Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lifðu í andanum og stattu við vígsluheit þitt

Lifðu í andanum og stattu við vígsluheit þitt

Lifðu í andanum og stattu við vígsluheit þitt

„Lifið í andanum og þá fullnægið þið alls ekki girnd holdsins.“ — GAL. 5:16.

1. Hvaða skírnir áttu sér stað á hvítasunnu?

ÞEGAR fylgjendur Jesú töluðu tungum á hvítasunnu árið 33 var það eftir að þeir höfðu verið skírðir með heilögum anda. Þeir fengu náðargjafir andans. (1. Kor. 12:4-10) Hvaða áhrif höfðu þessar náðargjafir og ræðan sem Pétur postuli flutti? Mörgum leið eins og „stungið væri í hjörtu þeirra“. Að áeggjan Péturs iðruðust þeir og létu skírast. Í frásögunni segir: „Þau sem veittu orði hans viðtöku tóku skírn og þann dag bættust við um þrjú þúsund sálir.“ (Post. 2:22, 36-41) Eins og Jesús hafði talað um þurfti fólk að skírast í vatni í nafni föður, sonar og heilags anda. — Matt. 28:19.

2, 3. (a) Hver er munurinn á því að skírast með heilögum anda og skírast í nafni heilags anda? (b) Af hverju þurfa allir sannkristnir menn nú á tímum að skírast í vatni?

2 En er einhver munur á því að skírast með heilögum anda og skírast í nafni heilags anda? Já, þeir sem skírast með heilögum anda eru endurfæddir sem andagetnir synir Guðs. (Jóh. 3:3) Þeir eru andasmurðir sem tilvonandi meðkonungar og undirprestar í himnesku ríki Guðs, og þeir mynda andlegan líkama Krists. (1. Kor. 12:13; Gal. 3:27; Opinb. 20:6) Jehóva skírði sem sagt með heilögum anda, bæði á hvítasunnu og eftir það, þegar hann útvaldi einstaklinga til að verða samerfingjar Krists. (Rómv. 8:15-17) En hvað um niðurdýfingarskírn í nafni heilags anda eins og á sér stað reglulega á mótum sem þjónar Jehóva halda nú á tímum?

3 Sannkristnir menn skírast í vatni til tákns um að þeir hafi vígst Jehóva Guði skilyrðislaust. Þeir sem hljóta himneska köllun skírast með þeim hætti. En milljónir karla og kvenna á okkar tímum, sem eiga von um eilíft líf á jörð, þurfa líka að skírast í vatni. Óháð því hvaða von fólk hefur er nauðsynlegt að skírast í vatni „í nafni föður og sonar og heilags anda“ til að vera þóknanlegur Guði. Allir kristnir menn, sem skírast niðurdýfingarskírn, eiga að ,lifa í andanum‘. (Lestu Galatabréfið 5:16.) Lifir þú í andanum og stendur þannig við vígsluheit þitt?

Hvað merkir það að ,lifa í andanum‘?

4. Hvað merkir það í meginatriðum að ,lifa í andanum‘?

4 Að ,lifa í andanum‘ felur í sér að leyfa heilögum anda að verka og hafa áhrif á sig. Það má orða það þannig að maður láti heilagan anda stjórna sér í dagsins önn. Í 5. kafla Galatabréfsins er bent á muninn á því að vera undir áhrifum heilags anda og holdsins. — Lestu Galatabréfið 5:17, 18.

5. Hvaða verk þarf að forðast til að láta heilagan anda hafa áhrif á sig?

5 Ef þú ert undir áhrifum heilags anda reynir þú að forðast verk holdsins. Þetta eru verk eins og „frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja [og] svall“. (Gal. 5:19-21) Í vissum skilningi má segja að þú látir „anda Guðs deyða gjörðir holdsins“. (Rómv. 8:5, 13, neðanmáls) Það hjálpar þér að hafa hugann við það sem tilheyrir andanum og lúta stjórn hans fúslega í stað þess að láta langanir holdsins stjórna gerðum þínum.

