum anda. Pétur var einn þeirra sem „fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum“. (Post. 2:4, 8) Þegar sagt er að eitthvað sé „í nafni“ einhvers þarf það ekki að merkja að átt sé við persónu. Margt er gert „í nafni stjórnvalda“ en þau eru ekki persóna. Þá er átt við að hlutir séu gerðir í umboði stjórnvalda. Sá sem skírist í nafni heilags anda viðurkennir að heilagur andi er starfskraftur Jehóva en ekki persóna. Og með því að skírast í nafni heilags anda er verið að viðurkenna hlutverk andans í fyrirætlun Guðs.

17 Hefurðu ekki kynnst heilögum anda af biblíunámi þínu? Þú skilur til dæmis að Biblían var skrifuð undir innblæstri heilags anda. (2. Tím. 3:16) Þegar þér miðaði áfram við biblíunámið skildirðu sennilega betur að ,faðirinn himneski gefur þeim heilagan anda sem biðja hann‘, einnig þér. (Lúk. 11:13) Trúlega hefurðu séð áhrif heilags anda í lífi þínu. Ef þú ert ekki enn þá skírður í nafni heilags anda hefurðu hins vegar loforð Jesú fyrir því að faðirinn gefi heilagan anda, og það þýðir að þú átt mikla blessun í vændum þegar þú færð hann.

18. Hvaða blessun hljóta þeir sem eru skírðir í nafni heilags anda?

18 Ljóst er að Jehóva leiðir kristna söfnuðinn á okkar dögum með anda sínum. Andi hans hjálpar okkur líka hverju og einu í dagsins önn. Að við skulum vera skírð í nafni heilags anda felur í sér að viðurkenna hlutverk hans í lífi okkar og vinnum fúslega með honum. En sumum er kannski spurn hvernig við getum lifað í samræmi við vígsluheit okkar við Jehóva og hvernig heilagur andi eigi þar hlut að máli. Við fjöllum um það í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 Sjá Vaknið! 22. október 1981, bls. 3-8.

Manstu?

• Hvað er fólgið í því fyrir þig að vera skírður í nafni föður?

• Hvað merkir það að vera skírður í nafni sonar?

• Hvernig geturðu sýnt að þú skiljir þýðingu þess að skírast í nafni föður og sonar?

• Hvað merkir það að vera skírður í nafni heilags anda?

[Spurningar]

[Myndir á bls. 10]

Hvernig samband eignuðust nýju lærisveinarnir við föðurinn eftir hvítasunnu árið 33?

[Rétthafi myndar]

Með leyfi Israel Museum, Jerúsalem.