Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Varðveitum velþóknun Guðs þótt aðstæður breytist

Varðveitum velþóknun Guðs þótt aðstæður breytist

Varðveitum velþóknun Guðs þótt aðstæður breytist

SÉRÐU fram á breytingar í lífi þínu? Finnst þér erfitt að sætta þig við þær? Flest okkar lenda í slíkum aðstæðum eða hafa gert það. Ýmis sannsöguleg dæmi frá fyrri tíð geta hjálpað okkur að koma auga á eiginleika sem geta orðið okkur að gagni.

Lítum til dæmis á Davíð og þær mörgu breytingar sem hann varð að laga sig að. Hann var óbreyttur fjárhirðir þegar Samúel smurði hann sem tilvonandi konung. Sem ungur maður bauð hann sig fram til að berjast við Golíat. (1. Sam. 17:26-32, 42) Honum var boðið að dvelja við konungshirð Sáls og hann var settur yfir herinn. Davíð gat ekki einu sinni hafa ímyndað sér allar þessar breytingar í lífi sínu, hvað þá heldur séð atburðarásina fyrir.

Samband Davíðs við Sál varð mjög spennuþrungið. (1. Sam. 18:8, 9; 19:9, 10) Davíð varð að lifa sem flóttamaður í nokkur ár til að halda lífi. Jafnvel eftir að hann var orðinn konungur yfir Ísrael breyttust aðstæður hans á óvæginn hátt, sérstaklega eftir að hann framdi hórdóm og reyndi að hylma yfir það með morði. Sem afleiðing af eigin syndum varð hann og fjölskylda hans fyrir ógæfu. Davíð mátti meðal annars þola uppreisn Absalons, sonar síns. (2. Sam. 12:10-12; 15:1-14) Þegar Davíð hafði iðrast þess að hafa drýgt hór og framið morð fyrirgaf Jehóva honum engu að síður og Davíð naut aftur velþóknunar hans.

Kringumstæður þínar geta einnig breyst. Heilsuleysi, fjárhagserfiðleikar eða fjölskylduvandamál — jafnvel það sem okkur verður sjálfum á — valda breytingum í lífi okkar. Hvaða eiginleikar geta hjálpað okkur að verða betur í stakk búin til að ráða fram úr slíkum erfiðleikum?

Auðmýkt hjálpar okkur

Auðmýkt gerir okkur auðsveipin. Við eigum auðveldara með að sjá sjálf okkur og aðra í réttu ljósi ef við erum auðmjúk. Með því að gera ekki lítið úr eiginleikum og velgengni annarra kunnum við betur að meta þá og það sem þeir gera. Á svipaðan hátt getum við, ef við erum auðmjúk, átt auðveldara með að skilja hvers vegna eitthvað hafi hent okkur og hvernig við ættum að bregðast við því.

Jónatan, sonur Sáls, er gott dæmi. Aðstæður hans breyttust vegna atburða sem hann réð engu um. Þegar Samúel sagði Sál að Jehóva myndi svipta hann konungdómi minntist hann ekki á að Jónatan tæki við sem konungur. (1. Sam. 15:28; 16:1, 12, 13) Þegar Guð valdi Davíð sem næsta konung í Ísrael kom Jónatan ekki til greina. Að vissu leyti hafði óhlýðni Sáls neikvæðar afleiðingar fyrir Jónatan. Hann yrði ekki arftaki föður síns þótt hann bæri enga ábyrgð á gerðum hans. (1. Sam. 20:30, 31) Hvernig brást Jónatan við þessum aðstæðum? Ól hann með sér óvild vegna þess að tækifærið brást? Leit hann Davíð öfundaraugum? Nei, hann gerði hvorugt. Þrátt fyrir að Jónatan væri miklu eldri og reyndari studdi hann Davíð dyggilega. (1. Sam. 23:16-18) Auðmýkt hjálpaði honum að skilja hver naut blessunar Guðs og hann ,hugsaði ekki hærra um sjálfan sig en vera bar‘. (Rómv. 12:3) Jónatan skildi til hvers Jehóva ætlaðist af honum og sætti sig við ákvörðun hans í þessu máli.

Margar breytingar hafa auðvitað einhverja erfiðleika í för með sér. Á vissu tímabili átti Jónatan í samskiptum við tvo menn sem voru honum nákomnir. Annar var Davíð, vinur hans, sem Jehóva hafði valið til að taka við konungdómi. Hinn var Sál, faðir hans, sem Jehóva hafði hafnað en ríkti enn sem konungur. Þessar kringumstæður hljóta að hafa valdið Jónatani tilfinningalegu álagi þar sem hann reyndi að varðveita velþóknun Jehóva. Breytingarnar, sem við þurfum að gera, gætu valdið okkur einhverjum áhyggjum og kvíða. En ef við reynum að skilja sjónarmið Jehóva getum við haldið áfram að þjóna honum af trúfesti um leið og við tökumst á við breytingarnar.

Að þekkja takmörk sín

Þótt einhver sé auðmjúkur er samt ekki víst að hann þekki takmörk sín. Davíð þekkti takmörk sín. Þótt Jehóva hafi útvalið hann til konungs liðu mörg ár áður en Davíð var fær um að taka við konungdóminum. Við lesum hvergi í Biblíunni að hann hafi fengið nokkrar skýringar frá Jehóva á ástæðunni fyrir þessari töf. Þótt ástandið virtist lýjandi lét Davíð það ekki trufla sig. Hann þekkti takmörk sín og skildi að Jehóva, sem leyfði þetta, hafði stjórnina í sínum höndum. Þess vegna réð hann Sál ekki af dögum, jafnvel ekki til að bjarga eigin lífi, og hann kom einnig í veg fyrir að Abísaí, félagi hans, gerði það. — 1. Sam. 26:6-9.

