Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Maðurinn sem breytti heiminum

Maðurinn sem breytti heiminum

Maðurinn sem breytti heiminum

Milljarðar manna hafa lifað og dáið hér á jörð. Fæstir hafa skilið eftir sig varanleg spor. Fáeinir hafa þó haft áhrif á gang sögunnar, og sennilega á daglegt líf þitt.

ÞÚ FERÐ á fætur að morgni og býrð þig undir að fara í vinnuna. Þú kveikir ljós meðan þú ert að hafa þig til. Þú kippir með þér bók eða tímariti til að lesa í strætisvagninum. Þú manst eftir að taka sýklalyfið sem læknirinn hefur ávísað þér til að vinna bug á sýkingu. Dagurinn er varla byrjaður og þú nýtur þegar góðs af áhrifum fáeinna merkismanna.

Michael Faraday var breskur eðlisfræðingur, fæddur árið 1791. Hann fann upp rafmótorinn og rafalinn. Uppgötvanir hans stuðluðu að því að rafmagn varð aðgengilegt fyrir allan almenning.

Ts’ai Lun var embættismaður við hirð keisarans í Kína. Hann er sagður hafa fundið upp aðferð til að búa til pappír um árið 105 e.Kr. og það varð til þess að hægt var að fjöldaframleiða pappír.

Johannes Gutenberg smíðaði um árið 1450 fyrstu prentvélina þar sem notast var við lausaletur. Með aðferð þessa þýska uppfinningamanns var hægt að bjóða upp á ódýra prentun, og það stuðlaði að greiðum aðgangi fólks að upplýsingum um alls konar málefni.

Alexander Fleming var skoskur vísindamaður sem uppgötvaði sýklalyf árið 1928. Hann nefndi það penisillín. Sýklalyf eru nú mikið notuð gegn bakteríusýkingum.

Enginn vafi leikur á því að nýjungar og uppfinningar fáeinna manna hafa gert milljónum kleift að njóta vissra gæða eða betri heilsu.

Einn maður ber þó höfuð og herðar yfir alla aðra. Hann er hvorki þekktur fyrir uppgötvanir í vísindum né afrek á sviði læknisfræði. Þessi maður, sem var kominn af óbreyttu alþýðufólki og var uppi fyrir nálega 2000 árum, lét eftir sig boðskap — kröftugan boðskap vonar og hughreystingar. Ef litið er á þau áhrif sem boðskapur hans hefur haft á líf milljóna manna um allan heim er það mat margra að hann sé maðurinn sem breytti heiminum.

Þessi maður var Jesús Kristur. Hvaða boðskap flutti hann? Og hvaða áhrif getur þessi boðskapur haft á líf þitt?