6. Lýstu með dæmi hvað sé nauðsynlegt til að bera ávöxt andans.

6 Heilagur andi hefur þau áhrif á þig að þú tileinkar þér góða eiginleika sem kallast „ávöxtur andans“. (Gal. 5:22, 23) En þú veist auðvitað að það gerist ekki áreynslulaust. Lýsum því með dæmi: Bóndi yrkir jörðina. En auðvitað verður engin uppskera án sólarljóss og vatns. Það má líkja heilögum anda við sólskinið. Við þurfum á andanum að halda til að bera ávöxt hans. En uppskeran yrði lítil ef bóndinn legði ekki hart að sér. (Orðskv. 10:4) Ávöxtur heilags anda verður að sama skapi misgóður og mismikill eftir því hve vel þú „yrkir jörðina“ sem er í hjarta þér. Það er gott að spyrja sig hvort maður starfi með heilögum anda og leyfi honum þannig að bera ávöxt sinn.

7. Af hverju er mikilvægt að lesa og hugleiða ef maður vill rækta með sér ávöxt heilags anda?

7 Til að fá góða uppskeru þarf bóndinn líka að vökva akur sinn. Til að rækta ávöxt andans þurfum við að fá vatn sannleikans sem er að finna í Biblíunni og við fáum líka fyrir atbeina kristna safnaðarins nú á tímum. (Jes. 55:1) Þú hefur líklega bent mörgum á að Biblían sé innblásin af heilögum anda. (2. Tím. 3:16) Hinn trúi og hyggni þjónn veitir okkur líka bráðnauðsynlegan skilning á Biblíunni, hinu hreina vatni sannleikans. (Matt. 24:45-47) Málið liggur ljóst fyrir. Til að láta heilagan anda hafa áhrif á okkur þurfum við að lesa og hugleiða orð Guðs. Ef þú gerir það líkirðu eftir góðu fordæmi spámannanna sem „könnuðu . . . og rannsökuðu vandlega“ þær upplýsingar sem látnar voru í té. Athygli vekur að englarnir hafa jafnvel sýnt mikinn áhuga á að fræðast um hinn fyrirheitna niðja og hinn andasmurða kristna söfnuð. — Lestu 1. Pétursbréf 1:10-12.

Hvernig leyfum við andanum hafa áhrif á okkur?

8. Af hverju er mikilvægt að biðja Jehóva að gefa okkur anda sinn?

8 Það er ekki nóg að stunda bara biblíunám og hugleiða efnið. Við þurfum að biðja Jehóva statt og stöðugt um hjálp hans og leiðsögn. Hann getur gert „langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum“. (Ef. 3:20; Lúk. 11:13) En hvernig myndirðu svara ef einhver spyrði af hverju hann ætti að halda áfram að biðja til Guðs fyrst Guð ,veit hvers við þurfum áður en við biðjum hann‘? (Matt. 6:8) Lítum nánar á málið. Með því að biðja um heilagan anda viðurkennum við að við séum háð Jehóva. Ef einhver leitaði hjálpar hjá okkur myndum við gera allt sem við gætum til að aðstoða hann, meðal annars vegna þess að hann bað okkur um aðstoð og sýndi að hann treysti okkur. (Samanber Orðskviðina 3:27.) Jehóva hefur sömuleiðis velþóknun á því að við biðjum um anda hans og veitir okkur hann. — Orðskv. 15:8.

9. Hvernig geta samkomur og mót hjálpað þér að leyfa anda Guðs að hafa áhrif á þig?

9 Þú gerir þér eflaust grein fyrir að safnaðarsamkomur og mót eru annar þáttur í því að leyfa anda Guðs af hafa áhrif á sig. Það er afar mikilvægt að leggja sig fram um að vera viðstaddur og fylgjast vel með. Það hjálpar þér að skilja djúpstæð sannindi Guðs. (1. Kor. 2:10) Það er líka til góðs að svara að staðaldri. Hugsaðu mánuð aftur í tímann. Hve oft réttirðu upp höndina á samkomum síðastliðinn mánuð og bauðst til að svara og tjá trú þína? Heldurðu að þú getir bætt þig á þessu sviði? Ef svo er skaltu ákveða hvað þú ætlar að gera á komandi vikum. Jehóva sér hve fús þú ert til að taka þátt í samkomunum og gefur þér anda sinn til að hjálpa þér að hafa enn meira gagn af samkomum sem þú sækir.

