Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Það sem Jesús kenndi um ríki Guðs

Það sem Jesús kenndi um ríki Guðs

Það sem Jesús kenndi um ríki Guðs

„Fór Jesús um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki.“ — LÚKAS 8:1.

OKKUR finnst gaman að tala um það sem skiptir okkur máli og stendur hjarta okkar nærri. „Af gnægð hjartans mælir munnurinn,“ eins og Jesús sagði réttilega. (Matteus 12:34) Ef marka má hvað Jesús ræddi mest um meðan hann þjónaði á jörð má draga þá ályktun að ríki Guðs hafi verið honum hjartfólgið.

Hvað er ríki Guðs? Þegar talað er um ríki Guðs er átt við stjórn sem hann hefur komið á laggirnar. Jesús var óþreytandi að segja frá ríki Guðs enda var það kjarninn í boðskap hans. Minnst er á það meira en 110 sinnum í guðspjöllunum fjórum. En Jesús kenndi ekki með orðum einum heldur lýsti einnig með verkum sínum hvað Guðsríki sé og hverju það komi til leiðar.

Hver er konungurinn? Konungur Guðsríkis er ekki kjörinn til embættis af mennskum kjósendum heldur valinn af Guði sjálfum. Jesús lét í ljós að Guð hefði útvalið hann til að gegna konungsembættinu.

Jesús vissi að samkvæmt spádómum Biblíunnar átti hinn fyrirheitni Messías að ráða yfir eilífu ríki. (2. Samúelsbók 7:12-14; Daníel 7:13, 14; Matteus 26:63, 64) Jesús lýsti opinskátt yfir að hann væri hinn fyrirheitni Messías og viðurkenndi þar með að hann væri konungurinn sem Guð hefði valið. (Jóhannes 4:25, 26) Það var því við hæfi að hann skyldi nokkrum sinnum segja „ríki mitt“ þegar hann talaði um Guðsríki. — Jóhannes 18:36.

Jesús kenndi enn fremur að hann myndi eiga sér meðstjórnendur. (Lúkas 22:28-30) Hann kallaði þá „litla hjörð“ af því að um takmarkaðan fjölda var að ræða. „Föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið,“ sagði hann. (Lúkas 12:32) Í síðustu bók Biblíunnar kemur fram að alls fái 144.000 einstaklingar þann heiður að ríkja með Kristi. — Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:1.

Hvar er ríkið staðsett? „Mitt ríki er ekki af þessum heimi,“ sagði Jesús við Pontíus Pílatus, landstjóra Rómverja. (Jóhannes 18:36) Ríki Guðs í höndum Krists á ekki að stjórna fyrir milligöngu manna. Aftur og aftur kallaði Jesús það „himnaríki“. * (Matteus 4:17; 5:3, 10, 19, 20) Ríki Guðs er því stjórn á himnum.

Jesús vissi vel að hann myndi fara til himna eftir að jarðvist hans væri á enda. Þar sagðist hann ætla að „búa . . . stað“ handa meðstjórnendum sínum til að þeir gætu verið með honum. — Jóhannes 14:2, 3.

Hverju mun ríki Guðs koma til leiðar? Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja til Guðs: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:9, 10) Vilji Guðs er gerður á himnum. Ríki hans kemur því til leiðar að vilji hans með jörðina nái fram að ganga. Til að svo megi verða þarf ríki Guðs að koma til leiðar gríðarlegum breytingum hér á jörð.

Hvað mun ríki Guðs gera á jörðinni? Jesús sagði að ríki Guðs myndi uppræta illskuna með því að afmá þá sem eru staðráðnir í að viðhalda henni. (Matteus 25:31-34, 46) Það þýðir að bundinn verður endi á spillingu og mannvonsku í sérhverri mynd. Að sögn Jesú á jörðin að fyllast hógværu, réttlátu, miskunnsömu, hjartahreinu og friðsömu fólki. — Matteus 5:5-9.