Stundum geta komið upp aðstæður innan safnaðarins sem við skiljum ekki eða okkur finnst ekki vera staðið að málum á sem bestan eða skipulegastan hátt. Sýnum við lítillæti með því að viðurkenna að Jesús sé höfuð safnaðarins og starfi fyrir milligöngu öldungaráðsins, sem er útnefnt til að veita forystu? Höfum við hugfast að til að varðveita velþóknun Jehóva þurfum við að bíða þar til hann tekur að stjórna fyrir milligöngu Jesú Krists? Sýnum við lítillæti meðan við bíðum jafnvel þótt það veitist erfitt? — Orðskv. 11:2.

Hógværð hjálpar okkur að vera jákvæð

Hógværð felur í sér að vera mildur og rólyndur. Hún gerir okkur kleift að þola móðgun án skapraunar, gremju eða hefnigirni. Það er erfitt að rækta með sér þennan eiginleika. Það er áhugavert að í einum biblíutexta eru „allir hógværir í landinu“ hvattir til að,ástunda auðmýkt‘. (Sef. 2:3) Hógværð er skyld auðmýkt og lítillæti en hún felur einnig í sér aðra eiginleika eins og gæsku og mildi. Hógvær manneskja getur vaxið andlega þar sem hún sýnir að hún tekur við kennslu og leiðbeiningum og lætur mótast af því.

Hvernig getur hógværð hjálpað okkur þegar þáttaskil verða í lífi okkar? Þú hefur líklega tekið eftir að mörgum hættir til að líta á breytingar sem eitthvað neikvætt. Í rauninni geta þær skapað tækifæri til að fá enn frekari þjálfun frá Jehóva. Ævi Móse sýnir fram á það.

Móse hafði þegar til að bera prýðiseiginleika þegar hann var fertugur. Hann hafði sýnt fórnfýsi og næman skilning á þörfum þjóna Jehóva. (Hebr. 11:24-26) Áður en Jehóva útnefndi Móse til að leiða Ísraelsþjóðina út úr Egyptalandi varð hann samt að takast á við breytingar sem gerðu hann hógværari. Hann varð að flýja Egyptaland og búa í Midíanslandi í 40 ár sem fjárhirðir fjarri sviðsljósinu. Hver varð árangurinn? Þessar breytingar gerðu hann að betri manni. (4. Mós. 12:3) Hann lærði að taka andleg málefni fram yfir þau persónulegu.

Til að sýna fram á hógværð Móse skulum við líta á hvað gerðist þegar Jehóva sagðist ætla að hafna þjóðinni vegna óhlýðni hennar og gera afkomendur Móse að mikilli þjóð. (4. Mós. 14:11-20) Móse bað þjóðinni vægðar. Orð hans sýna að honum var annt um orðstír Jehóva og líðan bræðra sinna en hugsaði ekki um eigin hag. Það þurfti hógværan mann í það hlutverk að vera leiðtogi þjóðarinnar og milligöngumaður. Mirjam og Aron mögluðu gegn honum en í Biblíunni segir að Móse hafi verið „hógværari en nokkur annar“. (4. Mós. 12:1-3, 9-15) Svo virðist sem Móse hafi sætt sig við móðganir þeirra. Hvernig hefði farið ef hann hefði ekki verið hógvær?

Við annað tækifæri kom andi Jehóva yfir nokkra menn en það varð til þess að þeir fóru að spá. Jósúa, fylgdarmanni Móse, fannst hegðun þessara Ísraelsmanna óviðeigandi. En Móse var hógvær. Hann sá hlutina frá sjónarhóli Jehóva og hafði ekki áhyggjur af að missa vald. (4. Mós. 11:26-29) Hefði Móse sætt sig við að Jehóva gerði þessar breytingar ef hann hefði ekki verið hógvær?

Hógværð gerði Móse kleift að fara vel með hið mikla vald sem honum var gefið og það verkefni sem Guð hafði falið honum. Jehóva sagði honum að fara upp á fjallið Hóreb og standa frammi fyrir þjóðinni. Hann talaði við Móse fyrir munn engils og útnefndi hann meðalgöngumann sáttmálans. Vegna þess að Móse var hógvær gat hann þegið þessar breytingar á valdastöðu sinni og samt varðveitt velþóknun Guðs.

Hvað um okkur? Hógværð er ómissandi eiginleiki til að geta dafnað sem einstaklingur. Allir sem hafa þegið sérstök verkefni og vald meðal þjóna Guðs þurfa að vera auðmjúkir. Það kemur í veg fyrir að við stolt sé okkur fjötur um fót þegar staða okkar breytist og við eigum þá auðveldara með að gera það sem rétt er miðað við aðstæður. Viðbrögð okkar eru mikilvæg. Tökum við breytingunum vel? Lítum við á þær sem tækifæri til að bæta okkur? Þær gætu reynst einstakt tækifæri til að þroska með sér hógværð.

Við stöndum stöðugt frammi fyrir breytingum á lífsleiðinni. Stundum er ekki auðvelt að skilja hvers vegna vissir hlutir gerast. Vegna takmarka okkar og álags getum við átt erfitt með að sjá hlutina sömu augum og Jehóva. Eiginleikar eins og auðmýkt, lítillæti og hógværð hjálpa okkur engu að síður að sætta okkur við breytingar og varðveita velþóknun Guðs.

[Innskot á bls. 4]

Við eigum auðveldara með að sjá sjálf okkur og aðra í réttu ljósi ef við erum auðmjúk.

[Innskot á bls. 5]

Hógværð er ómissandi eiginleiki til að geta dafnað sem einstaklingur.

[Mynd á bls. 5]

Móse varð að takast á við breytingar sem gerðu hann að hógværari manni.