10. Hvaða boði þurfum við að koma á framfæri til að lifa í andanum?

10 Að lifa í andanum felur í sér að þiggja boðið sem er að finna í Opinberunarbókinni 22:17: „Andinn og brúðurin segja: ,Kom þú!‘ Og sá sem heyrir segi: ,Kom þú!‘ Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill fær ókeypis lífsins vatn.“ Það er fyrir milligöngu hins andasmurða brúðarhóps sem andinn kemur boðinu um að þiggja lífsins vatn á framfæri. Hefurðu þegið boðið um að koma? Ertu þá staðráðinn í að bjóða öðrum að koma? Það er mikill heiður að mega taka þátt í að bjarga mannslífum með þessum hætti.

11, 12. Hvernig á heilagur andi aðild að boðunarstarfinu?

11 Þetta áríðandi starf er unnið núna undir handleiðslu heilags anda. Við lesum um það hvernig heilagur andi átti þátt í því á fyrstu öld að trúboðar tóku að starfa á nýjum svæðum. „Heilagur andi varnaði þeim [Páli og félögum hans] að boða orðið í Asíu“ og þeir fengu ekki heldur að fara til Biþýníu. Við vitum ekki með vissu hvernig andinn kom í veg fyrir að þeir færu þangað. Hitt er ljóst að hann leiddi Pál til Evrópu þar sem gríðarstórt starfssvæði beið hans. Hann sá makedónskan mann í sýn sem bað hann um hjálp. — Post. 16:6-10.

12 Andi Jehóva stýrir einnig boðunarstarfinu sem fer fram um allan heim nú á dögum. Við sjáum ekki undraverðar sýnir okkur til leiðsagnar en Jehóva leiðbeinir hinum andasmurða engu að síður með heilögum anda. Og andinn hvetur bræður og systur til að gera allt sem þau geta til að boða og kenna fagnaðarerindið. Þú hefur eflaust tekið þátt í þessu mikilvæga starfi. Geturðu hlotið enn meiri ánægju af því að boða og kenna fagnaðarerindið?

13. Hvernig getum við notið góðs af leiðsögn heilags anda? Lýstu með dæmi.

13 Þú getur notið góðs af leiðsögn heilags anda með því að fara eftir þeim upplýsingum sem þjónum Guðs eru látnar í té. Mihoko er ung trúsystir í Japan. Þegar hún var nýorðin brautryðjandi fannst henni hún ekki fær um að fara í endurheimsóknir. Henni fannst hún ekki kunna að vekja áhuga húsráðenda. Um svipað leyti birtust góð ráð í Ríkisþjónustu okkar um það hvernig fara mætti í stuttar endurheimsóknir. Síðan kom út bæklingur sem reynst hefur sérlega vel í boðunarstarfinu í Japan (hann nefnist á ensku A Satisfying Life — How to Attain It). Mihoko notfærði sér leiðbeiningarnar um notkun bæklingsins, sérstaklega ábendingar um stuttar endurheimsóknir. Áður en langt um leið var hún farin að leiðbeina við biblíunám fólki sem hefði ef til vill afþakkað það áður. Hún segir: „Ég var komin með svo mörg biblíunámskeið, allt upp í 12 þegar mest var, að ég varð að setja suma á biðlista.“ Við uppskerum ríkulega þegar við lifum í andanum og förum eftir þeim leiðbeiningum sem þjónar Jehóva láta í té.

Reiddu þig á anda Guðs

14, 15. (a) Hvernig eru ófullkomnir menn færir um að standa við vígsluheit sitt? (b) Hvernig geturðu eignast bestu vini í heimi?

14 Sem vígður þjónn Guðs hefurðu tekið að þér þjónustu sem þú þarft að gera skil. (Rómv. 10:14) Þér finnst þú kannski ekki fyllilega fær um að axla þessa ábyrgð. En Guð gefur þér hæfileika til þess, rétt eins og hann gefur hinum andasmurðu. (Lestu 2. Korintubréf 3:5.) Þú getur staðið við vígsluheit þitt með því að gera þitt besta og reiða þig á anda Guðs.