Eiga þessir þjónar Guðs að búa á mengaðri jörð? Því fer fjarri. Jesús lofaði að jörðinni yrði gerbreytt til hins betra eftir að ríki Guðs hefði tekið völd. Maður, sem var tekinn af lífi við hlið Jesú, bað hann: „Jesús, minnstu mín þegar þú kemur í ríki þitt!“ Jesús svaraði honum: „Sannlega segi ég þér í dag, þú skalt vera með mér í paradís.“ (Lúkas 23:42, 43, New World Translation of the Holy Scriptures) Ríki Guðs á að breyta jörðinni í eina samfellda paradís líkt og var á sínum tíma í garðinum Eden.

Hvað annað mun ríki Guðs gera fyrir mannkynið? Jesús lét sér ekki nægja að gefa loforð um það sem Guðsríki ætti að koma til leiðar. Hann sýndi líka hverju það myndi áorka. Hann læknaði fjölda fólks með kraftaverki og sýndi þar með í smáum mæli hvað hann ætti eftir að gera í stórum stíl eftir að ríki hans tæki völd. Í einu af hinum innblásnu guðspjöllum segir um hann: „Jesús fór nú um alla Galíleu, kenndi í samkundum þeirra, prédikaði fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi meðal fólksins.“ — Matteus 4:23.

Jesús læknaði fólk af alls kyns sjúkdómum. Hann gerði mann „sjáandi sem blindur var borinn“. (Jóhannes 9:1-7, 32, 33) Með blíðlegri snertingu læknaði hann mann sem var haldinn hinni skelfilegu holdsveiki. (Markús 1:40-42) Þegar komið var með „daufan og málhaltan mann“ til hans sýndi hann að hann gæti látið „daufa . . . heyra og mállausa mæla“. — Markús 7:31-37.

Tilvonandi konungur Guðs var meira að segja dauðanum yfirsterkari. Þrisvar er þess getið að Jesús hafi reist látna upp frá dauðum. Hann reisti upp einkason ekkju nokkurrar, 12 ára stúlku og Lasarus vin sinn. — Lúkas 7:11-15; 8:41-55; Jóhannes 11:38-44.

Jesús lýsti fyrir munn Jóhannesar postula hversu unaðsleg framtíð bíði þegna Guðsríkis: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 1:1; 21:3, 4) Hugsaðu þér heim þar sem hvorki eru sorgartár, kvöl né dauði! Þá rætist að fullu bænin um að vilji Guðs nái fram að ganga á jörð eins og á himni.

Hvenær kemur ríki Guðs? Jesús sagðist myndu byrja að ríkja sem konungur þegar ,veröldin væri að líða undir lok‘. Hann lýsti í ítarlegum spádómi hvernig mætti sjá að hann væri tekinn við völdum. Sá tími myndi einkennast af erfiðleikum á heimsmælikvarða, þar á meðal styrjöldum, hungursneyðum, jarðskjálftum, drepsóttum og auknu lögleysi. (Matt. 24:3, 7-12; Lúk. 21:10, 11) Þetta og margt annað sem Jesús spáði hefur verið sérlega áberandi frá 1914 en það ár braust út fyrri heimsstyrjöldin. Jesús ríkir því sem konungur núna. Ríki hans kemur síðan innan skamms og þá nær vilji Guðs fram að ganga á jörðinni. *

Hvaða áhrif mun koma Guðsríkis hafa á þig persónulega? Það er undir því komið hvernig þú ákveður að bregðast við boðskap Jesú.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Orðið „himnaríki“ er að finna um 30 sinnum í Matteusarguðspjalli.

^ gr. 17 Nánari upplýsingar um það hvernig hægt sé að vita að ríki Guðs sé í nánd má finna í bókinni Hvað kennir Biblían? 9. kafla sem nefnist: „Lifum við á ,síðustu dögum‘?“ Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.