15 Það er að sjálfsögðu ekki auðvelt fyrir okkur ófullkomna mennina að standa við vígsluheit okkar við Jehóva Guð sem er fullkominn. Eitt sem getur gert þér erfitt fyrir er að fólk, sem þú umgekkst áður, furðar sig ef til vill á hinni nýju lífsstefnu sem þú hefur tekið og hallmælir þér. (1. Pét. 4:4) En gleymdu ekki að þú hefur eignast nýja vini, ekki síst Jehóva og Jesú Krist. (Lestu Jakobsbréfið 2:21-23.) Það er einnig mikilvægt að kynnast trúsystkinum þínum í heimasöfnuðinum en þau tilheyra ,samfélagi þeirra sem trúa‘ um heim allan. (1. Pét. 2:17; Orðskv. 17:17) Jehóva hjálpar þér með anda sínum að eiga vini sem hafa góð áhrif á þig.

16. Hvernig geturðu ,unað þér vel í veikleika‘ líkt og Páll?

16 Jafnvel þó að þú eigir góða vini í söfnuðinum getur engu að síður verið erfitt að takast á við dagleg vandamál. Það sem þú átt í höggi við getur stundum gert þig magnþrota. Þér líður eins og erfiðleikarnir séu endalausir. Þá þarftu meira en nokkru sinni fyrr að leita til Jehóva og biðja um heilagan anda. „Þegar ég er veikur þá er ég máttugur,“ skrifaði Páll postuli. (Lestu 2. Korintubréf 4:7-10; 12:10.) Páll vissi að andi Guðs getur styrkt okkur þar sem við erum veik fyrir, hvers eðlis sem veikleikarnir eru. Starfskraftur Guðs getur styrkt okkur þegar við erum máttvana og hjálparþurfi. Páll sagðist ,una sér vel í veikleika‘. Þegar hann var veikburða fann hann hvernig heilagur andi hjálpaði honum. Þú getur fundið fyrir því líka. — Rómv. 15:13.

17. Hvernig getur heilagur andi hjálpað þér að komast á áfangastað?

17 Við þurfum anda Guðs til að geta staðið við vígsluheit okkar. Hugsaðu þér að þú standir við stýrið á seglbáti. Það er markmið þitt að þjóna Jehóva að eilífu. Heilagur andi er eins og vindurinn sem þú vilt fá í seglin til að komast heilu og höldnu á áfangastað. Þú vilt ekki láta andann í heimi Satans hrekja þig til og frá. (1. Kor. 2:12) Þú þarft að finna hagstæðan byr ef svo má að orði komast og vinda upp seglin. Heilagur andi er eins og hagstæður byr. Hann getur borið þig í rétta átt fyrir atbeina Biblíunnar og safnaðarins sem Jehóva stýrir með anda sínum.

18. Hvað ætlarðu að gera og hvers vegna?

18 Hefurðu verið að kynna þér Biblíuna með aðstoð votta Jehóva og sótt samkomur ásamt þeim en átt eftir að stíga það mikilvæga skref að vígjast Guði og skírast? Þá skaltu spyrja þig af hverju þú sért hikandi við að stíga skrefið til fulls. Ef þú gerir þér grein fyrir hvernig heilagur andi vinnur að því að vilji Jehóva nái fram að ganga og viðurkennir starfsemi hans skaltu gera það sem þú veist að er rétt. Jehóva mun blessa þig ríkulega. Hann mun gefa þér örlátlega af heilögum anda sínum. Ef þú lést skírast fyrir mörgum árum eða áratugum hefurðu auðvitað fundið fyrir áhrifum heilags anda. Þú hefur bæði séð og fundið hvernig Guð getur styrkt þig með anda sínum. Hann getur gert það áfram — um alla eilífð. Vertu því staðráðinn í að halda áfram að lifa í heilögum anda.

Manstu?

• Hvað merkir það að ,lifa í andanum‘?

• Hvað getur hjálpað þér að halda áfram að ,lifa í andanum‘?

• Hvernig geturðu staðið við vígsluheit þitt?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 15]

Það kostar vinnu að „yrkja jörðina“ í hjarta sér.

[Mynd á bls. 17]

Leyfirðu anda Guðs að hafa áhrif á þig?